Norman Borlaug

Á Íslandi og í öllum vestrænum samfélögum virðist vera sívaxandi hópur fólks sem hefur það að leiðarljósi sínu að vera á móti framförum í heiminum.

ORF_logoFyrr í sumar átti bloggarinn leið um Suðurland og heyrði þá í útvarpinu auglýstan kynningarfund í Gunnarsholti um áætlanir íslenska fyrirtækisins Orf Líftækni  um tilraunaræktun með erfðabreytt bygg. Orkubloggaranum þótti þetta upplagt tækifæri til að heyra meira um þessa forvitnilegu tilraun Orfsmanna. Og varð heldur undrandi þegar í ljós kom að fundarmenn reyndust flestir fólk sem sá þessari ræktun allt til foráttu.

Niðurstaðan varð engu að síður sú að Orf Líftækni fékk leyfi Umhverfisstofnunar til ræktunarinnar, enda var fyrirtækið talið uppfylla öll lagaskilyrði þar að lútandi. Líklega hefur árangurinn þó orðið heldur snautlegur, því skemmdarverk voru unnin á ræktunarreitnum nú í sumar. Væntanlega mun verkefnið halda áfram á komandi sumri.

Norman_Borlaug-5Blogginu varð hugsað til þessa verkefnis Orf Líftækni í dag þegar fréttir bárust af andláti hins stórmerka landbúnaðarvísindamanns Norman Borlaug. Sem einmitt var fjallað um hér á Orkublogginu í færslu s.l. sumar (2008). Borlaug (f. 1914) náði miklum árangri í kynbótum á hveiti, maís og fleiri plöntutegundum, til að auka mætti framboð fæðu í heiminum. Þetta starf hans er sagt hafa bjargað mörg hundruðum milljóna manna frá hungurdauða og hlaut Borlaug mikla viðurkenningu fyrir. Þ.á m. Friðarverðlaun Nóbels árið 1970.

Borlaug var á síðustu árum og áratugum óþreytandi við að benda á nauðsyn þess að meira verði unnið að nýjum leiðum til að auka fæðuframleiðslu enn frekar. Raunveruleg hætta sé á því að heimurinn muni horfa fram á vaxandi hungur og skelfingar meðal fólks, ef ekki verði brugðist við í tíma. Borlaug gagnrýndi hvernig vestræn samfélög hafa í auknum mæli snúist gegn vísindatilraunum með matvæli og hann hefur furðað sig á þeirri forgangsröðun að fagna lífrænni ræktun en snúast gegn erfðabreyttum matvælum.

Borlaug_wheat_2Norman Borlaug áleit fátt ef nokkuð benda til þess að lífrænt ræktaðar afurðir séu hollari en þær sem ræktaðar eru með hefðbundnari aðferðum, þar sem notaður er tilbúinn áburður og skordýraeitur. Áhugi fólks á lífrænt ræktuðum matvælum byggi sem sagt á misskilningi eða jafnvel röngum upplýsingum. Þetta sé hið versta mál, því lífræn ræktun skili minni afurðum en hefðbundnari aðferðir. Hann var einnig harður á því að miklu meira þurfi að vinna að erfðabreyttri ræktun. Það sé mannkyninu algerlega nauðsynlegt til að geta mætt fæðueftirspurn í framtíðinni.

Orkubloggarinn er á því að við eigum að hlusta vel á það sem Borlaug sagði. Og ekki leggjast af ofstopa gegn erfðabreyttum matvælum. Að sjálfsögðu má þetta ekki gerast í blindri trú á tæknina; nauðsynlegt er að sýna varúð og forðast umhverfisslys. En þröngsýni og lúxusveröld Vesturlanda  má ekki verða til þess að aðrir hlutar heimsins búi við hungur og fátækt. Þess vegna er mikilvægt að nýta framþróun í erfðatækni og taka fyrirtækjum eins og Orfi Líftækni af opnum huga.

wheat-blueFyrir þá sem vilja kynna sér betur lífsstarf Borlaug‘s má t.d. benda á fróðlega grein sem birtist í tímaritinu The Atlantic árið 1997. Hana má sjá hér.


Bloggfærslur 14. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband