Risasamningur Kínverja og Rússa

RT-russia

Í vikunni sem leið undirrituðu rússneska Gazprom og kínverska CNPC samning um sölu á rússnesku gasi til Kína. Þetta var tvímælalaust stærsta orkufrétt vikunnar. Gasið á að koma frá stórum gaslindum í austanverðri Síberíu og verða flutt um gasleiðslu sem leggja á um fjögur þúsund km leið yfir fjöll og firnindi til Kína. Hér er fjallað um aðdraganda og innihald þessa risasamnings og hvort hann muni hafa áhrif á gasmarkaði heimsins.

Langur aðdragandi

Aðdragandi þessa samnings hefur verið afar langur. Því viðræður Rússlands og Kína um gasviðskipti hafa  staðið yfir í heilan áratug. Á þessum tíma hefur þörf ríkjanna fyrir viðskipti af þessu tagi vaxið mjög og kannski var það helsti drifkraftur þess að nú náðu ríkin loks saman.

Russa-Gas-Eastern-Siberia-Map

Frá því viðræðurnar byrjuðu hefur Kína þurft að flytja inn sífellt meiri orkugjafa. Um leið hefur Rússland leitað leiða til að auka tekjur sínar af orkusölu og fá aðgang að nýjum mörkuðum fyrir rússneska gasið. Bæði Kína og Rússland hafa því verulega efnahagslega hagsmuni af því að rússneskt gas berist til Kína.

Þar að auki er um pólitíska hagsmuni að ræða. Bæði löndin vilja sýna Bandaríkjunum og Evrópu að þau geti átt mikilvæg viðskipti án aðkomu Vesturlanda. Fram til þessa hefur Evrópa verið langmikilvægasti viðskiptavinur Gazprom. Síðasta ár (2013) námu tekjur Gazprom vegna sölu á gasi til Evrópulanda meira en helmingi allra tekna Gazprom. Og það þó svo Evrópa kaupi einungis um þriðjunginn af framleiðslu Gazprom. Þó svo heimamarkaðurinn í Rússlandi sé stærsti markaður Gazprom (og Úkraína þriðji stærsti viðskiptavinurinn) er salan til Evrópusambandsins mikilvægust því þar fær Gazprom hæsta verðið

Kjánalegt fjölmiðlakapphlaup

Undirritun samningsins milli Gazprom og kínverska CNPC fór fram í tengslum við opinbera heimsókn Pútíns til Kína, sem hófst á þriðjudaginn fyrir viku. Fréttir af samningnum urðu reyndar svolítið dramatískar.

Gazprom-Ad-Moscow_Taras-Shevchenko

Það lá fyrir að í Kínaheimsókn sinni myndi Pútín undirrita fjölmarga viðskiptasamninga. M.a. um þróun nýrrar risaþotu sem á að keppa við Airbus og Boeing. Einnig var vitað að þeir Pútin og Xi Jinping, forseti Kína, myndu hleypa af stokkunum sameiginlegum heræfingum ríkjanna á A-Kínahafi. Það sem fjölmiðlar voru þó spenntastir fyrir var hvort það væri örugglega rétt, eins og rússnesk stjórnvöld höfðu sterklega gefið í skyn, að þarna yrði einnig loksins samið um umfangsmikil kaup Kína á rússnesku gasi frá Gazprom. Eða voru Kínverjarnir kannski ennþá að þrefa um verðið og samningur enn ekki í augsýn?

Russia-China-Gas-Deal-Signed-May-2014Nú urðu sumir full bráðir á sér að verða fyrstir með fréttina. Að morgni miðvikudagsins birtu nokkrir fremstu fjölmiðlar heimsins (t.a.m. bæði og Financial Times og NYT) fréttir af því að ekkert hefði orðið af undirritun samningsins. Og að það væri mikið áfall fyrir Pútín. En þegar leið á daginn birtu aðrir fjölmiðlar fyrstu fréttir þess efnis að samningurinn væri frágenginn! Þar mun rússneski fjölmiðillinn RT hafa orðið fyrstur. Og reyndist hafa rétt fyrir sér.

400 milljarða dollara samningur til 30 ára

Samkvæmt opinberum upplýsingum eru staðreyndir málsins reyndar ekkert alltof skýrar. Vissulega var samningur um gassölu undirritaður þarna í Shanghai með pompi og prakt af þeim Alexey Miller, forstjóra rússneska Gazprom, og Zhou Jiping, stjórnarformanni kínverska orkurisans CNPC (China National Petroleum Corporation). Og það undir árvökulum augum forseta Rússlands og Kína; þeirra Vladimir Pútín og Xi Jinping. En skilmálar gassölunnar eru þoku huldar; ekki var gefið upp hvernig gasið verður verðlagt og einnig er ýmislegt óljóst um fjármögnun þessa risaverkefnis. Sérfróðir í bransanum hafa jafnvel haft á orði að ýmislegt bendi til þess að einungis sé búið að móta ramma samningsins.

Russia-China-Gas-Deal-Presidents-May-2014

En hvað sem slíkum vangaveltum líður, þá er samningurinn sagður kveða á um langtímakaup CNPC á gasi frá Gazprom. Samningstímabilið er sagt vera 30 ár og að gas muni byrja að streyma eftir nýrri gasleiðslu árið 2018 eða þar um bil. Magnið er sagt verða 38 milljarða rúmmetra af gasi á ári. Og verðmæti samningsins er sagt vera nálægt 400 milljörðum USD. Þetta er því langstærsti einstaki samningur sem Gazprom hefur nokkru sinni gert.

Af ofangreindum tölum hafa menn áætlað að verðið á gasinu sé nálægt 10 USD/Btu (sem er sú mælieining sem gasmarkaðir styðjast oftast við). En eins og áður sagði eru þó uppi getgátur um að enn sé ekki búið að fastsetja verðið.

Að auki ber að hafa í huga að komið hefur fram í ummælum rússneskra ráðamanna að gasverðið í samningnum sé tengt olíuverði, en það hefur ávallt verið eitt helsta samningsmarkmið Gazprom. Fyrir vikið er mögulegt að verðið fyrir gasið eigi eftir að hækka umtalsvert eða lækka - allt eftir því hvernig olíuverð þróast. Það mun sem sagt ráðast í framtíðinni hvert hið raunverulega verðmæti samningsins er.

Verðið virðist vera í lægri kantinum

Ef miðað er við að verðið á gasinu (miðað við núverandi markaðsaðstæður á olíumörkuðum) sé nálægt 10 USD/Btu, vekur athygli að það er á svipuðum nótum eins og verðið sem samið hefur verið um í nýlegum samningum Gazprom við evrópsk orkufyrirtæki. Það hlýtur að teljast fremur hagstætt verð fyrir kínverska kaupandann (CNPC).

Russia-Gas-Map-1

Hafa ber í huga að rússneska gasið sem fer til Evrópu kemur frá gaslindum sem búið er að byggja upp og tengja við markaðinn. Aftur á móti á ennþá eftir að byggja upp bæði gasvinnsluna og gaslagnirnar vegna nýja samningsins við Kína. Kostnaður við uppbyggingu gasvinnslu og lagningu gasleiðslna hefur vaxið hratt á síðustu árum. Framkvæmdirnar verða því afar kostnaðarsamar og eru sagðar kalla á fjárfestingu upp á um 70 milljarða USD. Ýmsir velta því fyrir sér hvort Gazprom muni geta staðið við samning af þessu tagi.

Á móti kemur að samningurinn er sagður fela í sér stóra fyrirframgreiðslu CNPC vegna framkvæmdanna. Þetta er að vísu eitthvað óljóst. Því þó svo Pútín hafi sagt að CNPC muni leggja fram 20 milljarða USD fyrirfram til þessarar uppbyggingar, er haft eftir Miller, forstjóra Gazprom, að þessi mál séu enn til umræðu milli fyrirtækjanna og því væntanlega ófrágengin. Þetta er enn eitt atriðið sem dregur úr trúverðugleika samningsins.

Hæpið að samningurinn hafi umtalsverð áhrif á gasmarkaði

Rússneskir ráðamenn hafa hampað samningnum sem miklum tímamótasamningi. Þetta viðhorf er eðlilegt; þetta er stærsti einstaki orkusölusamningur sem rússneskt fyrirtæki hefur gert. Miklu skiptir fyrir bæði Rússland og Gazprom að reyna að styrkja samningsstöðu sína (ekki síst fyrir Gazprom gagnvart Evrópu). Þess vegna reyna Rússar að sjálfsögðu að gera sem mest ur þýðingu samningsins. Í reynd kemur samningurinn þó varla til með að hafa umtalsverð áhrif á gasviðskipti Rússlands við Evrópu.

Europe-Gas-Imports_2006-2012

Æðstu menn Gazprom hafa sagt að núna þegar nýr og stór kaupandi sé tilbúinn að greiða verð sem er sambærilegt evrópsku verði, megi Evrópa búast við hækkandi gasverði. Þetta er hæpið sjónarmið eða a.m.k. er ólíklegt að Gazprom geti þrýst gasverði upp í Evrópu á næstu árum.

Evrópa kaupir margfalt meira gas frá Rússlandi en það sem samningurinn við Kína hljóðar á um. Evrópsku orkufyrirtækin eru því ennþá langmikilvægustu viðskiptavinir Gazprom. Þá ber að hafa í huga að gasviðskipti Evrópu við Gazprom virðast fara minnkandi. Enda er Evrópa sá hluti heimsins þar sem orkunotkun eykst hvað minnst - og leggur mikla áherslu á aðgang að nýjum orkulindum og aukið hlutfall endurnýjanlegrar orku. Allt miðar þetta að því að draga úr þörf Evrópu fyrir rússneskt gas.

Asia-map-Russia-China-far-from-Europe

Að auki skiptir hér máli að evrópska gasið kemur frá gaslindum sem eru miklu vestar í Rússlandi en þær sem munu skaffa kínverska gasið. Gasið sem fara á til Kína mun sem sagt koma frá nýjum gaslindum austarlega í Síberíu og verður framleitt fyrir nýjan markað.

Samningurinn felur vissulega í sér tímamót fyrir Rússland - ef hann gengur eftir. En það er fremur ólíklegt að þessi viðskipti Gazprom og CNPC hafi umtalsverð áhrif á gasmarkaði heimsins, hvort sem er í Evrópu eða annar staðar í heiminum

Mögulegt er að samningurinn seinki einhverju/ einhverjum LNG-verkefnum (gasvinnsluverkefnum þar sem gasinu er umbreytt í fljótandi form og siglt með það langar leiðir til kaupenda). Svo er þó alls ekki víst; samningur Gazprom og CNPC breytir t.d. engu fyrir gaseftirspurn landa eins og Japan og Suður-Kóreu. Sem eru risastórir kaupendur að gasi og þurfa áfram að treysta á LNG.

Ógnvænleg eftirspurn eftir orku

eia-china-india-us-energy-deamnd_1990-2040_outlook-2013.jpgÞað er reyndar útlit fyrir að eftirspurn Kína (og fleiri landa í Asíu) eftir gasi og öðrum orkugjöfum vaxi svo hratt að þessi samningur við Rússa verði einungis dropi í hafið. Umræddur samningur er til áminningar um hvernig eftirspurnin eftir orku í heiminum er að aukast hratt og langt í að þar verði eitthvert lát á. Sú staðreynd er nánast ógnvænleg þegar haft er í huga að talsverðar líkur virðast á því að afleiðingarnar verði miklar loftslagsbreytingar, sem víðast hvar munu hafa neikvæð áhrif á lífríki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband