Kaldir vindar... og hlýir

Alltaf gaman þegar fólk talar í kross. Nú riða stærstu fasteignalánafyrirtæki Bandaríkjanna til falls. Á sama tíma segir Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn að fjármálakreppan sé að verða búin: "Dominique Strauss-Kahn, hinn franski yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, IMF, segir mestan hluta fjármálakreppunnar vera liðinn hjá", segir á mbl.is.

buffett

Ósamræmið milli þessara tveggja frétta er auðvitað eftirtektarvert. En ég hygg að betra sé að taka mark á Warren Buffet fremur en einhverjum ruglukollum hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Buffet telur að kreppan sem nú er að skella á, eða öllu heldur er skollin á, verði dýpri og lengri en flestir halda. Kannski er Buffet á gamals aldri barrrrasta orðinn Bölmóður spámaður. Ég held samt að svo sé ekki - hann er bara raunsær og skynsamur reynslubolti.

En Buffet sér samt alltaf tækifæri. Það geri ég líka. Kannski ekki alveg þau sömu og hann. Vegna þess að ég er yngri - og á þess vegna efni á að taka áhættu. He, he. Það blása sem sagt ekki bara kaldir vindar um efnahagslífið, heldur líka hlýir.

Offshore_wind

Myndin hér til hliðar er lýsandi fyrir þau tækifæri sem ég hallast að. Risavindtúrbína sem mun rísa djúpt útí Norðursjónum og framleiða rafmagn án nokkurrar kolefnislosunar eða mengunar. (Já - ég notaði sömu mynd nýlega í annarri færslu, en myndin er bara svo skollið flott...). Takið sérstaklega eftir þyrlunni, sem sýnir vel stærðarhlutföllin.

Það eru einmitt þessar vindtúrbínur á hafi úti, sem kunna að gera vindaflið að raunverulegum og mjög jákvæðum valkosti. Þó svo góðir möguleikar felist í að byggja vindtúrbínur á landi, taka þær óneitanlega mikið pláss og mörgum þykir þær spilla útsýni og umhverfi. Ég get skilið að fólki þyki þær yfirþyrmandi - eins og sjá má í þessu áhugaverða myndbroti frá vesturhluta Texas, um "the Winds of Change":

 

Orkubloggið hefur áður sagt frá því hvernig evrópsku fyrirtækin Vestas og Siemens eru leiðandi í framleiðslu á vindtúrbínum sem settar eru niður í sjó. Stærstu vindorkuverin í sjó er að finna utan við strendur Danmerkur.

Bandarísk fyrirtæki standa einnig framarlega í byggingu á vindtúrbínum. Þar fer General Electric fremst í flokki. En þó svo Bandaríkin séu öflug í að virkja vindinn og Boone Pickens byrjaður á stærsta vindorkuveri heims í norðanverðu Texas, eru þau samt langt á eftir Evrópu í að nýta vindorkuna úti á sjó.

OffshoreWindFarmDanmark3

Þetta gæti hugsanlega breyst hratt á næstu árum. Hátt olíuverð (í bandaríkjadölum a.m.k.) er að kaffæra Bandaríkin og nú eru snögglega margir farnir að tala um að senn muni 20% rafmagnsframleiðslunnar í Bandaríkjunum koma frá vindorkuverum.

Samkvæmt glænýjum tölum frá bandaríska vindorkuiðnaðinum (American Wind Energy Association) var rafmagnsframleiðsla í Bandaríkjunum frá vindorku, i lok 1. ársfjórðungs 2008, samtals 18.300 MW eða 18,3 GW. Frá meira en 25 þúsund túrbínum. Aukningin þennan fyrsta ársfjórðung var 995 nýjar vindtúrbínur sem framleiða 1.479 MW (það jafngildir rúmlega tveimur Kárahnjúkavirkjunum - bara í vindi á þremur mánuðum). Þessar tölur sýna líka vel hvernig túrbínurnar fara stækkandi.

Í dag framleiða vindtúrbínurnar í Bandaríkjunum þó einungis um 1% af rafmagninu þarna fyrir vestan. En 20% markmiðið er ekki út í bláinn. Þetta hlutfall (20%) er svipað og rafmagnsframleiðslan frá vindorku er í dag í Danmörku.

Líklega var fyrsta alvöru áætlunin um stórt bandarískt vindorkuver úti sjó, Cape Wind verið utan við strendur Þorskhöfða. Orkubloggið hefur áður sagt frá því hvernig Kennedyarnir hafa barist gegn verinu og náð að tefja framkvæmdina í mörg ár. En nú eru skyndilega komin mörg önnur sjóvindorkuver á teikniborðið. Í a.m.k sjö fylkjum.

Wind_Crowded

Utan við strönd Delaware áætlar Bluewater Wind að reisa a.m.k. 450 MW vindorkuver með um 150 túrbínum. Aðeins norðar, í New Jersey, í New York fylki og í Massachusetts, er verið að skoða möguleika á a.m.k. sjö orkuverum, en stærð flestra þeirra liggur enn ekki fyrir (Cape Wind er er reyndar eitt þeirra). Blue H Group er eitt þessara fyrirtækja og er að hanna 92 MW ver sem mun rísa 10-15 sjómílur utan við ströndina. Radial Wind er annað fyrirtæki með stór plön. Hyggst reisa tæplega 2.000 MW ver með allt að 600 túrbínum útí Michigan vatni. 

En eru þessar áætlanir bara blautir draumar? Það held ég ekki. Bandarísku fyrirtækin hafa þegar séð hvað hægt hefur verið að gera í Evrópu. Sérstaklega eru þau hrifin af dönsku vindorkuverunum. Og stjórnvöld virðast vera með á nótunum. T.d hefur fylkisstjórnin í Texas þegar boðið út og selt leyfi til að virkja vindorku fyrir utan ströndina. Það er svo sannarlega kominn bullandi hiti í vindinn þarna fyrir vestan.


mbl.is IndyMac gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband