Drekinn mun snúa aftur

Er þetta í alvöru rétti tíminn að bjóða út leit á Drekasvæðinu? Tæplega."

Þannig sagði í einni færslu Orkubloggsins í janúar s.l. Bloggarinn taldi lágt olíuverð geta valdið áhugaleysi á Drekasvæðinu. Þó svo verðið hafi hækkað nú í sumar er samt ennþá mikil óvissa á markaðnum, þ.a. þessi röksemd er enn ekki orðin marklaus. Í febrúar bætti Orkubloggið um betur og varaði við því að fjármálakreppa væri afleitur tími fyrir slíkt útboð. Þar að auki væru óraunsæjar skattareglur í íslensku útboðsskilmálunum mögulega til þess fallnar að draga úr áhuga öflugra olíuleitarfyrirtækja á svæðinu. Sem sagt væri margt sem mælti með því að slá útboðinu á frest.

Aker_Sagex_logoSvo fór að einungis tvær umsóknir um leitarleyfi á Drekasvæðinu bárust áður en umsóknarfresturinn rann út í maí. Báðar frá minni spámönnum úr bransanum. Þegar það lá fyrir benti  Orkubloggið á að hvorugur umsækjendanna gæti talist áhugaverður. Og óneitanlega fylltist bloggarinn talsverðri kjánatilfinningu þegar iðnaðarráðherra lýsti  yfir ánægju sinni með niðurstöðuna og talaði um „stóran dag í íslenskri orkusögu". Þegar öllum sem til þekktu mátti vera ljóst að niðurstaða útboðsins var einfaldlega gríðarleg vonbrigði. En kannski var henni Katrínu Júlíusdóttur vorkunn; svona eiga pólitíkusar líklega að tala og fylla fólk bjartsýni á erfiðum tímum. Sannleikurinn er oft óttalega leiðinlegur.

Í sumar dró annar umsækjandinn umsókn sína til baka. Það var því miður áhugaverðari umsækjandinn; Aker Exploration. Og hefur hinn umsækjandinn sömuleiðis dregið sína umsókn til baka. Það var reyndar alltaf augljóst að Sagex  hefði vart nokkra burði til að fara í raunverulega olíuleit á Drekasvæðinu nema með aðkomu öflugra samstarfsaðila. Umsókn þeirra hjá Sagex var því frá upphafi afar veik og hefði væntanlega verið hafnað.

Áhugaleysið á Drekasvæðinu er m.a. komið til vegna alls þess sem Orkubloggarinn hafði varað við. Of háir skattar, erfitt árferði í að fjármagna leit á nýjum og áhættusömum olíusvæðum og óvenjumikil óvissa um þróun olíuverðs. Af samtölum sínum við hátt sett fólk hjá nokkrum öflugustu olíufyrirtækjum heims í djúpvinnslubransanum, verður bloggarinn þó að bæta hér einni ástæðu við: Allt of lítilli kynningu á Drekasvæðinu.

DrekasvaedidÁ allra síðustu árum hafa opnast möguleikar til olíuleitar á mörgum nýjum og mjög áhugaverðum olíusvæðum. Drekasvæðið er nýtt og lítt þekkt og er í samkeppni við ýmis önnur svæði þar sem leitaráhættan er mun minni og líkur á góðum ávinningi miklu meiri. Þar má t.d. nefna olíusvæðin utan við strendur Angóla og víðar við Vestur-Afríku, svæði í Kaspíahafi og í utanverðum Mexíkóflóa.

Til að vekja áhuga alvöru fyrirtækja í djúpvinnslubransanum þarf einfaldlega miklu meiri og betri kynningu á svæðinu. Stjórnvöld verða að horfast í augu við það að slíkt er bæði tímafrekt og kostar peninga. Það er út í hött að halda að menn geti fengið fyrirtæki til að leggja milljarða í olíuleit á Drekanum með nokkrum power-point kynningum á fáeinum olíuleitarráðstefnum. Þetta er erfið þolinmæðisvinna.

Hugsanlega hafa menn hér heima blindast af góðærinu, þegar þeir voru að undirbúa Drekaútboðið. Og haldið að Drekinn væri í augum allra æsispennandi - beztur í heimi - ekki síst þegar olíuverð rauk í næstum 150 dollara um mitt ár 2008.

Hvað um það. Verum ekki að nöldra yfir fortíðinni. Enda fyllsta ástæða til að brosa. Það er í reynd miklu betri niðurstaða að ekkert leitarleyfi sé gefið út á Drekasvæðinu, heldur en að gefa út leyfi til fyrirtækis sem myndi klúðra leitinni. Það hefði verið versta niðurstaðan.

Katrin_Juliusdottir_2Nú geta iðnaðarráðherra og Orkustofnun stokkað spilin upp á nýtt og horft björtum augum fram á veginn. Lært af reynslunni og undirbúið ennþá vandaðra útboð. Útboð sem mun skila alvöru umsækjendum, sem hafa mikla reynslu af olíuleit og vinnslu á erfiðum og djúpum hafsvæðum.

Til að svo megi verða þurfa stjórnvöld m.a. að gæta þess að tímasetja útboðið vel. Þarna þarf bæði þekkingu og útsjónarsemi. Skynsamasti kosturinn væri auðvitað að ráða Orkubloggarann til að skipuleggja það ferli!


Bloggfærslur 23. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband