VB spyr: Mun rigna gulli?

Vert að vekja athygli á grein Óðins á vef Viðskiptablaðsins i dag, sem ber titilinn Mun rigna gulli? Þar segir m.a. eftirfarandi (leturbreyting er Orkubloggsins):

Það er [...] áhyggjuefni frá sjónarhóli eigandans hve slök arðsemi eigin fjár Landsvirkjunar hefur verið á síðustu árum. [...] Markaðsverð fyrirtækisins er án efa mun hærra en bókfært verð og er Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, líklega ekki fjarri lagi þegar hann nefnir 500 milljarða. Ávöxtun ríkissjóðs af eigninni er óásættanleg miðað við þá áhættu sem felst í rekstrinum. Sitt sýnist hverjum um hver ávöxtunarkrafan skuli vera en Óðinn telur hana ekki vera undir 8%. Það þýðir að ríkissjóður þyrfti að fá 40 milljarða í arð á ári til að standa undir verðmiðanum sem Ragnar nefnir.

VB-grein-um raforku-Mai-11-2015Óðinn er mótfallinn því að ríkissjóður standi í áhætturekstri eins og Landsvirkjun. Hins vegar kann að vera ástæða til að hinkra með að selja fyrirtækið í hluta eða heild af tveimur ástæðum. Sú fyrri er sú ef spár stjórnenda Landsvirkjunar eru trúverðugar um að raforkuverð hækki, og þar með arðsemin, er ef til vill rétt að bíða. [...] Hækkun að meðaltali um 1 dal skilar Landsvirkjun 1,7 milljörðum í hagnað fyrir tekjuskatt. Óðinn er trúaður á spár stjórnenda Landsvirkjunar. Aukin eftirspurn gæti hækkað tekjur félagsins verulega og í sjálfu sér þarf ekki mikla verðbreytingu til að fyrirtækið skili góðri arðsemi eins og sést á dæminu hér á undan.

Seinna atriðið vegur þó mun þyngra. Landsvirkjun hefur um nokkurn tíma skoðað hugmyndir að lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands. Enn liggja ekki fyrir ákveðnar forsendur svo hægt sé að meta arðsemi slíks strengs. Landsvirkjunarmenn eru eðlilega varfærnir þegar kemur að yfirlýsingum um arðsemi. Sjóðastýringafélagið Gamma mat arðsemi sæstrengs 40 milljarða á ári. Í fyrra hélt Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur og sérfræðingur um orkumál, því fram að hægt væri að fá 150- 200 Bandaríkjadali fyrir megavattstundina, eða 6-8falt meira en núverandi verð til iðnaðar. Óðinn getur ekki nú frekar en fyrr tekið afstöðu til sæstrengsins fyrr en forsendur liggja fyrir, en áðurnefndar tölur gera það að verkum að hann metur það sem svo að það sé skylda stjórnvalda að kanna málið.

Sæstrengsmálið strandaði hins vegar fyrir margt löngu og liggur þar enn. Strandstaðurinn er skrifborð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðarráðherra. Skipun nefnda um ekki neitt skilar engu. [...] Frumforsendurnar eru fjórar: a) hvaða verð Bretar eru tilbúnir að ábyrgjast, b) hversu mikið magn þeir vilja kaupa, c) til hversu langs tíma og d) hvenær. Í heimildarmynd sem sýnd var á afmælisársfundi Landsvirkjunar um Búrfellsvirkjun komst einn starfsmanna Landsvirkjunar vel að orði. Hann sagði að þegar rignir, þá rigni gulli. Spurningarnar sem Ragnheiður Elín Árnadóttir þarf að spyrja breska ráðamenn munu svara stórri spurningu. Mun rigna gulli?


Bloggfærslur 11. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband