Mánudagur til mæðu fyrir Pútín?

Margir lýðræðissinnar hafa verið áhyggjufullir yfir því hvernig pólitíkin í Rússlandi hefur þróast undir stjórn Vladimirs Pútín. Sú umræða er ekki ný; hún hefur verið að malla í tengslum við ýmsa atburði í Rússlandi á valdatíma hans sem forseta og forsætisráðherra. Þar má nefna hernaðaraðgerðir Rússlands gegn Georgíu árið 2008 og aðgerðir rússneskra yfirvalda gegn olíufélaginu Yukos.

putin-newsweek-cover-august-1-2014.jpgNú síðustu mánuðina hefur þessi umræða svo blossað upp sem aldrei fyrr. Hún magnaðist mjög í tengslum við innlimun Rússlands á Krímskaga - og svo enn frekar eftir að farþegaþotan var skotin niður yfir austanverðri Úkraínu fyrir rúmri viku síðan.

Þessa dagana eru allra augu á Pútín og andlit hans prýðir forsíður margra þekktustu fréttatímarita Vesturlanda. Þar má nefna Newsweek, Time, Spiegel og Economist. Snögg yfirferð yfir nýjustu tölublöðin og vefútgáfurnar segir okkur að ekki sé búist við miklum stuðningi Evrópuríkja við harðar efnahagsþvinganir eða aðrar aðgerðir gegn Rússlandi. Ástæðan er sögð vera tregða landa eins og Frakklands og Þýskalands til slíkra aðgerða.

Tónninn í þessum skrifum er samt nokkuð mismunanda. Sérstaklega er áberandi sá mikli reiðilestur sem sjá má hjá ritstjórn Economist. Economist segir vestræna leiðtoga sýna Putín alltof mikla linkind. Grípa þurfi til víðtæks viðskiptabanns gagnvart Rússum, fleygja Pútín út úr öllu ríkjasamstarfi sem mögulegt er og þrengja að gjörspilltri klíku hans.  

Economist-Putin-Cover-July-2014Í umræddri grein í Economist er reyndar fullyrt að Pútín muni falla. Og þá muni koma í ljós „how much money Mr Putin and his friends have stolen from the Russian people". Tilefni er til að staldra við þessi orð og skoða hvað Economist á þarna við. Það kemur ekki skýrt fram í blaðinu. En þarna er Economist vafalítið að vísa til hins dularfulla eignarhalds í nokkrum lykilfyrirtækjum í rússneska olíubransanum. Margir eru fullvissir um að stærsti leynieigandinn þar sé einmitt sjálfur Vladimir Pútín.

Mestöll þau auðævi, sem þarna er um að ræða, snúast um það þegar risaolíufélagið Yukos var gert gjaldþrota fáeinum árum eftir að Pútín varð forseti Rússlands. Hér verður athyglinni beint að þeim tilfæringum. Og einnig vikið að dómsmáli sem um árabil hefir verið í gangi fyrir Alþjóðagerðardómnum í Haag í Hollandi. Þar krefja stærstu hluthafar Yukos rússneska ríkið um hvorki meira né minna en rúmlega 100 milljarða USD í bætur vegna aðgerðanna gegn Yukos. Þarna eru risavaxnir hagsmunir á ferðinni - og dómur í málinu gæti jafnvel fallið á morgun; mánudag! Það er því upplagt að rýna aðeins í þessi mál hér í dag.

Er Pútín auðugasti maður veraldar?

Það eru fyrst og fremst tvö stórfyrirtæki sem Pútín hefur verið bendlaður við. Þau eru olíufélagið Surgutneftgas og hrávörufyrirtækið Gunvor. Að auki er haldið fram að hann eigi hlut í olíurisanum Rosneft.

Surgutneftegas er eitt af stærstu olíufyrirtækjunum í Rússlandi og skilaði t.a.m. meira en 5 milljörðum USD í hagnað á liðnu ári (2013). Fyrirtækið er af mörgum talið hafa leikið lykilhlutverk í flókinni viðskiptafléttu þegar olíurisinn Yukos var keyrður í gjaldþrot fyrir tæpum áratug á grundvelli meintra skattaskulda - og eignir þessa risafyrirtækis voru seldar óþekktum kaupendum í nokkuð furðulegu uppboði.

Eins og kunnugt er rann mest af olíulindum og eignum Yukos á endanum til rússneska ríkisolíufélagsins Rosneft, sem stýrt er af einum nánasta bandamann Pútín's; Igor Sechin. En Surgutneftegas er sem sagt talið hafa lekið stórt hlutverk í þeirri fléttu. Surgutneftegas er í dag tugmilljarða dollara virði - en það magnaðasta er að jafnvel þó svo þetta stóra og mikilvæga fyrirtæki sé bæði skráð í kauphöllinni í Moskvu og þeirri í London eru stærstu eigendurnir þess óþekktir.

yukos-priobskoye-field-siberia.jpgSumir trúa því staðfastlega að Pútin sé stór hluthafi í Surgutneftgas og eigi jafnvel rúmlega þriðjung hlutabréfanna. Að auki hafa verið færð rök fyrir því að Pútín eigi sjálfur allt að helmingshlut í hrávörurisanum Gunvor. Og að auki dágóðan hlut í rússneska olíurisanum Rosneft. Samtals hafa þessir meintu eignahlutir Pútín's í félögunum þremur verið metnir á allt að 70 milljarða USD. Eigi sögusagnirnar við rök að styðjast er Pútín því einn af allra auðugustu mönnum heims, ef ekki sá auðugasti.

Rosneft er vel að merkja eitt af tveimur stærstu olíufélögum heimsins á hlutabréfamarkaði (ásamt Exxon Mobil). Og Gunvor hefur verið með einkarétt á útflutningi að stærstum hluta þeirrar olíu sem unnin er úr rússneskri jörðu. Rússland er annað af tveimur stærstu olíuframleiðsluríkjum heimsins (ásamt Saudi Arabíu), þ.a. þarna eru á ferðinni einhverjir mestu viðskiptahagsmunir í heiminum öllum. En það skal tekið skýrt fram, að umrætt meint eignarhald Pútín's í Surgutneftegas, Rosneft og Gunnvöru er ósannað. Og ennþá er líka alveg á huldu hverjir stærstu hluthafarnar eru í bæði Gunnvöru og Surgutneftegas.

Meint skattsvik og gjaldþrot Yukos

Stóru línurnar í eignarhaldi í olíuiðnaði Rússlands má að miklu leiti rekja til þess þegar Michail Khodorkovsky, þá aðaleigandi Yukos, var handtekinn fyrir meint stórfelld skattsvik og spillingu. Þetta var síðla árs 2003 - rétt í þann mund sem bandaríski olíurisinn Exxon Mobil hugðist kaupa verulegan hlut í Yukos og verða þannig umsvifamikið í rússneska olíuiðnaðinum. Khodorkovsky var að auki byrjaður að skipta sér æ meira af rússneskum stjórnmálum og hafði verið orðaður við forsetaframboð (gegn Pútín). 

khodorkovsky-yukos-free.jpgYukos var þá stærsta olíufélag Rússlands. Khodorkovsky og viðskiptafélagar hans höfðu komist yfir ráðandi eignarhlut í Yukos í geggjaðri einkavæðingu áranna þegar Boris Jeltsin var forseti Rússlands á 10. áratugnum. Í kjölfar handtökunnar á Khodorkovsky og fleiri stjórnendum Yukos árið 2003 (nokkrir þeirra náðu að sleppa úr landi og hafa síðan verið eftirlýstir af hálfu rússneskra saksóknara) var Yukos úrskurðað gjaldþrota. Það var gert á grundvelli meintra risavaxinna skattsvika fyrirtækisins.

putin-and-sechin-rosneft_1241912.jpgÍ kjölfarið voru olíulindir félagsins (flestar í Síberíu) og aðrar eignir Yukos seldar á sérstöku uppboði. Þau viðskipti eru mjög þoku hulin, en fullyrt hefur verið að Surgutneftegas hafi þar leikið stórt hlutverk. Á endanum runnu svo flestar eignir Yukos inn í rússneska ríkisolíufélagið Rosneft, sem varð þar með í einu vetfangi stærsta olíufélag Rússlands. Og rússneska ríkið aftur með tögl og haldir í hinum risavaxna rússneska olíuiðnaði - rétt eins og verið hafði á Sovéttímanum - og alfarið undir stjórn manna sem eru nánustu samstarfsmenn Pútín's. Surgutneftgas er aftur á móti einkarekið og er, þrátt fyrir afar óljóst eignarhald, eitt af stærstu og ábatasömustu olíufélögum Rússlands.

Málaferli í Haag - meira en 100 milljarðar USD í húfi

Þó svo Khodorkovsky væri aðalmaðurinn í Yukos voru þar margir aðrir stórir hluthafar, enda um að ræða sannkallað risafyrirtæki. Sjálfur mátti Khodorkovsky dúsa í rússneskum fangelsum í áratug, en Pútín náðaði hann skyndilega í aðdraganda Vetrarólympíuleikanna í Sochi, sem fóru fram í febrúar s.l. (2014). Aðrir hluthafar Yukos hafa aftur á móti um árabil reynt að sækja rétt sinn gagnvart rússneskum stjórnvöldum.

Þau málaferli byggjast m.a. á því að  eignir Yukos hafi verið seldar óralangt undir raunvirði og gjaldþrot félagsins hafi verið leikrit eitt og aðgerðir rússneskra stjórnvalda kolólögmætar. Og nú vill svo til að n.k. mánudag, þ.e. á morgun 28. júlí, er búist við að dómur falli í einum mikilvægustu málaferlunum sem tengjast gjaldþroti Yukos. Þar er um að ræða fyrrnefnt mál fyrir Alþjóðagerðardómnum í Haag í Hollandi - og eins og áður sagði nemur skaðabótakrafan rúmum 100 milljörðum USD.

Leonid Nevzlin leiðir hópinn

Dómsmálið í Haag kemur til vegna sérstaks þjóðréttarsamnings (alþjóðasamnings) um orkumál, sem nefnist Energy Charter. Nú eru um fimm ár liðin síðan Alþjóðagerðardómurinn kvað upp þann úrskurð að dómurinn ætti lögsögu í málinu og að Rússland væri bundið af henni.

nevzlin-yukos-khodorkovsky.jpgSkaðabótamálið er sótt af félagi sem nefnist GML, gegn rússneskum stjórnvöldum. GML er að stærstum hluta í eigu eins af fyrrum framkvæmdastjórum Yukos, en sá er milljarðamæringurinn Lenid Nevzlin. Nevzlin náði að forða sér frá Rússlandi þegar helstu stjórnendur Yukos voru handteknir árið 2003 og hefur síðan verið eftirlýstur af Rússum. Það var reyndar réttað yfir Nevzlin í Rússlandi árið 2006 (að honum fjarstöddum) og hann þar dæmdur í pent ævilangt fangelsi, m.a. fyrir morð. Sjálfur segir Nevzlin að réttarhöldin hafi verið farsi og að undirlægi Pútín's.

GML er í raun eignarhaldsfélag, sem yfirtók eignir eldra eignarhaldsfélags, Group Menatep, sem átt hafði meirihlutann í Yukos. Stærsti eigandinn í Group Menatep var að sjálfsögðu Khodorkovsky. En hann náði að framselja þann eignarhlut sinn (og þar með ráðandi hlut sinn í Yukos) til Nevzlin áður en dómurinn féll yfir Khodorkovsky sjálfum. Tilgangurinn með þeiri ráðstöfun var að tryggja að rússnesk stjórnvöld kæmust ekki yfir eignina. En eins og kunnugt er breytti sú ráðstöfun engu, því Yukos var keyrt í þrot á grundvelli risavaxinna krafna um meint skattsvik, sem numu tugum milljörðum USD. Þar með urðu hlutabréfin í Yukos verðlaus og skipti að sjálfsögðu engu í því sambandi hvort Khodorkovsky eða Nevzlin var hinn endanlegi eigandi þeirra.

yukos-case_emmanuel_gaillard_and_yas_banifatemi.jpgNevzlin er nú búsettur í Ísrael (hann er af gyðingaættum), en er nú vafalítið með hugann við dómsuppkvaðninguna á morgun. Dómstólinn hefur reyndar ekki staðfest tímasetningu dómsins, en að sögn lögmanna GML er búist við að þetta verði á morgun. Þarna fara fremst í flokki stjörnulögmaðurinn Yas Banifatemi og kollegi hennar hjá Shearman & Sterling, Emmanuel Gaillard.  

Samtals rúmlega tuttugu ára fangavist að baki

Verði að fullu fallist á kröfur Leonid Nevzlin og félaga hans, þá á Nevzlin sjálfur lögmæta u.þ.b. 70 milljarða USD kröfu á rússneska ríkið! Aðrir aðilar málsins eru Platon Lebedev, Mikhail Brudno, Vladimir Dubov og Vasily Shakhnovsky, sem hver um sig er með um 7,5% hlut í kröfugerðinni (í samræmi við eignarhlut þeirra í GML; áður Group Menatep). Þeir voru allir nánir samstarfsmenn Khodorkovsky's og Lebedev er fyrrum forstjóri Group Menatep.

Hvernig Nevzlin, Lebedev og félögum myndi ganga að innheimta aurinn í Rússlandi, vinni þeir málið á annað borð, er svo annað mál. Þess má geta að af fréttum og annarri umfjöllun um málið virðist nokkuð ljóst að Khodorkovsky mun njóta góðs af því ef málareksturinn skilar einhverjum fjármunum, jafnvel þó svo hann eigi ekki formlega aðild að málinu.

khodorkovsky-lebedev-trial.jpgÞeir Brudno og Dubov náðu, rétt eins og Nevzlin, að forða sér áður en ráðist var gegn Yukos 2003. Shakhnovsky var handtekinn og ákvað að játa á sig sakir og slapp með árs fangelsi (hann býr nú í Sviss). Lebedev mátti aftur á móti dúsa í áratug í rússnesku fangelsi, rétt eins og Khodorkovsky, en var náðaður í janúar s.l. (rétt fyrir Ólympíuleikana). Það er því augljóst að sama hvernig málið fer þá hafa þeir Khodorkovsky og Lebedev mátt greiða afskipti sín af Yukos dýru verði, með samtals rúmlega tuttugu ára fangavist að baki. Og að frátöldum Shakhnovsky munu hinir af umræddum viðskiptafélögunum í GML væntanlega áfram þurfa að lifa sem landflótta og eftirlýstir menn.

Það er vissara að spá engu um það hvernig málið í Haag fer. Það er líka óvíst hvort niðurstaða málsins muni hafa merkjanleg áhrif á pólitíska stöðu Pútín's. En vinni GML málið með þeim hætti að umtalsverð bótaskylda verði lögð á rússnesk stjórnvöld, mun staða hans a.m.k. vart styrkjast. Við sjáum hvað setur.


Bretland og Írland eru áhugaverðust fyrir sæstreng

Þegar skoðað er hvaða markaðssvæði væru áhugverðust til útflutnings á raforku frá Íslandi sést að þar eru Bretlandseyjar áhugaverðastar.

DECC-Electriciy-Prices-Domestic-June-2014

Það er reyndar svo að víðast hvar í vestanverðri Evrópu er raforkuverð nokkuð hátt, þ.e. með því hæsta sem þekkist í heiminum. Fyrir langstærsta raforkuframleiðanda heims (per capita), sem er jú Ísland, væri því afar áhugavert að geta selt raforku til Evrópulanda.

Raforkuverðið í Bandaríkjunum og Kanada er einnig mun hærra en við eigum að venjast hér. En Evrópumarkaðir eru áhugaverðastir. Og þar sem sæstrengur er því dýrari eftir því sem hann er lengri, er gleðilegt að það eru Bretlandseyjar sem gefa kost á mesta hagnaðinum af raforkusölu. Það vill sem sagt svo vel til að einn af okkar næstu nágrönnum er einmitt einhver áhugaverðasti markaður heims fyrir raforkuframleiðendur.

Á súluritunum tveimur (hér að ofan og neðan) sýnir blái hlutinn raforkuverðið í viðkomandi löndum - með flutningskostnaði en án skatta. Hvítu súlurnar sýna raforkuverðið þegar allir viðkomandi skattar hafa bæst við (vsk, en einnig eftir atvikum aðrir skattar og þá fyrst og fremst umhverfis- og kolefnisskattar, sem í sumum löndum eru nokkuð háir).

DECC-Electriciy-Prices-Industrial-June-2014

Efra súluritið sýnir verðið til heimila, en neðra súluritið (hér til hliðar) sýnir verðið til iðnaðar. Þarna sést að meðalverðið á raforku (án skatta) til iðnaðar í Bretlandi árið 2013 var um 8 pens pr. kWst og verðið til heimila um 15 pens pr. kWst. Það merkir að heildsöluverðið til iðnaðar var u.þ.b. 3,6 pens pr. kWst og til heimila rétt tæplega 7 pens pr. kWst (heildsöluverðið í Bretlandi 2013 var um 45% af heildarverðinu). Þetta jafngildir því að heildsöluverðið á raforku til iðnaðar á Bretlandi árið 2013 var nálægt 60 USD/MWst. Og til heimila var heildsöluverðið nálægt 120 USD/MWst.

Yfir heildina var meðalverðið á raforku í Bretlandi (meðaltal heildsöluverðs yfir árið pr. selda MWst) nálægt því að vera sem jafngildir 80 USD/MWst. Til samanburðar má nefna að hér á Íslandi fer um 75% allrar raforkunnar til álveranna þriggja og þar var sambærilegt meðalverð (þ.e. án skatta) nálægt því að vera 25 USD/MWst.

UK-and-Ireland_-Electicity-Prices-Wholesale-2013

Raforkuverð í Bretlandi árið 2013 var því að meðaltali rúmlega þrefalt hærra en við erum að fá fyrir þá raforku sem hér fer til stóriðjunnar. Heildsöluverðið á raforku á Írlandi er svo ennþá hærra eða sem jafngildir á bilinu 90-95 USD/MWst.

Í fljótu bragði mætti því álíta Írland ennþá áhugaverðari markað fyrir íslenska raforku en Bretland. Það er reyndar svo að raforkuverðið á Írlandi myndi eitt og sér að öllum líkindum réttlæta sæstreng milli Íslands og Írlands. En þegar litið er til orkustefnu þessara tveggja landa, þá er Bretland mun áhugaverðara sem raforkukaupandi. Þar kemur til orkustefna breskra stjórnvalda. Hún felur í sér að tryggja nýjum raforkuverkefnum lágmarksverð til svo langs tíma að arðsemi verkefnanna sé örugg og fjárhagsleg áhætta lágmörkuð. Þar bjóðast sem samsvarar á bilinu 140-250 USD/MWst fyrir raforku af þvi tagi sem framleidd er á Íslandi. Bretlandsmarkaðurinn er því tvímælalaust áhugaverðasti kosturinn í Evrópu fyrir raforkuframleiðendur. Og þá alveg sérstaklega fyrir okkur Íslendinga, sem framleiðum langtum meiri raforku en nokkur önnur þjóð (miðað við fólksfjölda) og með framleiðslukostnað sem er einhver sá lægsti í heimi .

HVDC-Iceland-Explained

Hér er rétt að minna á að í nýlegri skýrslu McKinsey var flutningskostnaður á raforku um sæstreng milli Íslands og Bretlandseyja metinn sem jafngildir um 40 USD/MWst. Samkvæmt þessu myndi raforka seld til Írlands geta skilað mjög góðum hagnaði. Og raforka seld til Bretland gæti skilað ævintýralegum hagnaði. Sæstrengsmálið ætti því að vera forgangsmál bæði raforkufyrirtækjanna hér og stjórnvalda.


Styrkja þarf orkusamband Bandaríkjanna og Evrópu

Spennan í samskiptum Evrópu og Rússlands vex. Undanfarin misseri höfum við mátt horfa upp á Rússland innlima Krímskaga frá Úkraínu með aðferðum sem engan veginn standast þjóðarétt (alþjóðalög). Og margt bendir til þess að rússnesk stjórnvöld útvegi vopn til uppreisnarhópa í Úkraínu sem vilja kljúfa landið. 

Gas-Exports-to-Europe-2012

Í kjölfar síðustu atburða velta menn fyrir sér afleiðingunum. Ef það sannast, sem haldið er fram, að uppreisnarmenn hafi skotið niður farþegaþotuna, sem hrapaði í austanverðri Úkraínu í gær, hljóta Vesturlönd að grípa til aðgerða gegn Rússlandi. Í því skyni að fá rússnesk stjórnvöld til að hætta að beita sér gegn stjórnvöldum í Kiev í andstöðu við þjóðarétt.

Slíkar aðgerðir yrðu líklegast í formi strangari og víðtækari viðskiptahindrana, en nú þegar hefur verið komið á. Uns rússnesk stjórnvöld láta af ólögmætum afskiptum af Úkraínu (og jafnvel hverfa með herlið sitt frá Krímskaga - en reyndar kann Krímskaginn að verða einskonar skiptimynd til að friða Rússa).

Rússland byggir útflutningstekjur sínar og efnahag fyrst og fremst á orkuútflutningi. Þar er bæði um að ræða jarðgas og olíu. Rússland er langstærsti gasútflytjandi heims og annar af tveimur stærstu olíuútflytjendunum (ásamt Saudi Arabíu). Ef einhver vill að efnahagsþvinganir bíti gegn Rússlandi væri nærtækast að sá hinn sami myndi sérstaklega beita sér fyrir því að innflutningur ríkja á gasi og/eða olíu frá Rússlandi verði takmarkaður. Og að rússnesk fyrirtæki eins og Gazprom og Rosneft fái ekki fyrirgreiðslu hjá fjármálastofnunum utan Rússlands. 

Það virðist þó hæpið að viðskiptaþvinganir af hálfi Bandaríkjanna og Evrópu muni beinast gegn gasútflutningi Rússa. Til þess er gasið of mikilvægt mörgum löndum Evrópu. Að vísu hefur gasframleiðsla í Bandaríkjunum vaxið svo hratt undanfarin ár, að raunhæft væri að flytja bandarískt gas til Evrópu. En til að svo verði þarf að byggja vinnslustöðvar vestra sem umbreyta gasinu í fljótandi form - og það þarfnast mikil undirbúnings og því væru þetta ekki aðgerðir sem gætu bitið á næstu misserum.

Russia-Oil-Export-Destinations-2012

Mörg lönd Evrópu eru ekki bara háð rússnesku gasi. heldur einnig olíuinnflutningi þaðan. Þýskaland er t.a.m. stærsti innflytjandinn að rússneskri olíu. Strategískt séð er orðið afar mikilvægt að Bandaríkin og löndin í Evrópu (með Evrópusambandið í fararbroddi) semji um nánara orkusamstarf og jafnvel sameiginlegan orkumarkað í einhverri mynd. Þannig gæti Evrópa minnkað þörf sína fyrir rússneska olíu. Olían sem myndi fylla í það skarð gæti mögulega komið frá löndum eins og Angóla, Nígeríu og Venesúela (en þá yrði olíuútflutningur þessara ríkja t.d. til Kína að minnka).

Það er reyndar svo að olíuframleiðsla í Bandaríkjunum hefur aukist mikið á síðustu árum. Ennþá eru Bandaríkin þó stærsti olíuinnflytjandi heimsins. Og þurfa þar m.a. að keppa við hið nýja orkuveldi Kínverja. Kína er nú næst stærsti olíuinnflytjandi heimsins. Það er því hæpið að Bandaríkin gætu flutt mikið af olíu til Evrópu. Og þar að auki er fjörutíu ára gamalt olíuútflutningsbann ennþá í gildi í Bandaríkjunum!

Oil-Exporting-Countries-Top_1980-2012

En það er staðreynd að minnkandi olíutekjur Rússlands myndu skapa mikinn þrýsting á stjórnvöld þar. Rússland er geysilega háð olíutekjum og olíuverði. Sumir álíta að lágt olíuverð hafi verið meðal mikilvægustu atriðanna sem felldu Sovétríkin - og sennilega er pólitísk framtíð Pútín's ennþá háðari háu olíuverði. 

En veröldin er ekki einföld og hugsanlega myndu Kínverjar sjá sér leik á borði að kaupa meiri olíu af Rússum, ef olíusala þaðan til Evrópu drægist mikið saman. Þannig gæti í reynd orðið tilfærsla á olíumarkaði án þess endilega að tekjur Rússlands af olíu myndu minnka að ráði. Slík tilfærsla gæti gert Rússland háðara Kína - og það er ekki endilega ástand sem Vesturlönd sækjast eftir.

Putin-Time-Cover-sept-2013

Kannski er líklegast að Bandaríkin og Evrópa reyni að koma við kaunin á rússneskum stjórnvöldum með því að þrengja að fjármögnunarmöguleikum landsins og lánsfársmöguleikum Rosneft og Gazprom hjá vestrænum bönkum. Vandinn er bara sá að hagsmunirnir eru orðnir svo samtvinnaðir.

Rosneft er t.a.m. sagt skulda vestrænum bönkum um 40 milljarða USD. Og flest af þeim lánum sem eru næst gjalddaga munu vera lán frá stórum bandarískum bönkum. Nú reynir á hvort Bandaríkin og Evrópuríkin komi i veg fyrir endurfjármögnun þar - og hvort kínverskir bankar munu þá einfaldlega koma til skjalanna?

Í viðbót má svo minnast þess að Exxon Mobil og fleiri bandarísk olíufélög hafa verið að semja við Rosneft um aðkomu að risastórum olíulindum í Rússlandi. Og evrópsku BP og Shell eiga líka mikilla hagsmuna að gæta þar í landi. Það verður því varla einfalt mál fyrir bandarísk og evrópsk stjórnvöld að beita sér með svo afgerandi hætti að Rússland dragi sig í hlé gagnvart Úkraínu. Mun sennilegra virðist að þetta verði fremur máttlausar aðgerðir. Og að menn horfi til þess að tími Pútíns hljóti senn að líða - og þá taki vonandi lýðræðissinnaðri stjórn við í Rússlandi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband