Efnahagslægð verulegur þáttur i lækkun olíuverðs

Screen shot 2015-03-13 at 9.57.59 PMOlíuverð lækkaði mikið og snögglega á síðari hluta ársins 2014.

Margir hafa lagst í að greina ástæður og orsakir þessarar verðlækkunar. Þá er m.a. reynt að leggja mat á það hversu mikinn hluta verðlækkunarinnar sé að rekja til deyfðar í efnahagslífi heimsins og hversu mikið af verðlækkuninni hefur komið til vegna mikillar og nokkuð óvæntrar aukningar í olíuframleiðslu (einkum í Bandaríkjunum).

Það hvor ástæðan var veigameiri getur skipt verulegu máli. Ef framboðsþátturinn var ráðandi (jákvæður framboðsskellur eða positive supply shock) má gera ráð fyrir því að olíuverðlækkunin gefi gott tækifæri til aukins hagvaxtar víða um heim. Ef aftur á móti útbreidd deyfð og vandræði í efnahagslífi heimsins áttu stóran þátt í lækkuninni (neikvæður eftirspurnarskellur eða negative demand shock) er hætt við að hagvöxtur láti á sér standa.

Oil-Price-drop-positive-supply-shock-and-negative-demand-shock_Danske-bank_Dec-2014

Þegar lagt er mat á ástæður olíuverðlækkunarinnar er m.a. litið til þróunar olíuframboðs annars vegar og olíueftirspurnar hins vegar. Danske bank birti nýverið sína sýn á þetta álitamál. Þar kemur fram að báðir þættirnir hafi haft mikil áhrif til lækkunar olíuverðs (sbr. gröfin hér til hliðar).

Sama er uppi á teningnum í nýrri skýrslu þeirra Christiane Baumeister hjá Kanadabanka og Lutz Kilian hjá Michiganháskóla, en skýrslan sú hefur að geyma eina ítarlegustu greininguna fram til þessa um olíuverðlækkunina 2014. Þau Kilian og Baumeister álíta að rekja megi um 49% verðlækkunarinnar til eftirspurnaráhrifanna (samdráttur í efnahagslífinu) og um 51% áhrifanna sé vegna aukins olíuframboðs. 

Samkvæmt ofangreindu eru því bæði eftirspurnarþættir og framboðsþættir mjög fyrirferðarmiklir orsakaþættir olíuverðlækkunarinnar nú. Þetta kemur ekki á óvart. Snaraukið framboð vegna aukinnar olíuvinnslu í Bandaríkjunum er vel þekkt staðreynd. Og eftirspurnarþátturinn hefur líka verið að leika stórt hlutverk - en þar var um neikvæða þróun að ræða bæði á fyrsta og öðrum ársfjórðungi liðins árs. Sbr. grafið hér að neðan (sem er byggt á nýlegum upplýsingum frá Alþjóða orkustofnuninni; IEA).

Oil-World-Demand-IEA_2013-2015

Það eru sem sagt sterkar vísbendingar um að bæði aukning á olíuframboði og stöðnun eða jafnvel samdráttur í eftirspurn hafi verið mikilvægir og jafnvel ámóta stórir áhrifavaldar verðlækkunar á olíu á síðari hluta ársins 2014. Það er líka athyglisvert að IEA álítur að fyrstu tveir ársfjórðungar 2015 muni líklega einkennast af samdrætti í olíueftirspurn - og það þrátt fyrir hina gríðarlegu verðlækkun sem orðið hefur á olíu síðustu misserin. Þetta ber vott um að IEA telji veruleg vandræði uppi í efnahagslífi heimsins.

Í þessu ljósi kemur á óvart hversu Landsbankinn var viss í sinni sök þegar hann kynnti það nýverið að olíuverðlækkunin sé fyrst og fremst til komin vegna aukins olíuframboðs (þ.e. að um hreinan jákvæðan framboðsskell hafi verið að ræða). Það virðist þvert á móti vera staðreynd að neikvæður eftirspurnarskellur lék stórt hlutverk á fyrri hluta ársins 2014. Þess vegna sætir umrædd ályktun Landsbankans nokkurri furðu.

Vissulega hefði dýfan í olíuverði ekki orðið svona snörp og djúp eins og raunin varð ef ekki hefði líka verið mikil aukning í olíuframleiðslu í Bandaríkjunum. En það mikla framboð vestra er sem sagt alls ekki eina ástæða verðlækkunarinnar - og jafnvel ekkert meiri ástæða en eftirspurnarþátturinn. Þessi forvitnilegu álitamál verða ekki frekar útlistuð hér, en þau eru útskýrð nánar í þessari grein á viðskiptavef Morgunblaðsins.


Bloggfærslur 16. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband