Vindur í seglin?

Það getur skipt talsverðu máli fyrir Ísland hver vinnur forsetakosningarnar vestra. Síðasta hálfa árið hefur verið mikill slagur á Bandaríkjaþingi um orkustefnu landsins. Undanfarin ár hafa þar verið í gildi lög sem kveða á um stuðning við orkugeirann. Einna mestur hefur stuðningurinn verið við olíuiðnaðinn. En endurnýjanleg orka hefur einnig notið góðs af, m.a. vegna hagkvæmra skattareglna. Um þetta vísast t.d. til US Energy Policy Act frá 2005.

En vandamálið er að skattaumhverfið hefur í reynd einungis gilt eitt til tvö ár í senn og því ávallt verið mikil óvissa um framhaldið. Af þeim sökum hafa margir fjárfestar verið ragir við að leggja í stórar fjárfestingar í endurnýjanlegri orku og bíða margir á hliðarlinunni. Áhættan hefur einfaldlega verið of mikil þar sem ómögulegt hefur verið að spá fyrir um skattaumhverfi fyrirtækja í þessum geira. Þetta er líklega meginástæða þess að fyrirtæki í endurnýjanlegri orku hafa ekki verið að hækka í takt við hækkandi olíuverð. Þrátt fyrir að hið háa olíuverð geri þau flest samkeppnishæfari en áður. Hlutabréf i sumum þeirra hafa meira að segja lækkað umtalsvert í vetur.

Pelosi

Það voru mikil vonbrigði fyrir fyrirtæki í t.d. vind og sólarorku, þegar Bush undirritaði nýja orkulöggjöf í desember s.l. Lögin drógu mjög úr stuðningi við þennan iðnað og fókuseruðu á reglur hagstæðar olíuiðnaðinum. Santiago Seage, forstjóri spænska sólarorku-fyrirtækisins Abengoa Solar, benti á að líklega myndu öll framsæknustu orkufyrirtækin nú missa áhuga á Bandaríkjamarkaðinum og horfa annað.

En demókratar gáfust ekki upp. Undir forystu Nancy Pelosi (sjá mynd) var á ný lagt til atlögu. Eftir að frumvarp um áframhaldandi stuðning við endurnýjanlega orku flaug í gegnum fulltrúadeildina, bjuggust flestir við því að frumvarpið myndi stoppa í öldungadeildinni. Eins og svo oft áður. Enda hafði Bush margsinnis gefið í skyn að hann myndi beita neitunarvaldi. En hið ótrúlega óvænta gerðist; í miðjum apríl s.l. samþykkti öldungadeildin frumvarpið (Clean Energy Tax Stimulus ACt). Það var ekki síst sólarorkugeirinn sem fagnaði þessu, enda framlengja lögin stuðning við þann iðnað í 8 ár, sem er mikil breyting frá því sem verið hefur. Enn er þó eftir að ákveða fjármögnunina. Pelosi og félagar ætluðu að taka peningana úr þeim sjóðum sem runnuð hafa til olíu- og kolaiðnaðarins, en til að koma frumvarpinu í gegnum öldungadeildina var horfið frá því. Að svo stöddu.

CSP

Og Wall Street var ekki lengi að taka við sér. Samstundis var verðmat á mörgum skráðum fyrirtækjum i endurnýjanlegri orku hækkað. Misjafnt er hversu hratt þetta hefur skilað sér út i hlutabréfaverð fyrirtækjanna, enda er rekstraumhverfi þeirra enn um margt óöruggt. En líklegt er að ef Obama eða Clinton vinna kosningarnar, munu Bandaríkin taka mikilvæg skref í átt að auknu hlutfalli endurnýjanlegrar orku. Þar á meðal er jarðhitinn. Þ.a. kosningarnar geta haft veruleg áhrif á tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki í jarðhitavinnslu. Fylgjumst spennt með!

Myndin hér að ofan er frá CSP-sólarorkuveri í Mojave-eyðimörkinni. CSP-tæknin (Consentrated Solar Power) er að öðru ólöstuðu einhver allra áhugaverðasti geirinn í endurnýjanlegri orku.


mbl.is Clinton heldur baráttunni áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband