12.6.2015 | 18:14
Orkuverðið til Noruráls verður um 35 USD/MWst
Hér í upphafi skal tekið fram að verðið sem tilgreint er í fyrirsögninni er algert lágmarksverð. Og flutningskostnaður er innifalinn í verðinu.
Nú styttist í að samningur Landsvirkjunar og Norðuráls (Century Aluminum) frá 1999 renni út. Sú orka nemur um þriðjungi af raforkunotkun álversins í Hvalfirði. Til að raforkuviðskipti milli fyrirtækjanna haldi áfram, eftir að samningurinn rennur út 2019, þarf að semja upp á nýtt um raforkukaup. Hér í þessari grein er m.a. fjallað um eftirfarandi atriði:
- Raforkuverð Landsvirkjunar til álvera (meðalverð) er með því lægsta í heimi. Sérstaklega er verðið lágt í samningunum við Fjarðaál (Alcoa) og Norðurál (Century). Verðið er vel að merkja lægst í samningi Landsvirkjunar og Norðuráls. Og þetta er einmitt samningurinn sem rennur út árið 2019.
- Raforkuverð í nýjum samningi við Norðurál yrði sennilega um eða yfir 35 USD/MWst.
- Þá myndi meðalverð Landsvirkjunar til álvera hækka úr um 26 USD/MWst í rúmlega 28 USD/MWst.
- Meðalverð Landsvirkjunar yrði engu að síður áfram mjög lágt í alþjóðlegu samhengi. Enda er umrætt verð upp á 35 USD/MWst fremur hógvært þegar litið er til endurnýjaðra raforkusamninga til álvera í þeim löndum sem eðlilegt er að Ísland beri sig saman við í þessu efni.
- Þó svo meðalverðið hér yrði áfram lágt yrði þetta engu að síður mjög mikilvægt skref til aukinnar arðsemi Landsvirkjunar. Framundan eru svo fleiri slík skref. Þess vegna má vænta þess að sumarið sé á næsta leiti hjá Landsvirkjun. Nema ef stjórnmálamenn bregðast rangt við og eyðileggi sumarkomuna.
Verð Landsvirkjunar til álvera er eitthvert hið lægsta í heiminum
Þegar meta skal hvað sé eðlilegt og sanngjarnt verð í endurnýjuðum raforkusamningi við álver (eða aðra stóriðju) hér á landi, þarf að líta til fjölmargra atriða. Þar skiptir m.a. máli, að þegar kemur að endurnýjun raforkusamnings eru forsendurnar allt aðrar en í upphafi.
Þegar álver (eða önnur stóriðja) hyggst ráðast í nýtt verkefni á svæði sem býr yfir mikilli strandaðri orku (eins og Ísland er mjög afgerandi dæmi um) er afar lágt raforkuverð oft óhjákvæmilegt. Þetta er mikilvæg ástæða þess að meðalverð Landsvirkjunar til stóriðju og álvera er ennþá mjög lágt í alþjóðlegu samhengi (þrátt fyrir nýlega mikla hækkun á raforkuverði til Straumsvíkur). Þetta lága meðalverð Landsvirkjunar sést vel á grafinu hér að neðan.
Fjárfestingarþörf stóriðju - og þar með fjármagnskostnaður - er mestur í upphafi. Og þess vegna er ekki óeðlilegt að raforkuverð til nýrrar stóriðju sé í lægri kantinum í upphafi. Hér á Íslandi eru ennþá flestir raforkusamningarnir við álver og aðra stóriðju upphaflegu samningarnir (þ.e. ekki komið að endurnýjun). Við slíkar aðstæður er algengt að verðið í samningunum sé lágt.
Þetta þekkist að sjálfsögðu líka í öðrum heimshlutum. En slíkt verð er þó oftast lægst í löndum sem búa yfir mikilli strandaðri orku. Þar er gífurleg jarðgasorkan við Persaflóann gott dæmi. Gasið verður ekki flutt á markaði nema með byggingu mjög langra og dýrra gasleiðslna. Eða með því að umbreyta gasinu í fljótandi gas og sigla með það langar leiðir til viðskiptavinanna - sem er einnig mjög dýrt. Til að geta nýtt meira af jarðgasinu, hafa Persaflóaríkin undanfarin ár gengist fyrir því að fá áliðnað til landanna. Og bjóða álverum mjög lágt raforkuverð, eins og sjá má á grafinu hér að ofan.
Þetta lága raforkuverð bæta Persaflóaríkin sér upp með því að vera sjálf stórir hluthafar í risaálverunum þar. Og ná þannig til sín verulegs hluta af auðlindaarðinum (vegna jarðgassins) í gegnum eignarhald sitt í álverunum. Þau ná svo að gera þá fjárfestingu sína áhættulitla með því að nýta sér hagstæð lánskjör sem olíuauðurinn skapar þeim.
Sláandi lítill verðmunur á Persaflóanum og Íslandi (Landsvirkjun)
Þessi auðugu olíuríki við Persaflóann búa sem sagt við allt annars konar viðskiptaumhverfi og viðskiptamódel en áliðnaðurinn hér á Íslandi. Þess vegna er útilokað að halda því fram að eðlilegt eða viðunandi sé að meðalverð Landsvirkjunar til stóriðju sé ámóta og meðalverð á raforku til álvera í Persaflóaríkjunum.
Eins og áður sagði er einn munurinn þarna sá, að Persaflóaríkin eru með eign sinni í álverum að taka út auðlindaarð af orkulindinni í gegnum hagnað álversins. Og þarna nýta umrædd vellauðug olíuríki sér líka það góða lánstraust sem þau hafa. Og geta því haldið fjármagnskostnaði sínum vegna gasorkuvera og eignarhluta í álverum mjög hóflegum. Raforkuverð þarna til álvera við Persaflóann styðst því við allt aðrar forsendur en gerist hér á landi.
Þess vegna er í raun nánast sjokkerandi að meðalverð Landsvirkjunar til stóriðju skuli einungis vera á pari við Persaflóann. Miðað við leikreglur vestrænna viðskiptahátta mætti búast við að raforkuverð til stóriðju hér á landi væri talsvert mikið hærra en við Persaflóann. Þar að auki er áhættuþátturinn vegna fjárfestinga í Persaflóaríkjunum sennilega mun meiri en hér á landi. Það ætti líka að valda verðmun. En hann er samt nánast enginn. Og það jafnvel þó svo hér sé nýlega búið að hækka mjög raforkuverðið í hinum stóra samningi Landsvirkjunar og Alcan (vegna Straumsvíkur).
Strönduð orka og veik samningsstaða dró orkuverð hér niður
Þetta eru sterkar vísbendingar um að hér á landi hafi áliðnaður og stóriðja náð alveg óvenju hagstæðum kjörum í upphaflegu raforkusamningunum. Og bersýnilegt að ein helsta ástæða þess hefur verið veik samningsstaða Landsvirkjunar - þegar ofurþrýstingar var frá stjórnmálamönnum um að landa samningum um ný álver. Til „að skapa störf“ og koma „hjólum atvinnulífsins í gang“.
Þar með er ekki verið að segja að unnt hefði verið að fá umtalsvert hærra verð fyrir orkuna í upphaflegu samningunum. En samningsaðstaða orkufyrirtækjanna var tvímælalaust með þeim hætti, að þau voru þarna veiki aðilinn. Og það skapaði skilyrði fyrir álfyrirtæki að ná mjög hagkvæmum samningum.
Við getum þó huggað okkur við það að við endurnýjun raforkusamninga býðst afar gott tækifæri fyrir íslensku orkufyrirtækin að fá meri arðsemi af fjárfestingu sinni. Og að arðsemin færist i átt til þess sem getur talist eðlileg í viðskiptaumhverfi þar sem samningsstaðan er orðin jafnari.
Mikilvægt skref tekið með nýjum samningi vegna Straumsvíkur
Það er bæði eðlilegt og sanngjarnt að meðalverð á raforku til álvera á Íslandi frá Landsvirkjun (eða öðrum orkufyrirtækjum hér sem eru þó ekki umfjöllunarefni í þessari grein) mjakist upp tröppurnar sem sjást á grafinu hér að ofan. Og að orkuverðið nái að fara fram úr því sem gerist t.d. í ríkisstyrktum áliðnaði Rússlands og nálgist það hærra meðalverð sem sjá má víða annars staðar í heiminum.
Fyrsta stóra og mikilvæga skrefið í þá átt var tekið árið 2010 með nýjum raforkusamningi Landsvirkjunar við Rio Tinto Alcan vegna álversins í Straumsvík. Það var reyndar eins og hver önnur lukka að þessi nýi raforkusamningur var gerður þarna árið 2010. Vegna þess að að óbreyttu hefði orkusamningur Alcan gilt fram á árið 2014 - og hann var auk þess með framlengingarákvæði sem hefði getað framlengt gildistímann allt til 2024. En í tengslum við áhuga Alcan á framleiðsluaukningu í Straumsvík, náði Landsvirkjun á árunum 2009-10 fram alveg nýjum samningi. Þar sem samið var um nýtt og mikið hærra orkuverð vegna allrar raforkusölu Landsvirkjunar til Alcan.
Að auki fór álverðstengingin út með þessum nýja samningi, en sú tenging hefði annars getað gilt allt til 2024. Með þessu dró verulega úr áhættu Landsvirkjunar. Það bætti lánshæfismat fyrirtækisins og gerði Landsvirkjun þar með að sterkara og öflugra fyrirtæki, sem nýtur nú lægri fjármagnskostnaðar en ella væri. Um þetta allt má lesa í áliti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá desember 2011, þar sem fjallað er um umræddan samning Landsvirkjunar og Alcan.
Orkuverð í sambærilegum viðskiptum í sambærilegu viðskiptaumhverfi
Þegar allt kemur til alls þá ráðast samningar hverju sinni auðvitað fyrst og fremst af stöðunni eins og hún er á hverjum tíma og því hvaða þróun er að eiga sér stað í viðkomandi viðskiptaumhverfi. Núna þegar kemur að mögulegri endurnýjun stórra raforkusamninga er afar áríðandi að skoða vandlega viðskiptaumhverfið eins og það blasir við okkur. Og meta samkeppnisstöðuna.
Þegar litið er til upplýsinga um raforkusamninga við álver víða um heim, sést að álver eru að fá raforkuna á afar mismunandi verðum. Í okkar heimshluta, svo sem í Evrópu og Bandaríkjunum, er algengt að raforkuverð til álvera sé á bilinu 35-40 USD/MWst. Þetta er ein viðmiðunin gagnvart endurnýjuðum raforkusamningi við Norðurál. Enda rekur móðurfélag Norðuráls, Century Aluminum, nokkur önnur álver og þau eru öll í Bandaríkjunum.
Annars staðar í heiminum má sjá bæði hærri og lægri meðalverð. Sbr. nánar grafið hér að ofan, sem sýnir meðalverð raforku til álvera í einstökum löndum og á einstökum svæðum í heiminum.
Eins og áður var nefnt, eru engin rök til þess að orkuverðið til álvera við Persaflóann sé til viðmiðunar vegna endurnýjunar raforkusamninga hér. Það er reyndar svo að lægsta meðalverð raforku til álvera er í Kanada. En Kanada er heldur ekki rökrétt viðmiðun. Því þar draga nokkrir mjög sérstakir og óvenjulegir samningar meðalverðið niður úr öllu valdi (þetta eru gamlir samningar til mjög langs tíma þar sem raforkan er nánast gefin). Auk þess sem pólitísk afskipti af raforkusölu til álvera í Kanada (þar sem byggðastefnusjónarmið eru ráðandi) eru með allra mesta móti. Þar er því raforkuverð til álvera alls ekki að endurspegla eðlilegt markaðsumhverfi - og meðalverð í Kanada því óraunhæft sem viðmiðun fyrir verð í endurnýjuðum raforkusamningum við stóriðju á Íslandi.
Bandaríkin eru nokkuð skynsamleg og þokkalega rökrétt viðmiðun
Besta eða skynsamasta viðmiðunin er sennilega Bandaríkin. Auk þess sem við ættum að geta horft til þess að meðalverð á raforku til álvera hér á landi hljóti í tímans rás a.m.k. að nálgast það sem gerist t.a.m. í Afríku eða í Rómönsku Ameríku - jafnvel þó svo launakostnaður álvera þar sé eflaust oft lægri en hér í okkar vestræna samfélagi.
Við getum líka litið til Ástralíu. Þar hafa pólitísk afskipti af raforkuverði til álvera farið minnkandi upp á síðkastið og það sem við oft nefnum eðlilegt vestrænt markaðsumhverfi fengið meira vægi. Það hefur vel að merkja leitt til lokunar nokkurra álvera þar í landi. En slík þróun er ekki óeðlileg þegar haft er í huga að álmarkaðir heimsins eru síbreytilegir. Og eru að verða fyrir sífellt meiri áhrifum af geysilágu raforkuverði til nýrra álvera í Persaflóaríkjunum og offramleiðslu af áli í Kína. Það er þróun sem ekkert vit er að reyna að keppa við. Við hljótum fyrst og fremst að horfa til þess hvaða raforkuverð álverum býðst - og greiða - á svæðum þar sem viðskiptahættir eru svipaðir því sem er hér á landi. Og þó svo Ísland sé aflokaður raforkumarkaður með mikið af strandaðri orku, hefur slíkt miklu minni áhrif þegar verið er að endurnýja raforkuviðskipti heldur en þegar verið er að semja um upphaflegu fjárfestinguna. Þetta liggur í eðli málsins.
Eins og staðan er í dag má gera ráð fyrir að samningsverð í endurnýjuðum raforkusamningi við álver á Íslandi miðist mjög við það sem gerist í Bandaríkjunum. Þar sem algengt raforkuverð til álvera er á bilinu 35-40 USD/MWst. Sumum kann einnig að þykja eðlilegt að líta þarna til Evrópu. Það kann að vera rétt. Að mínu mati er áliðnaðurinn þar þó víða að njóta óeðlilega mikillar fyrirgreiðslu frá hinu opinbera - og því sennilega vart raunhæft að hafa nema takmarkaða hliðsjón af evrópska ál- og orkumarkaðnum. Bandaríkjamarkaðurinn virðist mun raunhæfari sem viðmiðun.
Þetta eru þó einungis atriði til viðmiðunar. Og í reynd er óralangt í það að meðalverð Landsvirkjunar á raforku til álvera hér nálgist það sem gerist í Rómönsku-Ameríku, Afríku, Ástralíu eða Bandaríkjunum. Þar stöndum við frammi fyrir langtímamarkmiði og langtímaáætlun. En til skemmri tíma litið er það ekki aðeins eðlilegt heldur beinlínis skylda Landsvirkjunar, að vinna að því við gerð hvers einasta raforkusamnings að mjaka okkur þarna upp töfluna. Skref fyrir skref.
Slíkt leiðir til aukinnar arðsemi Landsvirkjunar, sem er geysilega mikilvægt fyrir stóran raforkuframleiðanda eins og Ísland. Ísland er vel að merkja langstærsti raforkuframleiðandi heims miðað við stærð þjóða. Þess vegna er svo þýðingarmikið efnahagslega að það náist að auka arðsemi raforkuframleiðslunnar hér. Slíkt ætti að vera algert forgangsatriði stjórnvalda - nú þegar loksins er verið að ljúka vinnu við þrotameðferð bankanna. Fyrir mér er það töluvert áhyggjuefni hversu stjórnvöld virðast þarna sljó og þá einkum og sér í lagi sitjandi iðnaðarráðherra - en það er önnur saga.
Samningurinn við Straumsvík er mikilvæg viðmiðun
Við þetta má bæta að það er útilokað að Norðurál fái raforkuna ódýrara en samið var um í samningi Landsvirkjunar og Rio Tinto Alcan vegna álsversins í Straumsvík. Sá samningur var gerður í kringum áramótin 2009/2010; fullgert uppkast lá fyrir í maí 2010 og samningurinn var svo undirritaður í júní. Samningurinn var gerður við þær aðstæður að meðalverð á áli 2009 var nálægt 1.700 USD/tonn. Það er aðeins lægra álverð en hefur verið undanfarna mánuði. Það eru sem sagt engin rekstrarleg rök fyrir því að Norðurál njóti lægra verðs í nýjum raforkusamningi heldur en Alcan. Og ef Norðurál ætlar að bera fyrir sig háan fjármagnskostnað hjá fyrirtækinu, þá er það fyrst og fremst vandamál þess og Century, sem eru þarna með nokkuð athyglisverða lánasamninga sín á milli.
Raforkuverðið til Straumsvíkur er núna að lágmarki nálægt 32-33 USD/MWst. Mögulega hærra. Þetta sést í áðurnefndri skýrslu ESA. Og skv. framsetningunni þar er verðið sem sagt mögulega eitthvað hærra. Eðlilegt væri að verðið til Norðuráls væri nokkru hærra en til Straumsvíkur, því Straumsvíkursamningurinn fjallar um miklu meira orkumagn. Og mikil magnkaup eru einmitt algeng rök fyrir lægra orkuverði en ella. Þess vegna má gera ráð fyrir því að sanngjarnt og eðlilegt lágmarks orkuverð til Norðuráls væri nokkru hærra en umræddir 32-33 USD/MWst.
Til viðbótar er mikilvægt að hafa í huga að samningur Landsvirkjunar og Straumsvíkur var ekki bara vegna endurnýjaðra raforkukaupa - heldur var þarna líka samið um aukin raforkukaup vegna nýrra fjárfestinga í framleiðslunni í Straumsvík. Slíkum framkvæmdum fylgir eðlilegur fjármagnskostnaður hjá álfyrirtækinu og slíkt er gjarnan til þess fallið að draga umsamið raforkuverð aðeins niður. Þetta er önnur ástæða fyrir því að eðlilegt er að raforkuverðið til Alcan sé eitthvað lægra en yrði í nýjum samningi við Norðurál. Þarna eru því komnar tvær ástæður fyrir hærra lágmarksverði en 32-33 USD/MWst í nýjum raforkusamningi milli Norðuráls og Landsvirkjunar.
Munum að mögulega er raforkuverðið til Alcan eitthvað hærra og þá hækkar líka viðmiðunin til Norðuráls. Nákvæma verðtölu vegna Straumsvíkur veit einungis Landsvirkjun (auk Alcan að sjálfsögðu), en ég miða hér við lágmarksverðið 32-33 USD/MWst. Og segi því að verðið til Norðuráls skv. nýjum samningi þurfi að verða hærra en þetta verð. Það er svo álitamál hversu mikið hærra verðið ætti að vera.
Raforkuverð í nýjum samningi Norðuráls yrði sennilega nálægt 35 USD/MWst
Niðurstaðan af þessu öllu er sú að eðlilegt og sanngjarnt lágmarksverð á raforku til Norðuráls væri yfir 32-33 USD/MWst og í nágrenni við 35-40 USD/MWst. Ég vil vera hógvær og segi því að verðið ætti að vera á bilinu 34-36 USD/MWst. Og það væru beinlínis stórlega vafasamir viðskiptahættir ef Landsvirkjun semdi við Norðurál um lægra verð. Því þá væri Landsvirkjun í reynd að láta álver í Hafnarfirði niðurgreiða raforku til álvers á Grundartanga. Slíkt væri afar sérkennilegt og óeðlilegt. Og myndi ekki ganga upp; slíkt yrði metið sem ríkisstyrkur við Norðurál og varla ætlar Landsvirkjun eða eigendur Landsvirkjunar að fara inn á þá braut að niðurgreiða raforkuverð til álvers Century Aluminum.
Þegar litið er til allra ofangreindra atriða er niðurstaðan sem sagt sú að unnt er að áætla af talsverðri nákvæmni hvað væri eðlilegt og sanngjarnt raforkuverð í nýjum samningi Landsvirkjunar og Norðuráls. Og eins og áður sagði, yrði það verð sennilega á bilinu 34-36 USD/MWst (að núvirði). Ég ítreka að þarna er samt óvissa fyrir hendi, því raforkuverðið til Alcan kann að vera eitthvað hærra en áðurnefndir 32-33 USD/MWst.
Svo er það auðvitað staðreynd að ég ræð engu um þetta. Mögulega álítur Landsvirkjun að verðið ætti að vera eitthvað hærra og mögulega álítur Norðurál (Century) að verðið ætti að vera eitthvað lægra. En þegar horft er til þess sem gerist og gengur - og allar viðmiðanir hafðar í huga - álít ég að verð sem samið yrði um í nýjum samningi yrði á þessu umrædda bili; 34-36 USD/MWst (miðað við núverandi verðlag). Meðaltalið þarna er 35 USD/MWst og þess vegna er fyrirsögn þessarar greinar eins og hún er.
Að auki álít ég líklegt að samningsverðið yrði ekki tengt við álverð. Heldur fremur við bandaríska neysluvísitölu. Með sama hætti og var gert í samningi Landsvirkjunar við Rio Tinto Alcan vegna álversins í Straumsvík árið 2010. Það myndi vel að merkja koma Norðuráli mjög vel, ef álverð hækkar til framtíðar. Þarna væri því möguleiki á þægilegum hagnaði fyrir Norðurál og sá möguleiki hlýtur að vera fyrirtækinu verðmætur - ef fyrirtækið trúir á framtíð áliðnaðar og að eftirspurn þar muni aukast hratt líkt og Samál og fleiri eru sífellt að boða.
Raunhæft og eðlilegt verð - og augljós sanngirni
Ég álít sem sagt að 34 USD/MWst sé algert lágmarksverð sem unnt sé að láta sér detta í hug vegna endurnýjunar á raforkuviðskiptum Landsvirkjunar við Norðurál. Og álít einnig talvert sterk rök fyrir því að verðið yrði eilitið hærra eða nálægt 36 USD/MWst. Sanngjörn og eðlileg niðurstaða yrði kannski þarna á bilinu og tiltek ég þess vegna 35 USD/MWst. Ef verðið til Straumsvíkur er hærra en 32-33 USD/MWst væri eðlilegt að verðið til Norðuráls yrði jafnvel eitthvað hærra en ofangreindir 34-36 USD/MWst.
Samningstíminn yrði væntanlega ekki mjög langur; kannski nálægt 15 árum. Það kann jafnvel að vera skynsamlegt af Landsvirkjun að leggja áherslu á skemmri samningstíma - til að þessi orka eða a.m.k. hluti hennar verð laus ef til þess kemur að sæstrengur (rafmagnskapall) verði lagður milli Íslands og Evrópu. Það mál er ekki til skoðunar hér, en það væri eðlilegt að Landsvirkjun hefði þennan möguleika í huga.
Með ofangreindu raforkuverði í nýjum samningi - eða í endurnýjuðum samningi ef fólk vill fremur nota það orðalag - myndi meðalverð á raforku Landsvirkjunar til stórnotenda hækka. Hækkunin á meðalverðinu yrði samt því miður alls ekki mikil; einungis rétt rúmir 2 USD/MWst. Það stafar af því, að þó svo þarna sé um að ræða mikið magn af orku (nálægt 1.500.000 MWst árlega) er þetta hlutfallslega ekki nógu stór hluti af allri raforkusölu Landsvirkjunar til að hífa meðalverðið meira upp.
Það er sem sagt svo að komi til þess að Norðurál og Landsvirkjun semji um áframhaldandi raforkuviðskipti upp á um 35 USD/MWst (að núvirði), myndi meðalverð á raforku Landsvirkjunar til álvera og annarrar stóriðju einungis fara úr núverandi u.þ.b. 26 USD/MWst og í um 28 USD/MWst (og meðalverðið til álvera myndi hækka um u.þ.b. hálfan USD að auki).
Og þetta gerist auðvitað ekki fyrr en nýi samningurinn væri kominn til framkvæmda (væntanlega síðla árs 2019). Þar með myndi Landsvirkjun mjakast upp um eina litla tröppu á meðalverðlistanum (sbr. grafið hér fyrir ofan). Og slefa í að fara yfir Rússland (en ef/þegar rússneska rúblan hækkar á ný mun Rússland vafalítið hoppa snögglega aftur upp yfir Landsvirkjun). Þetta netta hænufet væri Landsvirkjun og Íslandi engu að síður afar mikilvægt skref - og gæfi góðar vonir um áframhaldandi aukna arðsemi Landsvirkjunar.
Möguleikar á frekari jákvæðum skrefum framundan
Það að hækkunin á meðalverðinu er ekki meiri stafar af því að raforkusala Landsvirkjunar til Norðuráls (um 1,5 TWst á ári) er einungis um 12-14% af allri raforkusölu fyrirtækisins. Þetta væri engu að síður afar mikilvægt skref fyrir Landsvirkjun og þar með þjóðina. Sennilega gæti þetta t.d. leitt til þess að Landsvirkjun næði að þrefalda árlega arðgreiðslu sína til íslenska ríkisins (greiða um 4,5 milljarða ISK í stað núverandi 1,5 milljarðs). Það yrðu mikilvæg tímamót - jafnvel þó svo Landsvirkjun verði enn um sinn afar neðarlega í meðalverðströppunum. Og það er afar mikilvægt að fyrirtækið fái að framfylgja þarna stefnu sinni um aukna arðsemi. Og að t.a.m. stjórnmálamenn láti ekki glepjast af áróðri Century gegn Landsvirkjun eða gegn umræddri hækkun á raforkuverðinu - en sá áróður er þegar byrjaður og mun vafalitið aukast þegar nær dregur 2019.
Annað mikilvægt skref kann að verða tekið hjá Landsvirkjun með nýjum samningi við járnblendiverksmiðju Elkem (China Bluestar). Sá orkusamningur Landsvirkjunar og Elkem rennur líka út 2019, eins og samningurinn við Norðurál. Þar er líka um að ræða verulegt orkumagn, en þó aðeins minna en skv. Norðurálssamningnum eða um 1.100.000 MWst árlega. Einnig þarna hjá Elkem er núverandi orkuverð hlutfallslega afar lágt. Og eðlilegt að þar verði hlutfallshækkunin mjög mikil (ég mun etv. fjalla nánar um þennan samning Elkem síðar). En öllum ætti að vera augljóst hversu mikilvægt árið 2019 er í þessu sambandi. Og að þarna eru á ferðinni tækifæri sem Landsvirkjun verður að nýta - í þágu landsmanna allra.
Risaskrefið upp á við í meðalverðströppunum verður svo væntanlega tekið 2048. Þegar raforkusamningurinn við Alcoa vegna Fjarðaáls rennur út. Eða jafnvel talsvert miklu fyrr með raforkusölu um sæstreng. Aðalatriðið er að nota þau tækifæri sem gefast til að auka arðsemi Landsvirkjunar. Því varla viljum við Íslendingar að stóriðjuviðskipti Landsvirkjunar, sem nema um 85% af orkuframleiðslu fyrirtækisins, verði um alla framtíð með þeim hætti að fyrirtækið verði þarna í allra neðstu tröppunum. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að bæði íslenskir stjórnmálamenn og starfsfólk Landsvirkjunar standist þann þrýsting ef/þegar stjórnendur Century Aluminum munu gerast ósvífnir - þegar mönnum þar á bæ verður ljóst að þeir nái ekki að þvinga fram áframhaldandi botnverð. Fyrir Glencore International.
Sumarið er á næsta leiti
Með nýjum raforkusamningi Landsvirkjunar við Alcan árið 2010, vegna álversins í Straumsvík, má segja að byrjað hafi fyrir alvöru að vora í arðseminni í íslenska raforkugeiranum (nýir samningar við gagnaver skipta þarna líka máli, en þó ekki hlutfallslega miklu enn sem komið er). Það er sannarlega tímabært að sumarið renni þarna brátt í hlað. Nú eru loksins uppi aðstæður sem styðja ennþá betur við sumarkomuna - í formi umtalsvert aukinnar arðsemi Landsvirkjunar vegna þess að stórir raforkusamningar eru að losna. Og mikilvægt að þjóðin fái að njóta þessara tækifæra.