Mikilvægi tölfræðinnar

Ross Beaty og Magma Energy virðast í góðum málum. Voru að fá styrk uppá 10 milljónir dollar í jarðhitaverkefni vestur í Bandaríkjunum.

Geothermal_SodaUmrætt framlag kom úr bandaríska efnahagspakkanum  (sbr. American Recovery and Reinvestment Act). Upphæðin sem þarna rann til Magma Energy fer til tveggja jarðhitavirkjana Magma í Nevada; Soda Lake og McCoy. Fjárhæðin er sögð nema u.þ.b. helmingi af þeim kostnaði sem til stendur að leggja í þessi verkefni næstu tvö árin. Sem sagt umtalsvert.

Magma var ekki eina jarðhitafyrirtækið sem fékk slíkan glaðning nú rétt fyrir mánaðarmótin síðustu. Alls var þá veitt 338 milljónum USD í jarðhitastyrki, en verkefnin  eiga það flest sameiginlegt að stuðla að nýrri eða bættri jarðhitatækni. Þessum jarðhitaverkefnum er ekki aðeins ætlað að auka afköst jarðhitavirkjana þar vestra, finna betri tækni eða leita nýrra laghitasvæða, heldur einnig skapa þúsundir starfa og þar með draga úr áhrifum kreppunnar.

Hér heima virðast AGS og ríkisstjórnin aftur á móti ætla að vinna gegn kreppunni með því að dregið verði úr öllum framkvæmdum af þessu tagi. Og Alþingi ætlar meira að segja að auka skattlagningu á fyrirtæki; þ.m.t. fyrirtæki sem hyggja á ný verkefni eða vinna í þróun nýrra tæknilausna. Nánast eins og tilgangurinn sé beinlínis að vernda hið gamla og rotna atvinnulíf og bregða fæti fyrir snjöll sprotafyrirtæki.

Í Bandaríkjunum skynja stjórnvöld vel að besta leiðin út úr efnahagsógöngunum er að leita nýrra möguleika. Ekki síst með því að styðja við þróun nýrrar tækni og gefa nýjum hugmyndum tækifæri og svigrúm til að þroskast og dafna.

Mögulegt er að ofangreind stefna Bandaríkjastjórnar eigi eftir að auka hlutfall jarðhitans umtalsvert í orkugeiranum þar vestra. T.a.m. er ekki óalgengt að olíubrunnar hafa skilað margfalt meiru af heitu vatni, heldur en olíu. Hingað til hafa menn hvorki haft áhuga né tæknilega getu til að nýta þetta mikla jarðhitavatn. En núna var einmitt m.a. verið að styrkja rannsóknir á möguleikum þess að nýta þennan jarðvarma úr þúsundum olíubrunna víðsvegar um Bandaríkin. Einnig fengu mörg lághitaverkefni styrki. Það sem Magma fékk mun þó hvort tveggja vera vegna hefðbundnari háhitaverkefna. Kannski munu þeir sækja þar þekkingu til HS Orku?

DataMarket_logoLoks er athyglisvert að um 25 milljónir dollara fóru til verkefna sem horfa í að afla betri tölfræði  um jarðhita í Bandaríkjunum. Orkubloggaranum hefur einmitt þótt það eftirtektarvert hversu léleg eða óaðgengileg tölfræðin er, þegar kemur að endurnýjanlegri orku. Bæði upplýsingaskrifstofa bandaríska orkumálaráðuneytisins (EIA), BP og fleiri bjóða upp gríðarlega ítarleg og fróðleg gögn um jarðefnaeldsneytisiðnaðinn. Alveg hreint frábær gögn - þó þau séu reyndar stundum heldur klúðurslega fram sett (kannski EIA og BP ættu að hóa í hann Hjalla hjá DataMarket til að gera þessa upplýsingavefi aðeins meira djúsí og til ennþá meira gagns).

IRENA__Logo_largeEn þegar komið er út fyrir olíu, gas, kol... og kjarnorku, er upplýsingaflæðið vægast sagt heldur brotakennt og óáreiðanlegt. Úr þessu þarf að bæta. Kannski verður það eitt af mikilvægustu fyrstu verkefnum IRENA. Nýju alþjóðastofnunarinnar  um endurnýjanlega orku, sem verður staðsett í sólbrenndri framtíðarborginni Masdar í furstadæminu Abu Dhabi. Sú tölfræðivinna ætti auðvitað ekki að takmarkast við jarðhitann. Heldur verða besti og aðgengilegasti gagnagrunnur heims um endurnýjanlega orku. Góð tölfræði um endurnýjanlega orkugeirann er tvímælalaust mikilvæg forsenda þess að flýta fyrir tækniþróun og aukinni hagkvæmni í þessari hratt vaxandi atvinnustarfsemi, sem á að verða einn mikilvægasti lykillinn að því að draga úr kolefnislosun í heiminum.

steve-chu_2Þetta skilur hann Steven Chu, bandaríski orkumálaráðherrann, sem er hugmyndafræðingurinn að baki orkustefnu Obama-stjórnarinnar. Vonandi munu fleiri sem standa að baki fjármagni sem veitt er til þróunar og nýsköpunar komast á sömu skoðun. Orkubloggarinn trúir á mátt tölfræðinnar. Ekki síst þegar hún er aðgengileg og öllum opin. Free the data!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Góð grein hjá þér, Ketill.

Afar sérkennilegt hvernig þessi vinstristjórn ber sig að við efnahagsstjórnun þessa lands. Allir eiga að vita að "skattaleiðin"  er "eina leiðin" hjá þeim.

En hverju hefði dottið í hug að þeir hugsuðu ekki út fyrir boxið, við núverandi aðstæður.

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.11.2009 kl. 13:10

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Þetta er vonandi í áttina. Free the data!

Ketill Sigurjónsson, 6.11.2009 kl. 16:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband