21.1.2011 | 23:59
Hólmsá
Hver er fallegasti staður á Íslandi? Þar hefur hver sinn smekk. Þegar útlendingar spyrja Orkubloggarann spurningarinnar hver sé fallegasti staður á Íslandi, mælir bloggarinn jafnan með Skaftafelli. Þangað er alltaf gaman að koma og "stórleikur landskaparins" óvíða meiri.

Í huga Orkubloggarans er þó annar staður sem stendur hjarta hans nær. Það er landsvæðið við Hólmsá í nágrenni Mýrdalsjökuls. Frá upptökum árinnar undan jöklinum þar sem hún rennur fyrst í norður og allt þar til hún nálgast Kúðafljótið, er að finna gríðarlega stórbrotið og fallegt landslag.
Næst jöklinum rennur áin þung og dökk eftir kolsvörtum söndum. En vegna fjölda bergvatnsáa og -lækja sem falla í Hólmsána frá Fjallabaki fær þetta úfna jökulljót fljótlega furðulegan og óvenjulegan gljáandi lit. Og þrátt fyrir auðnina sem áin rennur um nær mosi sér víða á strik og glóir þá oft sem dýrasta gull skaparans.
Skemmtilegast þykir Orkubloggaranum að aka að Hólmsá austanfrá. Þá er fyrst farið upp í Skaftártungu þar sem bæirnir Snæbýli, Ljótarstaðir og Borgarfell liggja á mörkum hins byggilega heims.

Þaðan sker vegaslóðinn sig upp brattar brekkur ofan við bæina og er hækkunin þarna ótrúlega mikil á stuttum kafla. Skyndilega opnast tilkomumikil útsýn vestur yfir auðnina norður af Mýrdalsjökli og yfir snæbreiðu jökulsins sjálfs, þar sem eldstöðin ægilega, Katla, lúrir undir. Í suðri sést yfir víðáttumikinn Mýrdalssandinn og til norðurs eru mosagróin móbergsfjöll Fjallabaksins.
Í skamma stund er ekið um heiðarlönd, sem fljótlega breytast í lítt gróna ása og m.a. liggur slóðinn yfir skemmtilega hraunbrú (myndin hér að ofan er einmitt tekin af hraunbrúnni; horft til suðurs). Til vesturs sést til svartra sandanna næst jöklinum og hér og hvar rísa tignarleg fell upp úr sandinum og minna okkur á eldgosin þarna í fyrndinni.
Sennilega þykir flestum Mælifellið tilkomumest. En Öldufellið er litlu síðra og Einhyrningur er alveg sérstaklega fallegur. Þó svo nafni hans vestan Eyjafjallajökuls sé þó kannski svipmeiri. Þarna er maður skammt frá byggðinni í Skaftártungu, en engu að síður er eins og maður sé komin langt inn á öræfi. The Icelandic Outback, eins og mér þykir svo viðeigandi að kalla það upp á ensku.

Við nálgumst nú Hólmsá. Þar kann ferðalangur að mæta bílum sem koma norðan frá Eldgjá um hina skemmtilega Álftavatnaleið. Sumum ökumanninum verður reyndar ekki um sel þegar hann sér slóðann hverfa útí ána og verður lítt hrifinn af því að halda áfram vestur yfir. Þarna við vaðið rennur Hólmsáin í tveimur kolmórauðum og úfnum kvíslum og getur verið afar óárennileg að líta. Venjulega er þó vaðið gott og lítið mál að ösla yfir.
Strax þarna er Hólmsáin afar ólík þeim jökulfljótum sem maður á að venjast, því bakkarnir eru víða grónir alveg fram á vatnsbakkann. Engu að síður getur alræmd sandbleyta jökulvatnanna stundum verið til vandræða.

Þegar yfir ána er komið stendur valið milli þess að halda áfram vestur eftir auðnum Mælifellssands eða að sveigja til vinstri og halda suður s.k. Öldufellsleið. Þá er ekið í átt að Öldufelli og er víða tignarlegt að horfa þar yfir vötnin og í átt til Mýdalsjökuls. Það er þessu leið sem við förum í dag; Öldufellsleið.
Sól skín í heiði en engu að síður stendur kaldur blástur frá jöklinum. Nú er haldið áfram í rólegheitum um stund og ekki líður á löngu þar til aftur kemur að Hólmsá þar sem hún fellur um Hólmsárfoss.
Núna erum við vestan við ána og sum okkar verða sjálfsagt undrandi að sjá hvernig jökuláin hefur allt í einu fengið á sig tærbláan glampa. Hún minnir nú jafnvel meira á frussandi fagra lindá heldur en jökulfljót! Hvannivaxnir hólmarnir útí í ánni ýta enn frekar undir þessi áhrif.
Þarna rétt neðan við fossana er kjörið að staldra við, kasta sér í þykkan mosann og maula nestið. Þegar gengnir eru þessir fáu metrar fráslóðanum og að fossunum finnur maður aflið sem þarna brýst fram á hraðleið niður í átt að Mýrdalssandi. Þetta er samt bara lítill hluti af fallinu; landið lækkar þarna nokkuð hratt til suðausturs uns Hólmsá fellur straumþung og ógnvekjandi um Hólmsárgljúfur og útí Kúðafljót.
En við erum enn ekki komin þangað. Fyrst liggur leiðin um kolsvartar auðnir ofanverðs Mýrdalssands, þar sem við ökum yfir fáeinar afar hrörlegar brýr, yfir kolgráar þverár sem brjótast úr jöklinum og falla af furðumiklum þunga niður sandinn uns Hólmsá tekur þær í faðm sinn.
Þessi tignarlega náttúra er innrömmuð af Rjúpnafellinu og mörgum öðrum fellum, sem eru líkt og þeim hafi verið varpað niður á flatan sandinn beint af himnum ofan. Raunin er þó auðvitað þvert á móti sú, að þau eru komin beint að neðan frá þeim Svarta sjálfum; hafa myndast í eldsumbrotum undir jökli fyrir margt löngu.
Til austurs gnæfir hetta Mýrdalsjökuls, sem ögrar okkur ævarandi með Kötlu. Manni verður ósjálfrátt hugsað til þess hvernig þarna myndi verða um að litast skömmu eftir hamfarahlaup af völdum Kötlu? Og hvort nokkuð mannvirki á þessum slóðum myndi standast slíka raun? Oft hafa slík jökulhlaup einmitt farið niður eftir farvegi Hólmsár.
Slóðinn liggur nú niður á slétturnar sunnan Hólmsár og þegar maður fer þessa leið í fyrsta sinn verður maður sífellt meira undrandi yfir hinum fjölmörgu jökulföllum, sem þarna birtast hvert á fætur öðru með miklum straumofsa. Sum þeirra hafa grafið alldjúp gil í sandinn, en falla að lokum í Hólmsá og kannski einhver þeirra í Skálm.
Nú erum við komin í nágrenni Atleyjar og að tröllkarlinum sem þarna stendur við vegaslóðann. Lengi hafa verið uppi hugmyndir um að virkja Hólmsá og núna nýlega bárust fréttir af því að Landsvirkjun hafi keypti vatnsréttindin vegna Hólmsár. Fyrir nokkur hundruð milljónir króna að því sagt er. Hvort tröllkarlinn veit af því er ekki gott að segja - en hann rýnir út yfir auðnina líkt og áhyggjufullur landvættur, sem er máttvana gagnvart skurðgröfunum okkar, stíflunum, aðrennslisskurðunum og uppistöðulónum.
Þorsti okkar fyrir ennþá fleiri megawattstundir til að selja til iðnaðar lætur svona klettadrang varla stöðva sig. En vætturinn heldur í vonina. Vonina um að þjóðin sem landið byggir muni láta þetta ósnerta og tilkomumikla svæði í friði.
[Ljósmyndirnar eru teknar af Orkubloggaranum á haustferð niður með Hólmsá (nema auðvitað myndin af Kötlugosinu 1918). Þó svo bloggarinn sé amatör með myndavél gefa þær vonandi einhverja hugmynd um þetta makalausa landsvæði. Lesa má meira um þessar virkjanahugmyndir í Hólmsá á vef Rammaáætlunar, en hér er vísað í sérstaka kynningu um Hólmsár- og Skaftárvirkjanir (athugið að skjalið er nokkuð þungt)].
Viðskipti og fjármál | Breytt 22.1.2011 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)