Kolefnisvísitalan

Undanfarin ár hefur nánast öll umræða um orku- og umhverfismál snúist í kringum gróðurhúsaáhrif, hlýnun jarðar, kolefnisjöfnuð, endurnýjanlega orku og nauðsyn þess að jarðarbúar „snúi af braut olíufíkinnar".

Engu að síður telur Orkubloggarinn óumflýjanlegt að kol, gas og olía verði helstu orkugjafar heimsins um langa framtíð - jafnvel næstu hundrað árin eða meira. Og að heimsbyggðin muni áfram vinna bullsveitt við að kreista hvern einasta olíudropa sem unnt er úr iðrum jarðar.

Syngas_Plant_USAÞar er enn af miklu að taka; miklu meira en margir virðast halda. Heimsendaspárnar um að við séum nú meira en hálfnuð með olíubirgðir jarðar dynja á okkur nær daglega og að senn fari verðið á olíutunnunni í 200-300 dollara er ekki óalgeng spá. En í reynd er miklu líklegra að ennþá sé unnt að framleiða á þokkalegu verði jafnvel þrisvar til fjórum sinnum meiri olíu en gert hefur verið síðustu hundrað árin. Um þetta er vissulega mikil óvissa, en Orkubloggið hallast að því að meðalverð á olíu næstu árin verði vel undir 200 dollurum tunnan miðað við núvirði.

Ef olíuverðið helst hógvært mun ekkert draga úr eftirspurn eftir olíu. Ef aftur á móti verðið rýkur upp langt yfir 100 dollara tunnan, er líklegt að nýr svartur risaiðnaður líti dagsins ljós. Olíuvinnsla úr kolum. Það er sem sagt sama hvernig olíuverðið þróast; kolvetnisvinnsla verður grunnurinn í orkugeira heimsins um langa framtíð. Ódýr olía mun auka olíueftirspurn en dýr olía mun auka eftirspurn eftir gasi og kolum. Þetta er eins konar sjálfskaparvíti eða úlfakreppa.

Tæknilega er löngu orðið unnt að framleiða olíu úr kolum og af kolum eru til heil ósköp. Þessi framleiðsla er nokkuð dýr og hefur þess vegna ekki orðið umfangsmikil. En ef olíuverð fer til langframa yfir 100 dollara tunnan mun þessi s.k. synfuel-framleiðsla vaxa hratt - það er óumflýjanlegt. En það mun þýða hrikalega aukningu í kolefnislosun. Eflaust má segja að sú mengun ein og sér sé hreinn viðbjóður, en ýmsir óttast enn meira veðurfarsbreytingarnar sem kolefnislosun kann að valda.

Sasol_CEO_Pat_DaviesÞessi subbulegi synfuel-iðnaður - sem kannski mætti kalla kolaolíu upp á íslensku - vex hratt en hljóðlega. Eins og Orkubloggið hefur áður getið um er það Suður-Afríska fyrirtækið Sasol, sem er í fararbroddi synfuel-iðnaðarins. Æðsti presturinn í þessum kolsvarta bransa er tvímælalaust Pat Davies, forstjóri Sasol.

Þeir Sasol-menn standa langt í frá einir. T.d. hefur stærsta jarðhitafyrirtæki heims - sem reyndar er mun þekktara fyrir olíuframleiðslu sína - sett mikið fjármagn í synfuel-framleiðslu. Hér er auðvitað verið að tala um Chevron, en Chevron á nú í nánu samstarfi við Sasol.

Kannski eru þær kenningar hárréttar að kolvetnisbruni mannkyns valdi hlýnun á jörðinni. Kannski. Kannski ekki. Orkubloggarinn er svolítið efins um að þær kenningar gangi eftir - en þykir þó sjálfsagt að sýna aðgát og reyna að takmarka þessa losun. Þó ekki sé nema til að minnka mengunina sem stafar frá öllum kolaorkuverunum og samgönguflotanum.

En hvað sem umræðunni og tilraunum ríkja til að draga úr kolefnislosun líður, er þetta eiginlega dæmt til að mistakast. Við byggjum allt okkar líf á orkunni og hún er og verður að mestu framleidd með kolvetnisbruna. Þess vegna streymir fjármagnið sleitulaust í iðnað eins og synfuel. Þó svo auðvitað sé miklu meira talað um þá fáeinu aura sem iðnfyrirtækin láta renna til þróunar í endurnýjanlega orkugeiranum. Meðan ekki kemur fram ný grundvallarlausn í orkumálum heimsins, mun kolvetnisbruninn halda áfram að vaxa í heiminum. Hvað sem öllum fögrum fyrirheitum líður. Það þarf eitthvað mikið að koma til, til að breyta þeirri þróun.

sasol_chevron_logo_2Þetta kann að hljóma nokkuð neikvæð spá. En Orkubloggarinn þjáist af miklu raunsæi. Hugsanlega verða þóríum-kjarnorkuver lykilatriði í umbreytingu í orkugeiranum. Ennþá betra væri ef kjarnasamruni verður tæknilega mögulegur. Enn er þá eftir að koma með snilldarlausnina í samgöngugeiranum. Rafmagnsbílar verða kannski hluti af lausninni en þó vart neitt grundvallaratriði. Meira eins og að kasta krækiberjum í kolsvarta Kolefnisrisann. Hér þarf eitthvað miklu meira að koma til. Það má öllu raunsæju fólki vera augljóst að umbreytingin mun taka langan tíma og óumflýjanlegt að kolvetnisbruni mun halda áfram að aukast lengi enn.

Meðan hlutabréfavísitölur æddu upp komst lítið annað að í fjölmiðlunum en gagnrýnislausar hallelúja-fréttir um uppganginn í efnahagslífinu. Upp á síðkastið hafa verðbréfabréfamarkaðirnir orðið æstir í að miðla viðskiptum með kolefnisheimildir. Nýjasta útspilið í fjármálalífinu er sem sagt að gera sér bisness úr gróðurhúsaáhrifunum.

climate_change_billboardStærstu viðskiptamiðstöðvar heimsins hafa löngum skreytt sig með ljósaskiltum, sem sýna helstu verðbréfavísitölurnar. Nýjasta brumið er innlegg risabankans Deutsche Bank. Sem nú hefur líklega mestar áhyggjur af því hvort þeir þurfa að taka Actavis upp í skuldir.

Þar þykir mönnum ganga hægt að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Til að leggja áherslu á þetta komu þeir nýlega fyrir 25 metra háu skilti sem sýnir vegfarendum í New York magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Þar í hjarta Manhattan getur fólk nú séð teljarann æða áfram. Hver og einn verður svo að hafa sína skoðun á því hvort þetta sé raunveruleg dómsdagsklukka eða merkingarlaus tala.

Sagt er að hálf milljón manns sjái þetta skilti á degi hverjum. Við hin getum fylgst með tölunni hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loftslag.is

Mér líst illa á þessa spá þína og vonandi rætist hún ekki. Vonandi tekst mönnum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda - því annars er útlitið mjög svart fyrir mannkynið eins og við þekkjum það.

Loftslag.is, 21.6.2009 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband