Tekist á um olíu Skotlands

Nú eftir helgina munu Skotar ganga að kjörborðinu þar sem þeir segja álit sitt á því hvort Skotland skuli verða sjálfstætt ríki. Eitt af því sem eflaust mun ráða afstöðu margra kjósenda eru yfirráðin yfir olíu- og gaslindunum á skoska landgrunninu.

UK-Oil-Facts-and-Predictions-2014

Samkvæmt upplýsingaskrifstofu bandaríska orkumálaráðuneytisins (EIA) eru sannreyndar olíubirgðir innan lögsögu Bretlands um 3 milljarðar tunna (proven reserves). Ekki liggja fyrir hárnákvæmar upplýsingar um hversu stór hluti þessara birgða eru innan landgrunnsins sem myndi tilheyra sjálfstæðu Skotlandi. Þó er vitað að hlutfallið þarna er hátt; sennilega yfir 80% eða jafnvel nær 90%. Samkvæmt því má áætla að sannreyndar olíubirgðir í skosku lögsögunni séu nálægt 2,5 milljarðar tunna eða rúmlega það. 

Sambærileg tala um olíubirgðir á landgrunni Noregs er 5,8 milljarðar tunna. Skotland kynni því að ráða yfir olíumagni sem nemur næstum helmingi þeirrar olíu sem Norðmenn eiga ósótta. Þar með yrðu Skotar mikilvæg olíuþjóð og gætu vænst geysilegra tekna af olíuvinnslunni. 

Norway-Oil-Fund-Sept-12-2014

Norðmenn búa aftur á móti yfir margfalt meira af jarðgasi en Skotar. Tölurnar um sannreyndar birgðir hljóða þannig að í norska landgrunninu séu sannreyndar birgðir af gasi 74 þúsund milljarðar teningsfeta, en í breska landgrunninu séu birgðirnar tæplega 9 þúsund milljarðar teningsfeta. Ef tekið er tillit til olíu og jarðgass sem talið er unnt að vinna úr þunnum gaslögum í jörðu í Bretlandi (s.k. shale gas og tight oil) hækka bresku tölurnar nokkuð en þó ekki hlutfallslega mikið. Þar er ekki um að ræða sannreyndar birgðir enn sem komið er. Að auki er álitið að mest af þeirri olíu og því gasi sé í enskri jörðu, en ekki skoskri. Verði af þessari vinnslu mun það því ekki skila Skotum umtalsverðum tekjum. Fyrir Skota skiptir því mestu hvað finna má undir landgrunninu.

UK-Oil-Revenues-History-and-Possibilities-2014

Í Skotlandi horfa margir öfundaraugum til norska olíusjóðsins. En sjá hann líka sem fyrirmynd. Margir Skotar álíta tækifæri til að Skotland geti með sambærilegum hætti orðið eitt ríkasta land heims - eða a.m.k. mjög vel stætt (Skotar eru vel að merkja nánast nákvæmlega jafn margir eins og Norðmenn). Fólk sér möguleikann á því að allar skatttekjur af olíuvinnslunni í skoskri lögsögu renni beint til Skotlands og að Skotar geti þannig lagt háar fjárhæðir í sérstakan olíusjóð líkt og Norðmenn hafa gert og gera.

Hugsanlega er miklu meiri olía í skoska landgrunninu en sú tala sem nefnd var hér að ofan. Fyrir liggur það álit samtaka breska olíu- og gasiðnaðarins að enn megi finna á bilinu 15-24 milljarða tunna af olíu á breska landgrunninu. Og langstærstur hluti af þessari olíu á vel að merkja að vera í þeim hluta lögsögunnar sem myndi tilheyra Skotlandi. Þegar menn margfalda þetta magn með því verði sem er á olíutunnu í dag er auðvelt að fá stjörnur í augun.

UK-Oil-Production-and-Value_1970-2013

Það er reyndar svo að olíuvinnsla í bresku lögsögunni hefur verið á hraðri niðurleið undanfarin ár. En haldist olíuverð hátt eru þarna samt sem áður ennþá mikil verðmæti ósótt. Óumdeilt er að tekjur hins opinbera af vinnslunni innan skoskrar lögsögu næstu árin munu nema tugum milljarða punda.

Fyrir marga Skota hlýtur stóra spurningin að vera hvort skatttekjurnar og mögulegur auðlindaarður af þeirri vinnslu eigi að renna í breska ríkiskassann eða beint til Skotlands. Samkvæmt núverandi kerfi renna þær tekjur til Bretlands - en með sjálfstæðu Skotlandi myndu skosk stjórnvöld fá til sín allar þær tekjur og valdið til að ráðstafa þeim. 

Fjörutíu ára olíuvinnsla á breska landgrunninu hefur skilað um 40 milljörðum tunna á land. Meðan Norðmenn hafa byggt upp einhvern sterkasta fjárfestingasjóð heims (og einungis dælt upp rúmlega 20 milljörðum tunna) hafa bresku olíutekjurnar að mestu sáldrast í útgjöldum ríkissjóðs. Þetta svíður mörgum Skotum - ekki síst vegna þess að mestöll þessi breska olía hefur komið úr landgrunni Skotlands. Afstaðan til sjálfstæðis Skotlands ræðst að sjálfsögðu af ótalmörgum öðrum atriðum en olíunni. En einhverjir Skotar munu sjálfsagt láta afstöðu sína til olíuvinnslunnar ráða því hvernig skal kjósa.  


Bloggfærslur 12. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband