Kon Tiki og Te Papa

Á þeim tugum fermetra af veggjaplássi, sem bækur þekja hér á heimili Orkubloggarans, eru nokkrir kilir í sérstöku uppáhaldi. Einn þeirra er lúinn kjölurinn á ferðabók norska ævintýramannsins Thor's Heyerdahl um Kon Tiki leiðangurinn.

kon_tiki_bw.jpg

Þetta er íslensk þýðing eftir Jón Eyþórsson frá árinu 1950 og ber titilinn Á Kon Tiki yfir Kyrrahaf. Fáar ef nokkrar bækur las bloggarinn sér til meiri ánægju sem krakki. Og les hana ennþá af og til - á nokkurra ára fresti.

Ástæða þess að þessi ævintýraleiðangur frá árinu 1947, þegar Heyerdahl sigldi við fimmta mann á balsaflekanum Kon Tiki frá Perú til Suðurhafseyja, er rifjaður upp hér í dag, er sú að nú á jóladag lést síðasti eftirlifandi leiðangursmaðurinn.

Sá var Norðmaðurinn Knut Haugland. Þó svo Heyerdahl sé auðvitað þekktastur áhafnarmeðlimanna um borð í Kon Tiki - og Svíinn Bengt Danielsson  sennilega sá sem næstmesta athygli hlaut af Kon Tiki-förunum - er saga Haugland ekki síður sérstök og merkileg.

telemark_heroes_948349.jpg

Haugland var á sinum tíma mikil andspyrnuhetja og tók m.a. þátt í því að sprengja upp þungavatnsbirgðirnar í Rjukan. Það skemmdarverk kom hugsanlega í veg fyrir að þýska nasistastjórnin næði að búa til kjarnorkusprengju fyrstir þjóða. Reyndar er í dag talið að Þjóðverjarnir hafi ekki haft yfir nægu þungavatni að ráða til að smíða kjarnorkusprengju. En hetjurnar frá Þelamörk tryggðu það a.m.k. að Hitler ætti ekki séns á slíku gjöreyðingarvopni.

Það er fastur liður í hvert sinn sem Orkubloggarinn kemur til Osló, að sigla út á Bygdöy og heimsækja skemmtilegu söfnin þar. Ekki aðeins Kon Tiki safnið, heldur líka Víkingaskipasafnið og svo auðvitað skipið hans Friðþjófs Nansen; Fram. Nú fer að verða tímabært að drífa sig brátt aftur til Osló, því stráksa mínum, 8 ára, langar að sjá á dýrðina sem pápi er búinn að lýsa svo vel.

Það er sérkennilegt þetta aðdráttarafl, sem gömul skip hafa. Orkubloggarinn minnist t.d. skemmtilegrar heimsóknar um borð í rússneskt seglskip í Reykjavíkurhöfn í sumar sem leið og í gamlan dísil-kafbát frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar á safni í Svíþjóð. Til að magna áhrifin þar, glumdu bæði vélarhljóð og drunur frá djúpsprengjum um bátinn og sjaldan hefur bloggarinn upplifað meiri innilokunarkennd heldur en þarna inni í kafbátnum. Sem þó var uppi á þurru landi!

Það er sorglegt að fiskveiðiþjóðin hér í norðri skuli ekki hafa komið sér upp myndarlegu siglinga- og sjóminjasafni. Þar sem öll siglinga- og fiskveiðisaga Íslendinga væri rakin, með gripum og skipum frá bæði árabátatímanum, skútuöldinni og upphafi togaraútgerðar. Slíkt safn gæti bæði verið geysilega fræðandi fyrir æsku landsins og spennandi áfangastaður fyrir ferðafólk. Það hefði kannski verið nær að ráðast frekar í byggingu á slíku siglinga- og sjávarminjasafni, heldur en að fara útí þessa Hörpuvitleysu.

wellington_947085.jpg

Rakin fyrirmynd að myndarlegu íslensku siglinga- og sjóminjasafni hefði verið hið flotta Te Papa Tongarewa suður í Wellington á Nýja Sjálandi. Sem reyndar er þjóðminjasafn en leggur mikla áherslu á náttúru Nýja Sjálands og samskipti mannsins við hana í gegnum tíðina.

Maoríarnir hafa einmitt búið álíka lengi á Nýja Sjálandi, eins og við Íslendingar hér á Klakanum góða (Maoríarnir komu líklega til hins óbyggða Nýja Sjálands e.h.t. á tímabilinu 800 til 1200 - og áttu mera að segja sína Sturlungaöld eftir að þeir höfðu útrýmt Móafuglinum snemma á 16. öldinni og fór að skorta fæðu). Sjaldan ef nokkurn tímann hefur Orkubloggarinn komið á skemmtilegra safn, en einmitt Te Papa í Windy Wellington. Nema ef vera skyldu söfnin á Bygdöy hinni norsku!

fram_in_the_ice.jpg

Það er hálf nöturlegt til þess að hugsa, að Íslendingar skuli aldrei hafa gerst landkönnunarþjóð. Þ.e.a.s. viðhaldið forvitni sinni eftir þjóðveldið og landafundi Leifs heppna og félaga.

Rétt eins og Íslendingar, þá voru Norðmenn lengi vel sárafátæk bændaþjóð. Noregur öðlaðist ekki sjálfstæði fyrr en árið 1905 - um það leyti sem Íslendingar fengu heimastjórn. Engu að síður náðu Norðmenn fljótt miklum árangri í bæði uppbyggingu iðnaðar og að seilast til áhrifa á Norðurslóðum. Og eignuðust hetjur eins og Roald Amundsen og Fridtjof Nansen.

norway_economic_zone.png

Það munaði reyndar minnstu að Noregur næði líka austurhluta Grænlands undir sig, stuttu eftir nýfengið sjálfstæði. Hinni þrautreyndu dönsku stjórnsýslu tókst þó að verja tilkall Danmerkur til alls Grænlands - og fá viðurkenningu þar um frá hinum einsleitna nýlendudómstól Þjóðabandalagsins.

Norskir landkönnuðir sigruðu aftur á móti sjálft breska heimsveldið í kapphlaupinu um Suðurpólinn og áttu glæstar könnunarferðir um bæði Grænlandsjökul og ísbreiður Norðurhjarans. Fyrir vikið ráða Norðmenn nú yfir bæði Jan Mayen og njóta víðtækra réttinda yfir Svalbarða.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband