7.8.2014 | 12:21
Framtíðin rennur upp - fyrr eða síðar
Fólk hefur mismunandi skoðanir um ágæti þess að Ísland tengist Evrópu með rafmagnskapli. Þegar til framtíðar er litið verður að teljast líklegt að slík tenging muni líta dagsins ljos. Rétt eins og símakaplar og síðar ljósleiðarar hafa tengt lönd þvert yfir heimshöfin er sennilega bara tímaspursmál hvenær fyrsti rafmagnskapallinn verður lagður yfir Atlantshaf.

Áður en til þess kemur að rafmagnskapall verði lagður beint milli Norður-Ameríku og Evrópu er sennilegt að fyrst verði slíkir kaplar lagðir til Grænlands og Íslands. Þessi tvö lönd gætu jafnvel orðið lykilpunktar í rafmagnstengingu Norður-Ameríku og Evrópu.
Tækniþróun sem felur í sér sífellt lengri tengingar er af margvíslegu tagi. Hér að framan var minnst á símakapla og ljósleiðara. Í dag liggur nánast net af slíkum tengingum eftir botni heimshafanna. Enda er það svo að þegar tækni og hagkvæmni fara saman verður þróunin jafnan nokkuð hröð.
Fyrsta flugið milli Ameríku og Evrópu átti sér stað árið góða 1927. Um það leiti hafði varla nokkur maður látið hvarfla að sér að flugsamgöngur yrðu senn að veruleika yfir Atlantshafið. Einungis fáeinum árum síðar var áætlunarflug yfir úthöfin orðið daglegur viðburður. Samskonar þróun - þó vissulega nokkuð hægari -hefur átt sér stað í samgöngutengingum sem felast í neðansjávargöngum. Árið 1994 opnuðu lestargöng undir Ermarsund og skömmu áður voru opnuð göng milli japönsku eyjanna Honshu og Hokkaido. Og nefna má að stærsta neðansjávarframkvæmdin sem nú er alvarlega til skoðunar eru sennilega risagöngin sem fyrirhuguð eru undir Bohaisund í Kína. Þannig þróast bæði samgöngur og fjarskipti sífellt í átt að lengri tengingum - og þar er hafið ekki óyfirstíganleg hindrun.
Þróun af þessu tagi er líka að verða í raforkuflutningum. Rafmagnskaplar sem liggja langar leiðir neðansjávar hafa smám saman verið að lengjast og fara um æ meira dýpi. Lengsti kapallinn af þessu tagi í dag er NorNed-kapallinn, sem liggur milli Noregs og Hollands. Hann er um 580 km. Næsta met verður að öllum líkindum kapall milli Noregs og Bretlands, en hann verður rúmlega 700 km.
Svona háspennukaplar á landi (sem líkt og umræddir neðansjávarstrengir byggja á jafnstraumstækni; HVDC) eru einnig að verða sífellt lengri. Þeir lengstu í dag eru á bilinu 2.000-2.400 km, en þeir kaplar flytja raforku til þéttbýlissvæða í Kína og Brasilíu.
Rafmagnskaplar af þessu tagi sem liggja eftir hafsbotni eru ekki aðeins að verða lengri; þeir eru einnig lagðir um sífellt meira hafdýpi. Dýpstu HVDC neðansjávarkaplarnir í dag liggja á dýpi sem er á bilinu 1.500-1.700 m. Kapall milli Íslands og Evrópu færi dýpst um u.þ.b. 1.000 m dýpi og lengdin yrði sennilega nálægt 1.100-1.200 km. Dýpið er því miklu minna en það sem er þegar orðið viðráðanlegt. En lengdin yrði aftur á móti talsvert mikið skref frá því sem nú þekkist hjá neðansjávarköplum af þessu tagi. Slíkur strengur milli Íslands og Bretlandseyja er samt að öllum líkindum orðinn raunverulegur möguleiki - bæði út frá tæknilegum og fjárhagslegum forsendum. Og sá tímapunktur nálgast að svona kapall tengist ekki bara Íslandi, heldur einnig Grænlandi. Enda er orðið æ algengara að sjá t.d. greinar í erlendum fræðitímaritum þar sem athyglinni er beint að mögulegum rafstrengjum frá bæði Íslandi og Grænlandi.

Í erlendum skrifum fræðimanna er hagkvæmni tengingar af þessu tagi furðu oft fyrst og fremst tengd möguleikum á uppbyggingu vindorkuvera á bæði Íslandi og Grænlandi. Það eru vissulega vísbendingar um að nýtni vindorkuvera á Norðurslóðum kunni að vera það há að slík orkuvinnsla geti verið hagkvæm - jafnvel þó svo mikill flutningskostnaður bætist við vegna langra neðansjávartenginga. Það er þó augljóst að miklu meiri hagkvæmni er í því að nýta vatnsaflið á þessum svæðum - því vatnsorkan er miklu áreiðanlegri og stýranlegri en vindorkan.
Möguleikinn á að nýta vatnsaflið hér sem stýranlega orku og þannig hámarka arðsemi orkuvinnslunnar er afar áhugaverður. Sama sjónarmið á vafalítið líka við um grænlenskt vatnsafl. Álitið er að fræðilegt vatnsafl sem fellur frá Grænlandsjökli og hálendi Grænlands sé sem nemur um 800 TWst árlega. Þó svo einungis á bilinu ca. 1-2% af því væri nýtt í virkjunum myndi það marka þáttaskil fyrir Grænlendinga. Það orkumagn mætti flytja út um 2-4 háspennustrengi af því tagi sem nú þekkjast. Þar yrði þó vafalítið byrjað á að virkja fyrir einn streng; þar mætti hugsa sér virkjanir með um 700-1.000 MW afl, sem myndu framleiða um 4-6 TWst árlega. Það er reyndar búið að staðsetja nokkra mjög góða kosti á Grænlandi fyrir orkuframleiðslu af þessari stærð. Þannig að kannski má segja að grunnurinn að útflutningi raforku frá Grænlandi sé í reynd nú þegar fyrir hendi.

Það kynni að vera einfaldast fyrir Grænlendinga að fá svona tengingu yfir til Kanada. Þar er nefnilega fyrirhugað að reisa nýjar öflugar háspennulínur, sem eiga að flytja raforku frá virkjunum í Labrador. Sú orka fer að hluta til til Nýfundnalands, en hluti hennar verður seldur til þéttbýlissvæðanna nokkru sunnar. Það verkefni er á góðu skriði.
Vel má hugsa sér að fyrsta skref Grænlands yrði sæstrengur yfir til Nýfundnalands. Vegna hærra raforkuverðs í Evrópu væri rafmagnskapall þangað austur á bóginn að vísu sérstaklega áhugaverður fyrir Grænland. Áætlanir um slíkt verða þó sennilega fjarri huga flestra meðan ekki er kominn strengur milli Íslands og Evrópu. En hvað sem tengingum við Grænland líður, þá er sannarlega orðið tímabært að Íslendingar fari að huga betur að umræddum möguleikum.