"...Pamela í Dallas"

"Son, this is personal." Nú þegar Landinn hefur baðað sig almennilega í sumarregninu er tímabært að Orkubloggið snúi á ný á stafrænar síður veraldarvefsins. Og bloggarinn ætlar að leyfa sér að byrja þennan síðsumar-season á léttum nótum. Enda er ennþá Verslunarmannahelgi!

dallas_jr.png

"Ég vildi ég væri Pamela í Dallas!", sungu Dúkkulísurnar hér í Den. Einhverjar ánægjulegustu fréttir sumarsins til þessa eru auðvitað þær að senn fáum við aftur Dallas á skjáinn. Þ.e.a.s. ljúflingana í Ewing-olíufjölskyldunni westur í Texas. Þetta er alveg sérstaklega skemmtilegt þegar haft er í huga hvað stóð í færslu Orkubloggsins þann 13. september 2009, undir fyrirsögninni Þyrnirós vakin upp í Texas

"Það er sem sagt kominn tími á Dallas Revisited, þar sem hinn ungi, útsmogni og harðsvíraði John Ross Ewing II hefur byggt upp nýtt veldi; Ewing Gas! Og keppir þar auðvitað hvað harðast við hina gullfallegu frænku sína Pamelu Cliffie Barnes."

dallas-2012-2.jpgJá - þau hjá sjónvarpsstöðinni TNT tóku Orkubloggarann á orðinu. Reyndar hefur bloggarinn ekki hugmynd um hvernig plottið er í þessari nýju Dallasþáttaröð, sem kemur á skjáinn á næsta ári (2012). En af fréttum og trailernum sem TNT hefur birt má ráða að innan Ewing Oil standi stríðið nú á milli sonar JR og fóstursonar Bobby's; þeirra  John Ross og Christopher.

Kemur kannski ekki á óvart. Sumir sem spáð hafa í þættina virðast reyndar álíta að Ewing Oil hljóti nú að hafa skipt um heiti og kallist í dag Ewing Solar eða Ewing Wind. Orkubloggarinn er samt fullviss um að olían streymi enn um æðar Ewing'anna. Mögulega er fjölskyldan komin út á meira dýpi á Mexíkóflóanum; jafnvel með fljótandi tækniundur úti á endimörkum landgrunnsins. Þó er ennþá líklegra að Ewing'arnir séu orðnir brautryðjendur í shale-gasvinnslu. Og stundi slíka vinnslu jafnvel beint undir hraðbrautaslaufunum kringum Dallas.

Eins og lesendur Orkubloggsins vita, ríkir nú í raunveruleikanum mikið gasæði þarna suður í Texas og víðar um Bandaríkin. Ný vinnslutækni hefur opnað leið að óhemju miklu af gasi, sem áður var talið ómögulegt að nálgast og vinna á hagkvæman hátt. Fyrir vikið lítur út fyrir að Bandaríkin eigi nægar gasbirgðir út alla þessa öld. Og verði jafnvel brátt útflytjendur á gasi.

shale-gas-drilling-fracking.jpgNýja vinnslutæknin er oftast þökkuð manni sem á gamals aldri tókst það sem öllum stóru olíufélögunum hafði mistekist. Manni sem er kannski síðasta táknmyndin um það hvernig olíuiðnaðurinn í Bandaríkjunum varð til og byggðist upp. 

Sá heitir Gerorge P. Mitchell og fæddist í Galveston í Texas á því herrans ári 1919. Mitchell var kominn á níræðisaldur þegar honum í lok 20. aldar tókst það ætlunarverk sitt að ná upp miklu af gasi úr þunnum gaslögum, sem finna má innilokuð djúpt í grjóthörðum sandsteininum undir Texas. Lykillinn að lausninni var að beita láréttri bortækni og svo sprengja upp bergið með efnablönduðu háþrýstivatni og losa þannig um innikróað gasið. Og um leið og gasið byrjað að streyma upp á yfirborðið runnu stóru olíufélögin á peningalyktina. Árið 2001 var Mitchell Energy keypt á 3,5 milljarða USD, sem sannaði að ævintýrin gerast enn vestur í Texas.

Þó svo Mitchell, sem nú er kominn á tíræðisaldur, sé ekki meðal allra þekktustu manna úr bandaríska olíu- eða orkuiðnaðinum, er hann prýðilegt dæmi um þá kynslóð sem af eigin rammleik byggði upp sjálfstætt og öflugt bandarískt orkufyrirtæki. Að því leyti gæti hann allt eins verið gamli Jock Ewing - eða litli bróðir hans (Jock á að vera fæddur 1909 - Mitchell fæddist 1919) .

dallas-cast-photograph-c10102183_1099466.jpgM.ö.o. þá er Jock Ewing í reynd bara lauflétt spegilmynd af ýmsum mönnum sem gerðu það gott í olíuleitinni þarna vestra snemma á olíuöldinni. Harðjöxlum sem byggðu upp sitt eigið olíuvinnslufyrirtæki  í fylkjum eins og Oklahóma og Texas. Sumir þessara manna hittu beint í mark og urðu meðal ríkustu auðkýfinga heimsins, eins og t.d. þeir J. Paul Getty og HL Hunt. Margir aðrir gerðu það einnig nokkuð gott - og gamli Jock Ewing er ein slík sögupersóna.

Stóru olíufélögin hafa i gegnum tíðina stundað það að stækka og efla markaðshlutdeild sína með því að kaupa upp þessi litlu en öflugu fyrirtæki. Á síðustu árum hefur einnig borið nokkuð á því að orkurisarnir hafa haslað sér völl í endurnýjanlegri orku, með kaupum á fyrirtækjum sem sérhæfa sig í sólarorku, vindorka eða jarðvarma. Við getum ímyndað okkur að ágreiningurinn milli ungu frændanna innan Ewing Oil snúist núna einmitt um það hvort fyrirtækið eigi að einbeita sér áfram að olíuleit og -vinnslu eða fara í grænni áttir. Texas hefur jú verið vettvangur stórhuga áætlana um uppbyggingu nýrra vindorkuvera og vel má vera að Christopher Bobbyson dreymi í þá átt. Kynningarstiklan sem TNT hefur sett á netið bendir einmitt til þess að ágreiningur sé milli þeirra John's Ross og Christopher's um hvort framtíðin liggi í olíu eða öðrum orkugjöfum.

dallas-ii-young-2.jpgOrkubloggaranum þætti samt ennþá meira spennandi og viðeigandi að Ewing Oil sé komið í gasið. Annar strákanna gæti hafa verið framsýnn í anda George Mitchell og Ewing Oil orðið stór player í shale-gasvinnslu. Þá væri fyrirtækið núna eflaust vaðandi í tilboðum frá stóru orkufyrirtækjunum - rétt eins og gerðist hjá Mitchell Energy. Sama var uppi á teningnum nú nýlega þegar bæði Chesapeake Energy og Petrohawk Energy voru keypt háu verði af ástralska orku- og námurisanum BHP Billiton. Salan á XTO Energy til ExxonMobil seint á árinu 2009 er þó líklega þekktasta dæmið um þorsta stóru orkurisanna í þunnildisgasið.

Samkvæmt fréttum af nýju Dallasþáttunum, þá verða bæði JR og Bobby á svæðinu. Þarna mun grásprengdur og glæsilegur Bobby Ewing sjást hvæsa milli tannanna eins og honum er einum lagið: "No drilling on my  ranch!". Þetta gæti einmitt bent til þess að a.m.k. annar stráklinganna vilji ólmur sækja shale-gas í sandsteinslögin djúpt undir Southfork.

dallas_pam.png

Skemmtilegt! Þeir John Ross og Christopher virðast reyndar vera óttaleg ungbörn. Og dömurnar þeirra hálfgerðar smástelpur. En það er líklega bara tíðarandinn; alvöru skutlur eins og Pam eru kannski ekki "in" þessa dagana?  

Af gömlu persónunum verða þarna einnig ljóskan Lucy, tyggjó-töffarinn Ray Krebbs og sjálf on-the-rocks-drottningin Sue Ellen. Hvort sjóðandi heit Victoria Principal í hlutverki Pam verður líka mætt til leiks, er Orkubloggaranum ókunnugt um. En það er hæpið (eins og sannir Dallas aðdáendur hljóta að muna). Sennilega verður sveitaskutlan Donna Krebbs líka fjarri góðu gamni, þ.a. nostalgían mun ekki fá allar sínar villtustu væntingar uppfylltar. Eftir stendur svo risastóra spurningin: Á hvers konar pallbíl verður Ray Krebbs? Freistandi að veðja á nýjustu útgáfuna af Jeep Gladiator!

oil-donkey-texas-sunset.jpg

Það var reyndar svo að í Dallasþáttunum sást jafnan lítið til hinnar eiginlegu olíustarfsemi Ewing Oil. Helst að menn í kúrekaklæðum væru einstöku sinnum eitthvað að brölta úti á túni með verkfæratösku, að skipta um legu í einmana olíuasna (oil donkey). En til að þessi fyrsta færsla Orkubloggsins eftir sumarleyfi sé ekki bara tóm froða, er einmitt vert að minna á að þessi gamla tegund af olíuvinnslu í Texas og annars staðar í Bandaríkjunum er ennþá afar mikilvæg, þó hnignandi sé. Það eru hundruðir þúsunda af svona gömlum olíubrunnum þar vestra og samtals skila þeir meira en 15% af allri olíuframleiðslu í Bandaríkjunum!

dallas-ii-jr-2.jpg

Og í þeim tilvikum sem ekki er lengur hægt að kreista olíudropa upp úr sléttunni, er hægt að snúa sér að nýja gasævintýrinu. Kolvetnisauðlindirnar djúpt undir Texas duga mögulega í margar Dallas-seríur í viðbót. Lýkur þar með þessu sjónvarps-sápu-þvaðri Orkubloggsins. Með loforði um að strax í næstu færslu snúum við okkur að alvarlegri málum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband