Frá opíumökrum til grænlenskra fjalla

"Ofboðsleg verðmæti í jörðu í Afganistan." Þannig hljóðaði fréttafyrirsögn á vefnum mbl.is í nýliðinni viku.

Og sama dag birtist svipuð frétt í flestum þeim fjölmiðlum heimsins, sem telja sig fylgjast vel með því helsta sem er að gerast hverju sinni í veröldinni. Hundruð ef ekki þúsundir fjölmiðla átu þessa sömu frétt upp eftir hver öðrum. Uns öll heimsbyggðin var loksins orðin meðvituð um það að Afganistan er ekki bara ópíumrækt og ofsatrúarskæruliðar, heldur land þar sem allt flýtur í verðmætum málmum, gimsteinum og öðru slíku fíneríi. 

afghanistan_14-minerals-graphic-nyt_2010.jpg

Rótin að þessum stormsveip í fjölmiðlaheiminum um auðlindirnar í Afganistan var frétt sem birtist á vefsíðu New York Times s.l. sunnudag (13. júní) undir fyrirsögninni "U.S. Identifies Vast Mineral Riches in Afghanistan". Skyndilega virtist fjölmiðlafólk bæði á Íslandi og annars staðar í heiminum vakna upp við það, að Afganistan býr yfir ýmsum tækifærum. Og þar sé að finna "ofboðsleg verðmæti í jörðu".

Þegar Orkubloggarinn sá þessa frétt NYT kom einkum tvennt upp í hugann. Í fyrsta lagi eru þetta alls ekki ný tíðindi. Jarðfræðingar hafa í áratugi vitað af geggjuðum námavinnslu-möguleikunum í Afganistan. Allt frá árinu 2007 þegar United States Geological Survey (USGS) birti gögn um Afganistan hefur það verið almenn vitneskja að Afganistan búi yfir gríðarlegum náttúruauðlindum. Í öðru lagi er ennþá mjög mikil óvissa um það hversu mikið magn þarna er á ferðinni og allsendis óvíst hversu mikið af því er í reynd unnt að nálgast og vinna með viðeigandi tilkostnaði.

afghanistan_usgs-report-2007.jpg

Upplýsingarnar frá 2007 hefðu ekki átt að fara fram hjá neinum sem kallar sig alvöru fjölmiðil. Þarna var um að ræða afrakstur af rannsóknum sem fóru fram á árunum 2004-07 og voru kynntar á sérstakri ráðstefnu í Washington DC fyrir um þremur árum. Umræddar upplýsingar hafa þar að auki verið öllum aðgengilegar á vef USGS. Jafnskjótt og þessar upplýsingar birtust 2007 var reyndar talsvert fjallað um þetta í ýmsum fjölmiðlum. En af einhverjum ástæðum fangaði fréttin um niðurstöður USGS bara ekki almennilega athygli umheimsins, fyrr en með umfjöllun NYT núna.

Þetta eru sem sagt kexgamlar fréttir. Og þar að auki er ennþá einungis um vísbendingar að ræða og alger óvissa um það hversu mikið magn þarna er á ferðinni.  Jarðfræðingar hafa í áratugi vitað af náttúruauðlindunum í þessu stríðshrjáða landi, en þar eru allir innviðir samfélagsins í molum og sömuleiðis eru landfræðilegar aðstæður vægast sagt erfiðar. Bara það að sannreyna vinnanlegt magn náttúruauðlinda mun taka fjöldamörg ár - ef ekki áratugi - og langt í land með að umtalsverð vinnsla hefjist. Og það er ekki bara Orkubloggarinn sem sér augljósa veikleikana í frétt NYT, sbr. t.d. þessi grein í Indepenent

ng_afghan-girl_steve-mccurry.jpg

Námavinnsla hefur lengi þekkst í Afganistan en verið mjög frumstæð. Hernám Rauða hersins og stríðið sem því fylgdi 1979-1989 og svo tímabil Talíbanastjórnarinnar fram til 2001 leiddi til mikillar stöðnunar í landinu. Fyrir vikið er Afganistan eitthvert verst farna land veraldar og fellur helst í flokk með löndum eins og Sómalíu og Sierra Leone.

Ekki er unnt að láta hér hjá líða að minnast einhverjar allra frægustu ljósmyndar í sögu tímaritsins National Geographic, af afgönsku stúlkunni með grænu augun, sem bandaríski ljósmyndarinn Steve McCurry tók í Nasir Bagh flóttamannabúðunum í Pakistan árið 1984. Þar höfðust um hundrað þúsund flóttamenn frá Afganistan við í fjölda ára, meðan Sovétmenn herjuðu í Afganistan á 9. áratugnum. Það reyndist sneypuför fyrir risaveldið CCCP en skaut afgönsku þjóðinni langt aftur á bak og skapaði jarðveginn fyrir valdatöku afganskra ofstækismanna.

Ekki hefur ástandið verið mikið skárra eftir innrás Bandaríkjanna og bandamanna þeirra síðla árs 2001. En í kjölfar þess að Talíbanastjórninni var steypt af stóli hefur landið opnast á ný og nokkur alvöru fyrirtæki hafa byrjað að skoða Afganistan sem álitlegan kost til námavinnslu.

afghanistan_china.jpg

Þar eru Kínverjar í fararbroddi, rétt eins og Orkubloggarinn tæpti á í síðustu færslu, þar sem minnst var á koparvinnslu þeirra í Afganistan. Sú færsla var vel að merkja birt daginn áður en áðurnefnd frétt birtist í NYT, sem hlýtur að vera tákn um forspáhæfileika bloggarans (sic).

Það virðist hafa komið Bandaríkjastjórn á óvart þegar Kínverjarnir sömdu við afgönsk stjórnvöld á liðnu ári (2009). Um að fjárfesta fyrir allt að 4 milljarða USD í koparvinnslunni og þ.m.t. byggja raforkuver og leggja veg frá námunni til Kabúl. Þetta verður langstærsta fjárfestingin í Afganistan til þessa. En það kann að vera skammt í að það met verði slegið, því nú eru kínversk og einnig indversk fyrirtæki að sveima fyrir járnvinnslu í landinu.

pentagon-building.jpg

Það er athyglisvert að núna þegar náttúruauðlindunum í Afganistan er slegið upp í NYT, er USGS ekki helsta heimildin, heldur menn innan bandaríska hersins og eitthvert minnisblað frá Pentagon (bandaríska varnarmálaráðuneytinu)! Það er líka athyglisvert að í umræddri frétt NYT segir að lítið teymi bandarískra jarðfræðinga og fulltrúa frá varnarmálaráðuneytinu hafi nýlega uppgötvað auðlindirnar. Svona líkt og þeir hafi rambað á námur Salómons konungs. En sem fyrr segir er nákvæmlega ekkert nýtt í fréttinni, heldur endurómar þetta annars vegar niðurstöður USGS frá 2007 og hins vegar eldgömul gögn um jarðfræði Afganistans sem unnin voru á tímabilinu 1950-1985.

Velta má fyrir sér hvort þessi fréttaflutningur núna sé ekki barrrasta liður í pólitískri áætlun um að efla stuðning heima í Bandaríkjunum fyrir áframhaldandi veru bandaríska hersins í Afganistan. Og að fá bandamenn Bandaríkjanna til að taka áfram þátt í hernaðinum gegn Talíbönum. Bandaríkjastjórn og einnig stjórnvöld ýmissa annara landa hafa augljóslega ríka ástæðu til að styrkja stöðu sína í Afganistan. Þeim er órótt vegna umrædds samnings Kínverjanna frá 2009 við afgönsk stjórnvöld og þurfa hugsanlega að gæta mun betur að hagsmunum sínum í Afganistan.

afghanistan-china_pamir.jpg

Það er eins og þetta samkomulag Kína og Afganistan hafi vakið bandarísk stjórnvöld upp af værum blundi. Um leið og fréttir bárust af samningnum við Kínverja kom upp kvittur um mútugreiðslur þeirra til ráðamanna í stjórn Afganistans. Þetta er allt ósannað - en væri kannski ekki beint í andstöðu við það hvernig kaupin ganga fyrir sig á þessari fjarlægu eyri. Bandaríkjamenn eru hreint ekki ánægðir með þróunina og er umhugað um að þarna verði ekki til afganskt ólígarkaveldi undir sterkum kínverskum áhrifum.

Umrædd koparnáma sem Kínverjarnir voru að semja um er vel að merkja á einhverju álitlegasta koparsvæði í veröldinni. Það er því ekki lítill fengur fyrir Kínverjana hjá ríkisfyrirtækinu China Metallurgical Group að tryggja sér þennan aðgang. Það sem er mest spennandi við Afganistan kann þó að vera allt annað en olía, gull, járn eða kopar. Afganistan er nefnilega álitið hafa að geyma einhver bestu svæði heimsins til að vinna sérstök frumefni, sem lengst af hafa verið lítt eftirsótt en eru gríðarlega mikilvæg í ýmsum efna- og hátækniiðnaði nútímans. Þessi efni er m.a. mikilvæg í framleiðslu á ofurleiðurum, nýju langlífu ljósaperurunum, endurhlaðanlegum rafhlöðum og síðast en ekki síst eru sum þessara efna afar þýðingarmikil í hátæknilegum hergagnaiðnaði. T.d. í búnað sem stjórnar flugskeytum.

rare_earth_2.jpg

Þarna er bæði um að ræða sjaldgæfa málma eins og liþíum (eða liþín), tantalum og niobín (niobium) og önnur frumefni sem á ensku eru flokkuð undir samheitinu Rare Earth Elements (REE). Með RRE er átt við öll frumefnin í s.k. lanþanröð eða lantanröð lotukerfisins (lanthanides), auk frumefnanna yttrín (yttrium) og skandín (scandium). Eins og heiti þessara tveggja síðastnefndu efna bera með sér eru þau kennd við sjálfan Skandinavíuskagann og sænska bæinn Ytterby. Ástæðan er einfaldlega sú að bæði þessi frumefni voru uppgötvuð í Svíþjóð (á 18. og 19. öld), en fremstu efnafræðingar heimsins á þeim tíma voru einmitt sænskir.

rare_earth_4.jpg

Með miklum framförum í tölvu- og fjarskiptatækni hefur eftirspurn eftir þessum efnum aukist hratt á síðustu árum og útlit fyrir að þar á verði áfram mikil aukning. Rúmlega 95% af allri heimsframleiðslunni af REE kemur í dag frá námum í Kína; mestallt frá Innri-Mongólíu sem er svæði í Kína sem liggur að Mongólíu. Kínverjar hafa viðrað hugmyndir um að draga úr framboðinu og horfur eru á að senn kunni að myndast umframeftirspurn. Þess vegna skiptir gríðarlega miklu fyrir önnur lönd að fá framboð af REE annars staðar frá. Og í Afganistan eru einmitt svæði sem eru talin óvenju álitleg til að vinna þessi efni úr jörðu.

rare_earth_5.jpg

Það er sem sagt svo að þessi frumefni, sem eru nefnd samheitinu Rare Earth Elements, eru afar mikilvæg fyrir hagkerfi nútímans. En utan Kína hafa þau óvíða fundist í svo miklu magni nálægt yfirborði jarðar að unnt sé að vinna þau nema þá með æpandi miklum tilkostnaði. Þess vegna stendur nú yfir hljóðleg en hörð barátta milli stórveldanna um að tryggja sér aðgang að þeim stöðum sem eru fýsilegastir fyrir námavinnslu af þessu tagi utan Kína. Og það gæti farið svo að svæði í Afganistan verði meðal þeirra eftirsóttustu. Það eru a.m.k. vísbendingar um a slík svæði sé þar að finna og því ekki skrítið að Pentagon hafi síaukinn áhuga á Afganistan.

afghanistan_kabul.jpg

Þetta á jafnt við um alla lanþaníðana (efnin í lanþanröðinni) og um mjúkmálmana sjaldgæfu. Þar er liþíum gott dæmi. Fram til þessa hafa stærstu og bestu liþíumsvæðin verið talin vera í Suður-Ameríku (einkum í Chile og Bólivíu) og í Kína (bæði í gamla Kína og í Tíbet). Liþíum er mikilvægt efni í endurhlaðanlegar rafhlöður; t.d. í farsímum og í fartölvum og ekki síður undirstaða þess að rafbílavæðing verði að veruleika. Sumir óttast að ekki verði nóg framboð af liþíum til að standa undir rafbílavæðingu framtíðarinnar og/eða að Kína muni hafa þar full mikil áhrif.

Fram til þessa hefur veröldin að vísu ekki lent í vandræðum með að útvega sér liþíum og sama gildir um lanþanefnin. En það eru vissulega líkur á að þarna geti myndast mikil umframeftirspurn - jafnvel innan örfárra ára - og því er fullkomlega skiljanlegt að menn leiti eftir nýjum námum og vilji draga úr einokunarstöðu Kína

Þeir Mörlandar sem áhuga hafa á að komast í námavinnslu í Afganistan geta byrjað á því að bjalla í viðkomandi ráðuneyti þarna austur í Kabúl. En reyndar vill svo skemmtilega til að við eigum mun nærtækari kost. Það er nefnilega svo að í næsta nágrenni við okkur hér á Klakanum góða er að finna spennandi nýtt námavinnslusvæði, þar sem finna má mörg þau merku frumefni sem nú eru að gera allt vitlaust austur í Afganistan. Leitum ekki langt yfir skammt og höldum nú til grannans góða í vestri. Til Grænlands.

greenland-minerals_kvanefjeld_map.jpg

Á suðurodda Grænlands á sér nú stað verkefni sem kann að gjörbylta efnahag Grænlendinga. Þarna á Kvanefjeld hafa nefnilega fundist lanþanefni (lanþaníðar) í svo miklu magni að menn sjá fyrir sér að sú eina náma á Grænlandi muni í framtíðinni skaffa veröldinni stóran hluta af öllum þeim Rare Earth Elemets (REE) sem hátæknibransinn þarf svo mjög á að halda.

Og það er líklegt að finna megi fleiri slík svæði á Grænlandi. Þess vegna er kannski ekki skrítið að Kínverjar hafa verið í viðræðum við Grænlendinga um námarekstur í landinu og þarna eru hugsanlega að skapast ýmis tækifæri fyrir íslenska verktaka. Það er aftur á móti ástralskt fyrirtæki sem hefur tryggt sér aðganginn að umræddu svæði við Kvanefjeld syðst á Grænlandi, sem í dag er álitið hvað mest spennandi til lanþan-vinnslu utan Kína.

greenland-minerals_kvanefjeld-timeline.jpg

Sumir segja að innan nokkurra ára muni um fjórðungur heimsframboðsins af REE koma frá Suður-Grænlandi! Enn er þó engin vinnsla komin þar í gang, en fyrirtækið Greenland Minerals er á fullu að vinna í rannsóknum og undirbúningi vinnslunnar.

Þó svo nafn fyrirtækisins hljómi afar grænlenskt er fyrirtækið að meirihluta í eigu ástralsks námufyrirtækis (61%) með sama nafni, sem skráð er í kauphöllinni í Sydney. Afgangurinn af hlutabréfunum (39%) er svo í eigu breska fjárfestingasjóðsins Westrip Holdings.

greenland_kvanefjeld.jpg

Ef áætlanir Ástralanna ganga eftir er þarna hugsanlega á ferðinni eitthvert mest spennandi námuverkefni á Norðurhveli. Og það er sannarlega synd og skömm að íslenskir verktakar og aðrir athafnamenn skuli ekki hafa sýnt meira frumkvæði gagnvart mögulegum verkefnum á Grænlandi. Þarna gæti líka verið upplagt tækifæri fyrir íslensku lífeyrissjóðina að taka þátt í uppbyggingarverkefnum, sem bæði munu reynast efnahag Grænlendinga vel, en ekki síður gefa íslensku atvinnulífi ný og spennandi tækifæri.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og þessi nýlenda Dana stendur fyrir utan ESB. Undarlegt að Danir séu í ESB en láti nýlendurnar með allar sínar auðlindir vera fyrir utan sambandið

Björn Einarsson (IP-tala skráð) 20.6.2010 kl. 09:26

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Grænland varð reyndir meðlimur í EB 1973, þegar Danmörk gekk í bandalagið. En þegar EB tók upp sérstaka sameiginlega sjávarútvegs- og fiskveiðistefnu ákvað meirihluti Grænlendinga (um 55% minnir mig) að landið gengi úr bandalaginu. Það gerðist 1985. Á Grænlandi er samt talsverður stuðningur við aðild.

Ketill Sigurjónsson, 20.6.2010 kl. 10:11

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Frétt á vef Spiegel frá því í gær:

"Are Claims of Afghan Mineral Wealth a PR Trick?"

http://www.spiegel.de/international/world/0,1518,701854,00.html

Ketill Sigurjónsson, 22.6.2010 kl. 16:12

4 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

Vissulega spennandi tímar hér á suður grænlandi.

Enginn græddi meira á því að Grænlendingar sögðu sig úr EU en Danir. Eiga áfram óskoraða einokun á öllum viðskiptum við grl, 98% innflutnings hér kemur frá DK (og með dk sem millilið frá SE), með þægilegu "mark-up."

Sameiginlegur útboðsmarkaður EU gildir ekki hér og öll þjónustufyrirtæki landsins eru frá DK - matvöru, byggingavöru, samgöngu, frakt, þjónustu, verktaka (stundum með íslenskum undirverktökum) og iðnaðarvörur - allt frá DK. Sama á við um fisk héðan - allt flutt út í gegnum dk (enda formleg einokun á skipafrakt - í gegnum Aalborg).

Og þetta er ekki af því danir séu svo færir í að vinna í fjöllóttu landi, þöktu ís og miklum fjarlægðum.

Ekki viss um að andstæðingar EU á Íslandi vilja vera í þeim sporum.

Baldvin Kristjánsson, 28.6.2010 kl. 11:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband