Léttur laugardagur: Línan er BROTIN!

Er ekki alveg upplagt að byrja þennan laugardag á svona eins og einni laufléttri, dásamlegri samsæriskenningu?

weo08_oil_produktion_reference

Jæja- kannski ekki beint samsæri. En nú hafa glöggir menn tekið eftir því að eitthvað kunni að vera rotið við nýjustu olíuspá Alþjóða orkustofnunarinnar.

Orkubloggið birti einmitt þessa sömu mynd, sem er hér til hliðar, í færslunni "Töfrakanínan NGL". Og nöldraði svolítið út í háa spá IEA um stóraukna NGL-framleiðslu. Blogginu fannst skorta rök fyrir þeirri spá.

En það tuð í Orkublogginu eru hreinir smámunir þegar litið er til þess að tölurnar frá IEA eru "bersýnilega" marklausar. Ekki þarf að rýna lengi í myndina, uns maður tekur eftir svolítið sérkennilegu "broti" í bláu línunni, sem sýnir áætlaða hefðbundna oíuframleiðslu frá núverandi lindum. Rétt eftir árið 2020.

IEA_WEO_2008_fikt

Vilji lesendur Orkubloggsins sjá þetta, geta þeir einfaldlega stækkað myndina með því að smella á hana. Þá má vel greina brotið í bláu línunni. Sem fyrr segir er brotið staðsett á tímakvarðanum skömmu eftir 2020. Til að sýna þetta betur, fylgir hér stækkuð mynd af umræddu "broti".

Þegar myndin er stækkuð svona, fer þetta ekkert á milli mála. Af þessu má hugsanlega draga þá ályktun að grafið hafi verið "snyrt". Það sé ekki myndræn lýsing á tiltekinni excel-töflu, eins og eðlilegast hefði verið. Þarna hafi menn eitthvað verið með puttana í að snyrta myndina - breyta henni. Og ekki gætt sín á því, að sjá má afleiðingar af þeim fídúsum á myndinni.

Smámál? Kannski. En fyrst að þeir ljúflingarnir hjá IEA eru þarna að fikta í bláu línunni, er þá ekki líklegast að myndin öll sé eitt allsherjar fikt? Og byggi í reynd ekki á neinni alvöru spá! Heldur sé skýrslan öll bara framsetning á uppdiktuðum upplýsingum, sem ætlað er að friða heiminn. Og fela þá skelfilegu staðreynd, að senn mun olíuframleiðsla fara minnkandi og engan veginn standa undir eftirspurn. Núverandi heimsmynd og efnahagskerfi séu að byrja hrunadans sinn, með skelfilegum afleiðingum fyrir mannkyn allt! We are all doomed! En því verði að halda leyndu. Langsótt? Tjah - þetta er graf frá IEA og eðlilegt að gera faglegar kröfur til þeirra þar á bæ.

IEA_WEO_2008_fikt3

Og það má halda áfram. Ef maður tekur tvær "sömu" myndirnar úr skýrslunni (sama grafið er birt þar oftar en einu sinni) og leggur þær saman, þá passa þær ekki. "Sama" myndin er ekki eins! Hafa þá tveir skriffinnar þarna París verið að fikta i sömu myndinni? Það veit enginn. En a.m.k. er þessi munur hálf undarlegur.

Þetta rennir hugsanlega stoðum undir þær samsæriskenningar, að það sé ekki nokkurn skapaðan hlut að marka spár IEA. Orkubloggið hefur áður nefnt ósamræmið í þessari nýjustu skýrslu þeirra. World Energy Outlook 2008. Þar er heildarframleiðsla á olíu árið 2030 ýmist sögð verða 104 milljónir eða 106 milljónir tunna. Og framleiðslan nú um stundir ýmist sögð vera 85 milljónir eða 86 miljónir tunna. Hvaða bjánar prófarkalásu þetta plagg?

IEA_WEO_2008_fikt2

Já - svona eru nú fremstu sérfræðingar heimsins um olíuframleiðslu framtíðarinnar mistækir. Þess vegna eru lesendur Orkubloggsins hvattir til að taka ekki minnsta mark á "sérfræðingum", sem þykjast vita eitthvað um olíuframleiðslu framtíðarinnar. Heldur leggja þess í stað traust sitt á Orkubloggið eitt.

Það hlægilegasta er auðvitað, að í bransanum eru nú miklar vangaveltur um þetta "brot" í myndinni þeirra hjá IEA. Meira að segja Orkubloggð er hér að eyða orðum í þetta - þó í hæðnistóni sé. Hafa menn ekkert þarfara við tímann að gera?

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband