Orkuskortur í Evrópu?

EU-Russia-Gas-Dependency-1

Rússneski gasrisinn Gazprom hefur verið að hóta að skrúfa fyrir gasflæði til Úkraínu - nema gasið fáist staðgreitt. Ástæðan er sögð vera mikil vanskil Úkraínumanna á greiðslum fyrir rússneskt gas (vanskilin eru sögð nema jafnvirði hundruða milljarða ISK).

Úkraína fær samtals um 70% af því gasi sem notað er í landinu frá rússneskum gasleiðslum. Lokunaraðgerðir af þessu tagi myndu því valda Úkraínumönnum geysilegum vanda. Og slíkar aðgerðir gætu einnig haft mikil áhrif í Evrópu. Árlega fá þjóðir innan Evrópusambandsins (ESB) um fjórðung af allri raforku sinni frá gasorkuverum. Mikið af því gasi kemur frá Rússlandi í gegnum gasleiðslurnar sem liggja um Úkraínu.

Í Evrópu er gas ekki bara notað til raforkuframleiðslu. Það er einnig mikið notað beint, t.d. til eldunar og húshitunar. Jarðgas er því afar mikilvægur orkugjafi í Evrópu. Og mjög hátt hlutfall af öllu þessu gasi, sem Evrópa notar, er rússneskt gas frá Gazprom.

EU-Russia-Gas-Dependency-20

Hlutfall Gazprom í gasnotkun allra ríkjanna innan ESB er samtals um 25-30% af gasnotkun þeirra (þetta hlutfall er nokkuð breytilegt fra ári til árs). Hátt í helmingurinn af þessu rússneska gasi kemur til Evrópu um gasleiðslur sem liggja gegnum Úkraínu. Gasið sem þannig fer til Evrópu gegnum Úkraínu er allt að 15% af öllu því gasi sem Evrópa notar.

Ef þetta gas myndi hætta að berast yrði höggið sennilega mest fyrir lönd eins og Tékkland, Slóvakíu og Ungverjaland. Öll nota þessi ríki mikið af rússnesku gasi og fá geysihátt hlutfall þess um gasleiðslurnar sem liggja gegnum Úkraínu. Lokun á gasstreymið um Úkraínu myndi einnig hafa umtalsverð áhrif á fjölmennasta land Evrópu; Þýskaland. En Þýskaland hefur lengi verið stærsti kaupandinn að rússnesku gasi.

Um leið og skrúfað yrði fyrir gasflæðið um Úkraínu sjá margar Evrópuþjóðir sem sagt fram á verulegan vanda. Sá vandi skellur þó ekki á eins og hendi sé veifað, því víða innan Evrópu eru geymdar umtalsverðar birgðir af gasi. Þær birgðir myndu sennilega duga í nokkra mánuði og því er orkuskortur ekki alveg yfirvofandi.

EU-Russia-Gas-Dependency-3-NYT

Áhyggjurnar beinast því að því ef gasstreymið gegnum Úkraínu félli niður í lengri tíma. Það er þó afar ólíklegt að til þess komi. Þjóðirnar innan ESB eru lang mikilvægustu viðskiptavinir Gazprom. Bæði fyrirtækið og rússneska ríkið eru afar háð tekjunum sem gassalan til Evrópu skilar (rússneska ríkið færi nær samstundis í þrot ef ekki væri fyrir Evróputekjur Gazprom). Það væri því galið ef Gazprom lokaði á gasstreymið um gasleiðslurnar til Úkraínu og því varla mikil hætta á alvarlegum orkuskorti innan ESB.

Þetta ótrygga ástand er þó engan veginn viðunandi. Enda er það eitt af forgangsmálum bæði ESB og ríkisstjórna margra Evrópuríkja að efla aðgang sinn að orku og auka þannig orkuöryggi sitt. Ástandið gagnvart Gazprom er til þess fallið að ríkin innan ESB leggi ennþá meiri áherslu á að afla orku annars staðar frá og það jafnvel þó svo slík orka kunni að vera umtalsvert dýrari. Þessi stefna gæti nýst Íslandi vel, með útflutningi á raforku um sæstreng með mikilli arðsemi fyrir Íslendinga. Þannig kann framferði Gazprom að verða vatn á myllu Íslands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Veit ekki betur en það standi til að reisa tugi kjarnorkuvera í Úkraníu til að sjá Evrópu furir raforku, með bandarísku fjármagni.

L.T.D. (IP-tala skráð) 22.6.2014 kl. 20:38

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Afar hæpið að eitthvað slíkt sé í farvatninu. Uppi eru hugmyndir í Úkraínu um að auka hlutfall kjarnorku (í dag er landið með fimmtán kjarnaofna sem útvega landnu um helming þeirrar raforku sem þjóðin notar). En það er fjarri lagi að raforka frá nýjum kjarnorkuverum í Úkraínu muni sjá Evrópu fyrir rafmagni. Úkraína er meira að segja að flytja inn úran í kjarnorkuverin í dag og mikið af því kemur frá Rússlandi!

Ketill Sigurjónsson, 22.6.2014 kl. 21:13

3 identicon

Las grein töluvert fyrir átökin um að það væri í farvatninu.

Fann hana ekki en fann þetta

" The US has tried to take under its control the Ukraine’s nuclear energy sector under the pretext of the need to fight back the Russia’s expansion. Westinghouse Electric Company is the main driving force of this policy. The company is responsible for 20% of world supplies. Nearly 50 percent of the nuclear power plants in operation worldwide are based on Westinghouse technology. Since the 1990s Westinghouse cooperates with US government and special services to establish control over Central and Eastern Europe and the whole post-Soviet space."

Tek það fram að ég tek enga sérstaka afstöðu með stríðandi fylkingum, en hef fulla samúð með Úkranísku þjóðinni að standa milli steins og sleggju hagsmunapotara, hverjir sem þeir eru.

L.T.D. (IP-tala skráð) 22.6.2014 kl. 21:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband