Fallegasta hönnunin?

Porsche eða Range Rover? Í tilefni þess að Íslendingar eru komnir í Formúlu 3 og að Okubloggið er mánaðargamalt, ætla ég að nota tækifærið og nefna annað afmæli og heimsins fallegustu bíla.

Nú í maí var fagnað 60 ára afmæli Land Rover. Hef alltaf haldið uppá Land Rover - og þó sérstaklega Range Rover. Enda alinn upp með einum slíkum. Pabbi keypti einn fyrsta Reinsinn á Íslandi - jafnvel þann allra fyrsta. Þannig var að pabbi hafði lent í bílveltu og Skátinn var ónýtur (það var gulur International Harvester Scout 800). Þá sýndu þeir hjá Heklu honum bækling með mynd af þessum nýja, breska jeppa, sem var væntanlegur. Og það varð ekki aftur snúið.

RangeRoverGreen2

Ég minnist enn haustkvöldsins 1971, þá 5 ára patti, þegar pabbi renndi upp heimreiðina á flotta, nýja græna jeppanum (eins og sá á myndinni). Sem alltaf var kallaður "Reinsinn". Og átti eftir að fylgja fjölskyldunni í meira en 25 ár og hátt í 500 þúsund km. Alla tíð með sömu upprunalegu kraftmiklu 3,5 lítra Buick vélinni og sama gírkassanum (sem er magnað, því fyrstu árin voru þessir bílar plagaðir af gírkassavandamálum). Hann var nánast eins og einn úr fjölskyldunni. Og öll þau 37 ár sem liðin eru síðan þá, hef ég haft sterkar taugar til Reins.

Segja má að þetta hafi verið gullaldarár í breskum samgönguiðnaði. Bretar kynntu Reinsinn til sögunnar, sem átti eftir að verða fyrirmynd nýrrar kynslóðar jeppa, eins og t.d. hins nýja Toyota Land Cruiser. Og í flugvélaiðnaðinum áttu þeir, á sama tíma, stóran þátt í hönnun og byggingu Concorde þotunnar.

RangeRoverOriginal

Reinsinn var tímamótabíll. Að einhverju leyti byggði hann a velgengni Bronco og Wagoneer vestan hafs. Ég minnist sérstaklega ýmissa sérkenna eða smáatriða. Eins og speglanna fremst á húddinu, hvernig felgurnar voru og hurðarhandföngin. Og sérkennilegt áklæðið á sætunum - held það hafi verið einhverskonar plast. En auðvitað er heildarúrlitið og frábær fjöðrunin það sem gerði Reinsinn einstakan bíl. Og notkun áls í yfirbyggingu og vél.

RRPrototype67

Strax á fyrstu prótó-týpunum má sjá sterkt Range Rover lúkkið, sem æ síðan hefur fylgt bílnum (mynd). Mér fannst fyrsta útgáfan fallegust (kynntur 1970). Og sérstaklega 2ja dyra bíllinn. Önnur kynslóðin fannst mér líka vel heppnuð. En eftir að bíllinn varð sá sem við þekkjum í dag, hef ég ekki verið jafn hrifinn. Línurnar eru orðnar full mjúkar fyrir minn smekk.

LandRover-Discovery-II

Já - Reinsinn er ekki lengur sá sem hann var. En aftur á móti þykir mér hafa tekist mjög vel með hönnunina á Discovery. Sérstaklega er ég hrifinn af series II (mynd). Og á einn slíkan. Finnst sá bíll vera hinn raunverulegi arftaki Range Rover Classic. Með sama sterka karakterinn - sannur jeppi með frábæra aksturseiginleika og flott útlit.

Er svolítið svekktur yfir því að bílnum skuli nú hafa verið breytt. Discovery 3 vinnur samt á eftir því sem maður horfir lengur á hann. En það þarf stærri dekk undir hann og líklega smá upphækkun, til að gera hann virðulegan. Er ekki alveg sáttur við það. Bílar frá Land Rover eiga að vera flottastir óbreyttir! Vonandi laga Indverjarnir bílinn (sem kunnugt er komst Land Rover nýlega í indverska eigu).

Porsche911

En þó ég sé jeppakall er það samt sportbíll sem ásamt Reins skipar sérstakan sess í mínum huga. Það er Porsche 911.

Enda fór það svo að mér fannst ég þurfa að eignast eintak af þessum gullfallega, klassíska eðalbíl. Sá er 911 Carrera 3.0 (sjá mynd). Held að þetta hljóti að vera fallegasti hlutur sem menn hafa smíðað.

En nú er stefnan sett á nýjan Discovery 3. Þannig að Porsinn er til sölu!

 


mbl.is Kristján Einar varð þriðji í Monza
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sigurjón
Gaman að lesa þenna pistil hjá þér um Reinsan.
Þeir sómuðu sér vel saman Reinsarnir tveir á Klaustri og númer 2 og 3 á landinu, eftir því sem að afi Jón tjáði mér :-)
Þessir bílar tveir eru vel gangfærir í dag, annar reyndar stífbónaður á Skógarsafni og hinn inni í bílskúr hjá afi Jóni !
Kveðja
Jón Geir

Jón Geir Birgisson (IP-tala skráð) 20.5.2008 kl. 09:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband