Hrávöruparadísin Brasilía

Brazil-P-52 oil platform in the Roncador field

Orkubloggarinn tók nýverið þátt í laufléttum spurningaleik á Facebook. Leikurinn gekk út á að svara ýmsum spurningum um áhugamál og störf - og svörin notuð til að segja manni hvaða land í heiminum sé álitlegast fyrir mann að flytja til. Ef maður á annað borð hefur áhuga á að setjast að utan Íslands.

Sú niðurstaða sem bloggarinn bjóst helst við að fá var annað hvort Ástralía eða Kanada. En það fór þó ekki svo. Þess í stað álitu höfundar leiksins að besta landið fyrir Orkubloggarann að setjast að í sé ævintýralandið Brasilía! Skýringin sem fylgdi var sú að það sé einkum hrávörugeirinn og olíuiðnaðurinn sem geri Brasilíu að fyrirheitna landinu fyrir bloggarann.

Olíuborpallarnir heilla

Nú vill svo til að Orkubloggarinn hefur einu sinni komið til Brasilíu. Og hreifst vissulega mjög af landi og þjóð. Það var reyndar svo að bloggarinn var vart kominn inn í landið áður en hann kynntist hrávöruævintýrinu sem þar geisaði.

Rio-de-Janeiro-statue

Strax í hæggengri röðinni í vegabréfaskoðuninni á alþjóðaflugvellinum í Rio de Janeiro kom í ljós að umtalsverður hluti farþeganna voru erlendir olíustarfsmenn. Sem voru á leið úr fríi - með stefnu á olíuborpallana út af ströndum Brasilíu. Það átti t.d. við um báða Bretana sem voru næstir Orkubloggaranum í röðinni. Annar þeirra var að vísu nýkominn á eftirlaun, en hafði lengi unnið í olíuiðnaðinum í Brasilíu og átti brasilíska eiginkonu í Ríó; hafði bara rétt skroppið í gamla grámann á Bretlandi. Hinn var aftur á móti yngri og var á leið beint út á borpallinn - og sagðist líka þetta flökkulíf vel.

Þarna spannst áhugavert samtal um lífið á olíuborpöllunum á brasilíska landgrunninu og ævintýralegt olíuæðið sem þá var nýlega byrjað í hrávöruparadísinni Brasilíu. Þetta var fyrir tæpum áratug. Síðan þá hefur brasilíska hrávöruævintýrið bara orðið ennþá stærra. Olíuframleiðslan hefur næstum tvöfaldast og Brasilía ekki aðeins orðin sjálfri sér næg um olíu heldur stefnir hraðbyri á að verða umtalverður olíuútflytjandi. Þetta má einkum þakka risalindunum, sem hafa verið að finnast úti á brasilíska landgrunninu, m.a. utan við borgina ægifögru Rio de Janeiro.

Mikill uppgangur undir stjórn Lula

Skiptar skoðanir eru um það hverjum beri að hrósa fyrir efnahagsbatann í Brasilíu - þar sem allt var í kalda kolum fyrir um tuttugu árum eða svo. Frægt er þegar verðbólgan þarna syðra fór í um 5.000% árið 1993! Þá var Brössum nóg boðið og pólitísk sátt náðist um víðtækar efnahagsaðgerðir.

Aðgerðirnar sem gripið var til (Plano Real) stefndu einkum að því að koma böndum á verðbólguna og auka innstreymi erlends fjármagns. Þar kom m.a. til einkavæðing fjölda ríkisfyrirtækja (ríkið hélt þó eftir stærstum hluta í þjóðarstoltinu Petrobras, sem er helsta olíufyrirtæki landsins).

Brazil-lula-1

Engu að síður voru ríkisskuldirnar áfram skelfilega miklar og mikil óvissa um framhaldið. Ekki batnaði álit erlendra fjárfesta á Brasilíu í upphafi nýrrar aldar, þegar flest benti til þess að vinstri maðurinn Lula da Silva, frambjóðandi Verkamannaflokksins, myndi ná kjöri. Kalt vatn rann á milli skinns og hörunds þeirra sem komið höfðu með fjármagn inn í Brasilíu í einkavæðingunni. Því margir þeirra töldu að Lula myndi hætta að borga af erlendum lánum og þjóðnýta öll stærstu fyrirtækin. Og færa Brasilíu í átt til þess sem var hjá Hugó Chavez í Venesúela.

En það fór aldeilis á annan veg. Lula náði vissulega kjöri og það með talsverðum yfirburðum. Og hann varð ekki aðeins einhver ástsælasti forseti brasilísku þjóðarinnar, heldur líka besti vinur kapítalistanna. Hagkerfi Brasilíu óx hratt í stjórnartíð Lula og mikill fjöldi Brasilíumanna komst úr fátækt til bjargálna. Í valdatíð hans fór þetta 200 milljón manna þjóðfélag frá því að vera á barmi efnahagslegs hengiflugs og í það að verða að einu stærsta efnahagsveldi heimsins.

Brazil-Oil-Fields-Map

Saga Lula - fátæka skóburstarans sem var alinn upp af átta barna einstæðri móður og komst til æðstu metorða í risalandinu Brasilíu - er ævintýri líkust. Það er aftur á móti umdeilt hvort þakka megi Lula efnahagsuppganginn í Brasilíu eða hvort ytri skilyrði voru honum einfaldlega afar hagstæð. Í valdatíð Lula var hrávöruverð almennt hátt, sem kom Brasilíu afar vel og skapaði landinu miklar tekjur. Og æsispennandi hrávörugeirinn laðaði að erlenda fjárfestingu.

Brazil-Commodities-Export-share_2000-2012

En hvað sem ytri skilyrðunum líður þá stóð Lula svo sannarlega ekki í vegi fyrir því að einkaaðilar - brasilískir eða erlendis frá - gætu fjárfest í náttúruauðlindum landsins. Undir hans stjórn var hagkerfið opnað enn meira en verið hafði og erlent fjármagn streymdi til Brasilíu. Hagvöxturinn varð mikill - og jafnvel þrátt fyrir samdráttinn á Vesturlöndum upp úr 2007-08 æddi vöxturinn í Brasilíu áfram.

Það verður heldur ekki af Lula tekið að í uppsveiflunni tókst að auki að halda verðbólgu í skefjum. Í landinu sem lengi hafði verið frægt fyrir óðaverðbólgu.

Verður Rousseff einungis eitt kjörtímabil?

Brazil-President_Dilma_Rousseff-marxist

Forseti Brasilíu má sitja tvö kjörtímabil (í röð). Þegar öðru kjörtímabili Lula lauk í árslok 2010 flykkti brasilíska þjóðin sér að baki eftirmanni hans úr Verkamannaflokknum, sem er kjarnakonan Dilma Rousseff. Hún var áður einlægur marxisti og mátti sem ung kona sæta fangelsun og pyntingum af hálfu herforingjastjórnarinnar. En rétt eins og Lula, þá hefur Rousseff náð viðhalda friði milli verkalýðsstéttarinnar og stórfyrirtækjanna og áfram verið nokkuð góður gangur í brasilíska efnahagslífinu.

Að vísu hefur hagvöxturinn í Brasilíu dalað eilítið síðustu tvö árin. Og það kann að skapa togstreitu - eins og reyndar hefur þegar mátt sjá í útbreiddum mótmælum gegn stjórnvöldum síðustu vikur og mánuði. Það vakti almennt mikinn fögnuð hjá brasilísku þjóðinni fyrir nokkrum árum þegar Brasilía tryggði sér bæði heimsmeistaramótið í knattspyrnu 2014 og Olympíuleikana í Río de Janeiro árið 2016. En núna, þegar hægt hefur á hagvextinum, ofbýður mörgum Brasilíumanninum fjáraustur hins opinbera í leikvanga og önnur mannvirki vegna HM og þó einkum Ólympíuleikanna. Á sama tíma hefur nefnilega harðnað verulega á dalnum hjá  brasilísku millistéttinni og minna fé er til að reka skóla- og heilbrigðiskerfið.

Brazil-President_Dilma_Rousseff-and-Lula-2Óánægjuöldurnar virðast aftur á móti hafa lítil sem engin áhrif á geysilega ánægju Brasilíumanna með Lula. Undanfarið hefur talsvert borið á vangaveltum um að Rousseff verði ekki í endurkjöri, þegar kjörtímabili hennar lýkur eftir rúmt ár. Heldur verði Lula aftur frambjóðandi Verkamannaflokksins.

Fullvíst virðist að Lula myndi sigra forsetakosningarnar nokkuð örugglega - þó það sé kannski vafasamt að vera að spá svona fram í tímann. Í kosningunum gæti skipt miklu máli að fáir ef þá nokkur annar stjórnmálamaður í heiminum hefur þvílíka persónutöfra eins og Lula, sem á sínum tíma heillaði Orkubloggaranna upp úr skónum. Lula hefur þar að auki alveg einstaklega landsföðurlegt yfirbragð og verður varla skotaskuld úr því að verða aftur forseti Brasilíu. Ef hann lætur slag standa.

Hrávöruparadísin heillar Kína

Uppgangurinn í Brasilíu síðasta áratuginn byggist fyrst og fremst á náttúruauðlindum landsins. Í því sambandi skiptir sennilega eftirspurnin frá Kína langmestu máli.

Brazil-Iron Ore-Exports_2002-2012

Brasilíska fyrirtækið Vale er stærsti framleiðandi heimsins á járngrýti. Og þó svo járnútflutningurinn sé það sem hvað mestu máli skiptir fyrir Brasilíu, þá hefur landið einnig hagnast mjög á aukinni olíuvinnslu síðustu árin. Að auki er Brasilía stór útflytjandi að ýmsum landbúnaðarafurðum, sem einmitt hækkuðu mikið í verði í efnahagsuppsveiflunni nú í aldarbyrjun. Dæmi þar um er kaffi, kjúklingar, sojabaunir og sykur.

Útflutningur frá Brasilíu felst þó alls ekki bara í hrávörum. Í Brasilíu hefur t.a.m. byggst upp margvísleg tækniþekking og gott dæmi um það er brasilíski flugvélaframleiðandinn Embraer. Sem er í dag stærsti flugvélaframleiðandi heims á eftir Boeing og Airbus!

Brazil-China-Trade_2001-2012

Það er samt hrávöruútflutningurinn sem er grunnurinn að gríðarlegum efnahagsvexti Brasilíu síðasta áratuginn. Og þar skiptir mestu, eins og áður sagði, mikil eftirspurn frá Kína.

Árið 2009 fór Kína fram úr Bandaríkjunum sem stærsta viðskiptaland Brasilíu og Kína er nú orðið langstærsta innflutningsland heims á vörum og þjónustu frá Brasilíu. Kína er einnig orðið stærsti erlendi fjárfestirinn í Brasilíu. Árlegar fjárfestingar kínverskra fyrirtækja þar syðra hafa aukist mjög hratt. Fyrir örfáum árum var þetta smotterí. En hefur undanfarið numið tugum milljarða USD á ári og er orðið meira en helmingur allra erlendra fjárfestinga í Brasilíu.

Brazil-Export-Destinations

Fjárfestingar kínverskra fyrirtækja í Brasilíu hafa einkum verið í landbúnaði, orkuframleiðslu og námavinnslu. Sem sagt í hrávörugeiranum - því sem á ensku er nefnt commodities sector. Eitt dæmi um fjárfestingar Kínverjanna eru kaup kínverska ríkisolíufélagsins Sinopec á stórum hlut í tveimur brasilískum olíufyrirtækjunum. Þau viðskipti námu samtals um 11 milljörðum USD. Til gamans má nefna að Sinopec er einmitt sagt vera að semja um aðkomu að olíuleit á íslenska Drekasvæðinu þessa dagana (og einnig kínverska CNOOC). Sem er allt önnur saga.

Kínverjarnir fjárfesta einnig í innviðum hrávörugeirans

Kínversk fyrirtæki eru ekki bara áhugasöm um brasilískan landbúnað, málma og orku; þau hafa líka fjárfest mikið í innviðum sem tengjast hrávörugeiranum. Þar má nefna raforkudreifikerfið, járnbrautir og hafnir.

Brazil-China_president-dilma-rousseff-and-premier-wen-jiabao-2

Eitt dæmi þar um er kínverska raforkudreifingafyrirtækið SGCC, sem hefur undanfarið keypt alls sjö brasilísk raforkudreifingarfyrirtæki fyrir um milljarð USD. Það munar um minna að fá slíkan fjárfesti inn í landið; SGCC er samtals með um 1,5 milljónir starfsmanna og eigið fé fyrirtækisins nemur vel á annað hundrað milljarða USD. Umsvifin eru sem sagt talsverð! Kannski SGCC hafi áhuga á að kaupa hlut í Landsneti?

Annað dæmi er kínverska ríkisfyrirtækið WISCO, sem er þátttakandi í byggingu nýju risahafnarinnar sem nú er að rísa skammt utan við Rio de Janeiro. Höfnin sú er fjárfesting upp á litla 40 milljarða USD og verður stærsta stórskipahöfn Suður-Ameríku og sú þriðja stærsta í heiminum!

Chinamax-Navio-Acu-Superport

Þessi nýja risahöfn kallast Açu Superport. Hún á m.a. að þjónusta nýja tegund ofurskipa sem eru kölluð Chinamax og geta flutt 400.000 tonn af járngrýti í hverri ferð. Það er um 100.000 tonnum meira en hefðbundin risaflutningaskip (s.k. VLOC). Chinamax risaskipin eru flutningaskipin sem í framtíðinni eiga að verða í stanslausum ferðum með járngrýti og ýmsar aðrar afurðir frá Brasilíu til Kína. Til að mæta sívaxandi eftirspurn Kína eftir stáli, kolum, fæðu o.s.frv.

Það segir kannski svolítið um mikilvægi kínverska markaðarins og framtíðarsýn brasilískra fyrirtækja, að brasilíski námu- og álrisinn Vale er einmitt núna að láta smíða fyrir sig rúmlega þrjátíu slík risaskip. Sem Brassarnir hjá Vale kalla reyndar alls ekki Chinamax heldur að sjálfsögðu Valemax [Bragi Þór; hvenær kemur Eimskipmax? Fyrir Íshafsleiðina!]. Enda ríkir mikil bjartsýni í Brasilíu um að landið verði um langa framtíð lykilaðili í að metta hrávöruþörfina í Kína.

Olía, járn, sojabaunir, kaffi, gúmmí...

GDP-countries-largest-2012

Mikill hagvöxtur í Brasilíu undanfarinn áratug eða svo hefur valdið því þetta risastóra og dularfulla land, sem lengi var einkum þekkt fyrir snjalla knattspyrnumenn og miskunnarlausa herforingjastjórn, er nú orðið eitt allra stærsta hagkerfi heimsins. Í dag er hagkerfi Brasilíu u.þ.b. á pari með Frakklandi og Bretlandi. Það eru því einungis bandaríska, kínverska, japanska og þýska hagkerfið sem eru stærri.

Engu að síður eru laufléttar blikur á lofti. Þar kemur einkum til að eitthvað virðist vera að hægja á eftirspurninni frá Kína. Verðlækkun á t.d. járngrýti kemur sér illa fyrir brasilískt efnahagslíf - og sú þróun er sjálfsagt í og með ein af undirliggjandi ástæðum þeirrar óánægju sem hefur undanfarið komið fram hjá brasilískum almenningi.

rubber-production-Price_1900-1935

Það er vel að merkja ekkert nýtt að hrávöruparadísin Brasilía upplifi mikla uppsveiflu - og hressilega niðursveiflu. Þetta er jafnvel einkenni á brasilísku efnahagslífi í gegnum söguna. Efnahagur landsins hefur löngum verið afar háður verði á tilteknum hrávörum; ýmist á járni, kaffi eða gúmmíi.

Það er langt í frá gulltryggð fjárfesting að ætla að taka þátt í hrávöruævintýri suður í Brasilíu. Frægt er þegar bandarísku auðjöfurinn Daniel Ludwig eyddi meira en milljarði USD í risastórt mislukkað landbúnaðarverkefni og pappírsframleiðslu inni í Amazonfrumskóginum á áttunda áratug liðinnar aldar.

Amazon var líka vettvangur annars ennþá stærra og dramatískara hrávöruævintýris - þegar auðæfin frá brasilísku gúmmítrjánum urðu grundvöllur þess að ein glæsilegasta borg heimsins á þeim tímum reis þar djúpt inni í frumskóginum. Þar er að sjálfsögðu átt við undraborgina Manaus.

Brazil-Manaus-map

Borgin sú byggðist upp í kringum framleiðslu og útflutning á gúmmíi frá gúmmítrjánum þarna inni í frumskóginum. Tilkoma bifreiða olli stóraukinni eftirspurn eftir gúmmíi og nánast á svipstundu urðu svonefndir gúmmíbarónar í Manaus meðal auðugustu manna heimsins. Það er til marks um auðinn í Manaus að hún varð fyrsta borgin í Brasilíu sem var raflýst. Þar var reist óperuhús - Teatre Amazonas - sem hafði margar helstu stórstjörnur óperuheimsins á sviði (sumar heimildir segja að sjálfur Caruso hafi þanið raddböndin í Manaus). Og lúxusvörur frá Evrópu streymdu til nýríku auðstéttarinnar í borginni.

Um 1910 tók skyndilega að berast gúmmí á markaðinn frá gúmmíplantekrum í nýlendum Breta í SA-Asíu. Fræjum brasilíska gúmmítrésins hafði verið smyglað frá Amazon og með stórauknu framboði snarféll gúmmíverð. Gúmmíræktunin í Amazon gat ekki keppt við nýju gúmmíplantekrurnar í Asíu og Manaus hnignaði jafn hratt og hún hafði blómstrað. Þannig einkennist efnahagslífið af sífelldum sveiflum og breytingum.

Tekst Brasilíu að sleppa við djúpa niðursveiflu?

Í dag eru frumskógar Brasilíu ekki lengur vettvangur gúmmíævintýra, heldur miklu fremur risanáma og nokkurra stærstu vatnsaflsvirkjana heimsins. Þarna djúpt í frumskógi Amazon er námu- og álrisinn Vale t.d. núna þessa dagana að byggja upp nýja járnnámu upp á tugi milljarða USD (um það má einmitt lesa í færslu Orkubloggsins fyrr á þessu ári).

Brazil-Belo-Monte-Dam-construction-work-1

Og ekki langt frá þessum risaframkvæmdum Vale eru aðrar lítið minni framkvæmdir nýlega byrjaðar við risavirkjunina Belo Monte. Sem fullbyggð verður rúmlega 11 þúsund MW (meira en fimmtán sinnum stærri en Kárahnjúkavirkjun) og þriðja stærsta virkjun veraldar. Það er sem sagt ýmislegt í gangi suður í Brasilíu - jafnvel þó svo einhverjar laufléttar blikur kunni að vera á lofti í efnahagslífinu þar þessa dagana.

Gallinn er bara sá að núorðið verða svona efnahagssveiflur jafnvel með ennþá hraðari og dramatískari hætti en var á dögum gúmmíbarónanna í Manaus. Til marks um það má nefna að samkvæmt síðustu tíðindum frá Brasilíu hefur lækkandi verð á járngrýti og hægari efnahagsvöxtur í Kína á örskömmum tíma farið langleiðina með að fella ríkasta mann Brasilíu af stalli! Á einungis rúmu ári hefur auður hans hrunið úr 30 milljörðum USD og niður í 10 milljarða USD eða þar um bil. Varla eru dæmi í veraldarsögunni um aðra eins snögglega uppgufun verðmæta.

Brazil-Batista-president

Hér er að sjálfsögðu átt við milljarðamæringinn Eike Batista. Sem fyrir skömmu síðan var afar bjartsýnn um að hann yrði brátt auðugasti maður heims og næði fyrstur manna 100 milljarða dollara markinu. En virðist nú jafnvel mega þakka fyrir að sleppa við gjaldþrot. Orkubloggið á örugglega bráðlega eftir að fjalla nánar um Batista og hið ótrúlega snögglega hrun olíu- og hrávöruveldisins EBX Group.

Stóra spurningin er hvort sá slaki sem virðist vera í kínverska hagkerfinu þessa dagana eigi eftir að valda ennþá stærri brasilískum fyrirtækjum vandræðum? Fyrirtækjum eins og Petrobras og Vale! Ef það gerist gæti gamanið farið að kárna þarna í suðri. 

Pele-with-World-Cup-trophy

Vonandi gerist það þó a.m.k. ekki fyrr en að afstöðnu HM 2014. Úrslitaleikurinn á að fara fram síðdegis sunnudaginn 13. júlí á sjálfum Maracana-leikvangnum í draumaborginni Rio de Janeiro. Borginni þar sem bæði Petrobras og Vale eru með höfuðstöðvar sínar. Orkubloggarinn er strax byrjaður að hlakka til að sjá Pelé brosa út að eyrum - þegar Brassarnir vonandi taka við gullstyttunni góðu á heimavelli. Áfram Brasilía!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband