Bifreiðaeldsneyti framtíðarinnar

Hvað mun knýja bifreiðar á Íslandi eftir 30 ár? Bensín og díselolía, íslenskt rafmagn, DME unnið úr koldíoxíðútblæstri, vetni eða jafnvel íslenskt lífrænt fljótandi eldsneyti? Kannski blanda af þessu öllu saman?

Algae_biofuel

Eins og lesendur Orkubloggsins vita hefur stjórn Obama ýtt til hliðar hugmyndum um vetnisvæðingu. Þar sigraði raunsæið draumórana. Og nú er sagt að Ólafur Ragnar hafi fylgt fordæmi Obama og veðji á rafbílavæðingu. Í reynd eiga Íslendingar mun raunhæfari og hagkvæmari kost; að framleiða eigið lífrænt eldsneyti.

Hafa ber í huga að Ísland hefur mikla sérstöðu í orkumálum vegna hinnar gríðarlegu endurnýjanlegu orku, sem hér er að finna. Þessi sérstaða gerir það að verkum að hagsmunir Íslands í orkumálum fara ekki endilega saman við orkuhagsmuni annarra ríkja. Hér eru tækifærin einfaldlega miklu meiri en víðast hvar annars staðar til að þjóðin geti orðið orkusjálfstæð - og byggt það sjálfstæði alfarið á endurnýjanlegri orku. Þess vegna er fyllsta ástæða fyrir Íslendinga að vera bjartsýnir á framtíðina. Að því gefnu að rétt verði á málum haldið og hér verði komið á orkustefnu sem byggir á skynsemi og langtímasýn.

Nýlokið er 3ju ráðstefnu Framtíðarorku um framtíðarsýn í eldsneytismálum - þar sem áherslan er á sjálfbærar orkulausnir í samgöngum. Þau hjá Framtíðarorku eða FTO Solutions eiga heiður skilið fyrir að hafa komið þessum viðburði á fót - og náð að halda dampinum.

Eflaust hefur hver sína skoðun á því hvað athyglisverðast var við ráðstefnu Framtíðarorku að þessu sinni. Í raunsæishuga Orkubloggarans hljóta þau Hans Kattström og Ann Marie Sasty að hafa vakið mesta athygli fundargesta. Þó svo kínverska BYD og norsk/íslenski rafbíladraumurinn hjá Rune Haaland  hafi kannski verið það sem virkaði mest spennó. Þetta síðastnefnda er reyndar æpandi útópía.

Sakti3_logoHin jarðbundna Ann Marie Sasty er forstjóri sprotafyrirtækisins Sakti3, sem er að vinna að þróun endurhlaðanlegra rafgeyma. Enn sem komið er, er langt í land með að slíkir rafgeymar verði nógu öflugir og ódýrir til að rafbílar verði af alvöru samkeppnishæfir við hefðbundna bíla. Vissulega eru gríðarleg tækifæri í rafbílum, en alltof snemmt að spá hvort eða hvenær þeir munu ná mikilli útbreiðslu. Og það mun ekki gerast nema upp spretti fjölmörg fyrirtæki í líkingu við Sakti3 - þá mun kannski koma að því að eitthvert eða einhver þeirra finni réttu leiðina í rafgeymatækninni. Sakti3 er eitt af þeim fyrirtækjum sem Orkubloggið mun fylgjast spennt með í þessu sambandi.

ScandinavianGts_logoMaðurinn með skemmtilega nafnið,  Hans Kattström, er í forsvari fyrir sænska gasframleiðandann Scandinavian GtS, en Svíar eru einmitt í fararbroddi ríkja sem nýta lífrænt eldsneyti á bifreiðar. Með lífrænu gasi er átt við gas unnið úr lífrænum efnum, t.d. úr sorpi eða plöntum. Á ensku er þetta gjarnan kallað biogas; þetta er í reynd metan og er náskylt hefðbundnu náttúrugasi.

Metan er að mörgu leyti snilldarorkugjafi. Íslendingar ættu tvímælalaust að horfa til þess hvernig Svíarnir hafa farið að því að gera metan að alvöru orkugjafa í sænska samgöngugeiranum. Menn skulu þó hafa í huga, að til að fjárhagslegt vit sé í slíkri framleiðslu þarf hún bæði að verða umfangsmikil og afurðin vera á viðráðanlegu verði. Til að lífefnaeldsneyti eigi sér raunverulega framtíð og höggvi ekki stór skörð í kaupmátt almennings og/eða í tekjur ríkissjóðs m.t.t. skattlagningar ríkisins á ódýru, innfluttu eldsneyti, þarf iðnaðurinn sem sagt alfarið að miðast við fjárhagslega hagkvæmni!

Það er hæpið að sérhæfð metanframleiðsla geti keppt við jarðefnaeldsneyti. Nema með verulegum niðurgreiðslum eða styrkjum. Sennilega er mun álitlegra að fara með lífmassann alla leið, ef svo má að orði komast. Vinna úr honum lífræna hráolíu fyrir tilstilli endurnýjanlegrar orku.

Theistareykir_1Slíkur iðnaður myndi líklega henta mjög vel á Íslandi vegna þess hversu mikla endurnýjanlega orku við eigum. Þetta er einfaldlega raunhæfasti og nærtækasti kosturinn fyrir Ísland í orkumálum. Og þetta yrði ný og mikilvæg stoð í íslensku atvinnulífi og myndi að auki spara mikinn gjaldeyri. Myndi sem sagt bæði þýða meiri fjölbreytni í stóriðju, ný tækifæri í landbúnaði, arðmeiri nýtingu á orkuauðlindum Íslands og um leið draga stórlega úr þörfinni á innfluttu eldsneyti með tilheyrandi gjaldeyrissparnaði.

Sennilega væri skynsamlegt að nýta t.d. orkuna á Þeistareykjum til slíkrar framleiðslu, fremur en að nota hana í áliðnað. Orkubloggið hefur reyndar nokkrar áhyggjur af því að stjórnvöld hér átti sig ekki á þessum möguleikum og séu stundum helst til fljót að eyrnamerkja orkuna nýjum álverum. Það er mjög óskynsamlegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, og ber vott um ótrúlega skammsýni. Nú reynir á hvaða stefnu iðnaðarráðherra, ríkisstjórnin og Alþingi taka. Ný, raunhæf og betri tækifæri blasa við ef fólk bara nennir að staldra við og íhuga valkostina.


Bloggfærslur 17. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband