Engin lognmolla á Nýja Sjálandi

Er íslensk vindorka bara vitleysa?

Ýmsir málsmetandi menn hafa í samtölum við Orkubloggarann lýst því fullum fetum að vindorka geti aldrei orðið hagkvæmur kostur á Íslandi. Hér sé mikið af virkjanlegu vatnsafli og jarðvarma, sem hvort tveggja sé miklu ódýrara en vindorkuver. Vindorkuver á Íslandi séu útí hött.

Klasi_Slide18Þetta kann að vera rétt. Eða rangt. Sú skoðun að vindorka á Íslandi sé miklu dýrari en hefðbundnar íslenskar virkjanir byggist aðallega á meðaltalssamanburði sem gerður hefur verið í nágrannalöndum okkar. Það er enginn vafi um að vindrafstöðvarnar myndu ekki hafa risið í Evrópu og Bandaríkjunum nema vegna niðurgreiðslna eða styrkja af einhverju tagi. Rafmagn frá vindorkuverum beggja vegna Atlantshafsins er einfaldlega dýrara í framleiðslu en frá hinum gömlu, hefðbundnu orkugjöfum. Sem eru fyrst og fremst kol og gas, en einnig vatnsafl, jarðvarmi og lífmassi.

Orkubloggið er samt tortryggið á þennan samanburð. Í fyrsta lagi eru vindorkuframleiðendurnir í Bandaríkjunum og Evrópu að keppa á raforkumarkaði þar sem ódýrasti orkugjafi heimsins, kolin, eru í aðalhlutverki. Lengst af hafa hinir gamalgrónu orkugjafar notið mikillar velvildar beggja vegna Atlantshafsins og í reynd verið niðurgreiddir með ýmsum hætti.

Í annan stað álítur Orkubloggið góðar líkur á að stórar vindrafstöðvar á Íslandi myndu skila mun meiri og betri nýtingu en vindorkuverin gera í Bandaríkjunum og Evrópu. Að hér sé unnt að finna staði með mun betri og jafnari vind. Því miður er einnig hætt við að hér sé alltof misvindasamt og stórviðri of tíð. En bestu staðirnir gætu verið hagstæðir - jafnvel miklu hagstæðari en almennt gerist og gengur í þeim samanburði sem oft er vísað í. Sem segir að nýtni vindrafstöðva sé oftast í mesta lagi 25-30%.

Klasi_Slide21Margir þeir sem fussa yfir vindorkunni, freistast til að horfa um of á meðaltalstölurnar. Á sumum svæðum er nýting vindrafstöðva miklu meiri en það sem venjulegt telst. Til eru lönd sem hafa náð allt að 50% meðalnýtingu vindorkuvera. Mögulegt er að vindrafstöðvar á Íslandi geti náð svo hárri nýtingu.

Vandamálið er að það veit enginn af neinni nákvæmni hvaða arðsemi megi búast við af t.d. einni stórri 5 MW vindtúrbínu á Íslandi. Eina leiðin til að vita fyrir víst hvort vit sé í íslenskri vindorku, er að hér verði ráðist í þær rannsóknir sem eru forsenda þess að unnt sé að meta afköst og hagkvæmni stórrar vindrafstöðvar á Íslandi.

Þetta er ekki flókið; ársmæling á vindi á tveimur til þremur stöðum í 50, 80 og 100 m hæð gætu veitt okkur þokkalega nákvæmt svar. En til þess þarf pólitískan vilja og þessa dagana er ríkissjóður ekki alveg kúfaður af rannsóknafé. Þess vegna er líklega ennþá nokkuð langt í að menn fari hér að íhuga stórar vindrafstöðvar. Og halda áfram að virkja Þjórsá og Hellisheiði, án þess að bera slíka kosti saman við mögulega vindrafstöð.

Wind_Turbine_Floating_1Á sama tíma er vindorkuiðnaður í kastljósinu innan flestra nágrannaríkja okkar. Norðmenn eru t.d. að spá í möguleikana á að byggja stórar vindrafstöðvar og selja þaðan rafmagn um sæstreng til Evrópu. Reyndar þykir Orkublogginu líklegt að þær hugmyndir verði settar í salt nú á tímum lánsfjárkreppu - en eftir sem áður stefnir ESB að mikilli aukningu í hlutfalli endurnýjanlegrar raforku. Þess vegna kann þetta að vera áhugaverður kostur fyrir Norðmenn.

En hvað myndi kosta að framleiða rafmagn með vindorkuverum á Íslandi? Í þessu sambandi er vissara að taka skýrt fram að kostnaður við orkuvinnslu er allt annað en söluverð raforkunnar. Söluverðið ræðst af alls konar pólitískum þáttum, sem hafa ekkert með byggingar- og framleiðslukostnaðinn að gera. Þó svo raforka þyki almennt ódýr á Íslandi í samanburði við lönd bæði austan hafs og vestan, þýðir það ekki að hér sé alltaf ódýrast að framleiða rafmagnið. Inn í raforkuverðið spila þættir eins og skattkerfi, kostnaður vegna dreifikerfis og mikil þörf flestra nágrannaríkja okkar á innfluttri raforku.

Klasi_Slide22Vissulega eru nýjar vatnsaflsvirkjanir ennþá almennt ódýrasti kosturinn í endurnýjanlegri raforku. Það er t.d. nokkuð víst að virkjanakostirnir sem nú eru á dagskrá í neðri hluta Þjórsár, þ.m.t. Urriðafossvirkjun, séu umtalsvert ódýrari en að reisa hér vindrafstöð með sambærilega raforkuframleiðslu. Kannski allt að helmingi hagkvæmari kostur, fjárhagslega séð. Og sama á líklega einnig við um jarðvarmavirkjanirnar á Hellisheiði.

Betra væri þó að vita þetta af meiri nákvæmni. Munurinn þarna á milli gæti verið miklu minni. Vandinn er að það hafa ekki farið fram nógu ítarlegar rannsóknir á Íslandi til að unnt sé að fullyrða hvort stórt vindorkuver á Íslandi myndi vera góður kostur.

Enlectricity_Cost_Levelized_IERSvo þurfa menn líka að vera svolítið framsýnir; það tekur tíma að koma upp vindorkuveri og hagkvæmni þeirra á líklega enn eftir að aukast talsvert frá því sem nú er. Loks má benda á að brátt fer hugsanlega að þrengja að ódýrum virkjanakostum í íslensku vatnsafli og jarðvarma. Þess vegna er að mati Orkubloggsins orðið tímabært að hér verði af alvöru skoðaður möguleikinn á stórum vindrafstöðvum.

Í þessu sambandi er fróðlegt að líta til landa sem svipar að verulegu leyti til Íslands. Landa sem ráða yfir miklu vatnsafli og hafa meira að segja líka umtalsverðan jarðhita. En hvert er nærtækast að leita til að fá góðan samanburð á því hvað virkjun vindorku kostar miðað við vatnsafl- og jarðvarma?

Orkublogginu þykir ekki spennandi að bera okkur saman við svo gjörólík þjóðfélög sem Indónesíu eða Filippseyjar, þó svo þau séu bæði með reynslu af jarðhita og vindorku. Og gas- og kolaorkusvæðin í Ameríku og Evrópu eru ekki auðveld viðureignar í þessu sambandi; raforkuiðnaðurinn þar er í fjötrum ótrúlega flókins styrkja- og niðurgreiðslukerfis og því erfitt að gera skynsaman samanburð.

wellington-viewLíklega er nærtækast að taka hér stefnuna á eyríkið fagra, þar sem svo margt minnir á blessaðan Klakann. Þess vegna fljúgum við nú í huganum yfir hálfan hnöttinn og lendum á alþjóðaflugvellinum skammt fyrir utan Wellington; höfuðborg Nýja Sjálands.

Þó svo Íslendingar séu þar komnir nánast eins langt að heiman og mögulegt er hér á þessu jarðarkríli, er Nýja Sjáland oft á tíðum eins og spegilmynd af heimaslóðunum. Og þess vegna engin ástæða fyrir Íslendinga að fá heimþrá, þó svo erfitt kunni að vera að venjast því að sólin fari þarna „öfugan" hring og sé í hánorðri í hádeginu. Nýja Sjáland hefði barrrasta átt að heita Nýja Ísland!

Orkubloggarinn sótti þetta fjarlæga land heim fyrir um áratug síðan og minnist ennþá „íslensku heiðanna", „skaftfellsku jökulánna" og „Skerjafjarðarfjaranna" á Suðureyjunni. Norðureyjan var ólíkari, en þar er þó að finna jarðhita í anda Haukdæla og höfuðborgin Wellington var alls ekki svo ósvipuð Reykjavík. Syfjulegt hversdagsmannlífið minnti á miðbæinn okkar í miðri viku og báðar njóta þessar borgir staðsetning við fallega vogskorna og vindbarða strönd.

NZ_Electricity_typeÍ grófum dráttum skiptist raforkuframleiðsla Ný-Sjálendinga í fernt. Mest af rafmagninu kemur frá vatnsaflsvirkjunum eða rúmlega 50 %. Rafmagn frá jarðvarma nemur tæplega 10%. Stærstur hluti af afganginum kemur frá jarðefnaeldsneyti (um 25% frá gasi og 10% frá kolum). Vindorkan fer vaxandi, en skilar þó einungis um 2,5% af raforkuframleiðslunni.

Athyglisvert er að ennþá er mikið af hagstæðum óvirkjuðum jarðvarma á Nýja Sjálandi. Þar er virkjað jarðvarmaafl nú um 600 MW en áætlað er að auðveldlega megi fjórfalda og jafnvel sexfalda raforkuframleiðslu með jarðvarma. Engu að síður er það vindorkan sem hefur fengið mestan vind í seglin á Nýja Sjálandi á síðustu árum. Og það þótt vindorkan þar njóti engra sérstakra styrkja.

NZ wind energy projectsJá - þó svo vindorka njóti ekki sérreglna þarna djúpt í suðrinu hafa nokkur stór vindorkuver sprottið upp á Nýja Sjálandi á síðustu árum. Og mikill fjöldi nýrra vindorkuvera er planaður á næstu árum. Það hefur nefnilega komið í ljós að nýting vindorkuveranna á Nýja Sjálandi er almennt miklu betri en bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Það er kannski ekki svo skrítið; það er jú víða talsvert vindasamt á Nýja Sjálandi!

Því hlýtur maður að spyrja sig af hverju í ósköpunum Íslendingar íhuga ekki vindorkuna líkt og Ný-Sjálendingar hafa gert? Í stað þess hrista margir Íslendingar bara höfuðið yfir vindorku, af því vindorka í Evrópu og Bandaríkjunum nýtur styrkja. Það segir lítið sem ekki neitt; ný vindorkuver krefjast mikils fasts kostnaðar og geta einfaldlega illa keppt við uppgreidd kolaorkuver í löndum eins og Bretlandi eða Bandaríkjunum. Orku frá hræbillegum innlendum kolanámum. Þar að auki er það ekki síst lélegur aðgangur að dreifikerfinu, sem stendur vindorku víða fyrir þrifum og veldur því að iðnaðurinn þarf verulegan stuðning til að fjárfestar hafi áhuga.

Um síðustu áramót var uppsett afl allra vindrafstöðva í Nýja Sjálandi um 320 MW. Sem þýðir að þessi orkugeiri hafði tvöfaldast í landinu á einungis tveimur árum. Alls framleiða ný-sjálensku vindorkuverin nú um 1.000 GWh árlega, sem samsvarar næstum tíunda hluti af allri raforkuframleiðslu á Íslandi. Hér má rifja upp  að Orkubloggið hefur talið raunhæft að á Íslandi verði framleidd ca. 600 GWh með vindrafstöðvum; þ.e.a.s. um 5% af heildar raforkuframleiðslunni).

NZ_Geothermal_StampEnn áhugaverðari samanburður er sú staðreynd að Kárahnjúkavirkjun er tæp 700 MW og framleiðir um 4.600 GWh á ári. Þessi samanburður einn sýnir okkur að nýting vindorkuveranna á Nýja Sjálandi er hreint ótrúlega góð. Oft er nýtingin í þessum iðnaði einungis 25-30%, en nýtingin á Nýja Sjálandi er miklu betri. Að sjálfsögðu er nýtingin í vatnsaflsvirkjunum meiri, enda búið að kosta miklu til að „safna saman raforkunni"  í miðlunarlón. En það er hreint makalaust að orkunýting vindorkuveranna á Nýja Sjálandi nær því að vera hátt í 50% af því sem algengt er hjá vatnsaflsvirkjunum. Það er langtum hærra hlutfall en bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.

Nú er verið er að byggja ný vindorkuver upp á um 190 MW á Nýja Sjálandi og áætlanir gera ráð fyrir að í árslok 2009 verði framleiðslugetan (uppsett afl) orðin rétt tæplega 500 MW. Fyrir liggur áhugi orkufyrirtækja að setja upp meira en 3 þúsund MW í viðbót á næstu árum! Það er sem sagt allt að verða vitlaust í vindorkunni á Nýja Sjálandi. Í landi með mikið af ónýttum jarðvarma. Í landi þar sem vindorkuiðnaðurinn nýtur engra sérstakra styrkja.

NZ_WindSamt fullyrða sumir að vindorka geti aldrei borgað sig á Íslandi. Það kann vel að vera rétt - en þeir ættu a.m.k. að færa betri rök fyrir máli sínu en að benda bara á niðurgreiðslu vindorkunnar í kolasamfélögum Evrópu og Bandaríkjanna. Og jafnvel bíða með fullyrðingar af þessu tagi fyrr en búið er að gera þær rannsóknir sem eru nauðsynlegar til að meta þetta.

Sú athugun sem Orkublogginu hefur þótt hvað athyglisverðust á hagkvæmni vindrafstöðva á Íslandi, er verkefni  sem ungur verkfræðingur, Smári Jónasson, vann nýlega í Svíþjóð. Niðurstaða hans var vissulega ekki mjög gæfuleg fyrir íslenska vindorku; vindrafstöðvarnar reyndust talsvert dýrari en að virkja vatnsafl- eða jarðvarma. Niðurstöður Smára voru þó ekki dekkri en svo að það er full ástæða fyrir Íslendinga að skoða þessa möguleika af alvöru. Vindorka gæti verið áhugaverður kostur á þeim svæðum hér þar sem náttúrulegar aðstæður eru hvað hagstæðastar og góður aðgangur er að dreifikerfinu. Einnig gæti verið sérstaklega áhugavert að nýta vindorku til að spara miðlunarlón.

Ef það er rétt að nýting vindrafstöðva á Nýja Sjálandi sé allt að 50% betri en í Evrópu og Bandaríkjunum, eins og haldið er fram af hagmunaaðilum þar í landi, og að betri tækni muni þar að auki brátt geta auki hagkvæmni vindorkuvera um tugi prósenta, er vindorkan að verða mjög forvitnilegur kostur. Það væri sérkennilegt kæruleysi að taka hér ákvarðanir um nýjar umdeildar vatnsafls- eða jarðvarmavirkjanir án þess að skoða fyrst möguleika vindorku.

Landeyjar_EyjarÞað væri t.d. áhugavert að kanna með hagkvæmni vindorkuvers á Suðurlandi. Þar kunna að fara saman góðar náttúrulegar aðstæður, auðveld tenging við dreifikerfi og gott aðgengi til að koma risastórum stálrörunum og túrbínunum á staðinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það ætti að vera forgangsverkefni að ráðast í ítarlegar vindmælingar á nokkrum stöðum á landinu. Það getur varla verið mjög dýrt, sérstaklega ekki þegar það er sett í samhengi við hagsmunina sem eru í húfi. Ég held að suðurströndin og Melrakkaslétta komi sterk inn og kannski ísbjarnaslóðirnar á Skaga líka

Bjarki (IP-tala skráð) 12.7.2009 kl. 13:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband