Svarta Perlan

eusebio.jpg

Hollywood tók upp á því að nefna sjóræningjaskip Svörtu Perluna. Í huga Orkbloggarans eru það þó knattspyrnusnillingarnir Péle og Eusébio sem eru hinar einu sönnu svörtu perlur.

En nú er enn komin fram ný kolsvört perla - sem er sannkölluð risaperla. Perluverksmiðjan í Persaflóaríkinu Katar.

Þessi glænýja Svarta Perla er sko ekkert smáræði. Um er að ræða einhver stærstu framkvæmd í heiminum öllum. Og þá allra stærstu í gas- og olíuiðnaði nútímans. Versmiðjan kallast fullu nafni Pearl Gas to Liquids Plant og þar verður gasi frá stærstu gaslind heimsins umbreytt í ýmis konar olíuafurðir; ekki síst díselolíu og flugvélabensín.

GTL (gas to liquids) er að verða meiriháttar iðnaður. Jafnvel þó svo þetta sé mjög orkufrek framleiðsla og hafi lengst af þótt með ólíkindum dýr leið til að framleiða olíuafurðir - þegar miklu ódýrara var að stinga bara strái i sandinn og láta olíuna spýtast upp - er GTL orðið að veruleika.

fishcer_tropsch.jpg

Olía, gas og kol eiga það sammerkt að vera mislangar kolvetniskeðjur. Með efnafræði og orku að vopni er unnt að leika sér með þessi kolmónoxíð- og vetnissambönd og vinna hefðbundnar olíuafurðir úr bæði kolum og gasi.

Þekktasta aðferðin til þess er kölluð Fischer-Tropsch; kennd við þýsku efnafræðingana Franz Fischer og Hans Tropsch. Þeir þróuðu þessa aðferð strax á 3ja áratug 20. aldar og hernaðarvél Nasismans gekk að verulegu leyti fyrir díselolíu, sem unnin var með Fischer-Tropsch aðferð úr hinum miklu kolanámum Þriðja ríkisins. Fyrir vikið var þýski bærinn Pölitz (nú Police í Póllandi) sprengdur í tætlur af flugvélum Bandamanna, en þar var ein mikilvægasta verksmiðjan staðsett. Reyndar vill svo skemmtilega til að verksmiðjan sú var að mestu í eigu bandaríska Standard Oil; dótturfyrirtækið í Þýskalandi hét Deutsch-Amerikanische Petroleum Gesellschaft. En það er önnur saga.

Á ensku er samheitið synthetic fuel eða synfuel notað yfir fljótandi eldsneyti af þessu tagi, sem unnið er úr öðrum kolvetnisgjöfum en olíu. Lengst af var synfuel einungis unnið úr kolum og enn þann dag í dag eru kol algengasta hráefnið við að vinna olíuafurðir úr öðrum kolvetnisgjöfum en olíu. Er þá talað um CTL (coal-to-licuids).

sasol_logo_989193.jpg

Suður-Afríkumenn tóku snemma upp á því að vinna díselolíu með þessu móti, vegna mikilla kolaauðlinda þar í landi - og þó ekki síður sökum þess að viðskiptabannið vegna aðskilnaðarstefnu stjórnvalda hvíta minnihlutans olli þeim vandræðum við að útvega sér olíu. S-Afríska fyrirtækið Sasol náði að þróa svo árangursríka tækni að enn þann dag í dag er það stór og ábatasamur bransi hjá fyrirtækinu að umbreyta kolum í olíuafurðir. Jafnvel þó svo S-Afríka sé löngu aftur komin í samfélag þjóðanna og geti því keypt olíuafurðir hvar sem er. Og jafnvel þó svo þetta sé afar orkufrekur iðnaður sem losar mikið af gróðurhúsalofttegundum, þá er Sasol á blússandi ferð.

Í dag er nánast allri díselolíuþörf þessarar 50 milljóna manna þjóðar þarna syðst í Afríku mætt með CTL verksmiðjum. Og Sasol er komið í útrás til annarra landa, sem vilja nýta kolin sín með þessum hætti.

Það voru aftur á móti ljúflingarnir hjá Shell sem áttuðu sig manna fyrstir á því að það væri tóm vitleysa að láta kolin vera einu uppsprettu synfuel. Þeir Skeljungarnir töldu vel mögulegt að gera góðan bissness úr því að nýta venjulegt gas (náttúrugas; metan) til að framleiða olíuafurðir í stórum stíl með samskonar aðferð eins og notuð er í CTL-iðnaðinum. Og árið 1993 opnaði Shell fyrstu verksmiðjuna af þessu tagi í Bintulu á Malasíu-hluta eyjunnar Borneó, en þar utan við ströndina eru miklar gas- og olíulindir. Draumurinn um GTL (gas to liquids) var orðinn að veruleika.

bintulu_gtl_plant.jpg

Gasið sem fer í vinnsluna hjá Bintulu er m.a. notað til að framleiða fljótandi flugvélaeldsneyti. Sem er að flestu leyti samskonar eins og hefðbundið flugvélabensín úr hráolíu. Reyndar er "gasflugvélabensínið" með minna af ýmsum mengandi efnum og þykir því vera umhverfisvænna; t.d. er nær enginn brennisteinn í því.

Þetta flugvélaeldsneyti úr gasinu var notað í fyrsta sinn á farþegaþotu snemma árs 2008. Þar var á ferðinni risaþotan Airbus A380, sem flaug frá Bretlandi til Toulouse í S-Frakklandi, en það er álíka löng flugleið eins og milli Keflavíkur og Glasgow. Ofurbelgurinn A380 eru fjögurra hreyfla og var nýja eldsneytið einungis notað á einn hreyfilinn, en hinir þrír gengu fyrir venjulegu flugvélabensíni. Ferðin gekk að óskum og nú er gert ráð fyrir að stór hluti framleiðslunnar frá nýju Perluverksmiðjunni í Katar muni einmitt verða flugvélabensín.

Þróunin í gasbransanum síðustu árin hefur verið ævintýraleg. Gæti farið svo að gasáhuginn muni jafnvel þurrausa fjármagn sem hefur verið að horfa til endurnýjanlegrar orku. Ódýrt gas gæti valdið því að orkumarkaðurinn verði miklu fastheldnari á kolvetnisorkuna en margur hefur vonast til. Og hlutfall endurnýjanlegrar orku myndi þá etv. vaxa hægar en spáð hefur verið af mörgum spekingnum.

qatar_shell_2_989203.jpg

Ýmsir eru þó enn á því að þróunin verði sú að olía, kol og gas verði brátt á undanhaldi sem helstu orkugjafar mannkyns. Að "skítuga" orkan muni víkja fyrir grænni orku frá endurnýjanlegum auðlindum vatns, vinds og sólar. Hækkandi olíuverð, mikill vilji Vesturlandabúa til að verða a.m.k. minna háður arabísku olíunni og rússneska gasinu og viljinn til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, mun væntanlega auka eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku umtalsvert. En hin raunverulegu vatnaskil í orkubúskap heimsins kunna samt að verða allt önnur. Svo gæti farið að 21. öldin verði einfaldlega öld gassins. Gasöldin!

Olía úr gasi! Og þetta er sem fyrr segir ekki einu sinni ný tækni, heldur byggir á gamalli uppgötvun Þjóðverja. Það eru nýjar aðferðir við að ná gasi úr jörðu sem valda því að framboð af gasi hefur stóraukist á allra síðustu árum. Fyrir vikið hefur verð á gasi farið lækkandi miðað við olíuverð og nú er verðmunurinn orðinn svo mikill að það borgar sig að nota gasið til að búa til olíuafurðir eins og t.d. díselolíu. Gas er m.ö.o. orðið hagkvæm uppspretta að nýjum olíulindum.

qatar_gas_north-field.jpg

Stærsta gaslind veraldar er undir Persaflóanum, örskammt út af strönd Katar. Íslandsvinirnir þar eru aftur á móti afar fjarri helstu gasmörkuðum heimsins og ekki mjög fýsilegt að flytja allt þetta gas um rör til t.d. Evrópu. Þess í stað hafa Arabarnir í Katar reist sérstakar verksmiðjur sem umbreyta gasinu í fljótandi form (LNG). Svo sigla sérhönnuð tankskip með fljótandi gasið til Japan, V-Evrópu og víðar. En þegar verð á olíu fór að hækka almennilega og var farið að nálgast 40 dollarana sáu Katararnir og Shell tækifæri til að nýta brautryðjendaþekkingu hinna síðarnefndu. Og einfaldlega umbreyta hræbillegu gasinu úr ofurlindunum innan lögsögu Katar yfir í rándýrar olíuafurðir.

pearl-gtl_1_989198.jpg

Og nú er þetta að verða að veruleika þarna í eyðimörkinni. Hin risastóra Perluverskmiðja í Katar er risin og styttist í að framleiðslan fari í gang.

Kostnaðurinn hefur reyndar orðið margfaldur á við það sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Árið 2003 þegar ákveðið var að ráðast í verkefnið var kostnaðaráætlunin 5 milljarðar USD. En vegna gríðarlegra hækkana á stáli og fleiri hráefnum árin þar á eftir reyndist þetta gjörsamlega marklaus tala.

Árið 2007 var kostnaðaráætlunin leiðrétt og sögð vera 18 milljarðar dollar, en skv. nýjustu tölum verður heildarkostnaðurinn 22-24 milljarðar USD! En vegna þess að olíuverð er miklu hærra nú en var þegar fyrstu áætlanirnar voru gerðar, stefnir allt í að þetta verði dúndrandi bissness hjá Shell og Köturunum hjá Qatar Petroleum (sem er helsta orkufyrirtæki Katarska ríkisins). Í dag er olíuverðið u.þ.b. helmingi hærra en hið lauflétta break-even vegna Perlunnar, sem miðast við að olíutunnan sé í um 40 dollurum. Sem sagt barrrasta bjart framundan fyrir Perluna.

pearl-gtl_2_989200.jpg

Perluverksmiðjan er með tífalda afkastagetu á við Bintulu í Malasíu og mun framleiða um 140 þúsund tunnur af olíuafurðum á degi hverjum; mest díselolíu og flugvélabensín. Þetta eldsneyti hefur ýmsa kosti umfram það þegar það er unnið úr olíu. Fyrir vikið má jafnvel búast við að unnt verði að selja það eitthvað dýrara en sullið úr olíunni.

Auk díselolíu og flugvélaeldsneytis mun Perluverksmiðjan framleiða verulegt magn af ýmsum gastegundum; t.d. etan (C2H6) sem er notað í efnaiðnaði ýmiss konar. Og til marks um stærðina má nefna að þessi eina GTL-verksmiðja í Katar mun skila af sér jafn miklum olíuafurðum eins og nemur allri olíuframleiðslu Shell í olíuríkinu Nígeríu! Enda kalla menn hjá Shell nú Perluna Nýju-Nígeríu.

qatar_airbus_gtl.jpg

Þó svo flugvélabensín úr gasi komi enn sem komið er einungis frá Shell-verksmiðjunni í Bintulu í Malasíu, eru Katararnir farnir að búa sig undir framtíðina. Í október á liðnu ári (2009) lét Qatar Airways fylla eina af Airbus A340-600 farþegaþotunum sínum af þessu nýja flugvélaeldsneyti og svo var flogið beinustu leið frá Gatwick til Doha. Þetta sex klukkustunda flug gekk auðvitað eins og í sögu og nú spá þeir hjá Airbus því að eftir tvo áratugi muni allt að 30% af öllu flugvélaeldsneyti verða unnið úr öðru en hráolíu. Líklegast er að það verði einmitt nýja GTL-þotueldsneytið sem verði þar sigurvegarinn.

Allt stefnir í að framleiðslan í Perlunni fari í gang seint á þessu ári (2010) og komist á fullt snemma 2011. Og þó svo Skeljungarnir viðurkenni að kostnaðurinn sé orðinn svimandi hár, þá bera þeir sig vel. Enda eru horfur á að Perlan skili þeim um 6 milljörðum dollara í tekjur á ári. Payback-tíminn verði sem sagt ekki nema 4-5 ár. Þær áætlanir miðast við að olíuverð haldist í um 70 dollurum tunnan.

pearl-gtl_3.jpg

En þrátt fyrir að eldsneytisframleiðsla Perlunnar muni jafngilda allri olíuframleiðslu Shell í Nígeríu og að herlegheitin kosti allt að 24 milljarða USD, átta lesendur sig kannski alls ekki á því hversu mikið risaverkefni þetta er. Nefna mætti að starfsmannafjöldinn við að reisa kvikyndið hefur verið yfir 50 þúsund. Já- fimmtíu þúsund bullsveittir mannlegir maurar hafa nú í rúm fjögur ár sveiflað skóflum sínum og hömrum þarna í eyðimörkinni á Ras Laffan iðnaðarsvæðinu um 80 km norður af Doha.

Perlan er ekki eina nýja stórframkvæmdin í Katar; þarna eru líka að rísa nokkrar nýjar LNG-verksmiðjur upp á tugi milljarða dollara. Og það er meira að segja nú þegar búið að setja þarna i gang eina nýja GTL-verksmiðju; i fyrra var ræst 34 þúsund tunna framleiðsla Oryx, sem er samstarfsverkefni S-Afríska Sasol og Qatar Petroleum.

qatar_shell_pearl_3.jpg

Litlum sögum fer af áhyggjum Katara af þensluáhrifum þessara stórframkvæmda. Fjárfestingin í Perluverksmiðjunni einni jafngildir um tuttugu Kárahnjúkavirkjunum (en mannfjöldinn í Katar er einungis um fimm sinnum fleiri en á Ísland). Nánast allt hráfni í þessa gígantísku framkvæmd og sömuleiðis vinnuaflið (50 þúsund starfsmenn) er innflutt. Orkubloggið hefur þó engar spurnir af áhyggjum Katara um "mjúka eða harða lendingu" þegar framkvæmdunum líkur. Það er reyndar svo að riyalinn - myntin í Katar - hefur í áratugi verið tengdur við Bandaríkjadal. Og þar að auki eru kannski litlar líkur á öðru en að áframhaldandi fjárfestingar muni streyma til Katar, sem ræður yfir mestu gaslindum heimsins. 

Ofboðslegar gaslindirnar í lögsögu Katar gera landið að ríkasta ríki heims (miðað við fólksfjölda). Og fyrir vikið er ríkisfyrirtækið Qatar Petroleum eitt það allra stærsta í gjörvöllum olíu- og gasiðnaðinum. Einungis Saudi Aramco í Saudi Arabíu og ríkisolíufélagið í Íran búa yfir ámóta kolvetnisauðlindum. Svarta Perlan hefur því augljóslega forsendur til að vera stærri framkvæmd en flest annað í heimi hér. En kannski er eftirfarandi myndband frá ljúflingunum hjá Shell, einfaldlega best til þess fallið að lýsa þessari risaframkvæmd, sem GTL-Perluversmiðjan er:

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dingli

Reisum olíuhreinsunarstöð í Loðmundafirði. Notum afgangsorkuna til að kynda Seyðisfjörð og bræða perlustein.

Dingli, 16.5.2010 kl. 05:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband