Olíuleki

Wikileaks-skjölin úr bandarísku stjórnsýslunni hafa opnað okkur athyglisverða sýn í veröld olíunnar.

obama-saudi-arabia.jpg

Þar kemur m.a. fram að yfirvöld í Saudi Arabíu vilji helst að Bandaríkin þurrki út Klerkastjórnina i Íran. Enda er Íran það land sem er með einhverjar mestu olíubirgðir veraldar og blessaðir Sádarnir treysta alls ekki trúbræðrum sínum í Persíu til að halda sig innan viðmiðana OPEC (þ.e. að virða framleiðslukvótana).

Ef olía tæki að streyma stjórnlaust á markaðinn frá Íran myndi olíuverð einfaldlega hrapa. Afleiðingin yrði sú að Saudi Arabía myndi samstundis lenda í miklum viðskiptahalla - með tilheyrandi innanlandsóróa. Þá gæti orðið stutt í byltingu gegn einræðisstjórninni, sem þar hefur setið að olíuauðnum og stýrt landinu með harða hendi trúarinnar að vopni.

julian-assange-time-cover_1049025.jpg

Hjá Wikileaks má líka finna skjöl um að í reynd sé það olíufélagið Shell sem stjórnar Nígeríu - miklu fremur en nígerísk stjórnvöld. Allar helstu ákvarðanir munu nefnilega vera bornar undir Shell áður en þær eru formlega teknar af sjálfum stjórnvöldum Nígeríu.

Einnig er þarna að finna skjöl um að bandaríski olíurisinn Chevron hafi skipulagt olíuviðskipti við Klerkana í Íran þrátt fyrir viðskiptabann Bandaríkjastjórnar. Þó það nú væri! Fátt er ábatasamara en slík ólögmæt olíuviðskipti, eins og eigendur Glencore og fleiri fyrirtækja á jaðri hins siðmenntaða heims þekkja manna best. Hingað til hafa flestir álitið að stóru olíufélögin sem skráð eru á markaði héldu sig frá slíku. Að fara framhjá viðskiptabanni er einfaldlega svakalega áhættusamt fyrir hlutabréfaverðið ef upp kemst. En menn virðast barrrasta ekki standast mátið. Enda fátt ljúfara en að kaupa olíutunnuna á svona ca. 5-10 dollara og svo selja hana á 80 USD á markaði.

venezuela-china-simon-bolivar.jpg

Kostulegast er þó að lesa um hvernig hinar ægilegu hótanir Hugó Chavez, forseta Venesúela, um að hætta að selja Bandaríkjamönnum olíu og selja hana þess í stað til Kína, hafa snúist í höndum hans. Reyndar hefur Orkubloggið áður minnst á að þessar hótanir séu mest í nösunum á kallinum, enda er CITGO með nær alla olíuhreinsunina sína í Bandaríkjunum og því væri þeim dýrt að framkvæma "hótanirnar". Engu að síður hefur ljúflingurinn Chavez látið athafnir fylgja orðum í þetta sinn. Kínverjar hafa gert nokkra stóra samninga um kaup á olíu frá Venesúela og þannig tekið þátt í að skapa þann pólitíska sýndarveruleika að Bandaríkjamenn geti sko alls ekki treyst á að fá olíu frá Venesúela.

En Wikileaks-skjölin afhjúpa þann veruleika að Kínverjarnir borga Chavez og félögum einungis skitna 5 USD fyrir tunnuna! Og nú er Chavez fjúkandi illur því hann grunar Kínverjana um að nota ekki olíuna heima fyrir, heldur að selja hana beint inn á markaðinn! Þar sem verðið hefur verið í kringum 80 USD tunnan undanfarið. 

chavez-venezuela-chine-globe.jpg

Skjölin benda til þess að sumt af þessari olíu sem Kína kaupir af Venesúela fari til viðskiptalanda Kína í Afríku. Mest virðist þó fara beint á Bandaríkjamarkað! Því verður ekki betur séð en að fulltrúar alþýðunnar séu farnir að stunda sama leikinn eins og örgustu ímyndir heimskapítalismans.

Hingað til hafa menn einungis haldið slík viðskipti stunduð af alræmdustu skuggafyrirtækjum veraldarinnar; að kaupa olíu á slikk frá einangruðum stjórnvöldum og selja hana svo áfram með ofsahagnaði. En nú eru það Venesúelamenn sem sitja eftir með sárt ennið eftir að hafa verið svona duglegir að sýna viðleitni til sósíalískrar samstöðu. Kannski ekki furða að karlálftin hann Húgó klóri sér í kollinum - og velti fyrir sér af hverju olíuskipin sem sigla frá Venesúela og vestur um Panama-skurðinn virðast aldrei ná til Kína.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Athyglisvert

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.12.2010 kl. 16:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband