Tífalt hærra verð?

Hátæknifyrirtækið ABB segir að tæknilega sé unnt að leggja rafstreng milli Íslands og Evrópu. Bresk stjórnvöld greiða nýjum vindorkuverum utan við bresku ströndina um og yfir 180 USD/MWst. Í því skyni að fá aðgang að meiri raforku og um leið til að auka hlutfall grænnar raforku. Gallinn er bara sá að vindurinn blæs ekki alltaf við eða á Bretlandi. Sem dæmi má nefna, þá var nýting breskra vindorkuvera að morgni 4. október s.l. nánast engin eða vel innan við 1%.

UK-Wind_Sept-Oct-2015Þennan morgun framleiddu bresk vindorkuver, með samtals afl upp á rúmlega 9.000 MW, raforku sem samsvarar einungis um 66 MW aflstöð. Það var sem sagt dauðalogn um svo til allt Bretland og meira að segja utan við ströndina (viðmiðunin 9.000 MW er uppfærð tala miðuð við skilgreiningar Clive Best, en í reynd er afl breskra vindrafstöðva ennþá meira eða rúmlega 13.000 MW) .

UK-Wind-OffshoreRisavaxin fjárfesting í breskri vindorku er því að skila afar óáreiðanlegri orkuframleiðslu. Þess vegna yrði það kærkomið fyrir Breta að eiga aðgang að sæstreng - sem gæti skilað þeim þó ekki væri nema nokkur hundruð MW.

Íslensk raforka er sem sagt miklu betri kostur en bresk vindorka - bæði ódýrari og áreiðanlegri kostur. Þess vegna er líklegt að bresk stjórnvöld kunni að vera tilbúin að kosta miklu til fyrir sæstreng og kaup á íslenskri raforku.

Slík viðskipti gætu skapað okkur Íslendingum einstakt tækifæri til stóraukinnar arðsemi af raforkuframleiðslunni hér. Vegna þess að sterk rök eru fyrir því að íslenska raforkan yrði verðlögð á bilinu 80-120 USD/MWst. Tregða íslenskra stjórnvalda til að ræða þessi mál við bresk stjórnvöld er afar sérkennileg. En kannski gefst tækifæri til að taka skref í átt að slíkum viðræðum, þegar forsætisráðherra Bretlands kemur til Íslands nú í vikunni? Það hlýtur a.m.k. að vera áhugavert fyrir íslensk stjórnvöld að kanna nánar áhuga Breta á því að kaupa héðan raforku - á verði sem gæti verið u.þ.b. tíu sinnum hærra en t.d. Century Aluminum (Norðurál) og Alcoa (Fjarðaál) eru að greiða.


Bloggfærslur 26. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband