Dýrir etanóldropar gleðja Dani

Orkubloggarinn bjó í Danmörku uppgangsárið mikla 2007. Og fannst fátt notalegra en að skreppa í hið alíslenska Kaupfélag við Kóngsins Nýja Torg (Magasin du Nord). Á eftir var svo t.d. hægt að skella sér á Hotel d'Angleterre og sötra þar sossum einn kaffi. "Íslenskt" kaffi!

novozymes_logo.jpg

En nú er hún Snorrabúð stekkur. Veldi Íslands í Köben er hrunið til grunna. Og Danir virðast hreint ekki gráta þessi örlög gömlu nýlenduþrælanna frá Den forblæste vulkanö. Jafnvel þvert á móti, enda var hroki íslensku Skrúðkrimmanna í dönskum fjölmiðlum stundum yfirgengilegur.

Og núna þegar danska Novozymes makar krókinn vestur í Bandaríkjunum á botnlausum styrkjum Obama-stjórnarinnar til handa lífmassaeldsneytis-iðnaðinum, slær danska pressan því upp að ógæfa Íslands ætli engan endi að taka. Meira að segja íslenska erfðaefnið sé orðið verðlaust.

decode_frederik_kronprins.jpg

Kannski er bissness bara leikur sem alltaf endar á sprunginni íslenskri krónu og dönsku siguröskri. Friðrik Danaprins sá það greinilega fyrir að illa myndi fara fyrir Decode. Hann var a.m.k. ansið tortrygginn á svipinn þegar hann sótti heim rannsóknastöðina hans Kára Stefánssonar í Vatnsmýrinni. Mary virtist aftur á móti mjög áhugasöm og vilja gefa Decode séns, enda ljúfur Ástrali þar á ferð og betra fólk vandfundið.

Já - Decode virðist vera í andaslitrunum. En danska líftæknin er aftur á móti á blússandi ferð og hefur sjaldan fengið annan eins meðbyr eins og einmitt þessa dagana. Líklega er ekkert fyrirtæki í heiminum sem nýtur jafn góðs af etanólþorsta Bandaríkjamanna, eins og danska Novozymes. Sem er einhver mesti ensímframleiðandi heims, en ensím er nauðsynlegt í bæði fyrstu og annarrar kynslóðar etanólframleiðslu.

novozymez-nebraska_mary_frederik.jpg

Nú síðast var Novozymes að tilkynna um byggingu enn einnar ensímfabrikku vestur í Bandaríkjunum, sem mun framleiða lífræna hvata fyrir bandarísku etanólverksmiðjurnar. Þessi nýja ensím-sköpun Dananna er að rísa í smábænum Blair í Nebraska og er fjárfesting upp á 750-1.000 milljónir danskra króna. Að sjálfsögðu mættu Mary og Frederik á svæðið til að taka fyrstu skóflustunguna og allir voru í góðum fíling - jafnvel þó svo "Frede" væri eitthvað meiddur á fæti.

Skemmtilegast var þó það, að varla voru Danirnir hjá Novo búnir að kveikja á ensím-framleiðslunni í Nebraska, þegar þeir fengu góðan glaðning frá Obama og félögum. Nýju skattaívilnanirnar til fyrirtækja í græna orkugeiranum (Advanced Energy Manufacturing Tax Credit) tryggja það nefnilega að Novozymes-verksmiðjan í Blair mun fá nettan 150 milljón dollara stuðning frá bandarísku alríkisstjórninni.

Danskurinn er að gera það gott í etanólinu. Nú má nálgast etanólblandað bensín um öll Bandaríkin og hugsanlega verður blöndunarhlutfallið brátt hækkað úr 10% í 15%. Tvennum sögum fer reyndar af því hvort eitthvert fjárhagslegt vit er í því að blanda etanóli í bensín. Í glampandi nýrri skýrslu Baker-stofnunarinnar um etanólið, er fullyrt að fyrir hverja tunnu af etanóli sem framleidd er í Bandaríkjunum, greiði bandarískir skattgreiðendur meira en 80 dollara í meðlag. Sé þetta rétt niðurstaða hjá Bökurunum hjá Baker, þá er bandaríska etanól-ævintýrið líklega eitthvert dýrasta sjóðasukk sem skollið hefur á bandarískum neytendum.

baker-institute.jpg

Nú vill svo skemmtilega til að hin kolsvarta olíutunna hefur síðustu daga og vikur einmitt verið að dansa í kringum 80 dollarana. Þannig að etanóliðnaðurinn getur með góðri samvisku haldið því fram að betra sé að nota dollarana til að skapa störf og lífrænt bandarískt eldsneyti, heldur en flytja inn olíu frá Arabíu. Þar að auki er fyrrgreind niðurstaða Bakaranna umdeilanleg og má t.d. hafa það í huga að þarna er á ferðinni stofnun innan Rice háskólans í olíuborginni Houston. Það er sem sagt smá olíufnykur af þessari svörtu Texasskýrslu um að bandaríska etanólið sé svona rándýrt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Nú hefur þú töluvert verið að benda á mögulega framleiðslu á lífhráolíu (biocrude) og einnig að það sé lítið vit í framleiðslu á fyrstu kynslóðar etanóli.

Þar sem olíuverð hefur verið mjög hátt síðastliðin ár í sögulegu samhengi, hvernig stendur þá á því að slík lífhráolía er ekki framleidd? Það er nú mjög ólíklegt að verð á olíu fari aftur niður í það sem taldist eðlilegt verð fyrir svona 10 árum síðan nema heimskreppan verði þeim mun dýpri.

Ég hef verið að reyna að afla mér upplýsinga um slíka framleiðslu á lífhráolíu en lítið fundið fyrir utan þína umfjöllun. Eru einhverjar tæknilegar hindranir á að framleiða lífhráolíu í miklu magni? Maður myndi halda að það væru einhverjar hindranir fyrst það er ekki verið að framleiða slíka olíu eða hvað?

Páll F. (IP-tala skráð) 18.1.2010 kl. 14:21

2 identicon

Verst með etanólið er að nýtnin á bensínvélinni lækkar og því þarf maður að fylla oftar á. Maður reynir bara að passa sig að kaupa ekki etanólblandað bensín.

Sonja (IP-tala skráð) 18.1.2010 kl. 14:39

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Lífhráolían er ekki ennþá orðin raunverulegur valkostur. Framleiðsla á lífhráolíu er, rétt eins og annarrar kynslóðar etanól og svo margt fleira í lífmassaiðnaðinum, ennþá á tilraunastigi. Helsta vandamálið við lífhráolíuna hefur verið að hún hefur reynst óstöðug við flutning, þ.e.a.s. kolvetnissameindirnar. Mörg fyrirtæki eru að vinna í því að finna lausn á þessu. Þ.á m. eru fyrirtæki sem hafa fengið hlutafé frá nokkrum þekktustu frumkvöðlafjárfestum heims. Þau sem eru lengst komin segjast verða komin með markaðsvöru fljótlega.

Ketill Sigurjónsson, 18.1.2010 kl. 14:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband