Betra er Drekagull en Rússagull

Dreki_sildarsmuga"I watched a snail crawl along the edge of a straight razor. That's my dream. That's my nightmare."

Já - stundum er erfitt að vita hvort maður þekkir sjálfan sig. Ég hef alltaf verið mikill Evrópumaður í mér. Einn af þessum sérvitringum sem t.d. elskar evrópskar kvikmyndir, en þolir ekki ameríska hasardraslið. Og eindreginn stuðningsmaður EB.

En hlutirnir eru því miður sjaldnast svarthvítir. T.d. eru flestar uppáhalds bíómyndirnar mínar í reynd amerískur hasar. Auðvitað gáfumannahasar! En amerískur hasar engu að síður. 

Apocalypse_Kilgore

Þar get ég t.d. nefnt Deer Hunter og Apocalypse Now (hrifnari af orígínal-útgáfunni fremur en þeirri sem Coppola gaf út síðar og er ennþá lengri). "I love the smell of napalm in the morning!" Maður er af þeirri kynslóð, sem kann þessa frasa betur en gullmola úr bókum Laxness. "The smell you know that gasoline smell. The whole hill... smelled like... victory!"

Rétt eins og Kilgore hefur mér alltaf fundist bensínlykt góð. Allt frá því hér um árið, þegar ég var nokkur sumur bensíngutti austur á Klaustri. Anda líka djúpt þegar ég finn yndislega útblásturslyktina frá flugvélabensíni -  vekur upp góðar minningar. Minnir mig nefnilega á það, þegar maður nánast bjó niður á Reykjavíkurflugvelli hér í Den, fljúgandi 2ja sæta Cessnurellum. Það var ákaflega skemmtilegt.

Og nú er maður byrjaður að finna bensínlyktina berast frá Drekasvæðinu. Það er hið besta mál. Kannski fáum við íslensku búálfarnir loks Drekagull. Og nýtt ævintýri um þau Benedikt, Dídí og Daða dreka.

putin_fishing

En víkjum að öðru gulli. Rússagullinu. Eða öllu heldur rússnesku gasi. Sem ég ætlaði að skrifa um. En got carried away. Reyndar er nærri 30 stiga hiti hér utan við gluggann á Friðriksbergi núna. Best að koma sér út að hjóla. Svo að Rússagasið verður aðeins að bíða. Á meðan geta lesendur Orkubloggsins, ef einhverjir eru, velt fyrir sér hvor sé svalari gæi; Kilgore eða Pútín?

--------------- 

PS: Tilvitnanirnar hér að ofan eru vel að merkja allar úr kvikmyndinni Apocalypse Now. Annars var þetta fínn hjólatúr, m.a. út á Amager strandpark. Þar taldi ég 20 vindtúrbínur utan við baðströndina. Líklega 40-50 MW framleiðslugeta þar á ferð. Eins og svo oft áður fór ég líka gegnum æskustöðvarnar á Austurbrú. Þar hjólaði ég í flasið á hópi uppstrílaðra Íslendinga i Skt. Paulsgade. Reyndist vera íslenskt brúðkaup í Skt. Pálskirkjunni. Brúðurin var afskaplega kjút íslensk stelpa. En gumann sá ég ekki, enda hefur hann líklega verið kominn í kirkju og beðið þar í svitabaði.

Loks bremsaði Evrópusnobbarinn að baki Orkublogginu við Seven/eleven, keypti stóra flösku af ísköldu kóka kóla, stökk svo inní McDonalds beint á móti og greip þar tvo skammta af hinu alþjóðlega rónafæði; McCheeseburgers. Úff hvað þetta var góður hádegisverður!

Svo er hér atriðið með Kilgore og "napalm in the morning": 

 


mbl.is Benda holurnar á olíu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband