11.8.2014 | 11:00
Rússland þarf hærra olíuverð
Rússneskir milljarðamæringar eru sumir vafalítið nokkuð áhyggjufullir yfir hörkunni í utanríkisstefnu Pútíns. Því þeir eru að sjá af upphæðum sem jafngilda milljörðum USD.
Meðan hlutabréfavísitölur á Vesturlöndum hafa víða verið í uppsveiflu hefur allt verið pikkfast og jafnvel á niðurleið á hlutabréfamarkaðnum í Moskvu. Mjög hefur þrengt að aðgangi fjölmargra rússneskra fyrirtækja að vestrænu lánsfjármagni og erlendir fjárfestar hafa margir byrjað að færa fé sitt burt frá Rússlandi. Þetta hefur keðjuverkun; rúblan fellur, verðbólga eykst og kaupmáttur almennings minnkar.
Það virðist lítill áhugi á rússneskum hlutabréfum þessa dagana. Þegar t.d. miðað er við V/H hlutfall (P/E ratio) sést að rússnesk hlutabréf eru miklu lægra verðlögð en gengur og gerist í nýmarkaðslöndunum. Í Rússlandi er þetta hlutfall í dag svipað eins og á hlutabréfum í Argentínu og Íran. Og lægra en í Zimbabwe. Þetta er væntanlega til marks um hversu lítið traust erlendir fjárfestar hafa almennt á Rússlandi.
En það er víðar sem kreppir að Rússum. Það er nefnilega svo að olíuverð er ekki lengur nógu hátt fyrir Rússa til að halda viðskiptajöfnuðinum við útlönd réttu megin við strikið. Nú stefnir allt í að eftir nokkuð langt tímabil þar sem viðskiptajöfnuðurinn hefur verið Rússum hagstæður, sé að byrja að síga þar á ógæfuhliðina.
Vinsældir Pútín's heima fyrir má vafalítið að verulegu leiti rekja til þess að eftir valdatöku hans um aldamótin rauk olíuverð upp (fyrst og fremst vegna efnahagsuppgangsins í Kína). Þetta skapaði Rússlandi geysilegar útflutningstekjur og peningar streymdu í ríkiskassann frá orkugeiranum. Það gerði Pútín kleift að stæra sig af bættum kjörum almennings, meiri stöðugleika innanlands og að Rússland öðlaðist á ný sterka ásýnd út á við.
Nú er aftur á móti svo komið að orkugróði Rússlands stendur ekki lengur undir því að halda viðskiptajöfnuði landsins jákvæðum. Ef ekki kemur til umtalsverðra hækkana á olíuverði stefnir í að Rússland sigli nú inn í ólgusjó neikvæðs viðskiptajöfnuður.
Í þessu sambandi er vert að rifja upp það sem gerðist á olíumörkuðum á 9. áratugnum. Eftir að olíuverð rauk upp úr öllu valdi um 1980 (í tengslum við klerkabyltinguna í Íran) tók verðið brátt að síga aftur niður á við. Og svo fór að allan níunda áratuginn var olíuverð afar lágt - meira að segja lægra en hafði verið eftir olíukreppuna 1973. Þær lækkanir mátti einkum rekja til mikils olíuframboðs frá Saudi Arabíu og öðrum ríkjum OPEC, auk þess sem olía streymdi nú frá bæði Norðursjó og Alaska.
Afleiðing þessa lága olíuverðs var m.a. mikill tekjumissir fyrir Sovétríkin þáverandi og tilheyrandi skortur þar á erlendum gjaldeyri. Það ástand veikti efnahag landsins tvímælalaust. Og allt í einu hrundi stjórnkerfi Sovétríkjanna; eftir misheppnaða hallarbyltingu í Kreml missti kommúnistaflokkurinn völdin, Sovétríkin liðuðust í sundur og staða Rússlands sem stórveldi veiktist mjög.
Samskonar atburðir gætu gerst aftur núna - sérstaklega ef olíuverð myndi lækka umtalsvert. Orka er lang mikilvægasta útflutningsafurð Rússlands. Samkvæmt upplýsingum frá bandaríska orkumálaráðuneytinu kemur meira en 70% allra útflutningstekna Rússland frá kolvetnissölu. Þar eru olía og olíuafurðir mikilvægastar og þar á eftir kemur jarðgasið.
Til að olíuverð lækki verulega þyrftu Bandaríkin og Evrópa að beita sér mjög ákveðið gagnvart mikilvægum framleiðendum, þ.e. fá þá til að auka olíuframleiðslu sína. Þarna er í reynd bara einn valkostur. Saudi Arabía er nefnilega eina land veraldarinnar sem hefur raunverulega getu til að auka framleiðsluna nokkuð hratt. Til að olíuverð lækki nokkuð snöggt þyrfti því að sannfæra Sádana um að auka framleiðslu sína.
Stóra spurningin er hvort Sádarnir myndu fallast á slíkar aðgerðir. Saudi Arabía hefur svo til engar aðrar útflutningstekjur en olíu og jarðgas. Ef olíutekjur landsins lækka eitthvað að ráði frá því sem nú er, lenda Sádarnir samstundis í að þurfa að auka ríkisskuldir sínar til að geta mætt útgjöldunum heima fyrir. Og valdhafarnir þar vilja að sjálfsögðu forðast að skapa óróa meðal almennings, sem gæti ógnað einveldin. Á móti kemur að aukin olíuframleiðsla myndi skila nýjum tekjum og þannig bæta upp tekjumissi vegna lægra olíuverðs. En Sádarnir virðast afar sáttir við núverandi markaðsástand og því virðist hæpið að þeir kæri sig um að rugga bátnum.
Það er sem sagt svo að núverandi olíuverð er vart nógu hátt til að losa Rússland undan viðskiptahalla. Það skapar Pútin nokkurn vanda - en þó varla nógu mikinn vanda til að hann snúi snögglega af agressívri utanríkisstefnu sinn. Og það virðist fremur ólíklegt að olíuverð lækki svo mikið að efnahagsstöðugleika Rússlands verði ógnað í bráð.
Bæði Bandaríkin og Evrópuríki hafa nú þegar gripið til ýmissa viðskiptaþvingana til að láta Pútín finna fyrir sér. Svo sem með því að þrengja að möguleikum rússneskra ríkisorkufyrirtækja, eins og Gazprom og Rosneft, til að fjármagn sig erlendis. Í því ljósi er nokkuð sérstakt að nú í vikunni sem leið fagnaði bandaríski olíurisinn ExxonMobil því með bæði Rosneft og Pútín að sameiginlegar olíuboranir þessara tveggja stærstu olíufélaga heimsins (á hlutabréfamarkaði) eru að byrja norður á heimskautasvæðunum í Karahafi!
Þessi stórauknu umsvif ExxonMobil í Rússlandi eru í litlu samræmi við núverandi stefnu bandarískra stjórnvalda um viðskiptaþvinganir gagnvart Rússlandi. Vissulega eru boranirnar í Karahafi einfaldlega afleiðing af eldra samkomulag fyrirtækisins við Rosneft og rússnesk stjórnvöld. En það er merkilegt og nokkuð sérkennilegt ef viðskiptaþvinganir Bandaríkjastjórnar hafa engin merkjanleg áhrif á þetta samstarf Rosneft og ExxonMobil. Það hlýtur a.m.k. að vera óánægja í Washington DC með þessar nýjustu fréttir frá Karahafi.