Deepwater Horizon

Það stefnir í mesta olíumengunarslys í Mexíkóflóa í þrjátíu ár.

deepwater_horizon_burning_1_986977.jpg

Fyrir um tíu dögum kviknaði eldur á olíuborpallinum Deepwater Horizon og varð sprenging, sem olli því að nokkrir af áhöfninni fórust. Pallurinn stóð brátt í ljósum logum og sökk um sólarhring síðar.

Olían heldur áfram að streyma úr borholunni og er ófyrirséð hversu mikið tjónið verður. En ef illa fer gæti þetta mengunarslys jafnvel slagað í megamengunina, sem varð vegna bilunarinnar í Pemex-pallinum Ixtoc innan lögsögu Mexíkó árið 1979. Þá hreinlega gusaðist olía úr borholunni beint í sjóinn í heila tíu mánuði!

Það er BP sem er stærsti hluthafinn í verkefninu sem Deepwater Horizon var að stússa í og hefur félagið þegar fengið talsvert högg áhlutabréfamörkuðum vegna slyssins. Það er reyndar svo að pallurinn er leigður frá risaborunarfyrirtækinu Transocean og ekki útilokað að ábyrgð vegna slyssins muni að einhverju leyti leggjast á Transocean. Niðurstaða þar um mun þó varla liggja fyrir fyrr en eftir löng málaferli vestur í Bandaríkjunum.

transocean_s_deepwater_horizon_rig_986978.jpg

Deepwater Horizon var að mörgu leyti dæmigerður flotpallur, sem hannaður er til olíuborunarverkefna á miklu dýpi. Þetta var nú samt enginn venjulegur pallur, því þarna var á ferðinni sannkallaður meistari djúpsins. Undanfarinn áratug hefur pallurinn verið á flakki um Mexíkóflóann og borað nokkra gríðarlega djúpa brunna fyrir olíufélögin, sem undanfarin ár hafa gert dauðaleit að olíu á djúpinu mikla - bæði utarlega í Flóanum og í gljúfrunum sem teygja sig inn eftir landgrunninu.

Þessi fljótandi borpallur á hvorki meira né minna en heiðurinn af dýpstu olíuborholu heimsins til þessa. Það var í september í fyrra (2009) að Deepwater Horizon boraði niður á rúmlega 10,5 km dýpi og þar af rétt rúmlega 9 km undir hafsbotninn! Umræddur ofurbrunnur er á svæði nefnist Tíber og er ein af þessum svakalegu olíulindum sem fundist hafa undir Mexíkóflóanum á allra síðustu árum. Vinnsla af svo miklu dýpi er þó gríðarlega erfið og flókin, enda er þarna komið niður í ofsalegan hita. Þess vegna má líka lítið út af bera til að illa fari - eins og nú hefur gerst.

Eftir glæsilegan árangur sinn við Tíber s.l. haust hélt Deepwater Horizon á vit nýrra ávintýra í Flóanum. Að reit nr. 252 í Mississippi-gljúfrinu, einungis um 40 sjómílur suður af strönd Louisiana. Svæðið þarna kallast Macondo og voru vonir bundnar við að þar mætti ná niður á enn eina risaolíulind. Og það þótti sterkur leikur hjá BP þá um haustið, að tryggja sér leigu á pallinum langt fram á árið 2013. Jafnvel þó svo dagsleigan sé hálf milljón dollarar!

En skjótt skipast veður í lofti. Nú er saga hins glæsta Deepwater Horizon skyndilega öll. Eftirmálinn gæti þó orðið ennþá lengri. Ellefu manns munu hafa farist við sprenginguna (áhöfnin á pallinum varsamtals 126 manns). Leifarnar af pallinum hvíla á hafsbotni og nú streymir olía upp úr borholunni af óradýpi án þess að neitt virðist við ráðið.

exxon_valdez_stranded.jpg

Menn eru jafnvel farnir að líkja þessu við mengunarslysið sem varð í Alaska þegar risaolíuskipið Exxon Valdez strandaði á rifinu kennt við hinn alræmda en bráðsnjalla skipstjóra William Bligh. Það var í mars 1989 og þó svo oft hafi miklu meiri olía lekið í sjóinn en frá Exxon Valdez eru afleiðingar mengunarinnar taldar gera slysið eitthvert alversta olíumengunarslys allra tíma. A.m.k. fram til dagsins í dag, þegar Deepwater Horizon kann að taka við þeim vafasama heiðri.

Til samanburðar má nefna að talið er að alls hafi lekið "skitnar" 250-260 þúsund tunnur af olíu frá Exxon Valdez. Olían sem fór í sjóinn frá Ixtoc-brunninum í alls tíu mánuði nam um 10-30 þúsund tunnum á dag! Sem sagt hugsanlega allt að 9 milljón tunnur af olíu í sjóinn þar - þó svo opinbera talan sé reyndar 3-4 milljón tunnur. Sennilega veit enginn fyrir víst hversu mikil olía þetta var, sem þá lak út í Flóann í lögsögu Mexíkó, en það má a.m.k. fullyrða að það hafi jafngilt nokkrum stútfullum risaolíuskipum. Ixtoc var sannkölluð martröð, en sökum þess að slysið var í lögsögu Mexíkó var lítið um hreinsunaraðgerðir - a.m.k. í samanburði við það sem nú er á seyði út af Suðurríkjum Bandaríkjanna.

Nú lítur út fyrir að á hverjum sólarhring leki á bilinu 5-25 þúsund tunnur af olíu frá borholunni sem kennd er við Deepwater Horizon (í fyrstu fullyrti BP reyndar að þetta væru einungis um eitt þúsund tunnur á sólarhring). Þarna kunna sem sagt nú þegar að vera komnar yfir 250 þúsund tunnur af olíu í sjóinn og allsendis óvíst hversu langur tími mun líða þar til tekst að stöðva lekann. Hafdýpið þarna er um hálfur annar km og ekki hlaupið að því að stinga tappa í mörg þúsund metra djúpa borholuna.

deepwater_horizon_burning_2_986980.jpg

Deepwater Horizon var sannkallað tækniundur. Þessi flotpallur var smíðaður í S-Kóreu árið 2001 og var hannaður til að athafna sig á hafsvæðum þar sem dýpið er allt að 2.400 m. Hámarksbordýpt pallsins var rétt yfir 9 km niður undir hafsbotninn.

Í heimi þar sem eftirspurn olíuleitar-fyrirtækjanna eftir svona ofurborpöllum er langtum meiri en framleiðslugeta smíðastöðvanna, verður Deepwater Horizon sárt saknað. Og miðað við það að málaferlin vegna Exxon Valdez stóðu yfir í um tuttugu ár, er augljóslega óralangt í að niðurstaða muni liggja fyrir um bótaábyrgð vegna þessa nýjasta olíumengunarslyss. Jafnvel þó svo einungis tveimur dögum eftir atburðinn hafi fyrstu skaðabótamálin gegn BP verið þingfest! Þar var um að ræða dómsmál af hálfu aðstandenda einhverra þeirra starfsmanna á pallinum, sem er saknað og taldir af.

ixitoc-oil-spill.jpg

Sumir fjárfestar hafa kannski líka verið snöggir - og hlaupið til og sjortað BP um leið og fyrstu óljósu fréttirnar bárust af eldinum. Þeir gætu hafa hagnast vel. Þó varla eins vel eins og nokkrir ónefndir íslenskir snillingar, sem stukku til um leið og stóra gosið byrjaði í Eyjafjallajökli. Og sjortuðu evrópsk flugfélög áður en markaðurinn áttaði sig á yfirvofandi röskunum á flugi. Já - þetta er svo sannarlega ljúfur heimur. Það er alltaf hægt að finna matarholur sama hvaða óáran dynur yfir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Þetta er skemmtilegt.

En ég bíð spenntur eftir útteket á honum Nathaniel litla.

Hann er með svo margt áhugavert í sínum grautar pottum.

Sigurjón Jónsson, 4.5.2010 kl. 21:27

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Myndband sem útskýrir olíulekann:

http://www.youtube.com/watch?v=XLiqvZOP8TY&feature=related

Ketill Sigurjónsson, 5.5.2010 kl. 14:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband