22.9.2014 | 12:56
Endar allur rússneski olíuiðnaðurinn í höndum Rosneft?
Enn á ný berast fréttir frá Rússlandi um aðgerðir gegn eigendum stærstu einkareknu olíufyrirtækjanna þar í landi. Nú var það Vladimir Yevtushenkov, aðaleigandi olíufélagsins Bashneft, sem var handtekinn í síðustu viku og ákærður fyrir peningaþvætti. Sterkur orðrómur er uppi um að forstjóri rússneska olíurisans Rosneft og einn nánasti bandamaður Vladimir's Putín, Igor Sechin, sé heilinn að baki aðgerðunum gegn Yevtushenkov.
Bashneft er feitur biti
Bashneft er eitt af stóru olíufélögunum í Rússlandi og þar að auki ett af þeim allra arðbærustu. Yevtushenkov varð ráðandi hluthafi í Bashneft eftir að fjárfestingasamsteypan hans Sistema varð smám saman aðaleigandinn í Bashneft eftir einkavæðingu á olíulindum í Bashkortostan-héraði í nágrenni Úralfjalla upp úr 2003. Í fyrstu runnu þessar eignir inn í héraðsolíufélagð Bashneft, sem þótti fádæma illa rekið. Árin 2005-2009 eignaðist Sistema meirihlutann í Bashneft og upp úr því fóru hlutirnir brátt að ganga betur hjá Bashneft.

Síðustu árin hefur olíuframleiðsla Bashneft aukist hratt. Á sama tíma hefur ríkisolíurisinn Rosneft lent í margskonar vandræðum með tilheyrandi lækkunum a hlutabréfaverði, m.a. á markaðnum í London. Á liðnu ári (2013) kom fram áhugi hjá Rosneft að eignast Bashneft. En Yevtushenkov var lítt hrifinn og sagt er að Pútín hafi í það sinn talað gegn þessum áformum Rosneft og Igor's Sechin. Aðgerðirnar gegn Bashneft núna gætu bent til þess að afstaða Pútín's kunni að hafa breyst og að hann álíti nú æskilegt að Rosneft eignist Bashneft.
Risasamsteypan Sistema
Yevtushenkov hefur verið afar áberandi í rússnesku viðskiptalífi. Umsvif fjárfestingafélagsins Sistema eru gríðarleg. Auk meirihlutans í Bashneft stýrir Sistema m.a. stærsta farsímafyrirtækinu í Rússlandi (þekkt sem MTS hér í Vestrinu). Fyrir vikið er Yevtushenkov nú meðal auðugustu manna í Rússlandi með veraldlegan auð sem talinn er nema allt að níu milljörðum USD.
Aðgerðunum gegn Vladimir Yevtushenkov núna hefur verið líkt við handtökuna á Michail Khodorkovsky, aðaleiganda olíurisans Yukos, fyrir um áratug síðan. Stóri munurinn er þó sá að Yevtushenkov hefur ekki sýnt rússneskum stjórnvöldum neinn sérstakan yfirgang og var þar til fyrir skemmstu álitinn í nokkuð góðu sambandi við Kreml. Að auki er Bashneft ekki jafn svakalega umsvifamikið félag eins og Yukos var.
En Bashneft hefur verið að skila afar góðum árangri og greiða háan arð til hluthafa sinna. Og nú þegar óveðursskýin virðast vera að hrannast yfir Rosneft er kannski ekki skrýtið ef Igor Sechin, forstjóri Rosneft, lítur Bashneft hýru auga.
Vandræði Rosneft
Rosneft hefur þanist mikið út á síðustu árum - og skuldir fyrirtækisins þar með. Gagnrýnt hefur verið að hraður vöxtur Rosneft sé ekki að gera fyrirtækið arðbærara. Og að framleiðsla fyrirtækisins sé að staðna - þvert á það sem verið hefur hjá Bashneft.
Með yfirtöku á helstu eignum olíurisans Yukos varð Rosneft stærsta olíufyrirtækið í Rússlandi - og þar með eitt hið stærsta í heiminum öllum. Vegna meirihlutaeigu rússneska ríkisins í Rosneft varð rússneska ríkið þar með á ný í aðalhlutverki í rússneska olíuiðnaðinum. Þessi þróun hélt áfram þegar Rosneft eignaðist rússneska olíufyrirtækið TNK-BP á síðasta ári (2013).
Sennilega var helsti tilgangurinn með kaupum Rosneft á TNK-BP að rússneska ríkið næði á ný að ráða yfir meira en helmingi olíuvinnslu í landinu. En jafnvel ennþá frekar var tilgangurinn sá að geta nýtt digra sjóði TNK-BP til að tryggja hluthöfum Rosneft góðar arðgreiðslur. Þó svo Rosneft sé að meirihluta í eigu rússneska ríkisins, þá er félagið skráð á hlutabréfamarkaði (m.a. í London). Fyrirtækið er háð góðu gengi þar og þarf að geta fjármagnað sig með hagkvæmum og snurðulausum hætti á alþjóðlegum bankamörkuðum. Það er mikilvægt fyrir Rosneft að geta greitt hluthöfum viðunandi arð, því annars er hætt við að áhugi ýmissa vestrænna stofnanafjárfesta dvíni fljótt - og hlutabréfaverð í Rosneft lækki enn meira en orðið er.
Nú segja sumir að aðgerðirnar gegn Vladimir Yevtushenkov séu leikur í fléttu þar sem eignir hans í Bashneft verði gerðar upptækar vegna auðgunarbrota hans - og fyrir einskæra tilviljun muni Rosneft fá að kaupa þær eignir. Og það á afar hagstæðu verði. Slíkar kenningar kunna að vera tóm vitleysa, en eru ansið áberandi. Og það er jú svo að þær viðskiptaþvinganir sem Vesturlönd hafa komið á gagnvart rússneskum fyrirtækjum með tengsl við rússneska ríkið (vegna Úkraínudeilunnar) eru farnar að bitna verulega á Rosneft. Fyrirtækinu veitir því ekki af að gera góðan díl.
Endurómurinn frá Yukos
Erfiðleikar við endurfjármögnun á tugmilljarða lánum Rosneft eru yfirvofandi. Þar að auki eru arðgreiðslur frá Rosneft og skattar frá fyrirtækinu geysilega mikilvægir fyrir tekjustreymi rússneska ríkisins. Það er því varla að undra að aðgerðirnar gegn Bashneft núna veki grunsemdir um að þarna sé leikflétta í framkvæmd í þvi skyni að hygla Rosneft.
Hvort slíkar grunsemdir eiga við rök að styðjast mun væntanlega skýrast á næstu mánuðum og misserum. En óneitanlega minnir málið talsvert á það hvernig fór fyrir Yukos. Það er ekki bara að rétt eins og Yukos var, er Bashneft vel rekið og ábatasamt olíufélag. Undanfarið hefur verið í undirbúningi að skrá Bashneft á hlutabréfamarkað í London og þannig auka aðkomu útlendinga að rússneska olíuiðnaðinum. Í þessu sambandi minnast menn þess, að um það leiti sem Yukos var yfirtekið af rússneskum yfirvöldum stóð til að selja stóran hlut í félaginu til ExxonMobil. Endurómurinn frá Yukosmálinu er því ansið hávær.