Ted og tuddarnir

Hvernig væri að auka aðeins fjölbreytnina í íslensku atvinnulífi? Og gera okkur ekki algjörlega háð sveiflum á álverði. Af hverju gerir Landsvirkjun ekki aðeins meira til að markaðssetja orkuna fyrir t.d. sólarorkuiðnaðinn?

Stutt er síðan Þorlákshöfn missti af nýrri sólarupprás. Þegar norsk-bandaríska fyrirtækið REC Solar ákvað að staðsetja nýja kísilflöguverksmiðju sína í Kanada fremur en á Íslandi.

bison_killing

Ástæður þess virðast óljósar. Kísilflöguframleiðslan í sólarorkuiðnaðinum er mjög orkufrek og þess vegna reisa menn helst slíkar verksmiðjur þar sem orkuverð er lágt og vinnuafl til staðar með réttu tækniþekkinguna. Ísland virðist ekki hafa náð að heilla þá hjá REC Solar nægjanlega mikið að þessu leyti. Undarlegt.

Nýlega sá ég reyndar upplýsingar um að Alf Bjørseth, stofnandi REC Solar, sé nú byrjaður að fjárfesta í annarri sólarsellutækni en kísilflögunum. Þetta kæmi mér ekki á óvart - sílikonið verður brátt á undanhaldi. Það veit Orkubloggið jafn vel og hann Bjørseth. Og þar sem REC Solar er aðallega í sílikoninu held ég að það fyrirtæki sé ekki endilega mjög spennandi kostur til framtíðar.

Alf þessi Bjørseth er um margt áhugaverður náungi. Hefur m.a. unnið að hugmynd um byggingu þórín-kjarnorkuvers í Noregi. Nokkuð sem Orkubloggið hefur áður sagt frá. Líklega er hann með sem nemur einhverjum 15 milljörðum ISK í vasanum eftir að hafa selt hlut sinn í REC. En nóg um Alf í bili. Í staðinn ætlar Orkubloggið að beina athyglinni að öðrum snillingi. Sem er Ted nokkur Turner.

TedTurner_Time_Cover

Ekki er langt síðan Orkubloggið sagði frá PV-sólarsellutækni sem það bindur mestar vonir við. Thin-film tækninni, sem þeir hjá First Solar  eru hvað fremstir í. Þó svo Walmart-fjölskyldan sé kjölfestan í First Solar er vert að minnast einnig á nýjasta celebrity-hluthafann þar á bæ. Sá er nefnilega “landshöfðinginn” Ted Turner. Stofnandi CNN, TNT og Cartoon Network. Gamli steggurinn hennar Jane Fonda. Og stærsti landeigandi í Bandaríkjunum.

Aðkoma Turner að sólarorkunni hefur reyndar verið nokkuð sérkennileg. Þetta byrjaði þannig að í upphafi ársins 2007 tilkynnti Turner að hann ætlaði að setja glás af péning í að þróa umhverfisvænar orkulausnir. Og keypti sólarorkufyrirtækið DT Solar í New Jersey.

Í reynd er DT Solar n.k. verkfræði-bisness-development fyrirtæki, sem sérhæfir sig í byggingu sólarorkuvera. Sem kannski hefði geta hentað Turner ágætlega því hann er stærsti landeigandi í Bandaríkjunum! Og því væntanlega með nóg pláss fyrir sólarorkuver.

Turner virtist sem sagt hafa mikinn metnað til handa endurnýjanlegri orku. Hann setti DT Solar undir nýtt eignarhaldsfélag sitt, sem hann kallaði Turner Renewable Energy. En eitthvað var Turner fljótur að verða leiður á þessu sólarorkustússi hjá DT Solar. Því ekki var liðið ár þar til hann var búinn að selja allt heila klabbið. Og kaupandinn var einmitt First Solar. Sem breyttu nafni Turner Renewable Energy í First Solar Electric.

Hluti kaupverðsins var greiddur með hlutabréfum. Þannig að Ted Turner er líklega enn þátttakandi í sólarorku í gegnum bréfin sín í First Solar. Svo er kannski ekki skrítið að hann hafi helst viljað eiga eitthvað í First Solar – fyrirtæki sem er svo sannarlega í fararbroddi í sólarorkutækni. Þeir hjá First Solar hyggjast nýta þekkinguna innan DT Solar til að koma framleiðslu sinni hraðar á markað. DT Solar er nefnilega með afar góð sambönd við nokkur helstu orkudreifingarfyrirtækin vestur í Bandaríkjunum.

firstsolar_thinfilm

Orkubloggið hefur áður sagt frá nýju sólarsellunum þeirra hjá First Solar, sem gerðar eru úr kadmín-tellúríði í stað hins rándýra sílikons. Varla er til meira spennandi stöff í þessum bransa - nema ef vera skyldu CIGS-flögurnar (sem á íslensku myndu væntanlega kallast KIGS). Þær eru reyndar bara annar handleggur á sömu tækni, þ.e. thin-film. Og eru samsettar úr frumefnunum kopar, indíni, gallíni og seleni. Lykilatriðið er að finna sem ódýrasta leið til að nýta hálfleiðara, til að örva rafeindir þegar ljóseindir frá sólinni lenda á þeim. Og þar virðist "KIGSið" reynast hvað best.

Ég held barrrasta að það eigi enginn roð við þeim hjá First Solar. Samt eru auðvitað fjölmörg önnur fyrirtæki að þróa sig áfram í svipaða átt. Mér dettur t.d. í hug bandaríska Nanosolar og þýska fyrirtækið SolarWorld. Miðað við geggjaðar fjárfestingar í þessum bransa þessa dagana - og möguleika Íslands á að bjóða endurnýjanlega orku á góðu verði – er grátlegt hversu illa mönnum hér gengur að fá fyrirtæki af þessu tagi til landsins. Líklega er óstöðug króna þar aðal skaðvaldurinn.

CIGS_solar

Menn skulu reyndar passa sig á einu. Að vera ekki að draga hingað einhver sílikon-PV fyrirtæki. Sílikoninu er spáð hrakförum - mestur vöxtur er talinn verða í kadmíntellúríðinu og KIGSinu. Einfaldlega vegna þess að sú tækni er ódýrari og því miklu líklegri til að geta náð að keppa við kolaóþverrann og aðra hefðbundna orkugjafa í rafmagnsframleiðslu.

Ef þeir hjá Þorlákshöfn eða annars staðar vilja komast á réttu brautina, er engin spurning í huga Orkubloggsins hvert leita skal.

------------------------------------------------ 

tedturner-horse

Rétt að slútta þessu með því að minnast aftur á ljúflinginn Ted Turner. Stærsta landeigandann í Bandaríkjunum. Einn æskudraumur minn var að búa í nágrenni við Klettafjöllin eða álíka stórbrotna náttúru. Í nágrenni glæsilegra fjalla, vatna og skóga – og með birni og bjóra í nágrenninu.

Maður las líklega full mikið að J.F. Cooper eða Frumbyggjabókunum norsku. En kannski hefur Turner átt sér svipaða drauma. Því hann mun nú eiga meira en tug risastórra búgarða í Bandaríkjunum og reyndar nokkra aðra í Argentínu.  Alls á Ted Turner nú rúmlega 8 þúsund ferkílómetra lands í Bandaríkjunum. Frá Nýju-Mexíkó og Oklahóma í suðri og allt norður til Dakóta og Montana.

Þegar hann byrjaði á landakaupunum fyrir um 20 árum eignaðist hann þrjá vísunda. Tvær kýr og einn tudda. Í dag eru meira en 50 þúsund vísundar á búgörðum hans. Sem auðvitað kallaði á nýjan bisness. Árið 2002 opnaði fyrsta Vísundagrillið og nú er keðjan Ted’s Montana Grill með um 60 staði víðs vegar um Bandaríkin.  Allur ágóði rennur auðvitað til verndar vísundum.

Teds-Montana-Grill-Logo

Svolítið magnað að  hugsa til þess að þegar hvítir menn komu til Ameríku, er talið 30 milljón vísundar hafi verið þar á sléttunum. En eftir að Buffaló-Bill og félagar höfðu leikið sér þar um skeið, var svo komið að einungis um eitt þúsund vesalingar voru eftir.

Hér að neðan er gömul ljósmynd sem sýnir hauskúpuhrúgu. Já - þetta eru eintómar vísindahöfuðkúpur. Það var lítið mál að skjóta niður þessi þunglamalegu dýr. Það er satt að segja erfitt að ímynda sér hvers konar blóðvöllur sléttur vestursins voru, þegar Buffalo Bill reið þar um og slátraði vísundunum. 

Bison_skull_pile

Nú er vísundastofninn í Bandaríkjunum aftur á móti kominn í um hálf milljón dýr. Og þar af er um 10% slátrað árlega í vísundasteikur. Sem m.a. má fá hjá Ted’s Montana Grill. Maður fær óneitanlega vatn í munninn.


mbl.is Geta borað við Þeistareyki og Kröflu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband