Vesenið í Evrópu

Það er gaman að sjá að nú skuli árangurinn af aðstoð Íslendinga við Afgana að vera að koma fram. Sbr. fréttin sem þessi færsla er tengd við. Auðvitað eru ýmis önnur lönd, sem hafa stutt byggingu virkjana í Afganistan. M.a. lítil vindorkuver. En Ísland styður auðvitað uppbyggingu á vatnsafli.

EU_25_energy-consumption

Það er alltaf notalegt til þess að hugsa, að við á Íslandi erum okkur næg um rafmagn og hita. Og sökum þess að nú er mikið rætt um nánara samstarf Íslands við Evrópusambandið, er ekki úr vegi að skoða hvaðan orkan þar á bæ kemur.

Er ekki alltaf gaman að smá tölfræði? Eins og sjá má hér á myndinni að ofan kemur stærstur hluti orkunnar, sem EB-löndin nota, frá olíu og gasi. Eins og víðast hvar annars staðar i heiminum. Hjá EB er þetta mest innflutt orka. Orkubloggið hyggst í næstu færslum beina athyglinni að Evrópusambandinu og því hversu gjörsamlega varnarlaust EB er í orkumálum. Þessi færsla er eins konar inngangur að því.

Í Bandaríkjunum er varla talað um nema eitt þessa dagana (fyrir utan Evrópureisu Obama, auðvitað). Nefnilega mikilvægi þess að landið snúi af þeirri braut að vera í spennitreyju innfluttrar orku.

Aldrin_Apollo_11_2

Gamli olíurefurinn Boone Pickens er t.d. nýbúinn að hrinda af stað áætlun sinni um stórfellda aukningu á virkjun vindorku. Og Al Gore gerðist ennþá stórtækari fyrir nokkrum dögum. Þegar hann lýsti hugmyndum sínum um að innan 10 ára komi öll orka í Bandaríkjunum frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Gore notaði tækifærið til að minna á, að á sínum tíma setti Jack Kennedy tunglgöngu Bandaríkjanna líka á dagskrá með aðeins 10 ára fyrirvara.

Bandaríkjamenn komust til tunglsins vel innan umræddra 10 ára. Og kannski tekst þeim líka að gjörbreyta þjóðfélaginu, þannig að það nýti einungis endurnýjanlega orku innan 10 ára. Því trúir Orkubloggið reyndar tæplega. En alltaf gaman þegar menn hafa metnaðarfull markmið.

En hvað um Evrópu? Jú - þar á bæ eru líka uppi stórar áætlanir. Framkvæmdastjórn EB kynnti snemma á þessu ári áætlun um að árið 2020 muni 20% orkunotkunar í EB koma frá endurnýjanlegum orkulindum. Þannig að hinar glænýju hugmyndir Gore eru óneitanlega metnaðarfyllri. Segja má að hann hafi steinrotað framkvæmdastjórn EB eins og hún leggur sig.

EU AND USA SELF SUFFICIENCY-3

Þetta er svolítið athyglisvert. Hvatinn fyrir Evrópu að sýna metnað i uppbyggingu endurnýjanlegrar orku er nefnilega miklu meiri en hjá Bandaríkjunum. Málið er að Evrópa á nánast enga orku. Kannski svolítið sterkt að orði komist. En innan EB er t.d. sáralítið af olíu og gasi. Evrópa er tvöfalt háðari innfluttri orku, en Bandaríkin eru. Meira að segja þó olíuauður Norðmanna sé talinn með (en þeir eru jú utan EB). Vissulega er slatti af olíu hjá t.d. Bretum og Dönum í Norðursjó og gasi líka. En engan veginn nóg fyrir EB. Þess vegna verður Evrópa í framtíðinni ennþá háðari olíu og gasi frá Rússum. Það er sem sagt Evrópa sem er í sannkölluðum orkuvandræðum - miklu fremur en Bandaríkin.

Þetta er satt að segja ekkert gamanmál. En menn eru á fullu að leita lausna. Ef fólk heldur að Miðjarðarhafsfundurinn, sem Sarkozy boðaði til nýlega, sé bara tilkominn vegna mikilmennskubrjálæðis Frakklandsforseta, then think again.

sarkozy_france

Þessi hugmynd að Miðjaraðarhafs-bandalagi snýst aðallega um eitt: Að Evrópa geti tryggt sér öruggari og meiri aðgang að orku frá löndunum í Norður-Afríku. Þess vegna er ástæða til að fagna frumkvæði Sarkozy's. Og ekki skrýtið að Sarkozy breiði faðminn á móti olíunni og sólarorkunni frá Afríku. Meira um þetta síðar.


mbl.is Borga tuttugu smávirkjanir í Afganistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband