Óskalandið?

Orkuboltinn Kanada er að gera allt vitlaust í einhverri alsóðalegustu olíuvinnslu heims. Olíuvinnslu úr olíusandinum í kringum Athabasca-fljótið, á mörkum hins byggilega heims norður í Alberta.

FM_Athabasca_Icelandair_2Orkubloggarinn var svo heppinn fyrir örfáum dögum að fljúga beint yfir miðpunkt kanadíska olíusandævintýrisins í björtu og fögru veðri. Yfir krummaskuðið Fort McMurray, hvar friðsæld barrskógana hefur heldur betur verið rofin af stærstu skurðgröfum heims, sem skófla upp jarðveginum til að kreista megi olíuna úr þessu undarlega sandklístri. Þettanýjasta olíuævintýri veraldarinnar hefur skapað einhverja mestu dýrtíð sem sögur fara af. Maður þorir varla að hugsa til þess hvað kaffibolli og kleinuhringur kostar á Bills Inn í Fort McMurray þessa dagana. Hvað þá húsaleiga fyrir rottuholu í kjallara. Sem sagt land tækifæranna - eða ofþenslunnar?

Bloggaranum til mikillar ánægju var nánast heiðskýrt þegar þota Icelandair flaug beint yfir Fort McMurray. Og auðvitað hlýnaði Orkubloggaranum um hjartarætur þegar sjá mátti Athabaska-fljótið í öllu sínu veldi liðast um gjöreyddan greiniskóginn. Varla hægt að fá skýrari og táknrænni sýn um kolsvarta framtíð olíuvinnslu. Myndin hér að ofan var einmitt tekin af bloggaranum við þetta tækifæri. Úr 30 þúsund feta hæð! Ef hún birtist sæmilega skýr eiga lesendur að geta séð Athabasca ána nokkuð greinilega.

Allt útlit er fyrir að kanadíski olíusandurinn geymi stærstu óunnu olíulindir veraldar. Á sama tíma og efasemdarraddirnar um að Sádarnir eigi enn jafn mikla olíu í jörðu eins og þeir sjálfir segja verða æ háværari, eru sífellt fleiri sem telja að kanadíski olíusandurinn eigi eftir að skila tugum og jafnvel hundruðum milljarða tunna af olíu úr jörðu. Þar með er Kanada einfaldlega mesta olíuveldi heimsins. Enda vart ofsagt að það ríki algjört gullæði í kanadísku olíusandveislunni í óbyggðum Alberta.

Canada_electricity_generation_2008En Kanadamenn eru ekki aðeins sigurvegarar orkugeirans þegar talað er um olíu. Kanada er nefnilega líka það land sem hefur náð hvað lengst í að nýta endurnýjanlega orku. Þar kemur til gríðarlegt afl kanadísku fallvatnanna. Lengi vel framleiddu Kanadamenn um 75% af öllu rafmagni sínu með vatnsafli. Síðustu árin hefur þetta hlutfall lækkað eilítið eða í um 60%. Afgangurinn (um 40% rafmagnsins) er nánast allur framleiddur með kjarnorku, kolum og gasi. Nýju kanadísku vindrafstöðvarnar eru enn algert smáræði í heildarsamhenginu - þó svo vinorkan sé vissulega sá hluti orkugeirans sem hefur vaxið hlutfallslega mest í Kanada síðasta áratugina (uppsett afl nú hátt í 3 þúsund MW).

Kanada var lengi það land sem stóð fremst í virkjun vatnsaflsins. Þ.e. hafði virkjað flest MW. Í dag hafa Kínverjarnir yfirtekið þann sess, en Kanada er þó enn með sterka stöðu í öðru sætinu. Samkvæmt tölfræðiteyminu frábæra hjá BP er uppsett vatnsafl í Kína nú 170 þúsund MW, Kanada er með u.þ.b. 90 þúsund MW og í þriðja sæti koma Bandaríkin með 80 þúsund MW (Brasilíumenn framleiða reyndar meira rafmagn með vatnsafli en Bandaríkin, en eru í fjórða sæti m.v. uppsett afl með „einungis" 69 þúsund MW).

Kanadamenn byrjuðu snemma að reisa vatnsaflsvirkjanir og náðu strax afar góðum tökum á tækninni. Fyrstu umtalsverðu vatnsaflsvirkjanirnar risu þar fyrir aldamótin 1900 og fljótlega urðu borgir og bæir víðsvegar um Kanada upplýstar með rafmagni. Rafmagnið nýttist einnig til að knýja sögunarmyllur og alla tíð síðan hefur vatnsaflið verið mikilvægasti raforkugjafi Kanadamanna og varð undirstaða gríðarlegs áliðnaðar í landinu.

Canada_electricity_2006Í dag eru kanadísku vatnsaflsvirkjanirnar hátt í fimm hundruð talsins og uppsett afl þeirra samtals um 90 þúsund MW, sem fyrr segir. Það samsvarar um 120 stykkjum af Kárahnjúkavirkjun. Ársframleiðsla kanadísku vatnsaflsvirkjananna árið 2008 var um 370 teravattstundir (TWh). Til samanburðar þá framleiddu íslensku vatnsaflsvirkjanirnar 11.866 GWst (11,9 TWH) árið 2008. Orkustofnun telur að miklu meira rafmagn megi framleiða með íslenska vatnsaflinu; að líklega megi ná þar 35-40 TWh með hagkvæmum hætti og 25-30 TWh þegar litið er til þess að vegna náttúruverndarsjónarmiða verða ekki allir fjárhagslega hagkvæmir kostir hér nýttir.

Þó svo Kanada búi yfir gnægð af gasi, sem er jafnvel ennþá ódýrari raforkugjafi en vatnsaflið, hefur það sýnt sig að kanadísku vatnsaflsvirkjanirnar eru flestar afskaplega hagkvæmar. Kanadamenn geta því með góðri samvisku notað gasið í að kreista olíuna úr olíusandklístrinu norður í Alberta og þannig framleitt einhverja viðurstyggilegustu olíu í heimi til handa nágrannanum í suðri.

Canada_Hydro_decew-fallsSaga kanadíska vatnsaflsins er heillandi og þó sérstaklega áhugavert hvernig uppbyggingin var nátengd lagningu járnbrautanna. Orkuvinir hljóta að fyllast lotningu við að heyra nöfn eins og t.d. DeCew  (virkjun í Ontario frá 1898 sem enn er í gangi), Pointe de Bois (virkjun í Manitoba frá 1911) eða Shawinigan  (virkjun reist í Saint-Maurice fljótinu skömmu eftir 1900). Síðast nefnda virkjunin gerði borgina Shawinigan í Quebec einhverja nútímalegustu borg heims og um skeið var hún jafnan kölluð Borg ljósanna.

Í dag má finna vatnsaflsvirkjanir í öllum fylkjum Kanada, en eðlilega síst á sléttunum. En það sem er allra best: Talið er að enn hafi ekki verið nýttur nema um helmingurinn af hagkvæmu virkjanlegu vatnsafli í Kanada! Núna er kanadísk jarðhitafyrirtæki komið í rafmagnsframleiðslu á Íslandi. Kannski væri þá upplagt að íslensk raforkufyrirtæki skelltu sér í vatnsaflið í Kanada.

Canada_Annapolis_marine_hydroKanadíska vatnsaflið hefur þar að auki einn spennandi aukamöguleika, sem óvíða er að finna. Það er nefnilega svo, að á nokkrum stöðum við strönd Kanada er gríðarlegur munur flóðs og fjöru. Fyrir vikið er unnt að virkja sjávarföllin með sæmilega hagkvæmum hætti. Þar er auðvitað þekktust sjávarfallavirkjunin kennd við Annapolis, sem nýtir sjávarfallastrauminn í Fundyflóa.

Uppgangur vatnsaflsins í Kanada varð til þess að þar liggja að hluta til rætur margra af stærstu iðnfyrirtækjum heimsins. Virkjunin í Shawinigan dró t.d. fljótlega að sér Northern Aluminum Company, sem nú er hluti af risasamsteypunni Rio Tinto Alcan. Áliðnaðurinn varð óvíða öflugri en í Kanada. En svo breyttust tímarnir og alfyrirtækin hófu undanhald frá hækkandi raforkuverði til iðnaðar sem treystir sér til að greiða hærra verð. Samskonar þróun hefur einmitt orðið í Noregi. Þróunin varð sú að áliðnaðurinn tók að leita uppi fjarlæg furðulönd sem helst vildu gefa þeim raforkuna, meðan Kanadamenn, Norðmenn og aðrar siðaðar þjóðir tóku að selja raforkuna til arðbærari iðnaðar. Þess vegna þurfa álfyrirtækin að leita uppi afkima veraldarinnar, þar sem enginn alvöru bissness vill vera. Af einhverjum undarlegum ástæðum hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að Ísland eigi sérstaklega vel heima í þessum útnárahópi - og eigi að vera þar áfram.

Í dag áætla Kanadamenn að raforkuþörf landsins muni aukast um rúmlega 1% á ári næstu ár og áratugi. Þetta mun geta haft slæm umhverfisáhrif, þ.e. ef reisa þarf fleiri raforkuver sem nýta gas eða kol. Til að losun gróðurhúsalofttegunda aukist ekki um of líta Kanadamenn vongóðir til þess að stórauka uppbyggingu vatnsaflsvirkjana. Þó svo vindorkugeirinn sé orðinn nokkuð öflugur í Kanada, bendir margt til þess að kanadíska vatnsaflið dragi að sér mestu fjárfestinguna á næstu árum. Bjartsýnir telja jafnvel að bæti megi við 100 þúsund MW í kanadíska vatnsaflinu og þar af eru a.m.k. tveir kostir sem verða sannkallaðar risavirkjanir; yfir 3 þúsund MW hvor um sig!.

Ottawa_Rideau_Canal_WinterJá - Kanadamenn verða sigurvegararnir í orkugeiranum til framtíðar. Það er næsta víst, eins og Bjarni Fel myndi væntanlega orða það. Kannski ætti eyþjóðin sérkennilega, sem virðist sífellt helst vilja kyssa vöndinn þar sem hún velkist um norður Dumbshafi, að sækjast eftir nánum tengslum við Kanada. Í stað þess að vera að snobba fyrir orkumögrum öldrunarsjúklingnum ESB. Orkubloggarinn getur a.m.k. fullyrt af eigin reynslu að Ottawa, hin tvítyngda höfuðborg Kanada, er mun skemmtilegri staður heldur en fullkomlega óspennandi Brussel. Og Montreal miklu notalegri heldur en París. Kanada er einfaldlega snilldarland. Og ætti kannski að vera Óskalandið.

Þó svo öllu gamni fylgi nokkur alvara, gerir Orkubloggarinn sér engar vonir um að Ísland tengist Kanada. Og styður aðild Íslands að ESB. Enda kunna gríðarleg tækifæri að felast í því að flytja raforku frá endurnýjanlegum auðlindum okkar um sæstreng til Evrópu. Rétt eins og Kanadamenn flytja mikið af sinni raforku til nágrannans í suðri. Orkuþyrst og kolefnissjúkt Evrópusamband mun örugglega taka Íslandi vel. Nánast sem óskalandi!

Grín? Alls ekki, heldur rammasta alvara. Málið er bara að íslensk stjórnvöld haldi rétt á spöðunum. Sem virðist reyndar ekki alveg vera að gerast þessa dagana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ketill, takk fyrir afar fróðlegan og vel skrifaðan pistill. Má til að benda þér á pistil þar sem ég benti á,að ef við vildum endilega í ríkjasamband, þá væri okkar næstu stóru nágrannar í vestri of austri hæfilega stórt samband.Sem sagt Kanada eða Noregur. Gert svona til að setja upp val gegn "ofursambandinu" ESB.

Sigurður Ingólfsson (IP-tala skráð) 29.11.2009 kl. 10:20

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Það væri sennilega snilldar ríkjasamband. En ekkert bendir til þess að Kanda  og/eða Noregur hefðu áhuga á slíku. Staða þessara ríkja beggja er einfaldlega svo sterk og góð, að þau telja núverandi skipan mála hina einu réttu. Þó svo sósíaldemókratarnir norsku vilji reyndar inn í ESB, til að Noregur eigi ennþá tryggari aðgang að ESB-markaðnum.

Til að Ísland nái vopnum sínum á ný, þurfum við að nýta sérstöðu okkur. ESB hungrar í aðgang að orku frá vinsamlegum ríkjum - og vilja líka auka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Það hungur getur nýst okkur vel og skapað sannkallaða win-win stöðu.

Ketill Sigurjónsson, 29.11.2009 kl. 13:48

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

takk fyrir fróðlegan og skemmtilegan pistil.

Óskar Þorkelsson, 29.11.2009 kl. 20:24

4 identicon

Hvers vegna þurfum við að ganga í ESB til að selja rafmagn til Evrópu? Ég sé ekki tenginguna þar á milli - frekar en Norðmenn greinilega.

Árni (IP-tala skráð) 30.11.2009 kl. 15:00

5 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Hárrétt. Engin bein tengsl þarna má milli. En aðild tryggir aðgang að markaði ESB til frambúðar og fyrirbyggir að ESB geti allt í einu tekið upp á því að setja á okkur tolla.

Svo fylgja ýmsir aðrir kostir aðild. Aðild tryggir t.d. rýmri aðgang Íslendinga að háskólum innan ESB; í dag eru Íslendingar í framhaldsnámi í Bretlandi t.d. að borga miklu hærri skólagjöld en námsmenn frá ESB-ríkjunum.

Aðild að ESB tryggir líka sérhverjum Íslendingi aðgang að þessum risastóra atvinnumarkaði. Rök andstæðinga ESB minna mig alltaf svolítið á rök fangavarða; að það verði að varna því að Íslendingar eigi tækifæri á við aðra.

En ef við byrjum að framleiða lífhráolíu og framleiða rafmagn til útflutnings, verður hér kannski svo mikil hagsæld að ESB-aðild er óþörf. Ég yrði alveg sáttir við þá niðurstöðu.

Málið er að greina og nýta tækifærin. Ísland eins og það birtist í dag - utan ESB, með alltof sveiflukenndan gjaldmiðil, og með hnignandi félagslegt kerfi og samdrátt í menntakerfinu - hugnast mér aftur á móti ekki.

Loks er mér algerlega ómögulegt að fallast á það að skuldbinda eigi mig og jafnvel börnin mín til að borga "skuldir óreiðumanna", vegna galla sem reyndist á innistæðutryggingakerfi ESB. Við þurfum og verðum að efla samningsstöðu okkar gagnvart ESB og nota orkuna í því sambandi.

Ketill Sigurjónsson, 30.11.2009 kl. 16:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband