Lula!

Ástandið er ekki beisið í Ameríku þessa dagana. Né heldur á Íslandi. Hálf slappt líka í Evrópu. Og meira að segja á nýmörkuðunum í Kína og Indlandi hafa hlutbréf lækkað gríðarlega. Td. hefur SSE-vísitalan í Shanghai fallið nærri 50% á rétt um hálfu ári og Sensex í Bombay hefur líka lækkað hressilega.

BovespaIndex05_03_05_08

Annað er uppi á teningnum í Brasilíu. Aðalvísitala kauphallarinnar í Sao Paulo (Bovespa) hefur vissulega sveiflast talsvert undanfarna mánuði, en sló í dag engu að síður enn eitt metið og fór yfir 68.000 stig. Í reynd hefur verðmæti hlutabréfa í Brasilíu nánast vaxið sleitulaust allt frá því vinstrimaðurinn Lula tók við forsetaembættinu fyrir um 5 árum (sbr. grafið). Undir stjórn Lula hefur Brasilía orðið eitt helsta efnahagskerfi heims og öðlast stöðu sem öflugt olíuríki.

LulaBrazil

Lula er um margt afar sérstakur náungi. Þessi fyrrum verkalýðsleiðtogi fæddist inní stóra fjölskyldu, þar sem lífsbaráttan var hörð og lítið um skólagöngu. Hann mun ekki hafa lært að lesa fyrr en 10 ára gamall og vann sem skóburstari frá 12 ára aldri. Síðar varð hann áhrifamaður í verkalýðshreyfingunni og þaðan lá leiðin í stjórnmálin.

Ég var í Brasilíuborg um mitt ár 2004. Þá hefði maður átt að setja fáeinar krónur í brasilísk hlutabréf. En hvað um það. Hótelið sem ég gisti á stóð við vatnið, sem er í jaðri borgarinnar og þaðan horfði maður beint yfir til forsetahallarinnar örskammt frá. Einn daginn birtist Lula á hótelinu til að hrista spaðana á okkur, sem þarna sátum á fundi (þar á meðal voru nokkrir hátt settir Brasilíumenn). Og þá fann maður þetta óútskýranlega afl og gríðarlega sjarma, sem sagður er fylgja sumu fólki. Hef heyrt þetta sama sagt um Bill Clinton, frá fólki sem hefur hitt hann í eigin persónu. 

BrasiliaCity

Brasilíuborg er engri lík, enda var hún beinlínis skipulögð og byggð upp sem höfuðborg landsins, langt inni á brasilísku hásléttunni. Hér til hliðar er mynd af þinghúsinu; byggingarnar með hvolfþakinu og skálinni eru aðsetur neðri og efri deilda þingsins. Í háhýsunum að baki eru svo skrifstofur.

Myndin hér að neðan er aftur á móti af dómkirkjunni, sem mér finnst mjög flott. Næst fallegasta guðshús heims á eftir kapellunni austur á Kirkjubæjarklaustri.

BrasiliaDomkirkjan

Brasilíuborg hlýtur að vera skylduáfangastaður fyrir arkitekta  - þó hún sé ekki endilega besta fyrirmynd nútímaborga. En einstök er þessi borg svo sannarlega og með margar afskaplega fallegar byggingar.


mbl.is Lækkun á hlutabréfum vestanhafs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband