Póstmódernísk orkustefna

Er heimurinn gjörbreyttur frá því fyrir nokkrum árum? Kannski - a.m.k. streymir olían nú æ meira frá ríkjunum í vestanverðri Asíu til risans í austri. Risans sem þjáist af nútímasjúkdómnum síþorsta. Olíueftirspurnin frá Kína vex með ógnvekjandi hraða. Meðan síþreyta hrjáir Vestrið.

  CASPIANMAP

Stórir olíuframleiðendur eins og Kazakstan og Azerbaijan, dæla sífellt meiri olíu í austurátt. Eftir leiðslum sem byggðar eru með kínversku fjármagni.

 

Meðan Bandaríkin og Evrópa voru enn gapandi af undrun yfir skyndilegu hruni Sovétríkjanna, gripu Kínverjar tækifærið. Og sömdu við mörg hin nýfrjálsu ríki um að kaupa af þeim olíuna - og hjálpa þeim að finna ennþá meiri olíu. Á meðan eyddu pólitíkusar í Washington kröftum sínum í að þefa uppi úldið sæði í grænum kjól. Og Evrópumegin fór nánast allt í þrot við að yfirtaka úr sér brætt Austur-Þýskaland.

 

Sumir segja að samdrátturinn núna vestur í Ameríku muni draga úr efnahagsvexti um allan heim. Þess vegna muni verð á olíu brátt lækka. Ef olíueftirspurnin þaðan minnki hljóti spákaupmennirnir að flýja og verðið að lækka hratt.

 

Einnig segja sumir að samdrátturinn þarna fyrir vestan muni valda enn meiri lækkun á hlutabréfum um allan heim. Rökin eru m.a. þau að lönd eins og Kína, Indland og Brasilía séu fyrst og fremst framleiðendur fyrir bandaríska neytendasukkara. Samdráttur í neyslu í Bandaríkjunum hljóti að hafa þau áhrif, að erfiðara verði fyrir fyrirtæki í löndum eins og Kína, Indlandi og Brasilíu að selja vörur sínar og bisnessinn þeirra einfaldlega minnki.

  G8leadersSmoke

Aðrir segja grundvallarbreytingu hafa orðið á efnahagskerfi veraldar á síðustu árum. G8-hópurinn (Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Ítalía, Kanada, Japan, Rússland, og Þýskaland) hafi í reynd tapað vægi sínu. Í löndunum, sem stundum eru nefnd G5 (Brasilía, Indland, Kína, Mexíkó og Suður-Afríka), sé komin upp gríðarlega fjölmenn millistétt. Sem með hratt vaxandi neyslu sinni sé fullfær um að tryggja áframhaldandi efnahagsvöxt þessara ríkja. Það skipti litlu fyrir þessi ríki þótt Bandaríkin og Evrópa lendi í lægð.

 

Reyndar er líklegt að aukinn styrkur Kína skipti miklu til að bjarga því sem bjargað verður í Bandaríkjunum. Lengi vel hefur hvað stærsta erlenda fjárfestingin þar fyrir vestan komið frá olíuríkjunum við Persaflóa. Nú eru það líka kínverskir peningar, sem streyma inní Bandaríkin (og fleiri lönd). Það er a.m.k. eins gott fyrir Bandaríkin að Kína dragi ekki snögglega úr fjárfestingum sínum þar. Ekki væri heldur gæfulegt ef kínversk stjórnvöld tækju upp á því að selja slatta af geggjuðum dollaraforða sínum. Þá fyrst myndi dollarinn falla almennilega.

  G5

Staðan í dag kann að vera orðin sú að efnahagskerfi Asíuveldanna geti staðið sjálfstætt, ef svo má að orði komast. En í þessu felst samt mótsögn. Um leið og efnahagsuppgangurinn í Asíu hefur búið til öflugan neytendamarkað heima fyrir, hafa Asíulöndin fjárfest umtalsvert bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Í reynd hlýtur efnahagslægð á Vesturlöndum líka að hafa neikvæð áhrif í Asíu. Af þrenns konar ásæðum. Í fyrsta lagi minnkar þá útflutningur frá Asíu til Vesturlanda. “Í annan stað”, eins og Jón Baldvin sagði jafnan, verður fjárfesting Vesturlanda í Asíu minni en ella. Og í þriðja lagi minnka umsvif hjá fyrirtækjum á Vesturlöndum, sem eru í eigu Asíufyrirtækja. Afleiðingin ætti að vera sú að samdráttur í Bandaríkjunum breiðist út til Asíu.

 

Í lokin eru það alltaf Arabaríkin sem vinna. Olíuríkin. Heimurinn er svo gjörsamlega háður olíunni. Í huga Orkubloggsins er olían einfaldlega það sem stjórnar veröld okkar. Til að breyta þessu þarf olía að verða minni háttar orkugjafi. Það er væntanlega mikið langtímaverkefni.

 

Hún er þokkalega metnaðarfull, hugmyndin sem Al Gore hefur nú kastað fram. Um að Bandaríkin verði sjálfbær um orku eftir einungis 10 ár! Og ekki bara sjálfbær um orku – heldur að öll orkan komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Er kallinn orðinn galinn?

  gore-emissions

Það magnaða er að þessi hugmynd Gore kann að vera tæknilega möguleg. Tæknilega! Ekki endilega fjárhagslega skynsöm og ekki alveg í takt við ofurvald bandaríska olíuiðnaðarins – en kannski tæknilega möguleg. Kannski. Kannski samt ekki

 

Auðvitað er þessi hugmynd gjörsamlega óraunhæf og varla hægt að kalla þetta annað en lýðskrum. Skemmtileg hugmynd engu að síður. En hlýtur að vekja upp mikilvæga spurningu: Er þessi hugmynd kannski afturhvarf frá opnum alþjóðaviðskiptum og til marks um einhvers konar póstmóderníska græna einangrunarstefnu Bandaríkjanna?

 

Hér má lesa um áætlun Gore:  http://www.msnbc.msn.com/id/25718230/

 

PS: Vegna veru Orkubloggsins í dönsku krummaskuði varð smá bið á myndskreytingu með blogginu. Steinaldarnettenging!
mbl.is Lækkun á Wall Street
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Sæll Ketill

Pistlarnir þínir eru einstaklega skemmtilegir

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 21.7.2008 kl. 22:30

2 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Það má bæta við þetta að fyrir nokkrum vikum gerðu Rússar og Kínverjar samkomulag um lagningu nýrrar leiðslur frá olíulindum í Rússlandi til Kína. En eftir þessari leiðslu ætla Kínverjar að kaupa 1,6 milljón tunnur af olíu á dag. Að auki ætla Rússar að selja Kínverjum 68 milljarða rúmmetra af gasi á ári eftir 2020.

Þrátt fyrir það dróst olíudæling í Rússlandi saman um 5% á fyrstu fimm mánuðum þessa árs. En vinnsla á gasi jókst um 17% á sama tíma.

Júlíus Sigurþórsson, 21.7.2008 kl. 23:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband