Keisarasprengjan

Nýlega rakst Orkubloggarinn á athyglisvert myndband, sem sýnir allar kjarnorkusprengingar sem hafa átt sér stað á jörðu hér. Þarna er um að ræða allar þær kjarnorkusprengjur sem sprengdar hafa verið í tilraunaskyni og auðvitað líka sprengjurnar sem varpað var á Hiroshima og Nagasaki í ágúst 1945.

Tsar_Bomb-1

Umrætt myndband er ansið áhrifaríkt. Og maður veltir fyrir sér hvort mannkynið hafi algerlega gengið af göflunum í kjarnorkukapphlaupinu. 

Til "gamans" má geta þess að stærsta kjarnorkusprengjan sem nokkru sinni hefur verið sprengd, var rússneska Keisarasprengjan (Tsar Bomba). Sprengjan sú var reyndar einungis helmingurinn af því sem til stóð. Þessi svakalega vetnissprengja átti upphaflega að vera 100 megatonn, en var á endanum höfð 50 megatonn til að forðast of mikla geislavirkni. Til samanburðar má nefna að sameiginlega voru sprengjurnar sem sprungu yfir Hiroshima og Nagasaki innan við 40 kílótonn.

Keisarasprengjan var sprengd fyrir nánast nákvæmlega hálfri öld. Það var þann 30. október 1961 að ofboðsleg eldkúlan og kjarnorkusveppurinn breiddi úr sér yfir rússnesku eyjunni Novaya Zemlaya. Það er einmitt ekki síður óhugnarlegt hversu mikið af kjarnorkutilraununum áttu sér stað hér á Norðurslóðum.

Í tilefni af stórafmæli Keisarasprengjunnar er viðeigandi að birta hér á Orkublogginu umrætt myndband af kjarnorkusprengingum hins viti borna manns. Fyrir óþolinmóða skal þess getið að myndbandið fer rólega af stað. En svo færist fjör í leikinn og allt verður hreinlega snarvitlaust. Uns þetta furðutímabil kjarnorkualdarinnar fjarar út, enda eru nú flest kjarnorkuríkin hætt að gera slíkar tilraunir:

 

 


Bloggfærslur 1. nóvember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband