23.1.2011 | 16:10
Orkustefnan
Stýrihópur iðnaðarráðherra um mótun heildstæðrar orkustefnu hefur skilað drögum að orkustefnu fyrir Ísland. Allir geta lesið þessi drög og gert athugasemdir við þau á vefnum orkustefna.is. Sú slóð færir mann áfram á síðu á vef Orkustofnunar. Af því tilefni er vert að taka fram að drögin eru ekki samin af Orkustofnun, heldur sérstökum sjö manna stýrihópi, sem skipaður var af iðnaðarráðherra. Vissulega á orkumálastjóri þar sæti, en stýrihópurinn er undir formennsku Vilhjálms Þorsteinssonar.

Orkubloggarinn er mjög sáttur við flest í þessum drögum. Og ætti kannski að vera alveg í skýjunum - af því það vill svo skemmtilega til að niðurstöður stýrihópsins endurspegla mjög margt af því sem bloggarinn hefur talað fyrir hér á Orkublogginu
Það hefði kannski bara verið einfaldara og skilvirkara að fá Orkubloggarann í þetta verk? Kannski ekki; því þá væri skýrslan líklega a.m.k. 500 blaðsíður og e.t.v. alltof ítarleg til að nokkur nennti að lesa hana. En að vísu innihéldi hún þá í raun og veru tillögu að heildstæðri orkustefnu, þar sem tekið væri á öllu því sem nauðsynlegt er í slíkri stefnu. Í umræddum drögum af orkustefnu er aftur á móti sumstaðar skautað ansið hratt yfir hlutina. Og líka sleppt að fjalla um nokkur mikilvæg atriði sem ættu að vera hluti af orkustefnunni.
En skoðum hver eru meginatriðin í skýrslu stýrihópsins. Segja má að stefnan sem þarna er sett fram í orkumálum Íslands endurspeglist einkum í eftirfarandi meginatriðum:
1) Að minnka og dreifa áhættu opinberu orkufyrirtækjanna. Og þá einkum með því að hætt verði að semja við álfyrirtækin um að raforkuverðið sé tengt álverði í svo miklum mæli sem verið hefur. Í reynd er Landsvirkjun einmitt byrjuð á þessu, því í nýjasta raforkusölusamningnum, sem var við álverið í Straumsvík, var raforkuverðið ekki tengt álverði. Sem merkir að Landsvirkjun ber þá ekki áhættuna af sveiflum á álverði. Þess í stað miðast orkuverðið einfaldlega við gengi á USD. Orkubloggarinn er sammála þessari stefnu.
2) Að auka arðsemi orkufyrirtækjanna með því að stefna að hækkun á raforkuverði til stóriðjunnar til samræmis við hækkandi verð í Evrópu og víðar um heim. Um þetta markmið má líka segja, að Landsvirkjun hafi nú þegar kynnt það til sögunar í sínum rekstri. Sbr. t.d. kynning forstjóra fyrirtækisins fyrr á árinu, sem sagt hefur verið frá hér á Orkublogginu. Orkubloggarinn er sammála þessari stefnu stýrihópsins.
3) Að kanna með lagningu rafstrengs til Evrópu í því skyni að auka hagkvæmni og arðsemi orkufyrirtækjanna. Einnig um þetta hefur Landsvirkjun fjallað talsvert á síðustu misserum! Og sagt vera áhugaverðan kost, en að þetta sé þó ekki nauðsynleg forsenda til að auka megi arðsemi fyrirtækisins. En stýrihópurinn vill sem sagt stefna að slíkum rafstreng, sem eru heilmikil pólitísk tíðindi verði þetta orkustefna íslenskra stjórnvalda. Orkubloggarinn er sammála þessari stefnu.

4) Í skýrslu sinni dregur stýrihópurinn fram þá mynd að einhæfnin í raforkusölunni hér (80% til stóriðju og þar af er hluti álbræðslnanna langmestur) sé óheppileg og bendir á nokkra kosti sem myndu fylgja því auka fjölbreytni í atvinnulífinu. Hópurinn nefnir þá leið "að bjóða orku til smærri verkefna með styttri fyrirvara og með einfaldara og fyrirsjáanlegra afhendingarferli en tíðkast hefur". Leggur stýrihópurinn til að sérstaklega verði miðað að því að útvega smáum og meðalstórum fyrirtækjum raforku innan þess tímaramma sem uppbygging verkefna af þeim stærðargráðum almennt tekur að jafnaði, þ.e. innan 1-4 ára. Í þessu efni miðar stýrihópurinn annars vegar við fyrirtæki sem þurfa afl sem nemur 1-10 MW og hins vegar afl sem nemur 10-50 MW. Þetta er að mati Orkubloggarans hárrétt stefna. Að auki vill stýrihópurinn að raforkulög og reglur um raforkuflutning verði aðlagaðar þörfum smærri og meðalstórra orkunotendum.
Reyndar er svolítið hætt við að þessar áherslur stýrihópsins í lið nr. 4 hér að ofan, verði tengdar því að formaður stýrihópsins sé greinilega ekki stjórnarformaður álvers heldur... t.d. stjórnarformaður fyrirtækis sem hyggst byggja gagnaver! Sem einmitt þarf mun minni raforku en álver. Það hefði kannski verið eðlilegra að þeir sem í stýrihópnum sitja ættu enga beina hagsmuni af því hvernig orkustefna Íslands líti út. Vilhjálmur er vel að merkja stjórnarformaður Verne Global og með mikil tengsl víðar í viðskiptalífinu. Orkubloggarinn treystir Vilhjálmi vel til að vinna af algerum heilindum að orkustefnunni. En þetta er samt svolítið óheppileg tenging.
5) Að hætt verði að veita ábyrgð hins opinbera vegna fjármögnunar virkjanaframkvæmda. Þetta er enn eitt atriðið sem forstjóri Landsvirkjunar hefur minnst á að sé framtíðarsýn fyrirtækisins. Og sömuleiðis hefur Orkubloggið sagt þetta vera mikilvægt. Hárrétt stefna.

6) Að framleitt verði íslenskt eldsneyti. Markmiðið sem stýrihópurinn leggur til í þessu sambandi er að árið 2020 verði búið að draga úr notkun innflutts eldsneytis OG auka hlutdeild innlendra orkubera/ eldsneytis í samgöngum og sjávarútvegi, sem nemi a.m.k. 10% af heildarnotkun eldsneytis á þessum sviðum. Og af því Orkubloggið hefur hér verið að bera stefnu stýrihópsins saman við yfirlýst viðhorf Landsvirkjunar, má nefna að Landsvirkjun undirritaði einmitt nýverið viljayfirlýsingu við CRI um að kanna með byggingu metanólverksmiðju norður í landi og sölu á raforku til hennar. Og lesendum Orkubloggsins ætti að vera kunnugt um mikinn áhuga Orkubloggarans á að nýta íslenska orku til að framleiða hér eldsneyti. En umrætt markmið stýrihópsins er því miður fremur óljóst, eins og nánar verður vikið að hér a eftir. Þessi stefna þarf að verða miklu skýrari.
7) Að orkuauðlindir á svæðum í eigu ríkis og sveitarfélaga verði áfram í opinberri eigu og orkuauðlindum sem eru beint eða óbeint á forræði ríkisins verði safnað saman og þær vistaðar í sérstökum sjóði eða stofnun. Að öðru leyti fjallaði stýrihópurinn lítt um eignarhald og lét t.d. alveg vera að bera saman kosti þess og galla að einkafyrirtæki fjárfesti í íslenska raforkugeiranum. Þetta er sérkennilegt því hópnum var beinlínis falið að fjalla um "helstu leiðir varðandi eignarhald í orkuframleiðslu, kostir og gallar og áhrif á framkvæmd heildstæðrar orkustefnu" og jafnframt að skilgreina vænlegustu leiðir í þessu efni. Nauðsynlegt er að stýrihópurinn taki þetta til meðferðar, enda eitt af lykilatriðunum í orkustefnu hvers lands.

8) Að nýtingarleyfi að orkuauðlindum verði til hóflegs tíma, til dæmis 25-30 ára í senn. Þetta yrði umtalsverð stytting frá því sem nú er, en í dag er þarna miðað við allt að 65 ár og ótakmarkaðan möguleika á framlengingum til allt að 65 ára í hvert sinn. Athyglisvert er að stýrihópurinn leggur til mun styttri nýtingarleyfi heldur en nefndin sem fjallaði um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum gerði sinni skýrslu. Þar var lagt til 40-50 ára afnotatímabil. Það eru því uppi afar mismunandi skoðanir um hver lengd afnotatímans skuli vera. Orkubloggið hefur áður fjallað um gildandi lagareglur um þetta efni, sem eru hreint með ólíkindum gallaðar. Þær þarf að skýra - og einnig er að mati Orkubloggarans skynsamlegt að afnotatími verði á bilinu 25-30 ár eins og stýrihópurinn leggur til.
Einnig þarf að meta hvort hér eigi að gilda sitt hvað um orkufyrirtæki í einkaeigu annars vegar og opinberri eigu hins vegar. Af drögum stýrihópsins má ráða að þar skuli gilda eitt og hið sama um lengd nýtingarleyfa. Hér ber líka að geta þess, að skýrt þarf að vera hvernig fer með virkjunarmannvirki við lok afnotatímans. Eiga þau að renna gjaldfrjálst til ríkisins (sbr. norska reglan um Hjemfall) eða á að greiða tiltekið matsverð fyrir þau ef viðkomandi rekstraraðili fær ekki nýtt (framlengt) nýtingarleyfi? Um þetta mikilvæga atriði er ekki að finna almennilega umfjöllun í skýrslu stýrihópsins.
9) Einnig fjallaði stýrihópurinn um gjaldtöku vegna nýtingar á orkuauðlindum í eigu ríkisins og leggur til að þeir sem nýta slíkar orkuauðlindir greiði bæði það sem kallað er grunngjald og hluta af auðlindarentu þegar verkefni skilar s.k. umframarði (grunngjaldið á að lágmarki að samsvara fórnarkostnaði vegna glataðra náttúruverðmæta og annars umhverfiskostnaðar sem hlýst af nýtingunni og auk þess eftir atvikum rannsóknar-og öðrum undirbúningskostnaði sem til hefur fallið af hálfu opinberra aðila). Stýrihópurinn lét aftur á móti vera að útfæra þessar hugmyndir nánar og vísar þess í stað einfaldlega til niðurstöðu nefndar um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum. Þær tillögur má lesa í 8. kafla í skýrslu umræddrar nefndar, sem finna má á vef forsætisráðuneytisins. Orkubloggarinn er sammála því að tekin verði upp gjaldtaka af þessu tagi. En er ekki alveg sáttur við síðastnefnda skýrslu, sem fór t.d. heldur frjálslega með staðreyndir um fyrirkomulagið í norska raforkugeiranum. En það er önnur saga, sem þegar hefur verið minnst á hér á Orkublogginu.
--------------
Það eru augljóslega töluverð sameinkenni milli stefnunnar sem stýrihópurinn kynnir og þeirrar stefnu sem Landsvirkjun hefur verið að móta á síðustu misserum. Í þessu sambandi er óneitanlega mjög athyglisvert hvernig varla hefur heyrst hósti né stuna frá Orkuveitu Reykjavíkur síðustu árin um stefnumótun til framtíðar. Að vísu hefur eitthvað heyrst um að OR eigi héðan í frá að einbeita sér að þjónustu við borgarbúa, en ekki horfa til nýrrar stóriðju. En Orkuveitunni myndi svo sannarlega ekki veita af forstjóra með skýra og skynsamlega framtíðarsýn!

En víkjum aftur að markmiðum stýrihópsins, sem rakin eru hér að framan. Orkubloggarinn fær ekki betur séð en að stýrihópurinn sé í reynd að leggja það til að stóriðjustefnan verði endanlega kvödd. Sem fyrr segir þá rímar stefna stýrihópsins mjög við þá stefnumótun sem Landsvirkjun hefur kynnt, en stýrihópurinn gengur þó miklu lengra í því að þrengja að stóriðju. T.d. með því að lýsa yfir að núverandi form orkusölusamninga leiði til áframhaldandi einhæfni í orkufrekum iðnaði og skapi ekki umhverfi fyrir stofnun og vöxt minni og hugsanlega meira nýskapandi fyrirtækja. Þetta telur stýrihópurinn óheppilegt og vill að tekin verði upp stefna sem hvetji til meiri fjölbreytni og minni áhættu. Sem að mati Orkubloggarans er bara hið besta mál og mjög skynsamleg áhersla.
Þess ber að geta að líklega hafa álverin hér svigrúm til að þola eitthvað hærra raforkuverð en verið hefur hér á landi fram til þessa (raforkuverð til álbræðslnanna á Íslandi hefur verið um 25-30% lægra en heimsmeðaltalið). Þess vegna kann að vera ofmælt að verið sé að kasta stóriðjustefnunni alfarið fyrir róða, með markmiðum um að hækka raforkuverð til stóriðju. Álverin sem þegar er búið að byggja, munu sennilega geta kyngt einhverri hækkun þegar kemur að endurnýjun raforkusölusamninga. En ný álver munu ekki hafa áhuga á Íslandi ef raforkuverðið hækkar mjög verulega. Þá fara þau fremur t.d. til Persaflóans þar sem hægt er að fá raforku frá gasorkuverum fyrir skít og kanil.
Og eigi að afnema ábyrgð hins opinbera vegna virkjanaframkvæmda mun það eitt og sér minnka stórlega líkurnar á því að hér rísi ný álbræðsla. Því þá verður væntanlega fjármagnið til virkjanaframkvæmdanna talsvert dýrara en ella og arður raforkusalans sama og enginn. Hæpið er að unnt yrði að fjármagna slíkar framkvæmdir, nema þá ef raforkuverðið hækki mjög umtalsvert frá því sem verið hefur.
Markmiðin um hækkandi raforkuverð og afnám ábyrgðar hins opinbera eru því tengd og munu að öllum líkindum leiða til þess að ekki verður unnt að virkja fyrir stóriðju í líkingu við álver. Þess vegna er mjög líklegt að ef drögin að orkustefnu Íslands verða að formlegri stefnu stjórnvalda, muni hvorki rísa álver við Helguvík né Bakka.
Að mati Orkubloggarans er þetta hið besta mál. Álið er orðið alltof stór hluti af íslensku efnahagslífi og tímabært að stjórnvöld stuðli að fjölbreyttari gjaldeyristekjum. Og fjölbreyttara atvinnulífi. Og meiri arðsemi í raforkuframleiðslunni. Nýja orkustefnan er jákvætt skref í þá átt. Fyrir það á stýrihópurinn hrós skilið.
Þar með er ekki sagt að allt sé frábært við þessi drög. Þarna skortir t.d. úttekt á hlutverki skattkerfisins til að dreifa arði af raforkusölu stóru opinberu orkufyrirtækjanna. Í því sambandi er vert að hafa í huga hvernig stór sneið af arðinum í norsku raforkuvinnslunni rennur beint til sveitarfélaga. Slíkt fyrirkomulag er fallið til þess að breið samstaða verði um allt landið um orkustefnuna, en skv. tillögum íslenska stýrihópsins á þetta allt að vera afar miðstýrt og arðurinn að renna í einhvern sjóð á vegum ríkisins. Það er ekki endilega skynsamlegt að hugsa málið þannig. Nær væri að setja fram tillögur sem tryggja það að sveitarfélög sjái sér hag í að fá til sín iðnfyrirtæki sem greiði sem allra hæst raforkuverð, en ekki bara að fyrirtækið skapi atvinnu eins og menn munu einblína á ef arðurinn á allur að renna til ríkisins. Stýrihópurinn ætti að huga betur að þessu áður en hann gengur endanlega frá skýrslu sinni

Þá þykir Orkubloggaranum stýrihópurinn fara ansið bratt í það að búast við því að allt í einu muni hefjast stórfelld eldsneytisframleiðsla á Íslandi. Umrætt markmið stýrihópsins hljómar þannig [leturbreyting er Orkubloggarans]: Að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis með orkusparnaði og aukinni hlutdeild innlendra orkubera og eldsneytis í samgöngum og sjávarútvegi, þannig að þeir verði að minnsta kosti 10% af heildarnotkun eldsneytis á þessum sviðum (bls.56 í skýrslunni). Þ.e. að lágmark 10% allrar orkunotkunar í öllum samgöngum og öllum sjávarútvegi skuli koma frá innlendum orkuberum eftir einungis tíu ár! Þetta er satt að segja mjög bjartsýnt og nánast algerlega óraunhæft. Í dag er a.m.k. lítið sem ekkert, sem bendir til þess að einhver vitrænn möguleiki sé á að ná þessu markmiði.
Nú kunna reyndar einhverjir lesendur Orkubloggsins að benda á að þarna sé ekki aðeins talað um notkun á innlendum orkugjöfum heldur eigi líka að ná þessu markmiði með orkusparnaði. Jamm - en þá er vandamálið bara það að á öðrum stað í skýrslu stýrihópsins er sett fram annað markmið, sem er svohljóðandi: Að spara og nýta betur jarðefnaeldsneyti (e. savings/efficiency) sem nemur samanlagt a.m.k. 20% í samgöngum og í skipaflotanum (bls. 53 í skýrslunni).

Þarna missti Orkubloggarinn svolítið þráðinn. Af hverju er á báðum stöðum talað um að spara orku? Þessi markmið virðast ekki vera fullhugsuð eða a.m.k. erfitt að átta sig hvað þau nákvæmlega þýða. Orkusparnaður er eitt en íslenskt eldsneyti eða -orkuberar er allt annað.
Þarna vantar líka sárlega skýr mælanleg markmið. Hversu mikla orku munu Íslendingar nota í samgöngum og fiskveiðum árið 2020 að mati stýrihópsins? Sú stærð hlýtur að vera algert lykilatriði þegar svona markmið eru sett fram.
Stýrihópurinn hefur heldur ekki haft fyrir því að skilgreina hvaða kostir komi þarna til greina sem íslenskir orkuberar. Vissulega er minnst á allt heila klabbið; metanól, DME, metan, vetni, lífdísil, annarrar kynslóðar etanól og ég veit ekki hvað og hvað (ekkert er þó minnst á lífhráolíu sem Orkubloggarinn er alveg sérstaklega áhugasamur um) . En það er alveg látið vera að gera tækni- og kostnaðarsamanburð á þessum mismunandi kostum og reyna þannig að leiðbeina stjórnvöldum um hvaða leiðir séu hugsanlega álitlegar eða raunhæfastar til að ná umræddum markmiðum. Þess í stað lætur stýrihópurinn nægja að fjalla mjög almennt um þetta og vísa til til áætlunar um orkuskipti í samgöngum, sem unnin hefur verið á vegum iðnaðarráðuneytisins.
Sú áætlun var einmitt lögð fram í formi þingsályktunartillögu núna í vikunni sem leið. Gallinn er bara sá að umrædd þingsályktunartillaga er engan veginn nógu skýr og of almenn til að raunhæft sé að ætla að hún skili þeim markmiðum sem stýrihópurinn setur fram. Þess vegna eru markmiðin í drögum að orkustefnu fyrir Ísland um að minnka mjög notkun jarðefnaeldsneytis og að hér verði stórframleiðsla á innlendum orkuberum, í reynd nánast útí bláinn. Þetta er tvímælalaust einn veikasti kafli skýrslunnar að mati Orkubloggarans. Nauðsynlegt er að fullklára kaflann og setja fram raunhæf markmið og leiðir sem eru tæknilega og fjárhagslega skynsamlegar.

Orkubloggarinn vill líka lýsa undrun sinni á því að stýrihópurinn sneiðir alveg framhjá athyglisverðum hugmyndum sem fram hafa komið um að byggja hér upp það sem kallað hefur verið íslenskur jarðhitaklasi. Hér má vísa til þeirra áherslna sem Michael Porter hefur kynnt í því skyni að efla íslenska jarðvarmageirann og byggja upp öfluga atvinnustarfsemi; að nýting og þekking Íslendinga á jarðvarma verði stór og mikilvæg atvinnu- og útflutningsgrein.
Samkvæmt erindisbréfi stýrihópsins var eitt af verkefnum hans að fjalla sérstaklega "um möguleika á að nýta orkulindirnar og sérþekkingu okkar og reynslu á sviði orkumála til atvinnuuppbyggingar á næstu árum". En af einhverjum ástæðum er hvergi minnst á jarðhitaklasann og þá vinnu sem unnin hefur verið í tengslum við hugmyndir Porter's. Þetta er svolítið sérkennilegt; það hefði verið full ástæða til að fjalla um þessa möguleika í skýrslu um orkustefnu Íslands.
Hér mætti reyndar líka nefna að þegar settur er á fót stýrihópur um orkustefnu á Íslandi hefði maður ætlað að hann myndi líka fjalla um stefnumótun gagnvart olíuleit á íslenska landgrunninu. Þarna hefði t.a.m. gjarnan mátt skilgreina hvernig eigi að standa að olíuútboðum og greina ástæður þess að fyrsta olíuútboðið sem fór fram snemma árs 2009 floppaði algerlega. Þarna hefði líka mátt koma með tillögur að leiðum sem eru líklegar til að skila betri árangri í þessu efni. Þarna mætti t.d. skoða samstarf við Norðmenn, með sína miklu reynslu.

En stýrihópurinn virðist hafa álitið að olíuleitin sé utan orkustefnu Íslands. Hér er rétt að skoða aftur erindisbréf stýrihópsins. Þar segir orðrétt að hópurinn skuli ná heildaryfirsýn yfir allar mögulegar orkulindir landsins og skoða möguleika á samvinnu við aðrar þjóðir í orkumálum. Hvergi segir berum orðum í erindisbréfinu að orkulindir sem kunni að vera á landgrunninu séu þarna undanskildar. Því hefði átt að liggja beint við að þarna væri líka mörkuð stefna gagnvart kolvetnisauðlindum - ekki satt?
En kannski er skiljanlegt að stýrihópurinn skuli hafa sleppt því að fjalla um mögulegar kolvetnisauðlindir landgrunnsins og hvernig best sé að standa að rannsóknum og leit þar. Það er vissulega sérstakt mál og snertir ekki nýtingu á hinum þekktu orkuauðlindum Íslands. Það er engu að síður alvarlegt mál hvernig olíuútboðið mistókst og svolítið einkennilegt að ekki hafi verið kallað til nýtt fólk til að stýra þeim málum.

Vert er að minna á að Orkubloggarinn var búinn að vara stjórnvöld við því að fara af stað með slíkt útboð þarna snemma árs 2009. Bloggarinn hvatti líka stjórnvöld til að huga betur að útboðsskilmálunum; þeir væru óvenjulegir og til þess fallnir að skapa lítinn áhuga. Af einhverjum ástæðum virðist sem stjórnvöldum og þ.á m. núverandi iðnaðarráðherra sé alveg sérstaklega illa við að fara að ráðum Orkubloggarans. Veit ekki af hverju.
En það þýðir ekki að vera eitthvað súr yfir því. Þvert á móti vill Orkubloggarinn hér í lokin ítreka þá skoðun sína að flest það sem kemur fram í umræddum drögum að orkustefnu fyrir Ísland er afar skynsamlegt. Iðnaðarráðherra á hrós skilið fyrir a hafa komið þessu af stað. Og vonandi boðar þetta plagg að í framtíðinni muni íslensk stjórnvöld hafa skýra sýn og stefnu í orkumálum. Þó svo ennþá sé talsvert mikil vinna eftir til að svo megi vera.
Þetta verður síðasta færsla Orkubloggsins í núverandi mynd. Ég vil þakka lesendum samferðina.