Herða orkusnöruna?

Orkubloggið hefur ítrekað minnst á alvarleika þess hversu Vesturlönd eru orðin háð innfluttri orku. Bráðum mun Rússland geta farið öllu sinu fram, án tillits til Evrópu. Og einfaldlega hótað því að skrúfa fyrir gasið, ef EB er með eitthvert múður.

Putin_gas_snara

Og ástandið kann að fara versnandi. Orkusnaran kann að herðast enn frekar að hálsi Vesturlanda. Nú eru Íranar, Alsírmenn og Rússar farnir að tala um að stofna eins konar gasOPEC.

Til eru ríkjasamtök gasseljenda, sem kallast GECT (Gas Exporting Countries Forum). Þau samtök eru gerólík OPEC og hafa ekkert samstarf um verð eða framboð á gasi. En nú vilja Íran og Alsír styrkja þessi samtök. Og það sem kannski er mest scary, er að Rússar hafa boðað til fundar í haust, í því skyni að láta þennan draum rætast.

Til að gefa hugmynd um ástandið á gasmarkaðnum er vert að nefna að fjórir stærstu gasútflytjendurnir eru Rússland, Kanada, Noregur og Alsír. Þessi fjögur ríki eru með rúmlega þriðjung af öllum gasútflutningi í heiminum. Hið fimmta í röðinni er svo einveldið Túrkmenistan.

Auðvitað er gott til þess að hugsa að Kanada og Noregur eigi mikið af gasi til útflutnings. Bandaríkin eru einnig meðal stærstu gasframleiðendanna, en nota stóran hluta þess sjálfir. Og þó svo Íranar séu eitt stærsta gasframleiðsluríki heims, þurfa þeir til allrar hamingju sjálfir að nota mestan hluta af þeirri framleiðslu sinni. Því þjóðin er afar fjölmenn (um 70 milljónir). Þannig að áhrif Írana á alþjóðlegum gasmarkaði eru ekki stórvægileg.

Annað gildir um Rússland, Túrkmenistan og Alsír. Öll þessi ríki flytja gríðarlega mikið gas til erlendra kaupenda (langstærsti kaupandinn að gasinu frá Túrkmenistan er reyndar rússneski gasrisinn Gazprom). Sameiginlegir framleiðslukvótar þessara þriggja ríkja, etv. ásamt nokkrum fleirum, gætu haft mjög veruleg áhrif til hækkunar a gasverði. Og ekki síður pólitísk áhrif í alþjóðastjórnmálunum.

Algeria_gas

Þessi hugmynd um gasbandalag í anda OPEC, mun fyrst hafa verið sett fram af Pútín fyrir um fimm árum. Nú á að fylgja hugmyndinni eftir - og því fagna bæði Alsír og Íran. Meðan Bandaríkin og EB hafa talað harðlega gegn því að slík samtök verði mynduð. En menn geta látið sig dreyma um að lönd eins og Rússland og Íran hlusti á EB!.

Kannski örlítið meiri von um að Alsír muni láta til leiðast að fallast á rök Evrópu gegn slíku gasbandalagi. Gegn því að fá enn meiri fjárfestingar til sín frá EB-löndunum. Það myndi skipta talsvert miklu máli ef Alsír væri hliðhollt Evrópu í gasmálunum. Alsír er með um 5% af öllum gasútflutningi í heiminum. Og er einn mikilvægasta gasbirgir EB.

EU_NAT_GAS_2

Eins og staðan er í dag fá löndin í EB um helming af öllu innfluttu gasi sínu frá Rússlandi og líklega hátt í 25% frá Alsír (og mest af afgangnum frá Noregi). Þess vegna skiptir augljóslega gríðarmiklu máli að halda góðu sambandi við Alsír.

Þar að auki eykst þörf EB á innfluttu gasi hratt, aðallega vegna hnignandi gasframleiðslu í Norðursjó. Ef Alsír leggst undir gassæng með Rússum er ástandið orðið svart.

Ég er nokkuð bjartsýnn á að tengsl Evrópu og Alsír eigi eftir að styrkjast. Það er nefnilega líka mikilvægt fyrir Alsír að vera í nánum tengslum við EB. Þegar upp er staðið, er ekki ólíklegt að Alsír velji sjónarmið Evrópu fram yfir það að bindast nánari viðskiptasamböndum við Íran og Rússland. Síðustu ár hafa viðskipti á milli EB og landanna í N-Afríku vaxið nokkuð hratt og tengslin þarna á milli aukist.

Þar að auki er gas ólíkt olíu - menn fara nefnilega ekki létt með að geyma mikið af gasi til lengri tíma. Þegar búið er að ná gasinu upp verður seljandinn að losna við það, ef svo má segja. Þannig að vandasamara er að stjórna verði á gasi, heldur en á olíu. Og kaupi Evrópa ekki gasið af Alsír, er um nokkuð langan veg að fara til að koma því til annarra kaupenda.

Russia_China_Proposed_Gas_Line

Rússagasið er erfiðara viðureignar - t.d. gætu Rússar brátt farið að selja meira gas til Kína. A.m.k. er nokkuð líklegt að gasið frá hinni risastóru gaslind, sem hefur fundist í Síberíu, muni fara til Kína fremur en Evrópu. Umrætt gassvæði kallast Kovykta og er einmitt einn angi af hatrömmum deilum sem BP hefur átt við andstæðinga sina í Rússlandi. Deilur sem áður hefir verið minnst á hér á Orkublogginu.

 

En hvað um það. Beinum athyglinni frá Rússlandi og Kína og þess í stað að Alsír. Og N-Afríku almennt. Hvað hefur undanfarið verið að gerast i samskiptum þeirra landa við Evrópu? 

Sahara_camels

Af einhverjum ástæðum eru vestrænir fjölmiðlar almennt ekki með mikinn áhuga á N-Afríku. Og þá sjaldan það skeður, er umfjöllunin jafnan klisjukennd og kjánaleg.

Sú mynd sem líklega flest okkar hafa af þessum heimshluta er fátækt, spillt stjórnvöld og hryðjuverk. Vissulega eru þetta allt raunveruleg vandamál í þessum hluta heimsins. Engu að síður skiptir meira máli, að mörg ríkjanna við sunnanvert Miðjarðarhaf eru nú að upplifa gríðarlegan vöxt í efnahagslífinu.

Tökum Egyptaland sem dæmi. Þetta stóra og fjölmenna land (um 75 milljónir íbúar - sem langflestir búa á þröngu belti meðfram Níl) er t.d. einn stærsti olíuframleiðandi i Afríku. Framleiðslan núna er  um 650 þúsund tunnur á dag. Olíuauðlindir landsins eru áætlaðar um 3,7 milljarðar tunna. Mestur hluti olíunnar fer reyndar til notkunar innan lands, en nú eru horfur á að gasframleiðsla Egypta aukist hratt á næstu árum. Gott bæði fyrir Egyptaland og Evrópu.

egypt_night2

Á síðustu 10-15 árum hefur orðið gjörbreyting á egypsku efnahagslífi. Stjórnvöld hafa innleitt frjálsræði í viðskiptum, lækkað tolla og einkavætt fjölda ríkisfyrirtækja. Sem leitt hefur af sér mikinn hagvöxt. Einnig hefur verið slakað á ríkisafskiptum í landbúnaðargeiranum - eitthvað sem Evrópa vonandi bráðum tekur til við að gera. Svo er egypskt popp að auki afskaplega skemmtilegt! Eins og Orkubloggið benti á fyrir stuttu síðan.

Líbýa og Alsír eru enn stærri olíuframleiðendur en Egyptar, með samtals meira en 3 milljónir tunna á dag. Á tímum Rómaveldis var Alsír stundum nefnt forðabúrið mikla. Í stuttu máli er þetta svæði veraldarinnar einfaldlega gríðarlega auðugt af margs konar auðlindum - m.a. er mikla námuvinnsla þarna að finna.

En eðlilega vilja þessi lönd ekki verða hið dæmigerða afríska hrávörubúr Vesturlanda. Þess vegna eru mörg þeirra nú í óða önn að draga til sín fjárfestingar í t.d. þjónustugreinum. Það er þeim ákaflega mikilvægt, því gríðarlegt atvinnuleysi er víða í þessum ríkjum.

tanger-med-harbour2

Nefna má t.d. að í Tangier, rétt við landamæri Marokkó, rís nú höfn sem verður einhver stærsta gámahöfn Evrópu (Tangier tilheyrir Spáni). Aðeins höfnin í Rotterdam verður stærri. Og það sem meira er; svipaðar hafnir eru nú í byggingu t.d. í Túnis, Alsír og Egyptalandi.

Hafa ber í huga að um þriðjungur allra gámaflutninga heimsins fara um Miðjarðarhaf. Þannig að umskipunarhafnir á þessu svæði kunna að henta mörgum mun betur en að sigla alla leið til Hollands, svo dæmi sé tekið. Ég er reyndar ekki frá því, að Eimskip hefði betur beint fjármagni að N-Afríku, fremur en að vera að þessu stússi sínu í Kína. Ég segi nú bara - væri ekki ráð að horfa til þeirra landa sem eru aðeins nær gömlu Evrópu? Mare Nostrum!

En aftur að fjárfestingum í N-Afríku. Það er athyglisvert að nú þegar er samanlögð erlend fjárfesting í Miðjarðarhafssvæðinu utan Evrópu búin að slá út öll önnur efnahagssvæði. Nema Kína. Enn sem komið er, eru það þó fyrst og fremst þrjú lönd á svæðinu, Egyptaland, Ísrael og Tyrkland, sem eru vinsælust af fjárfestum. En búist er við að þetta breytist hratt á næstu árum og önnur ríki í N-Afríku muni líka draga til sín meira fjármagn. Nú er t.d. evrópski bílaiðnaðurinn, sem að verulega leyti hefur flutt verksmiðjur sínar til Tyrklands, farinn að horfa til landanna við sunnanvert Miðjarðarhaf. Og þá sérstaklega til Marokkó. Þarna er einfaldlega mikið að gerast þessa dagana. Meðan fjölmiðlar virðast helteknir af fjárfestingum í Kína og Indlandi. 

Summer in La Goulette_5

Best að fara að ljúka þessari langloku. Við hæfi að minnast á eina af skemmtilegri bíómyndum, sem ég hef séð. Sú gerðist einmitt á þessu svæði - nánar tiltekið í Túnis. Myndin sú fjallar um þrjár vinkonur, sem eru ca. 17 ára og telja orðið tímabært að leika sér aðeins með hinu kyninu. Svo vill til að fjölskyldur þeirra eru eilítið mismunandi; ein kaþólsk, ein múslímsk og ein gyðingafjölskylda. Myndin gerist 1967 og á sama tíma og ástin blómstrar skellur á sex-daga-stríðið. Sem gjörbreytti öllu í samskiptum trúarbragðanna við Miðjarðarhaf. Segi ekki meir. En hreint frábær mynd. Titillinn er Sumarið í La Goulette og leikstjórinn hét Férid Boughedir.


mbl.is Methagnaður hjá OPEC ríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Takk fyrir þetta - sannarlega margt í mörgu.  Langar í þessu samhengi að benda á ansi áhugaverða síðu hjá manni nokkrum, er Jim Sinclair heitir.  Óhætt að segja, að sá taki púlsinn!  Síðan er hér...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 12.8.2008 kl. 22:50

2 identicon

Smá leiðrétting. Tangier tilheyrir ekki Spáni heldur er hluti af Marokkó. Hinsvegar er Ceuta (Sebta á kortinu) landsvæði undir yfirráðum Spánverja. Sú borg hefur mjög lítið landsvæði til umráða og ég geri ekki ráð fyrir að þar sé pláss fyrir svona stóra höfn (ég hef farið í gegnum höfnina þar ótal sinnum). Kortið hjá þér sýnir norðurhluta Marokkó og einungis mjög lítill hluti af brúna svæðinu tilheyrir Ceuta og þar með Spáni.  Samkvæmt þessu korti virðast Marokkómenn ætla að gera gríðarstórt fríhafnarsvæði þarna í norðri, en Ceuta er einmitt fríhöfn og skattfrjáls. Annars hef ég lengi heyrt sögusagnir af því að oliu sé að finna í Marokkó en að stóru olíuþjóðirnar úr röðum Araba mútuðu Marokkómönnum til að vinna ekki þessa olíu. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það þó!

baddi (IP-tala skráð) 13.8.2008 kl. 09:11

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Bestu þakkir fyrir þessa athugasemd, Ásgeir Kristinn. Þetta með Tangier er að sjálfsögðu alveg hárrétt ábending. Og bið ég, f.h. Orkubloggsins, alla Marókkomenn afsökunar á þessari missögn.

En af því þú nefnir olíu í Marokkó: Þar hefur reyndar lengi verið olíuvinnsla, en sáralítið magn sem hefur fundist. Aftur á móti er nú verið að leita að olíu utan við ströndina; á landgrunninu.

Nefna má að olía hefur fundist utan við strönd Vestur-Sahara. Sem er líklega ein af helstu ástæðum þess að Vestur-Sahara er enn hersetin af Marokkó (og Máritaníu).

Ef einhverjir Íslendingar vilja komast á mjög ævintýralegar slóðir, er upplagt að skreppa til Vestur-Sahara. Og svo fara langt inní eyðimörkina í átt að landamærum Alsír. Þar halda Polisario-menn til, á bak við einn undarlegasta og lengsta varnarvegg mannkynssögunnar. Sem er eins konar veggur úr grjóti og sandi, nokkurra metra hár og samtals nærri 3.000 km langur. Enn eitt dæmið um hvernig raunveruleikinn er lygilegri og furðulegri en nokkur skáldsaga. En það er önnur saga.

Ketill Sigurjónsson, 13.8.2008 kl. 15:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband