Nýtt Ísland í fæðingu?

Á Silfri Egils Helgasonar á vefnum eyjan.is hefur nokkur umræða spunnist um færslur Orkubloggsins um Drekasvæðið.

eyjan_is

Í sumum athugasemdum þar er málflutningur Orkubloggsins vegna Drekans sagður fullur af neikvæðni, röfli og tuði. Sbr. t.d. eftirfarandi komment "Þessi Ketill, sem er lögfræðingur/ viðskiptafræðingur en EKKI jarðfræðingur eða orkufræðingur, segir að við ættum ekki að vera leita að olíu vegna þess hve olíuverðið er lágt núna".

Kannski er það veikleiki hjá þeim sem stendur að Orkublogginu, að trúa ekki á skyndilausnir og vera fremur jarðbundinn en ekki stórhuga skýjaglópur. Það má vel vera. En tilefni er til að taka eftirfarandi fram:

Gagnrýni mín vegna Drekasvæðisins er af tvennum toga.

Í fyrsta lagi tel ég útí hött að menn séu að setja fram spár um að allt að 20 milljarðar tunna af olíu finnist á Drekasvæðinu (og þar af helmingurinn Íslandsmegin). Ég er á því að slíkar tölur séu hreint fáránlega bjartsýnar og byggi ekki á neinum vitrænum rökum. Maður þarf hvorki að vera "jarðfræðingur eða orkufræðingur" til að sjá það. Það nægir að skoða til samanburðar hversu stórar olíu- og gaslindir hafa fundist hjá öðrum ríkjum, sbr. færslan "Æpandi bjartsýni".

Þjóðin var í mörg ár blekkt um sterka stöðu íslensku bankanna. Á nú að blekkja þjóðina með einhverjum þokukenndum draumum um olíu? Draumum sem eru ekki í neinu samræmi við það, sem líklegt er. Vissulega er umtalsverður möguleiki á að einhver olía finnist á Drekasvæðinu. En að láta sér detta í hug að þar verði unnt að finna og vinna svo mikla olíu að Ísland verði eitt mesta olíuríki Evrópu, er hrein óskhyggja.

Í annan stað álít ég hættu á að efnahagsástandið núna minnki verulega áhugann á svæðinu. Og auki um leið hættu á því, að árangurinn af leitinni verði slakur. Verði árangurinn af leitinni fyrstu árin slakur, er líklegt að olíufélögin verði fljót að beina kröftum sínum annað. Rétt eins og amerísku olíufélögin virðast nú hafa misst áhugann á færeyska landgrunninu. Þess vegna væri hugsanlega skynsamlegt að doka aðeins við með Drekasvæðið, þar til samdrátturinn er genginn yfir.

Drekasvaedi_4

Ég veit um olíufélög sem voru að spá í að sækja um leitarleyfi á Drekasvæðinu, en hafa hætt við vegna efnahagsástandsins. Þetta veit ég af þeirri einföldu ástæðu að ég er vel tengdur, þekki menn í olíuiðnaðinum bæði austan hafs og vestan og hef auk þess haft beint samband við forstjóra nokkurra olíufélaga; bæði stórra og smárra. Áhuginn á Drekasvæðinu núna er minni en ella út af viðsjárverðu efnahagsástandi. Svo einfalt er nú það.

Það er líka útí hött að tala um að Ísland verði í einhverju ljúfu samstarfi við Norðmenn um olíuvinnsluna - eins og talað er um í sumum athugasemdum við áðurnefnda færslu á Eyjunni. Eins og útboðsferlið lítur út, verða norsk olíufyrirtæki ekki með neina sérstöðu umfram önnur olíufyrirtæki. Og ekkert sérstakt samstarf í gangi milli íslenskra stjórnvalda og Norðmanna.

Íslensk stjórnvöld hafa reyndar enga stefnu um að byggja hér upp sérþekkingu í olíuiðnaði. Norðmenn fóru aðra leið – þeir lögðust ekki svo lágt að selja bara olíuréttindin í sinni lögsögu. Heldur varð norska ríkið þátttakandi í vinnslunni. Og þess vegna eiga Norðmenn nú eitt öflugasta olíufélag í heimi – StatoilHydro. Og gríðarlega öflugan norskan olíuiðnað sem starfar að verkefnum út um allan heim.

orkuveitaRvk_logo

Það er athyglisvert að StatoilHydro er – afsakið orðbragðið – ríkisfyrirtæki. Sem Íslendingum þykir víst flestum vera hreinn viðbjóður. Sem er kannski ekki svo skrýtið. Því hér á landi hafa stjórnvöld aldrei haft þroska til að stunda atvinnustarfsemi. Slíkt hefur ævinlega verið kæft í hagmunapoti hálfspilltra stjórnmálamanna og sérhagsmunahópa. Það er ömurleg arfleifð íslenskra stjórnmála.

Hér á landi hefur hagnaðurinn af orkuvinnslu Orkuveitu Reykjavíkur farið í bruðl og dekurverkefni. Og leyniorkuverðs-fyrirtækið Landsvirkjun er líklega nánast á hausnum þessa dagana. Eftir 40 ára starf. Aðallega vegna lélegra orkusölusamninga, þar sem áhættunni er velt af álfyrirtækjunum og yfir á Landsvirkjun. Gæfulegt eða hitt þó heldur.

finnurolafur

Orkubloggið tortryggir íslensk stjórnvöld stórkostlega - ekki síst þegar kemur að orkumálum. Nú fárast menn yfir því að Ólafur í Samskipum og fleiri, hafi gert samninga sem settu áhættuna á Kaupþing eða aðra banka, en gerðu þá sjálfa stikkfrí ef illa færi. Ekki ætla ég fara að verja hann Óla – öðru nær. En svo læra börnin sem fyrir þeim er haft. Íslenskir stjórnmálamenn hafa í gegnum tíðina reynst þjóðinni miklu dýrkeyptari en nokkur útrásarvíkingur. Það hefur bara allt verið í leyni og allt nafnlaust í skjóli hinna andlitslausu stjórnvalda. Bæði orsakir og afleiðingar þessarar pólitíkur, hafa í gegnum tíðina drukknað í endalausum gengisfellingum krónunnar. Hér á landi var SÍS og Kolkrabbanum einfaldlega haldið á floti með gengisfellingum og einokun - á sambærilegan hátt og gengi bankanna var haldið uppi síðustu misseri og ár með sýndargerningum í anda Stím og Katar.

Meira að segja dómstólarnir hafa verið leiksoppur í höndum framkvæmdavaldsins. Og gott ef þessi leikur á ekki barrrasta að halda áfram, þrátt fyrir að spilverkið sem stjórnmálamennirnir bjuggu til hafi nú sprungið framan í þjóðina. Við heyrum öll hinn ömurlega falska tón að baki kosningaloforðunum. En höfuðpaurarnir í þessu hroðalega leikriti sitja sem fastast, hvort sem er í ríkisstjórn, Fjármálaeftirliti, Seðlabanka eða á Alþingi. Allt í anda þeirrar valdkúgunar, sem íslenska þjóðin hefur aldrei náð að hrista af sér, þrátt fyrir 90 ára "fullveldi" og rúmlega 60 ára "sjálfstæði".

Obama_sworn_in

Í dag er ég í afskaplega góðu skapi. Því ég er nýbúinn að verða vitni að hreint stórkostlegum atburði. Því, þegar Obama tók við forsetaembættinu westur í Washington. Ég samfagna Bandaríkjamönnum að vera lausir við drullusokkana Bush og Cheney. Ég samfagna Bandaríkjamönnum og veröldinni allri að Obama skuli hafa sigrað forsetakosningarnar og að hann skuli nú hafa tekið við forsetaembættinu. Og í leiðinni langar mig að biðja um Nýtt Ísland. Og að hér verði vatnaskil í íslenska stjórnkerfinu. Vinsamlegast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þennan pistill og aðra fróðlega umfjöllun um þessi mál og önnur orkumál.

Tek undir með þér Ketill , við þurfum nýtt Ísland og ný stjórnvöld.

Ólafía Jakobsdóttir (IP-tala skráð) 20.1.2009 kl. 21:17

2 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 20.1.2009 kl. 22:21

3 identicon

Frábær færsla. Ef menn hefðu einhverja trú á þessum tölum upp á 10 milljarða tunna á Drekanum þá væri málið í allt öðrum farvegi núna. Varðandi gagnrýnina á að þú sem lögfræðingur/viðskiptafræðingur hafir ekki þekkingu til að meta hvort þessar tölur séu réttar eða ekki. Þá held ég sem jarðfræðingur að það sé einmitt mun augljósara fyrir þann sem þekkir olíubransann vel og hvernig hann virkar heldur en fyrir jarðfræðinga. Hefðu menn einhverja trú á að hér væru olíu og gaslindir af þessari stærðargráðu þá væru útsendarar erlendra olíufélaga og embættismenn "olíufátækra" landa mun algengari sjón hér á landi að reyna "tryggja" sér aðgang að þessari olíu.

Sigurður Markússon (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 00:44

4 identicon

Ketill, kannski getur þú svarað þeirri spurningu, sem ég hef stöku sinnum séð dúkka upp, m.a. á kommentum hjá þér, hvað fólst í samningi um Drekasvæðið, sem Ingibjörg utanríkisráðh. og norskur kollegi hennar gerðu í haust?

Bonzo (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 08:21

5 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Því miður hef ég ekki séð þann samning. En skv. fréttum var þarna um að ræða einhverjar smávægilegar útfærslur, til að skýra enn frekar landgrunnssamkomulag þjóðanna frá því um 1980.

 Í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins segir:

"... undirrituðu utanríkisráðherrarnir samning milli landanna um kolvetnisauðlindir sem liggja yfir markalínur. Samkvæmt samningnum skal í þeim tilvikum þegar kolvetnisauðlind nær yfir á landgrunn beggja landanna gera sérstakan samning um skiptingu auðlindarinnar milli landanna og um nýtingu hennar.

Enn fremur undirrituðu ráðherrarnir samkomulag þar sem er nánar kveðið á um 25% þátttökurétt Íslands og Noregs í olíustarfsemi á hluta hvors annars af landgrunninu á hinu sameiginlega nýtingarsvæði milli Íslands og Jan Mayen samkvæmt samningi landanna frá 1981.

Samningarnir eru forsenda þess að unnt verði að veita leyfi til leitar og vinnslu á kolvetnisauðlindum á Drekasvæðinu en stefnt er að því að bjóða út slík leyfi á næsta ári."

http://www.utanrikisraduneyti.is/frettaefni/frettatilkynningar/nr/4574

 

Ketill Sigurjónsson, 21.1.2009 kl. 08:49

6 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Mín rök felast eingöngu í samanburði við önnur olíusvæði og leikmannsvitneskju mína um það hversu vandasamt er að meta stærð olíulinda, þegar engar boranir hafa farið fram. Þar að auki er basalt á svæðinu, sem gerir enn erfiðara en ella að staðsetja og meta olíulindir.

Ég hef að sjálfsögðu engin gögn sem "staðfesta" að spádómur Terje sé rangur. En hann hefur heldur engin gögn sem "staðfesta" að hann hafi rétt fyrir sér. Hann leyfir sér samt að spá því að á Drekasvæðinu séu stærri olíulindir en fundist hafa í hinum vestræna heimi í áratugi. Það kalla ég ofurbjartsýni og finnst fullt tilefni til að vara við slíkum spám. Þó ég voni auðvitað að Terje hafi rétt fyrir sér.

Ef menn í olíubransanum taka mark á þessum spádómum Terje Hagevang (en ekki "Teri Hagonen"), hlýtur allt að verða vitlaust nú þegar leitarleyfin verða boðin út. Sem mun eiga að gerast á hádegi í dag, sbr. fréttatilkynning á vef iðnaðarráðuneytisins:

-----------

22.1.2009

Iðnaðarráðuneyti fréttatilkynning Nr. 1/2009

Í dag fimmtudaginn 22. janúar kl. 12:00 mun iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson opna vefsíðu vegna olíuleitar á Drekasvæði. Þar með markast upphaf fyrsta útboðs vegna leyfa til rannsókna og vinnslu kolvetna á landgrunni Íslands. Á vefsíðunni er að finna gögn er varða útboð rannsóknarleyfa til olíuleitar hér við land. Umsjón með útboðinu og þeim sérleyfum sem af því kunna að leiða er í höndum Orkustofnunar, en útboðstímabilið varir til 15. maí 2009.  

Opnun vefsíðunnar mun fara fram í húsakynnum Orkustofnunar, Grensásvegi 9, Reykjavík. Fjölmiðlum gefst við þetta tækifæri kostur á að fræðast nánar um útboðið hjá fulltrúum iðnaðarráðuneytis og Orkustofnunar.

Reykjavík 22. janúar 2009

http://www.idnadarraduneyti.is/Forsida_IVR/nr/2681

Ketill Sigurjónsson, 22.1.2009 kl. 09:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband