Geitskór og gasið í Rúþeníu

Carpatho-Rusyn_sub-groups_-_Transcarpathian_Rusyns_in_original_goral_folk-costumes_from_Maramureº_.[1]Eih bennek, eih blavek!

Að Ísland eigi sér viðreisnar von er farið að verða svolítið hæpið. Hér virðist fjármálaspillingin hafa farið létt með að slá út bæði Enron og rússnesku einkavæðinguna. Heyrst hefur að meira að segja íbúar Rúþeníu hafi hugsanlega efni á meiri bjartsýni en Íslendingar.

Nei - Orkubloggið er ekki að grínast! Hér er fúlasta alvara á ferðum. Þó svo að þjóðbúningarnir í Rúþeníu og fjallendið þar hafi hugsanlega verið meðal þess sem gaf Hergé hugmyndina að Austur-Evrópuríkinu Syldavíu, er Rúþenía enginn tilbúningur.

tinni_VeldissprotiVissulega er Orkubloggarinn einlægur aðdáandi Tinnabókanna. Og þekkir því vel til hinna athyglisverðu samfélaga bæði Syldavíu og Bórdúríu. En vitund bloggarans og áhugi á Rúþeníu vaknaði aftur á móti ekki fyrr en fyrir örfáum mánuðum, þegar bloggarinn dvaldi nokkra daga austur í Kíev; höfuðborg Chernobyl-landsins Úkraínu. Hvar hið dúndrandi geislavirka fljót Dnepr streymir í gegnum borgina með alla sína miklu sögu og oft myrka fortíð.

Rúþenía er eitt af mörgum héruðum þessa merkilega lands og liggur í fjalllendinu vestast í Úkraínu, að landamærum Póllands, Slóvakíu, Ungverjalands og Rúmeníu. Sem sagt hjarta Evrópu!

Við nánari athugun bloggarans kom í ljós að Rúþenía er ekki aðeins hluti af hinum fallegu Karpatafjöllum, heldur er héraðið nánast í lykilhlutverki í orkubúskap allrar Evrópu. Af því tilefni ætlar Orkubloggið að staldra við þetta vestasta hérað Úkraínu, sem fyrir margt löngu naut þess í EINN DAG að vera sjálfstætt ríki.

Rutenia_skjaldarmerkiJá - lýðveldið Rúþenía lifði einungis í einn dag. Eða í mesta lagi þrjá, allt eftir því við hvaða heimild er miðað. Þetta gerðist á óróatímanum skömmu fyrir heimsstyrjöldina síðari og þá var héraðið hluti af Tékkóslóvakíu.

Eðlilega skapaðist mikil ólga á þessum slóðum þegar ofurhrammur Nasismans byrjaði að láta til sín taka. Sjálfstæðissinnar austast í Tékkóslóvakíu sáu sér leik á borði þegar Hitler tók Súdetahéruðin 1938. Víða urðu skærur og til eru sögur um grimmilega bardaga slóvenskra, rúþenskra og ungverskra herflokka í snævi þöktum Karpatafjöllunum veturinn 1938-39.

Svo fór að þann 15. mars 1939 lýsti rúþenska þjóðernishetjan Augustin Voloshyn  og fylgismenn hans yfir sjálfstæði Rúþeníu.

Avgustyn_Voloshyn_1Lýðveldið nefndu þeir reyndar ekki Rúþeníu heldur Karpata-Ukraínu  (Карпатська Русь). Héraðið liggur við vesturhlíðar Karpatafjallanna, sem er einhver mesti fjallgarður í Evrópu og lýðveldisnafnið endurspeglaði sterk tengsl Rúþena við Úkraínumenn fremur en Slóvaka, Ungverja eða Pólverja.

Þessar aðgerðir Voloshyn‘s  töldu Ungverjar vera upplagða tylliástæðu til að ráðast inn í héraðið af fullum þunga - að sjálfsögðu með blessun Hitlers. Einungis fáeinum klukkutímum síðar var mestöll Rúþenía á valdi ungverska hersins. Til eru hroðalegar frásagnir af því hvernig illa vopnaðir lýðveldissinnarnir frá Rúþeníu voru stráfelldir af Ungverjum. Þeir Rúþenar sem náðust lifandi voru leiddir fyrir aftökusveitir og frosnum líkunum svo hrúgað í fjöldagrafir. Það er erfitt að ímynda sér grimmdina sem ríkti þarna í hjarta Evrópu í aðdraganda heimsstyrjaldarinnar.

zakarpattia_valleyÞar með lauk hinni örstuttu sjálfstæðissögu Rúþeníu á ísköldum vordögum árið 1938. Þess má líka geta að við upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar bjó mikið af gyðingum í héraðinu og voru þeir allir með tölu fluttir til Auschwitz og gjörsamlega útrýmt. Eftir síðari heimsstyrjöldina var Rúþenía gerð að sérstöku héraði vestast í Úkraínu og þar með hluti af Sovétríkjunum.  

Voloshyn  átti aldrei aftur eftir að strjúka um frjálst höfuð og mun hafa látist í sovésku fangelsi á árinu 1945. Héraðið var eftir yfirtöku Sovétríkjanna nefnt Zakarpattia og ber það heiti enn þann dag í dag. Héraðið er nú hluti af Úkraínu og er um 13 þúsund ferkílómetrar. Íbúafjöldinn í dag er um 1,3 milljónir og þar af eru um 80% Úkraínumenn, 10% Ungverjar en afgangurinn ýmis önnur þjóðabrot.

Kannski eru ekki margir Íslendingar sem kannast við Rúþeníu og reyndar er umdeilt hvort Rúþenar uppfylla lágmarksskilyrði til að geta talist sérstök þjóð. Bæði fólkið og tungumálið er náskylt Úkraínumönnum og úkraínsku (sem er mjög lík rússnesku) og sjálfstæðishugmyndir fólksins í Rúþeníu hafa óvíða fengið stuðning.

Ruthenia_gas_pipesEn á allra síðustu misserum hafa vonir sumra íbúanna þar um aukna sjálfsstjórn óvænt glæðst. Vegna þess að skyndilega er þetta flestum gleymda hérað skyndilega orðið mikilvægur hlekkur í orkukeðju Evrópu. Þarna um héraðið liggja nefnilega flestar af gasleiðslunum, sem flytja rússneskt gas til landa í Evrópusambandinu.

Vegna gasdeilna Rússa og Úkraínumanna og truflana á gasstreyminu til Evrópusambandsríkjanna hefur athygli manna óvænt beinst að Rúþeníu. Rúþenía - eða Zakarpattia - er allt í einu orðið mál málanna. Af þeim sökum hefur sjálfsöryggi og sjálfsvitund íbúa Rúþeníu líklega sjaldan verið jafn sterk eins og þessa dagana.

Sumir telja að þjóðin sem kennir sig við Rúþeníu (Rúþenar eða Rusyns eins og þeir kallast á erlendum tungum) telji hugsanlega allt að tvær milljónir manna - aðrir segja að þeir séu einungis um 50 þúsund. Sama hver talan er, þá er vitað að fæstir Rúþenanna búa í héraðinu. Stór hluti þeirra býr í öðrum héruðum Úkraínu og í nágrannalöndunum, eins og Karpatahéruðum Slóvakíu og Póllands og meira að segja í fyrrum lýðveldum Júgóslavíu.

andy_warhol_self_portraitÞekktasti Rúþeni allra tíma er oft sagður vera yfirfígúran og listamaðurinn Andy Warhol. Þegar hann var spurður hvaðan hann væri ættaður mun Warhol gjarnan hafa svarað að hann kæmi „from nowhere". Foreldrar Warhol voru innflytjendur frá Slóvakíu, en áttu ættir að rekja til héraðanna þar austan af og hafa mögulega verið Rúþenar (þó það sé reyndar óljóst; kunna að hafa verið af úkraínskum ættum). Warhol hitti þarna á góðan punkt; mörgum Rúþenum þykir einmitt erfitt að staðsetja rætur sínar og uppruna. Það er vandamál sem við Íslendingar þekkjum ekki hér á Klakanum góða.

Nú hefur skyndilega færst nýr kraftur í sjálfstæðissinna í Rúþeníu, undir forystu manns að nafni Pétur Geitskór  (reyndar heitir hann Petr Getsko). Það var í desember s.l. (2008) að Getsko ásamt nokkrum áhangendum lýsti yfir sjálfstæði Rúþeníu. Og þessi fríði flokkur útnefndi Getsko sjálfan sem forsætisráðherra hins nýstofnaða ríkis.

Europe_Gas_PipelinesÞetta uppátæki er einungis táknrænt og hefði hugsanlega ekki vakið mikla athygli, nema fyrir það að í viðtölum við fjölmiðla var Getsko sérlega duglegur að benda á eina markverða staðreynd. Nefnilega þá, að stór hluti af öllu gasinu frá Rússlandi til Evrópu fari um leiðslur sem liggja um Rúþeníu - þetta vestasta hérað Úkraínu.

Það á enn eftir að koma í ljós hvort eitthvað verður úr digurbarkalegum yfirlýsingum Getsko‘s um sjálfstæða Rúþeníu. Rætnar tungur segja að þarna hafi hann einungis fengið sínar 15 mínútur af frægð. Sem kunnugt er var það einmitt Rúþeninn Andy Warhol, sem mælti á sínum tíma þessi fleygu orð: „In the future, everyone will be world famous for 15 minutes". Warhol virðist svo sannarlega hafa séð Internetið fyrir.

Hvernig svo sem fer með sjálfstæðisyfirlýsingu Getsko's og fylgismanna hans, þá væri örugglega gaman að koma til Rúþeníu. Karpatafjöllin eru enn nokkuð óspillt og þar eru t.d. gríðarlega mikil tækifæri í uppbyggingu vetraríþróttasvæða.

zakarpattia-snowy_mtsEn Rúþenía lifir ekki aðeins sem gömul saga eða von um nýtt ríki. Það er nefnilega til frumefni (málmur) sem kallað er rúþen (ruthenium) og er talið geta nýst í sólarsellutækni. Nánar tiltekið við gerð sérstakra örþunnra sólarsella, sem eiga að verða margfalt hagkvæmari en núverandi sellur (Orkubloggið hefur að sjálfsögðu áður minnst á þessar s.k. thin-film  sólarsellur). Þannig tengist bæði Rúþenía og rúþenið Orkublogginu...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

alltaf áhugaverd lesning hjá ter..

 datt i hug ad senda ter tessa frétt um thorium i landnámi Eiríks rauda

http://sermitsiaq.gl/indland/article93851.ece

Baldvin Kristjánsson, 24.8.2009 kl. 13:27

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Ketill Sigurjónsson, 24.8.2009 kl. 13:49

3 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Ákaflega skemmtilegt og fróðlegt blogg, saga, nútíð og framtíð í vel uppbyggðri frásögn frá landsvæði sem mér finnst ég vita allt of lítið um.

Hólmfríður Pétursdóttir, 24.8.2009 kl. 13:52

4 Smámynd: Loftslag.is

Enn ein frábær færsla frá þér. Takk fyrir mig.

Loftslag.is, 24.8.2009 kl. 15:33

5 identicon

skemmtileg færsla, skemmtilega uppsett og áhugavert viðfangsefni, en passar því miður alls ekki í svona litla bloggfærslu. Vekur eflaust áhuga margra sem þekkja hvorki svæðið né söguna.

Þrennt truflar mig samt í greininni (við fyrsta lestur):

1. Að finna "Hjarta Evrópu" þarna finnst mér ansi hæpið. Geographical and cultural.

2. Setningin "Þess má líka geta að við upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar bjó mikið af gyðingum í héraðinu og voru þeir allir með tölu fluttir til Auschwitz og gjörsamlega útrýmt" er ótrúlega illa skrifuð. Svona þarf að útskýra betur og fara varlegar með lýsingarorð, töluorð og viðfangsefnið yfirhöfuð.

3. Fyrst heldur þú fram að Andy Warhol "gæti mögulega verið" Rúþeni, seinna segir þú að "Rúþeninn Andy Warhol" hafi sagt eitthvað.

Þetta er vissulega smá nöldur, en eftir að hafa lesið margar greinar eftir þig hér, sem allar voru betur skrifaðar, finnst mér þú ættir að geta tekið við smá gagnrýni.

Valgeir (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 19:37

6 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Málefnaleg gagnrýni er ávallt vel þegin. En ég vona líka að lesendur taki sumar færslurnar ekki alltof alvarlega. Þetta er blogg; ekki fræðirit.

Má samt til með að svara þessu. Stenst ekki mátið.

1) Hjarta Evrópu: Geimvera sem skoðar kort af Evrópu ætti að geta fallist á að miðja álfunnar sé e.h.st. í nágrenni landamæra Slóvakíu og Úkraínu. En hvar hjartað liggur er líklega umdeilanlegra. Fyrir mér er Ísland auðvitað bæði hjarta og miðja heimsins! En það er allt önnur saga.

2) Gyðingarnir: Kannski ekki endilega illa skrifuð setning, en vissulega órökstudd fullyrðing.

3) Andy Warhol er víða sagður hafa átt rætur að rekja til Slóvakíu, en sumir segja foreldra hans hafa verið ættaða frá Karpatafjöllunum þar sem Rúþenía liggur. Hver sannleikurinn er um ætterni Warhol's hef ég satt að segja ekki minnstu hugmynd um.

M.ö.o. þá er þessi færsla bull að megninu til. Með einhverju örlitlu sannleikskorni.

Ketill Sigurjónsson, 24.8.2009 kl. 20:36

7 identicon

Takk fyrir gott svar! Nú sérð þú hvað ég met þín skrif mikils (að nenna yfirhöfuð að standa í að nöldra í þeim...). 

Valgeir (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 20:58

8 identicon

Stórfróðleg og skemmtilega skrifuð færsla, eins og fyrri færslur. Ekki vissi ég að Hergé hefði hugsanlega sótt fyrirmyndina að Syldavíu og Bordúríu til Rúþeníu. Leynivopnið og Veldissproti Ottókars voru alltaf uppáhalds Tinnabækurnar mínar.

Óli Jón Jónsson (IP-tala skráð) 29.8.2009 kl. 00:19

9 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Sú kenning að Hergé hafi þarna m.a. horft til Rúþeníu er reyndar mín eigin. Oftast er Syldavía og nágrenni sögð vera blanda sem Hergé bjó til úr Balkanlöndunum. Einkum fyrrum Júgóslavíu.

Eldflaugastöðin gerist líka í Syldavíu og hún var ávallt mitt uppáhald. Ásamt framhaldinu á Tunglinu og bókunum tveimur um Inkagullið. Fyrstu Tinnabókina eignaðist ég 7 eða 8 ára; það var Fangarnir í Sólhofinu og allt síðan þá hef ég litið á hana nánast sem helgan grip!

Ketill Sigurjónsson, 29.8.2009 kl. 10:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband