Flottur Fabius

Eðlilega veltir fólk nú vöngum um hið ný samþykkta Parísarsamkomulag og hvaða áhrif það mun hafa í baráttunni við kolefnislosun. Almennt virðist samkomulaginu fagnað og jafnvel sagt marka mikilvæg tímamót fyrir mannkynið. En svo eru þeir sem benda á að ennþá sé allsendis óvíst að samkomulagið skili almennilegum árangri. Og að það sé jafnvel marklaust plagg vegna þess að þar séu innantóm loforð án alvöru skuldbindinga.

Fabius-FCCC-COP21-Paris-2015En hvernig svo sem fer, er mikilvægt að hafa í huga að án Parísarsamkomulagsins væri vonin um að ná að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda ennþá fjarlægari en hún er. Í þessu ljósi er samkomulagið sem náðist í París mikilvæg forsenda þess að skapa raunverulegan grundvöll að losunartakmörkun.

Og það hlýtur að mega teljast afrek að hafa náð þessu samkomulagi. Þ.e. að hafa náð því að fá allan þennan stóra hóp ríkja til að fagna og klappa einum rómi fyrir samkomulagi um að ríki heims séu sammála um að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að styrkur gróðurhúslofttegunda hætti að aukast og komist í jafnvægi.

Nú streyma fram tilnefningar um það hver þarna á mesta hrósið skilið. Margir benda á Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, enda hefur hann verið ötull talsmaður þess að heimurinn grípi til aðgerða gegn neikvæðum loftslagsbreytingum. Aðrir álíta að lykillin að því að ná samkomulaginu í Paris liggi í snilli frönsku utanríkisþjónustunnar. Þar sem utanríkisráðherrann Laurent Fabius var í aðalhlutverki, en hann var í forsæti ráðstefnunnar. 

Það var því Fabius sem bar mesta ábyrgð á því að ná að sætta ólík sjónarmið og koma með tillögur sem leitt gætu til raunverulegs og þokkalega hnitmiðaðs samkomulaga. Og kannski er nokkuð til í því að enginn hefði getað gert þetta betur en súperdiplómatinn Fabius, sem þar að auki er þaulreyndur stjórnmálamaður.

Laurent-Fabius-FranceÞað er alkunna að svo til öll utanríkisþjónustan franska er beinlínis sérmenntuð í diplómasíu og það frá unga aldri. Fólk sem ætlar sér að starfa í frönsku utanríkisþjónustunni verður nánast skilyrðislaust að hafa menntað sig í tilteknum háskólum, sem sérhæfa sig í að undirbúa fólk til starfa í utanríkisþjónustunni og stjórnkerfinu franska, og ekki aldeilis hlaupið að því að komast þar að. Þarna ræðst því inn mikið af afburðarfólki með mikla greind, sem öðlast geysilega góðan skilning á utanríkismálum.

Skólarnir sem þarna eru í fararbroddi eru tvímælalaust Institut d'études politiques de Paris (venjulega einfaldlega kallaður Sciences Po) og École nationale d'administration (ENA). En Laurent Fabius er einmitt með háskólagráður frá báðum þessum eðalskólum.

Til gamans má líka nefna að Fabius er sá yngsti sem nokkru sinni hefur verið forsætisráðherra í Frakklandi. Í því embætti var hann árin 1984-86 og var einungis 37 ára þegar Mitterand forseti tilnefndi hann sem forsætisráðherra. Svo er líka skemmtilegt að á Parísarráðstefnunni mun Fabius hafa beint sérstakri samningatækni, sem kölluð er Indaba og mun lengi hafa verið tíðkuð hjá ættflokkum í Suður-Afríku. Þar sem miðað er að því að ná víðtækri samstöðu um málefni. Það væri kannski ráð að íslenskir stjórnmálamenn velti þeim möguleika fyrir sér að taka upp slík vinnubrögð - í stað þess að rífast líkt og hundar og kettir í ræðustól Alþingis alla aðventuna.


Bloggfærslur 14. desember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband