Efnahagslegt tækifæri fyrir Ísland?

Nýlega hafa orðið umtalsverðar breytingar á lagaumhverfi bæði í Bandaríkjunum og Evrópusambandinu sem hvetja til meiri fjárfestinga í endurnýjanlega orkugeiranum. Þetta gefur tilefni til þess að við Íslendingar íhugum vandlega hvort og með hvaða hætti við getum leikið stærra hlutverk í virðiskeðju endurnýjanlega orkugeirans.

Oil_rig_Long_Beach

Einhver stærsti óvissuþátturinn og áhrifavaldurinn í vindorkuiðnaðinum og flestöllum öðrum greinum endurnýjanlegrar orku í heiminum er olíuverð. Hækkandi olíuverð framan af hinni nýju öld hafði mjög jákvæð áhrif á fjárfestingar í endurnýjanlegri orku. Þetta gerðist einnig á 8. áratug liðinnar aldar, í kjölfar olíukreppunnar 1973–4 og mikilla olíuverðshækkana sem hún olli.

Frá miðju ári 2008 hefur olíuverð lækkað verulega á ný. Haldist verðið lágt næstu árin kann að vera tilefni til að óttast að talsvert hægi á fjárfestingum og allri tækniþróun í endurnýjanlegri orku. Jafnvel þó að vindorka sé orðin vel þróuð og hagkvæmnin nálgist það sem t.d. þekkist hjá vatnsaflsvirkjunum og jafnvel gasorkuverum, hafa vindorkufyrirtæki fundið fyrir afleiðingum lægra olíu- og gasverðs og þó fyrst og fremst erfiðleikum vegna lánsfjárkreppu. Erfiðara hefur orðið að fjármagna ný vindorkuver og framleiðendur hafa einnig þurft að doka við með útrás sína.

Þrátt fyrir að olíuverðlækkanirnar nú minni sumpart á það sem gerðist á 9. áratugnum er staðan á orkumörkuðunum nú allt önnur en þá var. Á 9. áratugnum var olíusjálfstæði Vesturlanda t.a.m. miklu mun meira en er í dag. Þá voru nýjar olíulindir í Alaska og Norðursjó mikilvæg uppspretta olíu, en í dag eru nýjar olíulindir af því tagi ekki í augsýn á Vesturlöndum. Horfur eru á að Vesturlönd muni á næstu árum smám saman verða ennþá háðari innflutningi á olíu frá Mið-Austurlöndum. Sama má segja um gasinnflutning Japana og Evrópu sem er mjög háð rússnesku gasi. Þetta minnkandi orkusjálfstæði bæði Bandaríkjanna og Evrópu er einn helsti hvatinn að því hversu mikil áhersla er nú lögð á það beggja vegna Atlantshafsins að auka innlenda orkuframleiðslu. Það er einhver mikilvægasti hvatinn til stóraukinnar fjárfestingar í endurnýjanlegri orku og það gæti komið íslenskri orkuþekkingu til góða. Þetta gæti m.a. valdið því að orkuflutningar um langar leiðir með sæstreng verði hagkvæmur kostur.

Marine Current Turbines_6

Það er fyllsta ástæða til að ætla að endurnýjanlegi orkugeirinn spjari sig þrátt fyrir að ýmsar blikur séu á lofti. Þó svo að ekkert sé víst í þessum heimi kann að vera tilefni fyrir íslensk stjórnvöld að marka þá stefnu að Ísland verði leiðandi á fleiri sviðum orkugeirans en jarðhita. Þá er komið að spurningunni hvort hér á Íslandi gæti byggst upp vindorkuiðnaður eða sjávarorkuiðnaður?

Ekki er raunhæft að hér á landi byggist upp öflugt vindorkufyrirtæki, þ.e. fyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun, þróun og smíði þeirra mannvirkja og tækja sem notuð eru í vindrafstöðvar. Vindorkuiðnaðurinn er orðinn mjög þróaður og á undanförnum árum hefur orðið mikil samþjöppun í greininni. Þar eru fáein stórfyrirtæki með yfirburðastöðu á markaðnum, eins og Vestas og Siemens. Að auki eru vissulega rekin mörg smærri fyrirtæki, en það er tvímælalaust mjög erfitt að hasla sér völl í þessari iðngrein, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Möguleikar Íslands í vindorkunni takmarkast því líklega við það að unnt sé að virkja þetta afl hér á landi.

Hafa ber í huga að íslensk stjórnvöld og/eða íslenskar stofnanir gætu e.t.v. að umtalsverðu leyti fjármagnað rannsóknir á möguleikum bæði vindorku og sjávarorku á Íslandi með framlögum úr sjóðum á vegum Norðurlandaráðs. Á Norðurlöndunum er nú mikill áhugi á að svæðið verði í fararbroddi í uppbyggingu á endurnýjanlegri orku. Í þessu skyni hefur verið komið á fót ákveðnu sjóðakerfi, sem ætlað er að stórefla rannsóknir á þessu sviði.

Wind_vestas_stor

Danir eru sú þjóð sem hefur náð að skapa sér sterkasta stöðu í vindorkuiðnaðinum. Það má upphaflega rekja til danska vindorkufyrirtækisins Vestas og markvissra aðgerða danskra stjórnvalda til að efla þennan iðnað. Þessi stefna var mörkuð meðan vindorkuiðnaðurinn var enn mjög óþroskaður. Fyrir vikið er Danmörk nú leiðandi í þessum  stóra og mikilvæga iðnaði og skýtur þar alþjóðlegum risafyrirtækjum ref fyrir rass.

Þegar fram liðu stundir byggðist mikill vöxtur Vestas ekki á innanlandsmarkaðnum, heldur fyrst og fremst á sölu til annarra landa. Nú síðast hafa Bandaríkin og Kína orðið æ mikilvægari markaður fyrir Vestas-vindrafstöðvar. Þetta hefði ekki gerst, nema vegna þess að dönsk stjórnvöld gerðu sér ljóst hve mikilvægt var að hlúa að þessum iðnaði meðan fyrirtækið var að stækka og eflast og sýndu þar þá þolinmæði sem er bráðnauðsynleg þegar um er að ræða nýjan geira í endurnýjanlegri orku.

Wavegen_technology

Sérstaklega áhugavert gæti verið fyrir íslensk stjórnvöld að stefna að því að Ísland verði leiðandi á sviði sjávarvirkjana. Að mati skýrsluhöfundar er réttlætanlegt að spá því að eftir um það bil 20–25 ár hafi sjávarorkan álíka stöðu í heiminum og vindorkuiðnaðurinn hefur í dag. Þau lönd sem hlúa að uppbyggingu sjávarorku gætu sem sagt orðið leiðandi í öflugum og mjög hratt vaxandi iðnaði.

Til að gefa vísbendingu um það hversu stór þessi iðnaður gæti orðið má taka áætlanir skoskra stjórnvalda sem dæmi. Þar hafa menn sett sér það markmið að meira en 30% raforkunnar komi frá endurnýjanlegum orkulindum árið 2012 og að þetta hlutfall verði komið í 50% árið 2020 (sjá skýrslu skoskra stjórnvalda frá 2008; Sustainable Development Commission: “On Stream – Creating energy from tidal currents”). Ekki hefur verið sundurliðað nákvæmlega hvernig þetta rafmagn skuli framleitt, en hvað mestar vonir eru bundnar við virkjun sjávarorkunnar vegna hagstæðra náttúrulegra aðstæðna.

Þessar metnaðarfullu áætlanir Skota hafa verið réttlættar með því að benda á að framleiðslukostnaður vindorku lækkaði um nærri 70% á tíu ára tímabili á níunda áratugnum og upphafi þess tíunda. Það sé því rökrétt að innan eins til tveggja áratuga verði risinn öflugur sjávarorkuiðnaður í heiminum sem mun velta gífurlegum fjármunum. Þarna gæti myndast iðnaður þar sem afar áhugavert væri fyrir Ísland að leika hlutverk.

Wave_Star4

Auk Bretlandseyja eru Bandaríkin og Kanada dæmi um ríki sem hafa lagt talsverða vinnu í að meta möguleika sjávarvirkjana heima fyrir. Næst á eftir þessum þremur löndum í þróun sjávarvirkjana koma svo Norðmenn og Danir. Það vill m.ö.o. svo til að nágrannar Íslands beggja vegna Atlantshafsins eru afar áhugasamir um sjávarvirkjanir og stjórnvöldum í þessum löndum er talsvert umhugað um að styðja við bakið á þessum unga iðnaði.

Einnig er athyglisvert að árið 2007 kynnti viðskiptaráð Bretlands (UK Trade & Investment) hugmynd um samstarf við Ísland á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Þessi hugmynd var sérstaklega nefnd í tengslum við kynningu á breskri þekkingu á sjávarorkutækni (kynning UK Trade & Investment í Reykjavík, 17. apríl 2007). Því má hugsanlega álykta sem svo að bresk stjórnvöld myndu sýna áhuga á samstarfi við Íslendinga um rannsóknir og þróun innan þessa iðnaðar.

Tidal_seagen_7

Eins og staðan er í dag, virðist líklegast að Bretland og Bandaríkin muni verða „Danmörk sjávarorkunnar“ og jafnvel einnig Kanada, Noregur og/eða Írland.  En þarna gæti Ísland líka átt tækifæri. Með því að bjóða hagstæð skattakjör til fyrirtækja sem nú þegar hafa náð athyglisverðri framþróun í virkjun sjávarorku, gæti Ísland hugsanlega orðið þátttakandi í þessari þróun. Samfara slíkri ráðstöfun má hugsa sér að lögð verði sérstök áhersla á sjávarorku innan verkfræðideildar Háskóla Íslands og/eða Háskólans í Reykjavík.

Sú mikla þekking sem hér er innan stofnana eins og t.d. Hafrannsóknastofnunar, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands (áður Iðntæknistofnunar), Orkustofnunar, Siglingastofnunar og Veðurstofunnar kemur að góðum notum við slíka framkvæmd. Og ekki síður sú mikla verkfræðiþekking sem Íslendingar af aflað sér með orkuuppbyggingu sinni.

reykjanes04-duotone-filtere

Fyrst og fremst þyrftu stjórnvöld þó að vera sér meðvituð um sitt lykilhlutverk; bæði gagnvart rekstrarumhverfinu og líka því að efla hér rannsóknir og mælingar á t.d. straumum, sjávarföllum, ölduhæð og öðru því sem mikilvægt er í tengslum við rekstur og hagkvæmni sjávarvirkjana. Að sama skapi eru ítarlegri vindrannsóknir lykilatriði til að geta lagt raunsætt mat á hagkvæmni vindorkuvera á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Flottur póstur hjá þér Ketill, hefurðu eitthvað komið þessu lengra, þ.e.a.s. öllum þessum hugmyndum, t.a.m. til iðnaðarráðherra, þetta eru mjög svo fínar hugmyndir og á vel við okkar fagra land.

Ægir Óskar Hallgrímsson, 2.5.2009 kl. 10:35

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Þessi texti er að mestu óbreyttur úr skýrsu þeirri sem ég vann fyrir iðnaðarráðuneytið. Óvíst er hvort framhald verður á þessari vinnu; það ræðst af áhuga ráðuneytisins og iðnaðarráðherra í nýrri ríkisstjórn.

Ketill Sigurjónsson, 2.5.2009 kl. 12:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband