HS Orka og Magma Energy

Orkuveita Reykjavíkur ætlar að selja hlut sinn í HS Orku. Til erlends fyrirtækis.

Ketill_Sigurjonsson-Silfur_Egils_2Egill Helgason fékk Orkubloggarann til að koma í Silfrið í dag til að ræða þessa sölu. Hér er tæpt á nokkrum helstu atriðunum, sem tengjast því spjalli.

Sumir segja þessa sölu eingöngu tilkomna vegna úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá júlí 2008. Þó svo niðurstaðan í samkeppnismálinu skipti auðvitað máli, er sérkennilegt að vera að hengja sig í það. Eins og stjórnarformaður Orkuveitunnar gerir sí og æ í viðtölum. Aðalatriði málsins hlýtur að snúast um grundvallaratriðið; ætla íslenskir stjórnmálamenn að halda áfram á leið einkavæðingar orkufyrirtækjanna eða að snúa af þeirri braut?

Hvað sem því líður þá er HS Orka nú í stökustu vandræðum. Eigið fé fyrirtækisins er líklega nánast allt gufað upp. Hugsanlega geta kröfuhafar yfirtekið fyrirtækið ef þeir vilja vegna ákvæða lánasamninga um lágmarkshlutfall eignfjár. Að auki eru talsverðar líkur á að HS Orka muni brátt lenda í greiðsluþroti. Það má a.m.k. öllum vera augljóst að staða fyrirtækisins er grafalvarleg og lífsspursmál að fá inn nýtt hlutafé.

Það er ekki einfalt mál í dag að afla fjármagns. Hvorki lánsfjár né hlutafjár. Orkubloggið hefur allt frá því í vetur sem leið talið nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld sýni framsýni og leiti leiða til að tryggja stöðu orkufyrirtækjanna. Ef illa skyldi fara og þau lenda í greiðsluþroti - þá þarf að vera búið að undirbúa hvaða úrræða gripið yrði til. Svo komast megi hjá því að endurtaka paníkina sem varð í byrjun október s.l. (2008) þegar bankarnir féllu.

Sérstaklega hefur Orkubloggarinn verið áhugasamur um að fá sterkt Skandínavískt orkufyrirtæki - hugsanlega norrænt ríkisorkufyrirtæki - sem eignaraðila að stóru íslensku orkufyrirtækjunum. Helst sem minnihluta-eiganda (þ.e. með allt að 49% eignarhlut). Íslensk stjórnvöld hljóta fyrir löngu að vera búin að íhuga og kanna þennan möguleika af mikilli alvöru. Ekki síst þegar í ríkisstjórn sitja flokkar, sem eru í takt við norræna velferðarpólitík. Þarna má t.d. hugsa sér aðkomu norska orkufyrirtækisins Statkraft, sem sérhæfir sig í endurnýjanlegri orku. Um slíkar þreifingar hefur ekkert heyrst og hafi þær ekki farið fram er það einfaldlega vítavert kæruleysi af ríkisstjórninni.

magma_energy_webEn hvað svo sem hefur gerst á bakvið tjöldin, þá virðist einungis einn aðili hafia áhuga á HS Orku. Kanadíski jarðhitafjárfestirinn Magma Energy. Stóra spurningin núna er hvort hér séu einhverjir voða vondir útlendingar á ferð. Sem ætla sér að hirða HS Orku á spottprís, blóðmjólka fyrirtækið og koma arðinum undan úr landi.

Orkubloggið á erfitt með að skilja ótta sumra Íslendinga við útlendinga. Hræða sporin? Hér hafa í áratugi starfað erlend fyrirtæki eins og álfyrirtækin. Blogginu er ekki kunnugt um annað en að samstarfið við þessi fyrirtæki hér á landi hafi almennt gengið prýðilega - sérstaklega á síðari árum. Það voru stundum einhver leiðindi í gangi með álverið í Straumsvík meðan Svissararnir ráku það - "hækkun í hafi" og eilífar vinnudeilur - en þau leiðindi eru löngu úr sögunni. Í reynd hefði líklega verið mun farsælla fyrir íslensku þjóðina ef meira hefði verið hér um erlendar fjárfestingar og minna um umsvif íslenskra fjárfesta!

Orkubloggarinn þekkir ekki persónulega til Magma Energy eða mannsins þar að baki; Ross Beaty. En hvergi hefur bloggarinn rekist á annað en fremur jákvæðar umsagnir um Magma og Beaty. Vissulega virðist þessi kanadíski Silfurrefur  vera einkar laginn að sjá hvenær verðsveifla er í botni og stekkur þá til. M.ö.o. er talsvert líklegt að hann hafi nú enn einu sinni reiknað rétt og sé að fá hlutinn í HS Orku á algerum spottprís. En ef enginn annar nægjanlega traustur kaupandi er finnanlegur, er þó vart hægt að klína því á Beaty að hann sé að blóðmjólka Ísland.

HS-orka-logoEf Magma Energy eignast hlut í HS Orku eða jafnvel fyrirtækið allt og gengur vel með fyrirtækið í framtíðinni, mun Magma eflaust hagnast mjög vel á þessum kaupum. Kannski er Beaty meira að segja strax búinn að semja við kröfuhafa HS Orku um að ef hann komi að rekstri HS Orku verði tilteknar skuldir fyrirtækisins felldar niður og afskrifaðar. Kannski er Magma Energy að eignast hlut í HS Orku fyrir ekki neitt - þegar upp verður staðið.

Sumum finnst fúlt þegar aðrir græða. Finnst jafnvel betra að allir tapi. Orkubloggið er ekki ósátt við þótt Magma geri þarna reyfarakaup og stórgræði á öllu saman. EF það leiðir til þess að sterkari HS Orka standi hér hnarreist eftir nokkur ár og fyrirtækið muni bjóða góða þjónustu á sanngjörnu verði og lúta að fullu leikreglum íslenskra laga.

Þjóðin öll á að geta treyst því að Orkuveita Reykjavíkur og íslensk stjórnvöld stefni að þessu sama markmiði. Og hafi lagst í mikla vinnu, sem sýni svo ekki verður um villst að Magma Energy sé fyrirtæki sem sé mjög líklegt til að ná góðum árangri og geri viðskiptavini sína ánægða. Nú reynir á hvort stjórn Orkuveitunnar, borgaryfirvöld og ríkisstjórnin hafi unnið þessa heimavinnu af eins mikilli vandvirkni og Orkubloggið væntir. Framtíðin mun væntanlega leiða það í ljós.

------------------------------------------------

Viðtalið í Silfrinu má sjá á vef RÚV; HÉR.


Bloggfærslur 7. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband