Sigraði raunsæið draumórana?

Fátt væri betra fyrir Ísland en að nýta mætti vetni sem orkugjafa . Í stórum stíl.

NyorkaÞar með myndi t.d. væntanlega fást mun betri nýting á íslenskum virkjunum. Rafmagnsnotkun á nóttu er minni en á daginn og verulegan hluta af rafmagnsframleiðslu næturinnar mætti nýta til að framleiða vetni. Vetnið myndi bæði draga úr þörfinni á innfluttu eldsneyti og auka nýtingu íslensku virkjananna. Fyrir vikið hafa sumir hér á landi eðlilega bundið miklar vonir við vetnisvæðingu. Í því sambandi má nefna fyrirtækið Íslenska nýorku og vetnisstrætisvagnana sem á tímabili óku um götur Reykjavíkur.

Hydrogen_car_Chevrolet_EquinoxEn þó svo vetnissamfélag væri e.t.v. upplagt á Íslandi, gildir annað í löndum sem þurfa að framleiða vetnið með því að brenna kolum eða gasi. Vissulega er vetnisrafallinn tær snilld; hann getur bæði knúið bíla og skip og frá honum fer einungis hrein vatnsgufa útí andrúmsloftið. Betra getur það varla orðið.

Það er bara eitt smá vandamál. Það þarf mikla orku til að framleiða vetni. Vetnið finnst ekki í náttúrunni nema tengt öðrum efnum og er einungis orkuberi. Til að umfangsmikil vetnisvæðing geti átt sér stað, myndu flest ríki þurfa að framleiða vetnið með því að brenna kol eða aðrar kolvetnisauðlindir. Þar liggur hundurinn grafinn. Vetnisvæðing í síkum löndum myndi þýða stóraukna losun gróðurhúsalofttegunda; vetnisvæðingin yrði ekki fráhvarf frá hefðbundnum orkugjöfum heldur væri frumorkugjafinn áfram hinn sami.

VetnisvagnÞar að auki eru ýmsir tæknilegir örðugleikar því fylgjandi að nota vetni til að knýja samgöngutæki. Undanfarin ár hefur reyndar mikil vinna verið lögð í að leysa þau vandamál. Sérstaklega hefur verið horft til möguleikans á vetnisbílum. Sbr. einmitt reykvísku vetnisstrætisvagnarnir ljúfu, sem liðuðust hér mengunarlausir um göturnar.

En nú er líklegt að bílaiðnaðurinn sé um það bil að missa áhugann á vetni sem orkugjafa. Þar ræður mestu nýleg ákvörðun bandarískra stjórnvalda, þess efnis að óralangt sé í að vetni verði skynsamlegur kostur og því tóm vitleysa að hið opinbera sé að moka peningum í slíkar rannsóknir. Nær sé að nota peningana í raunhæfari lausnir.

steven-chuJá - nú hafa bandarísk orkumálayfirvöld tekið af skarið. Og lýst því yfir að margir áratugir séu í að vetni verði orkugjafi sem einhverju máli skipti þar í landi. Það er sem sagt svo að hann Steve kallinn Chu, orkumálaráðherra Obama-stjórnarinnar, og orkuteymið hans hefur skrúfað fyrir nánast allan stuðning við vetnisiðnaðinn og rannsóknir á þessu sviði. Þess í stað verður ennþá meiri áhersla lögð á nærtækari kosti í orkumálum fyrir samgöngukerfið.

Þessi óvenju skýra afstaða bandarískra stjórnvalda, sem nú liggur fyrir, er líkleg til að hafa talsvert mikla þýðingu. Það mætti jafnvel halda því fram að raunsæið (lesist lífefnaeldsneytið og rafbílavæðingin) hafi þarna sigrað vetnið með afgerandi hætti. Á móti kemur að í olíulöndum eins og Bandaríkjunum mætti framleiða vetni fyrir tilstilli kjarnorku og einnig sólarorku. Þannig að þessi ákvörðun Chu kann að lýsa skammsýni.

diesel-engineReyndar telur Orkubloggið lang líklegast að ekkert leysi bensín- og díselvélar af hólmi um langa hríð. Rafbílavæðing mun kannski ná einhverri útbreiðslu, en hinn hefðbundni brunahreyfill verður áfram prímusmótorinn í bifreiðaiðnaðinum um langt skeið. Eftir því sem olíuverð kann að hækka munu bílar verða sparneytnari og rekstrarkostnaðurinn áfram haldast nógu lágur til að þetta verði ódýrasti kosturinn. Þess vegna er líklegt að olían verði áfram helsti orkugjafinn í samgöngugeiranum, eins og verið hefur svo lengi.

Þó svo þessi ofurlítið óvænta þróun mála í Ameríku sé etv. eilítið súr biti fyrir íslenska vetnis-vini, skiptir líklega meira máli að nú hafa bifreiðafyrirtækin fengið skýra framtíðarsýn. Og um leið hvatningu til að einbeita sér þróun rafbíla. Þar með næst kannski loks almennilegur árangur í rafbílaiðnaðinum; ekki verið að dreifa kröftunum í allar áttir.

Þessi niðurstaða Obama-stjórnarinnar kom Orkublogginu auðvitað ekki alveg í opna skjöldu. Efasemdaraddir um kosti vetnisvæðingar eru svo sem ekkert nýjabrum. Margir hafa bent á að vetnisvæðing yrði bæði flókin og dýr og að skynsamlegra sé leggja áherslu á raunhæfari og umhverfisvænni kosti í orkumálum.

hydrogen_Car__arnold_Bush forseti gerði sjálfan sig að fífli þegar hann dásamaði vetnisbíla sem tandurhreina lausn  fyrir Bandaríkjamenn og virtist ekki hafa hugmynd um hvernig vetni er unnið þar í landi. Flokksbróðir hans í Kaliforníu - sjálfur Termínatorinn - var á tímabili kominn á sama hála ísinn, en áttaði sig og fyrir vikið hafa vetnisdraumarnir eitthvað minnkað þar vestur í sólskinsríkinu.

Þetta þýðir samt ekki að draumar um vetnisvæðingu séu útí hött. Það sem skiptir meginmáli er að vetnið verði unnið með endurnýjanlegri orku. Þess vegna gæti vetnið hentað frábærlega á Íslandi. Vetnisvæðing er ekki endanlega úr sögunni, þrátt fyrir hugsanlegt tímabundið bakslag vestur í Ameríku.

purdue-university-black-and-gold[1]Sérstaklega eru athyglisverðar rannsóknirnar á þeim möguleika, að nota vetni til að auka orkuinnihald í lífmassa. Og þannig gera lífmassann nánast jafn orkuríkan eins og alvöru olíu.

Þar er á ferðinni hugmynd sem hugsanlega gæti gert lífmassann að hinum eina sanna arftaka olíunnar. Það væri einföld lausn, af því slík þróun kallar ekki á neinar flóknar breytingar á innviðum samfélagsins. Þær rannsóknir fara m.a. fram hjá hinum fornfræga Purdue-háskóla  vestur í Indíana-fylki. Skólinn sá er reyndar stundum nefndur Geimvísindaháskólinn sökum þess hve margir geimfaranna bandarísku komu þaðan. Líklega hefði Purdue hentað Orkubloggaranum fullkomlega hér fyrir rúmum tuttugu árum eða svo. Þegar bloggarinn stjórnaðist af verkfræði- og flugáhuga og hafði enn ekki álpast í lögfræði. En það er önnur saga.

H2CARÞessi vetnis-lífmassa tækni kann þó að vera of dýr; það á vonandi eftir að skýrast á næstu árum. Kannski meira um þessa möguleika vetnisbætts lífmassa síðar hér á Orkublogginu.


Bloggfærslur 28. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband