Norska gullgerðarvélin

Efnahagsleg velgengni Norðmanna þessa dagana er með ólíkindum. Þar ber hæst þá staðreynd að norski Olíusjóðurinn (Statens Pensjonsfond Utland eða SPU) er um þessar mundir verðmætasti fjárfestingasjóður heims í opinberri eigu.

spf-utland_market-value_q1-2011.jpg

Í norska Olíusjóðinn rennur arður af olíu- og gasvinnslu á norska landgrunninu. Þar er um að ræða leyfisgjöld vegna kolvetnisvinnslunnar, skatta á hagnað vinnslufyrirtækjanna og arð sem norska ríkið fær vegna eignar sinnar í Statoil (hlutur norska ríkisins í þessu risastóra olíufélagi er 67%).

Þann 19. nóvember 2010 skreið Olíusjóðurinn ífyrsta sinn yfir 3.000 milljarða NOK að verðmæti og um síðustu áramót var verðmæti sjóðsins nánast sléttir 3.100 milljarðar norskra króna. Nokkuð vel af sér vikið þegar haft er í huga að sjóðurinn var ekki stofnaður fyrr en árið 1990 og fyrsta greiðslan í sjóðinn kom ekki fyrr en 1996.

Sökum þess að mjög hátt hlutfall af eignum sjóðsins eru hlutabréf, sveiflast hann mikið. Ávöxtunin árið 2008 var t.d. döpur. En síðan þá hefur Norðmönnum tekist afar vel að ávaxta sitt pund og nú er sjóðurinn orðinn langverðmætasti opinberi fjárfestingasjóður veraldar (sovereign wealth fund). Næstir á eftir honum koma nokkrir sjóðir á vegum olíuríkjanna við Persaflóann.

yngve_slyngstad_1.jpg

Lengi vel var norski Olíusjóðurinn einungis í öðru sæti, talsvert langt á eftir fjárfetsingasjóði ljúflinganna í furstadæminu Abu Dhabi. En vegna afar vel heppnaðra hlutabréfakaupa Norsaranna undanfarin 2-3 ár, á sama tíma og fjárfestingar Arabanna í Abu Dhabi hafa skilað herfilegum árangri, er norski sjóðurinn nú orðinn sá verðmætasti. Og stendur nú, sem fyrr segir, í u.þ.b. 3.100 milljörðum norskra króna. Það er því ekki skrítið að hann Yngve Slyngstad, yfirmaður sjóðsins, sé kampakátur þessa dagana.

Hér er þó rétt að geta þess, að Abu Dhabi Investment Authority, sem lengst af hefur verið í efsta sætinu, er einhver leyndardómsfyllsti ríkisfjárfestingasjóður heims. Í reynd er enginn utan Abu Dhabi sem veit raunverulegt verðmæti hans. Sumir telja því að þrátt fyrir mikið skrið norska Olíusjóðsins undanfarið, sé Abu Dhabi þarna ennþá í efsta sætinu. 

statfjord_plattform_xl.jpg

Það breytir því samt ekki að norski Olíusjóðurinn stendur nú í um 3.100 milljörðum norskra króna. Til að setja þetta í samhengi má nefna að 3.100 milljarðar NOK jafngilda um 570 milljörðum USD eða tæpum 66.000 milljörðum ISK. Og þessir aurar hafa safnast saman á einungis 15 árum.

Önnur ennþá skemmtilegri viðmiðun er að þetta verðmæti norska Olíusjóðsins samsvarar rúmlega 600 þúsund NOK á hvert mannsbarn í Noregi. Sem jafngildir um 13 milljónum ISK - á hvern einasta einstakling í Noregi. Eflaust myndi venjuleg íslensk 4ra manna kjarnafjölskylda þiggja það með þökkum að "eiga" nú sem nemur 52 milljónum íslenskra króna í auðlindasjóði Íslands.

norway-vislund-gas-field.jpg

En það er ekki nóg með að Norðmenn séu orðnir einhver ríkasta þjóð heims. Þar er efnahagslífið allt í miklum blóma þessa dagana (nema ef vera skyldi skipaútgerðin). Afkoma norskra fyrirtækja árið 2010 var einhver sú allra besta þegar litið er til tímabilsins 1995-2010. Einungis ofurárin 2006 og 2007 voru betri.

Meðan flest ríki heimsins prísuðu sig sæl ef þeim tókst að nýta árið 2010 til að krafla sig eilítið upp úr forarpyttinum sem þau lentu í vegna lánsfjárkreppunnar 2008, eru Norðmenn löngu komnir upp úr öldudalnum. Og eru einfaldlega á blússandi siglingu, langt á undan öllum öðrum. Þar í landi tala nú sumir um að framundan sé hinn gullni áratugur Noregs. Áratugurinn sem muni gera þá að langríkustu þjóð veraldar.

Systurnar velgengni og öfund er jafnan saman á ferð. Nú er svo komið að útlendingum er farið að ofbjóða peningastraumurinn til Noregs. Nýlegar deilur Þjóðverja og Frakka við Norðmenn um verð á gasi, eru kannski til marks um slíka óánægju.

statoil-gas-advertisement-2011.jpg

Þannig er að Noregur er einn stærsti gasbirgir Evrópu. Evrópsk orkufyrirtæki eins og þýska E-On og franska GDF Suez eru risakaupendur að norsku gasi ogþar er norska Statoil helsti seljandinn. Sölusamningarnir eru nær allir til mjög langs tíma og gasverðið svo til alltaf bundið olíuverði.

Slíkir langtímasamningar hafa lengi verið forsenda þess að farið sé í uppbyggingu á gasvinnslu og lagningu langra gasleiðslna. Þ.á m. eru gaslagnirnar sem liggja þvers og kruss eftir botni Norðursjávar og flytja norskt gas til nágrannalandanna hinumegin við Norðursjó.

norway-gas-pipes-1.gif

En gasmarkaðir hafa verið að breytast talsvert mikið allra síðustu árin. Stóraukin gasvinnsla í Bandaríkjunum hefur valdið mikilli lækkun á gasverði þar í landi og þessi þróun hefur nú borist til Evrópu.

Fyrir vikið hefur spot-verð á gasi engan veginn náð að halda í hátt olíuverð og gaskaupendur forðast nýja langtímasamninga. En vegna langtímasamninga evrópsku orkufyrirtækjanna við Statoil, hefur evrópskur almenningur og fyrirtæki áfram þurft að greiða mjög hátt verð fyrir norska gasið - í gegnum viðskipti sín við orkufyrirtækin heima fyrir sem kaupa gasið beint frá gasvinnslusvæðunum á norska landgrunninu. Verðið á gasinu í langtímasamningum Statoil við t.d. GDF Suez er t.a.m. meira en helmingi hærra en spot-verðið hefur verið undanfarið.

Stóru frönsku orkufyrirtækin hafa í meira en ár verið í viðræðum við Statoil um að lækka verð á gasinu - í átt að því verði sem spot-markaðurinn gefur færi á. Statoil hefur brugðist við þessum umleitunum af mikilli ljúfmennsku. Samt liggur enn ekkert samkomulag fyrir og áfram streymir rándýrt gasið eftir pípulögnum frá gasvinnslusvæðunum á norska landgrunninu og þaðan til orkufyrirtækjanna í Evrópu.

Þarna eru miklir hagsmunir í húfi. Sem fyrr segir eru evrópsku orkufyrirtækin að borga um helmingi hærra verð fyrir norska gasið en gengur og gerist á spot-markaði með gas. Og þessi innflutningur á norsku gasi til meginlands Evrópu er ekki bara sem nemur fáeinum gaskútum. GDF Suez, sem er eitt stærsta orkufyrirtæki Evrópu, fær næstum fjórðunginn af öllu sínu gasi frá Statoil. Á síðasta ári (2010) borgaði þetta franska risafyrirtæki um 17 milljarða NOK fyrir gasið frá Noregi (upphæðin jafngildir um 360 milljörðum ISK). Sama ár nam öll gassala Statoil til Evrópu u.þ.b. 162 milljörðum NOK (meira en 3.400 milljarðar ISK). Og 90% af öllu því gasi er selt skv. langtímasamningum

norway-gas-pipes-ormen-lange.jpg

Ef við gefum okkur að "sanngjarnt" verð fyrir þetta gas sé helmingi lægra en verið hefur, sést að það eru engir smáaurar í húfi. Nú er svo komið, að evrópsku orkufyrirtækjunum er nóg boðið og eru þau farin að hóta Norsurunum málaferlum til að ná fram verðlækkun. Hvort sú krafa er á grundvelli meintra brostinna forsenda langtímasamninganna eða byggð á öðrum lagarökum, hefur Orkubloggarinn ekki upplýsingar um. En þegar maður les norsku blöðin virðist ljóst að Statoil sé nánast farið að blygðast sín fyrir geggjaðan gróðann af gassölunni til Evrópu.

Það er til marks um mikinn hagnað Norðmanna af gassölunni, að á síðustu tíu árum hefur sala þeirra á gasi tvöfaldast en tekjurnar þrefaldast. Gasið hefur sem sagt, rétt eins og olían, verið þeim sem gullgerðarvél.

Hagnaðurinn af gassölu Norðmanna er það mikill að Statoil gæti vel kyngt einhverri lækkun - jafnvel umtalsverðri. Og þrátt fyrir slíka lækkun er augljóst að Noregur er áfram í góðum málum efnahagslega. Enda æðir nú fasteignaverðið þar í landi upp - og vegna þenslunnar bráðvantar vinnuafl af ýmsu tagi.

aker-brygge-bryggegata-16.jpg

Það er til marks um uppganginn í Noregi að sæmileg blokkaríbúð í Osló kostar nú sem nemur um 80 milljónum ISK. Og þokkalegt einbýlishús þar í borg er á u.þ.b. 200 milljónir ISK. Fyrir Íslendinga sem sækja þessa notalegu borg heim, er alltaf freistandi að rölta niður á Aker Brygge, velja sér gott sæti við sjóinn og horfa á sólina speglast í fögrum Oslófirðinum. Og þá kannski ósjálfrátt velta fyrir sér hvort ekki væri upplagt að fá sér íbúð þarna við bryggjuna. T.d. þessa hér við Bryggegata 16. Verðið er ekki nema 830 milljónir íslenskra króna. Greinilega skemmtilegur fasteignamarkaðurinn í Noregi; landinu sem er og verður heimili ríkustu þjóðar veraldarinnar. Ætli einhver norsk vegabréf séu á lausu fyrir afkomendur Snorra Sturlusonar?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

takk fyrir fræðandi og ekki síst stórskemmtilegan pistil Ketill :)

Óskar Þorkelsson, 14.6.2011 kl. 18:40

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Heja Norge!

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/06/14/oliuleitarutbodi_frestad/

Ketill Sigurjónsson, 14.6.2011 kl. 21:19

3 identicon

Takk fyrir mjög fræðandi og skemmtilega pistla, þér er stílvopnið sannarlega ekki stirt í hendi.

Baldur H. Benjamínsson (IP-tala skráð) 14.6.2011 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband