Sjávarfalla- og hafstraumsvirkjanir við Ísland

Straumar_kringum_Island

Straumar við Ísland koma upp að landinu við suðvesturhornið og halda svo að mestu áfram réttsælis í kringum landið, nema hvað tunga klofnar frá Golfstraumnum sunnan við landið og fer austur með suðurströndinni.

Sjávarfallastraumarnir við Ísland fylgja í megindráttum stefnu hafstraumanna og fara réttsælis kringum landið. Um strauma inni á fjörðum Íslands gildir aftur á móti að þar virðist straumurinn almennt fara rangsælis (uppl. frá Hafró). Um þetta eru þó ekki til nákvæmar mælingar nema í fáeinum fjörðum. 

Kortið hér að neðan  sýnir sjávarfallastrauma í Arnarfirði. Það er birt með góðfúslegu leyfi Hafrannsóknastofnunar og sama gildir um kortið hér að og ofan, svo og Íslandskortið hér lítið eitt neðar í færslunni.

Straumar_ArnarfjordurÁ Orkuþingi 2006 kom fram að ekki væri hagkvæmt að ráðast í sjávarfallavirkjun hér við land nema þar sem sjávarstraumarnir eru a.m.k. 8–10 m/s (sbr. erindi Geirs Guðmundssonar; „Sjávarorka og möguleg virkjun sjávarfalla við Ísland“). Sú niðurstaða er byggð á lauslegum útreikningum á líklegum kostnaði við síkar virkjanir miðað við hefðbundnar virkjanir á Íslandi.

Ýmsar straummælingar hafa verið gerðar við Ísland í gegnum tíðina. Siglingastofnun hefur í samstarfi við íslenskar verkfræðistofur þróað sjávarfalla- og sjávarstraumalíkan og með því er hægt að áætla straumhraða við strendur landsins.

Sjávarfallalíkanið nýtist  vel til að fá upplýsingar um strauma, straumrastir og sjávarflóð. Það nær yfir allt hafsvæðið umhverfis Ísland, en þó ekki langt inn í firði. Þar þarf því að gera sérstakar straummælingar til að fá nákvæmari vitneskju um straumana.

Straumar_vid_Island

Fram til þessa hafa slíkar straummælingar takmarkast við svæði sem þurft hefur að rannsaka vegna sérstakra framkvæmda. Þar má t.d. nefna straummælingar í Héraðsflóa vegna umhverfismats tengt Kárahnjúkavirkjun og mælinga í Reyðarfirði vegna fyrirhugaðs álvers og siglinga flutningaskipa þangað.

Styrkur sjávarfallastrauma við Ísland er mjög mismikill. Hraðinn ræðst af landslaginu, svo sem grynningum, þrengingum o.fl. Langsterkust eru sjávarföllin i Breiðafirði. Á nokkrum stöðum er að finna nokkuð öflugar straumrastir, svo sem við Reykjanes og Látrabjarg. Þá hefur veður mjög mikil áhrif á strauma inni á fjörðum.

Hvammsfjordur

Til þessa hefur sjávarfallavirkjun við Breiðafjörð yfirleitt verið talin besti og jafnvel eini raunhæfi möguleikinn á sjávarvirkjun við Ísland. Í Breiðafirðinum er hátt í 5 m munur á stórstraumsflóði og -fjöru og straumhraðinn í Röst við mynni Hvammsfjarðar hefur verið talinn geta farið yfir 10 m/s við bestu aðstæður (þessi tala kann þó að vera ofáætluð). Þarna gæti verið tækifæri til að framleiða talsvert mikla raforku með hagkvæmum hætti og virkjunina mætti byggja í áföngum og t.d. byrja fremur smátt. 

Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á styrk sjávarfallanna á svæðinu og straumunum þar. Árið 2001 var stofnað fyrirtækið Sjávarorka ehf. til að rannsaka möguleika á virkjun sjávarfalla í Breiðafirði og hafa forystu um slíka virkjun. Unnið hefur verið að dýptar- og straummælingum og kortlagningu svæðisins. Einnig hafa verið skoðaðar mismunandi tegundir af hverflum, en engin ákvörðun mun hafa verið tekin um framhaldið.

Breidafjordur_kort

Helsti kostur þessa staðar fyrir sjávarfallavirkjun gæti reyndar einnig skapað vandkvæði. Hugsanlega er straumurinn þarna svo sterkur að hann mundi valda erfiðleikum við viðhald virkjunarinnar. Þá er óvíst um umhverfisáhrif virkjunarinnar og einnig má hafa í huga að langt er í næsta stórnotanda (stóriðjuna á Grundartanga í Hvalfirði). Þarna eru sem sagt fyrir hendi margir óvissuþættir sem kanna þarf miklu betur áður en unnt verður að meta hagkvæmni svona sjávarfallavirkjunar.

Skylt er að nefna að fyrr á tíð var starfrækt lítil sjávarfallavirkjun við Brokey á Breiðafirði, sem var notuð til að mala korn en ekki framleiða rafmagn (sem sagt e.k. sjávarmylla). Gríðarleg orka er í sjávarföllunum á Breiðafirði og harla óskynsamlegt væri að veita henni ekki meiri athygli; mikilvægt er að skoða þessa möguleika enn betur. 

reykjanes_1

Sama má segja um aðra virkjunarmöguleika af þessu tagi við Ísland, t.d. þann fræðilega möguleika að seta upp straumvirkjun í Reykjanesröstinni. Athyglisvert er að í nágrenni við það svæði eru einnig grynningar (Hraun út af Garðskaga) sem gætu reynst góð staðsetning fyrir stóra vindrafstöð. Allt er þetta þó órannsakað ennþá.

Loks má nefna að nokkrir viðmælendur Orkubloggarans úr hópi fagfólks, nefndu þann möguleika að Hrútafjörður  gæti verið áhugaverður staður fyrir sjávarfallavirkjun.

Almennt má reyndar segja að Vestfirðir kynnu að henta vel fyrir sjávarvirkjun. Þar er  raforkuframboð ótryggt og sérstaklega mikilvægt að skoða alla virkjunarkosti. Þar koma kannski enn frekar til skoðunar ölduvirkjun eða osmósuvirkjun, heldur en sjávarfallavirkjun. Að þessu verður vikið nánar í næstu tveimur færslum.

---------------------------------------------------------

Í næstu færslu verður fjallað um ölduvirkjanir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Ingólfsson

Stórgóður pistill. Þetta er spurning um náttúrulegar aðstæður og tækni við að virkja sjávarfallastrauma.

Ólafur Ingólfsson, 27.4.2009 kl. 13:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband