Fréttarugl um olíu

OPEC-versus-US-Oil-Production_Bloomberg-2010-2015-2Í gær bárust fréttir af því að Rússland og Saudi Arabía hefðu samið um að auka ekki við olíuframleiðslu sína. Í fjölmiðlum á enskri tungu var talað um production freeze. Og að bæði Venesúela og Katar væru með Rússum og Saudi Aröbum í þessu og að að þessi ákvörðun nyti einnig stuðnings Kuwait.

Samstundis fylltust fréttaveitur heimsins af fréttum um að þar með hefði olíuverð náð botni. Og nú lægi leið olíuverðs upp á við. Og sannarlega hækkaði olíuverð. En þegar leið á daginn fór olíuverð aftur að lækka. Og um leið fylltust fréttaveiturnar af fréttum um að samkomulagið væri haldlítið. Því ekki væri búið að semja við Íran og þar á bæ ætluðu menn sér að auka framleiðsluna. Enda eru Íranar mjög þyrstir í gjaldeyristekjur eftir langt viðskiptabann. Svo væri líka óvíst hvort staðið yrði við samkomulagið og þar fram eftir götunum.

WSJ-confused-on-oilTil marks um æsinginn er gaman að lesa annars vegar slóðina á þessari frétt Wall Street Journal og núverandi fyrirsögn fréttarinnar hins vegar. Þegar þetta er skrifað er textinn í slóðinni "oil-prices-rise-sharply-on-news-of-saudi-russia-production-meeting". Fyrirsögnin er aftur á móti þveröfug. Og henni hefur mögulega og reyndar mjög sennilega verið breytt eftir að fréttin fór í loftið; nú hljóðar hún "Oil Prices Turn Negative as Saudi, Russia Deal Disappoints". Þarna er því afar skemmtileg þverstæða í slóð og fyrirsögn!

Oil-Production-Saudi-Arabia-Russia-Libya-Iran-Iraq-USA_2007-2015Allt er þetta til marks um hvernig menn hlaupa stundum til að draga ályktanir. Og kaffæra bæði lesendur og sjálfan sig í afskaplega grunnum vangaveltum um einhver skammtímaáhrif.

Raunveruleikinn er sá að það eitt að nokkrir stórir olíuframleiðendur segist ætla að viðhalda óbreyttri framleiðslu segir í reynd ekki nokkurn skapaðan hlut um það hvernig olíuverð muni þróast á næstu mánuðum. Það sem þarna skiptir mestu er þróun efnahagslífsins. Og þar er Kína risavaxni fíllinn, sem enginn veit hvort er ennþá sprækur eða orðinn lafmóður og lagstur til hvílu - í bili.

Til lengri tíma litið er augljóst að núverandi olíuverð er ekki sjálfbært. Þetta lága verð mun leiða til stórfelldra gjaldþrota í olíuiðnaðinum víða um heim, því verðið nægir ekki til að greiða allan fjármagns- og rekstrarkostnað núverandi olíuvinnslu. Þar að auki heldur þetta lága verð aftur af fjárfestingum í nýjum verkefnum. Fyrir vikið eykst hættan á því að til framtíðar muni olíuverð verða ennþá sveiflukenndara en áður.

Ali-al-Naimi-at-OPEC-meetingEf heimurinn á áfram að upplifa góðan hagvöxt þarf að sækja mikla olíu í fjölmargar nýjar lindir. Þess vegna er óhjákvæmilegt annað en að olíuverð stefni senn í um 60 USD/tunnan og til aðeins lengri framtíðar mun verðið stefna í 90-100 USD. Vit vitum bara ekki hversu langt er þangað til. Og svo vitum við ekki heldur hvort svo hátt olíuverð getur staðið undir góðum hagvexti.

Mikilvægt er að muna eftirfarandi: Eftir því sem núverandi olíulindir tæmast og ráðast þarf í sífellt fleiri ný olíuverkefni, er líklegt að ójafnvægi verði sífellt algengara á olíumörkuðum og verðsveiflur miklar. Það er raunveruleikinn sem unga kynslóðin mun þurfa að takast á við. 


Bloggfærslur 17. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband