Nótt í Moskvu

Stundum er sagt að neyðin kenni naktri konu að spinna. Sú björgunaraðgerð sem helst hefur verið horft til síðustu dagana er að fá lán frá Rússum. En aðrir vilja heldur ganga bónveg til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Sem er dáldið eins og segja sig á hreppinn - og því kannski í anda þjóðar í fjötrum.

Margaret-Queen-I

Orkubloggið gælir þó við aðra leið. Mig hefur nefnilega lengi dreymt um endurreist Kalmarsamband. Tóm vitleysa að Norðurlöndin séu að pukra þetta sitt í hvoru horni. Með sinn hvern gjaldmiðilinn og meira að segja klofin í Evrópusambandsaðildinni. Fjölskyldan þarf að sameinast - og nú er svo sannarlega ekki versti tíminn til þess.

Sem kunnugt er varð Kalmarsambandið til sem sameinað ríki Norðurlandanna, undir henni Margréti Valdimarsdóttur, drottningu. Sem stundum er líka kölluð Margrét fyrsta - og nú ríkir einmitt Margrét önnur í Danaveldi. Hvar íslenskir útrásarvíkingar hafa gert mikið strandhögg, en kunna senn að verða hraktir til hafs á ný. Vonum bara að það kosti ekki blóði drifið Kóngsins Nýja Torg.

Danir hafa átt ofurlítið erfitt með að skilja hvernig "við" gátum hirt bæði Magasin og Hotel d'Angleterre - þessar tvær glæsibyggingar sem setja hvað mestan svip á þetta flottasta torg Kaupmannahafnar. Kannski ekki að undra þó aðeins hlakki í fjárans Danskinum þessa dagana. 

Kalmar_Union.svg

Ekki ætla ég að hætta mér í miklar skilgreiningar á Kalmarsabandinu. En læt nægja að minna á að sambandið var myndað seint á 14. öld og tórði fram á 16. öld. Það lifði m.ö.o. einungis í rúma eina öld. En meðal afleiðinga þessarar ríkjasamvinnu var að Ísland færðist úr yfirráðum Noregs og til Danmerkur. Sem er auðvitað mesta ógæfa okkar - því annars sætum við hér smjattandi á krásum góðum með guðaveigar í glasi og banka fulla af norskum krónum.

Jamm. Íslands óhamingju verður allt að vopni. En ég bind ennþá vonir við nýtt Kalmarsamband. Þar sem núverandi þjóðþing verða eins konar fylkisþing með sjálfræði í flestum málum líkt og fullvalda ríki. Nema hvað aðeins verður ein utanríkisstefna, ein mynt og einn Seðlabanki. Þetta yrði evrópskt stórveldi með öflugasta sjávarútveg í heimi, háþróaðan iðnað, heilbrigðan og öflugan landbúnað og glæsilega hönnun og hugvit. Og um 25 milljón íbúa  - því auðvitað yrðu öll Norðurlöndin með. Ekki má heldur gleyma að þarna færi eitthvert sterkasta olíu- og orkuveldi í hinum vestræna heimi.

Sjálft alríkisþingið - Althinget - yrði auðvitað í Kalmar (vinsamlegast sendið landráðakærur beint til ljúflingsins Ríkislögreglustjóra). Reyndar litist mér betur á að hafa það í Noregi. En Svíarnir myndu aldrei fallast a það, enda langfjölmennasta þjóð Norðurlandanna.

Því miður verður þetta líklega aldrei af veruleika. Af sams konar ástæðum og það hversu erfiðlega gengur að sameina hreppa á Íslandi. Og fyrir vikið endar Ísland líklega í faðmi Rússa. Sem kannski er reyndar alls ekki svo slæmur kostur. A.m.k. hafa Rússar lengst af sýnt okkur meiri velvild en t.d. Bretar. Voru ávallt reiðubúnir að kaupa af okkur nánast hvað sem var hér í Den. Ekki síst s.k. gaffalbita, sem var varla matur. Í staðinn fengum við t.d. olíu á miklu hagstæðari kjörum en okkur bauðst annars staðar. Og aldrei voru Rússarnir neitt að bögga okkur - fyrir utan að hafa kannski beint að okkur nokkrum kjarnaflaugum svona just in case.

Basil_moskva.jpg

En svona til að segja eitthvað af alvöru: Ég satt að segja botna ekkert í frændþjóðum okkar að sitja aðgerðarlausar og horfa á íslensku efnahagslífi blæða út. Og Norðmenn munu naga sig í handarbökin þegar Rússar verða búnir að ná hér áhrifum í skjóli peninganna sinna. Og mynda ógnvænlegan hálhring um Noreg.

Þó svo ég hafi notið þess að standa einn á Rauða torginu eina ískalda nóvembernótt og dáðst að furðulegri dómkirkjunni þarna gegnt Kreml, líst mér ekki alveg á það hvernig málin eru að þróast. Kannski gerist hið ómögulega. Þegar Skandinavísku bankarnir byrja líka að hrynja. Og nýtt Kalmarsamband mun rísa úr öskustó nýfrjálshyggjunnar.


mbl.is Vill fá aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Ég veit ekki hvort þetta sé raunhæft. En ég hef velt þeim möguleika fyrir mér að fara í úllen dúllen doff aðferðina og velja á milli að ganga inn í Svíþjóð, Dannmörku eða Noreig.

Þar að segja ef þeir vilja annað borð eitthvað með okkur hafa

Við erum jú Vandræðaunglinurinn á heimilinu .... það er ljóst.  

Brynjar Jóhannsson, 10.10.2008 kl. 00:20

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Þá myndi ég velja Noreg. Hef ætíð dáðst að þeim Nansen og Amundsen og Heyerdahl. Og ekki skemmir olíuauðurinn. Svo held ég að það hafi verið Norðmaður sem skrifaði sjoppuruslið ljúfa um Morgan Kane!

Þetta væri sáraeinfalt mál. Norðmenn telja sig hvort sem er eiga bæði Leif Eiríksson og Snorra. Ætti varla að vera flóknara en að panta pylsu og kók í sjoppu.

Ketill Sigurjónsson, 10.10.2008 kl. 00:25

3 identicon

Allt þetta tal um vináttu og ættingjaþjóðir okkar á Norðurlöndum-- giv mí a breik.

Norðurlandaþjóðirnar hafa alltaf litið niður á Íslendinga, sem hentugt eintak af þeim fáu þjóðum í heiminum sem þeir geta þóttst æðri og betri. Og Kalmarsambandið er ekki til lengur og hefur ekki verið vegna þess að það var dedd onn arræval. Ketill, blessaður leyfðu þér ekki einu sinni að dreyma í gamni um að reisa upp þann helvíska draug.

Ég hafði gaman af því í den tíð að benda á að eina þjóðin í heiminum sem liti upp til Íslendinga væru Færeyingar. Ástæðan sú að við sögðum skilið við Baunann en það er bara fjarlægur draumur fyrir þeim. En ég vill ekkert með þá annars hafa fyrir grindadráp.

Ég hef ákveðið að gefa ekki túkall fyrir vinskap við Norðurlandaþjóðir og var sú ákvörðun tekin fyrir mörgum árum. Ég hef ekkert heyrt eða lesið sem fær mig til að endurskoða þá ákvörðun.

Eigum við Íslendingar þá einhverja vini? Nei, eins og alltaf þá eru bara til tækisfærisvinir. Bandaríkjamenn voru okkur góðir tækisfærisvinir--þeirra tækisfæri--um tíma. Gætu orðið aftur. Marshall-aðstoðin var ekkert til að fúlsa við og aldrei hafa neinir aðrir boðið betur.

Reyndar verð ég að segja að Rússar hafa í sjálfu sér verið okkur ókei. Við seldum þeim málningu í gamla daga sem sennilega hefur flagnað upp áður en hún þornaði á þeirra veggjum en þar sem í Sovétríkjunum allir áttu allt en enginn ekkert þá var þeim nokk sama. Gott að hafa slíka kúnna; fáir hafa verið okkur hentugri. Og ólían þeirra brann vel og enginn dallur drap á vél meðan dropi var í tankinum. Góð skipti þau.

Gallinn við að gera skipti við þá nú er að við höfum ekkert við þá að skipta. Nema landið og sálina. Sem þeir vilja kaupa. Vill Davíð selja? Getur það verið? Bæðevei, fengju þeir ekki sjálfstæði þjóðarinnar frítt sem óverðlagt ýmislegt eins og málverkin í Landsbankanum um árið. Vænott.

Það er kaldhæðnislegt að hugsa til þess að á þessari löngu valdavakt Davíðs, Hannesar Hólmsteins og kó þá hafa þeir, 1) misst varnarliðið úr landi, 2) gert þjóðina gjaldþrota og eyðilagt æru frjálshyggjunnar, og 3) selt landið í hendur Rússum (kannski). Hvílík þrenna! hú vúdd hav þönk itt?

Logi Gunnarsson (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 03:22

4 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Það væri vel hægt að taka fyrsta skrefið: Samnorrænur seðlabanki og samnorræn króna. Það yrði einn af öflugustu gjaldmiðlum í heimi. Með feikilega hráefnisöflun (olía, gas, timbur, landbúnaður, fiskur, járngrýti, þórín?, vatnsorka, vindorka, kjarnorka og svo frv), iðnaður og mannauður.

Ég væri mjög hrifinn af því að vera hluti af 25 milljón manna norrænni þjóð, með sameiginlegt hagkerfi, utanríkismál, varnar og öryggismál.

Það væri bara mjög flott. Svo væri bara öflug sveitastjórn sem stýrði málum hér á landi. Mætti kannski skiptalandinu í tvennt, frá Miklubraut og Hringbraut, norður á Langanes. Svo yrði það bara Suðurlén og Norðurlén.

Snilld!

Júlíus Sigurþórsson, 10.10.2008 kl. 04:43

5 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

var einmitt að velta fyrir mér hvað kóngurinn í noregi heitir...

en rifjaði svo upp hvað gerðist svo... noregur féll stuttu síðar, kalmar var aldrei nema tilraun til að vega upp á móti þýskalandi, ísland féll í hendur þýskalandseyrar og landinn varð að útnáralýð.

nú er búið að reyna í 100 ár að endurvekja íslands fornaldar frægð og aftur virðist tilraunin hafa mistekist.

fátt breytist - öll löndin eru söm við sig! Eins og að líta í spegil að kíkja í sögubækur.

Hvaða leið er fær?

Endurtaka hringrásina, eða eru einhver ný spil komin á hendi árið 2008?

með kveðju frá Grænlandi (sem líka féll undir noreg árið 1261 og svo... í eyði)

Baldvin Kristjánsson, 10.10.2008 kl. 11:07

6 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Þessi samnorræna þjóð án dana væri fínt :)

Besta lausnin fyrir ísland væri að ganga norðmönnum á hönd og gerast 20 fylkið í noregi.. gamli sáttmáli er enn virkur skv ströngustu skilgreiningu laga..  

Óskar Þorkelsson, 10.10.2008 kl. 12:24

7 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Jamm - sameinaður Noregur og Ísland er málið. En ég held ég myndi ekki trysta mér að hafa einhvern kóngsa yfir öllu saman. Sem þar að auki er með danskt blóð í æðum. Hnuss.

Ketill Sigurjónsson, 10.10.2008 kl. 12:36

8 identicon

Komdu sæll Ketill.Það er alltaf gaman að lesa Bloggið þitt.Mér list vel á þetta

Ég held að það væri betra að halla sér að Rússum við þurfum nýja vini .Ég vann í Rússlandi í 6 ár gott fólk þar.Ég stóð á rauða torginu á februar morgni

langaði að sjá grafhysi Lenins var of snemma ekki búið að opna

Það var svo kald að ég for í kirkjuna sem er þarna .Ansi merkilegt

ingo skulason (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 17:31

9 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Já - smurlingurinn ljúfi liggur þarna enn Ég ætlaði einmitt að kíkja á hann síðasta morguninn. En kvöldið á undan lenti ég í hremmingum við spillta Moskvulögregluna. Sem hótaði að stinga mér í dýflissu því vegabréfið mitt væri ekki í lagi. Frekar pirrandi. Þegar ég kom að Rauða torginu morguninn eftir var búið að girða torgið af og allt krökkt af löggum. Var búinn að fá mig fullsaddan á kumpánum í einkennisbúningum. Þannig að ég sleppti Lenín og hélt þess í stað til innkaupa á glæsibúluvarðinum Tverskaya.

Ketill Sigurjónsson, 10.10.2008 kl. 18:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband