25.6.2014 | 08:54
Undarlegar röksemdir gegn rafstreng
Í Morgunblaðinu í gær birtist frétt undir fyrirsögninni „Kapallinn gengur ekki upp“. Þar ræðir blaðamaðurinn Stefán Gunnar Sveinsson við Baldur Elíasson um mögulegan rafstreng milli Bretlands og Íslands.

Baldur átti langan starfsferil hjá ABB og þekkir marga fleti orkugeirans afar vel. En í þessu viðtali koma því miður ítrekað fram nokkuð undarlegar skoðanir á orkumálum - því röksemdir Baldurs gegn kaplinum ganga hreinlega ekki upp.
Í viðtalinu heldur Baldur því fram að hugmyndir um að leggja rafstreng milli Bretlands og Íslands og selja raforku héðan séu „glapræði". Hér verður staldrað við helstu rökin sem Baldur segir gegn því að svona sæstrengur verði lagður.
Of langur kapall og of mikið dýpi?
Haft er eftir Baldri að strengurinn yrði lengsti sæstrengur af þessu tagi í heiminum eða um 1.200 km. Og að lengsti svona rafmagnskapall hingað til sé um 600 km (NorNed-kapallinn í Norðursjó milli Noregs og Hollands). Þetta er vissulega hárrétt. Baldur bætir við að strengur milli Bretlands og Íslands lægi „um Norður-Atlantshafið á um þúsund metra dýpi" og að lega strengsins og dýpi muni þýða að mjög erfitt yrði að gera við hann ef hann bilaði.
Rafmagnskapall milli Bretlands og Íslands yrði vissulega stórt skref miðað við núverandi kapla. En hafa ber í huga að NorNed-kapallinn var líka stórt skref á sínum tíma og þróunin þarna er hröð. Í fyrsta lagi þá eru nú þegar dæmi um að svona rafstrengir liggi á miklu meira dýpi en strengur milli Bretlands og íslands myndi fara um (SAPEI kapallinn ítalski fer t.d. um 1.600 m dýpi). Í öðru lagi er vert að minnast þess að nú stefna Bretar og Norðmenn að því að leggja mun lengri svona streng en NorNed. Fyrirhugaður strengur milli landanna verður rúmlega 700 km langur og þar með verður lengdarmetið slegið enn og aftur. Í þriðja lagi er mikilvægt að muna að bilanir í svona rafmagnsköplum hafa ekki verið vandamál; kaplarnir hafa almennt reynst vel og bilanir verið í takt við áætlanir.
Þarna er sem sagt í gangi sífelld þróun. Miðað við framfarir og tækniþróun í heiminum virðist þeim sem þetta skrifar mun líklegra að við eigum eftir að sjá bæði dýpri og lengri svona rafmagnskapla en þekkist í dag. Og afar ótrúlegt að náð hafi verið einhvers konar hámarki í þeirri tækni. En það getur auðvitað hver og einn haft sína skoðun á líklegri þróun í tækni og vísindum.
Rökrétt svar við spurningunni hvort strengur milli Bretlands og Íslands sé of langur og dýpið of mikið til að þetta sé raunhæft verkefni, gæti verið eftirfarandi: Kaplar af þessu tagi hafa orðið sífellt lengri og dæmi um að þeir liggi á miklu meira dýpi en kapall milli Bretlands og Íslandi myndi gera. Það er því alls ekki hægt að útiloka að slíkur kapall sé mögulegur þrátt fyrir mikla lengd og mikið dýpi. Þvert á móti er líklegt að kapall sem bæði verður talsvert lengri en NorNed og liggur um töluvert meira dýpi muni senn líta dagsins ljós. Spurningin er bara hvort það verður kapall milli Bretlands og Íslands eða einhver allt annar kapall.
Of kostnaðarsamt fyrir Íslendinga?
Haft er eftir Baldri að það myndi þar að auki „kosta sitt að leggja strenginn“ og að „[k]ostnaðurinn yrði svo gífurlegur að Ísland myndi ekki ráða við hann." Í þessu sambandi segir Baldur að nefnd hafi verið talan USD 5 milljarðar, en það sé að hans mati alltof lág tala og að hann áætli að „framkvæmdirnar sem slíkar gætu kostað tvöfalda þá tölu, og sennilega meira." Samkvæmt þessu virðist Baldur álíta kostnað við strenginn nema USD 10 milljörðum eða jafnvel meira. Tíu milljarðar bandaríkjadala jafngilda u.þ.b. ISK 1.140 milljörðum.
Um þetta má segja að ennþá er mjög óvíst hver kostnaðurinn vð kapalinn yrði; meta þarf fjölmarga þætti betur áður en nákvæm kostnaðartala getur legið fyrir. En nefna má að í nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands segir að líklegur heildarkostnaður vegna 700-900 MW strengs sé talinn á bilinu ISK 288-553 milljarðar.
Baldur miðar sína kostnaðartölu við 700 MW streng og álítur væntanlega að tölur Hagfræðistofnunar séu fjarri lagi og alltof lágar. Það er miður að blaðamaðurinn hafi ekki kallað eftir rökum Baldurs fyrir sinni kostnaðaráætlun. Og kannað af hverju hann telji kostnað við kapalinn allt að tvöfalt meiri en hæsta mat Hagfræðistofnunar.
Það er reyndar svo að jafnvel þó svo kostnaðurinn við strenginn væri talinn svo mikill að það réttlætti ekki að íslensk fyrirtæki sæju um framkvæmdina, er alls ekki útilokað að af framkvæmdinni gæti orðið. Það gæti reyndar jafnvel verið mjög heppilegt að erlendur aðili ætti sjálfan strenginn - með svipuðum hætti eins og gildir um hinar miklu neðansjávar-gaslagnir sem flytja norskt jarðgas til Bretlands og meginlands Evrópu. Þar nýtur eigandi flutningskerfisins einungis hóflegs arðs vegna orkuflutninganna, en Norðmenn njóta hagnaðarins af orkusölunni.
Það eru sem sagt ekki raunveruleg rök gegn strengnum að þetta sé svo stór fjárfesting að Ísland ráði ekki við verkefnið. Spurningin er hvort unnt er að þróa og setja saman viðskiptamódel sem myndi henta Íslandi - og það kemur ekki í ljós nema vinna verkefnið áfram í stað þess að blása það af sem glapræði.
Rökrétt svar við spurningunni hvort sæstrengsverkefnið sé of kostnaðarsamt fyrir Íslendinga gæti verið eftirfarandi: Kostnaður við kapalinn myndi nema einhverjum hundruðum milljarða króna, en ennþá er kostnaðurinn óviss. Hvort kostnaður við kapalinn væri Íslendingum ofviða er því álitamál sem enginn getur ennþá fullyrt um. En það er vel að merkja alls ekki nauðsynlegt að íslenskir aðilar fjármagni eða eigi kapalinn - og erlent eignarhald myndi ekki takmarka hagnað Íslands af kaplinum. Þess vegna er ekki skynsamlegt að útiloka kapalinn vegna mögulegs mikils kostnaðar, sem þar að auki er ennþá alltof óviss til að byggja afstöðu sína á.
Gerir jafnstraumurinn verkefnið erfitt?
Haft er eftir Baldri að í veginum standi líka það tæknilega atriði að til þess að flytja rafmagnið yrði það að vera í formi jafnstraums, en raforka sé jafnan framleidd og nýtt sem riðstraumur. Og þess vegna þurfi „turna" á báðum endum strengsins „þar sem riðstraumi er breytt í jafnstraum og öfugt á hinum endanum" og að þetta sé „ekki jafnauðvelt og það að leggja einfaldan kapal yfir hafið."
Þetta eru fremur undarleg rök gegn kaplinum. Því það er jú alþekkt að langir rafmagnskaplar eru gjarnan einmitt jafnstraumskaplar (s.k. HVDC). Geysilega góð reynsla er af slíkum löngum jafnstraumsköplum og þeir afar hagkvæmir. Það að kapallinn þurfi að vera jafnstraumskapall er því ekki fyrirstaða, heldur er sú tækni í reynd forsenda þess að unnt er að leggja svona langa og stóra kapla með hagkvæmum hætti. Enda hafa undanfarin ár sífellt fleiri og lengri kaplar af þessu tagi verið lagðir um allan heim; bæði á landi og neðansjávar.
Rökrétt svar við spurningunni hvort jafnstraumurinn geri verkefnið erfitt gæti verið eftirfarandi: Jafnstraumstæknin í raforkuflutningi er í reynd forsenda kapla af þessu tagi. Þess vegna er nokkuð sérkennilegt að segja að það standi verkefninu tæknilega í vegi að þetta þurfi að vera jafnstraumskapall; það er eiginlega þvert á móti.
Er orkumagnið hlægilega lítið?
Í viðtalinu hefur blaðamaðurinn það eftir Baldri að „það magn sem kapallinn ætti að flytja sé nánast hlægilega lítið" og dugi vart meira en handa einum bæ í Skotlandi. Ef miðað er við 700 MW kapal, eins og Baldur gerir, myndi raforkan þar um reyndar geta nægt borg með nokkrar milljónir íbúa. Og myndi t.d. vafalítið duga öllum íbúum Edinborgar (hvert skoskt heimili notar nálægt 5 MWst af raforku árlega að meðaltali og meðalheimilið er á bilinu 2-3 einstaklingar).
Orkumagnið sem gæti farið um slíkan kapal frá Íslandi væri vissulega ekki mjög mikið í hlutfalli við það rafmagn sem notað er t.d. í allra fjölmennustu borgum Evrópu. Menn geta kallað þetta hlægilega lítið magn ef þeir kjósa svo. En það breytir engu um tæknilegar eða fjárhagslegar forsendur kapalsins, þó svo hann fullnægi einungis raforkunotkun nokkurra milljóna manna.
Rökrétt svar við spurningunni hvort orkumagnið sé hlægilega lítið gæti verið eftirfarandi: Af yfirlýsingum breskra stjórnvalda er augljóst að magnið er nægjanlega mikið til að verkefnið sé af Bretum talið áhugavert. Magnið er vel að merkja sambærilegt við aðra slíka sæstrengi, eins og t.d. NorNed milli Noregs og Hollands, en sá kapall er 700 MW. Það er því afar hæpið að tala um hlægilega lítið magn í þessu sambandi.
Er raforkuverðið erlendis lágt?
Haft er eftir Baldri að það verð sem fengist fyrir raforkuna erlendis myndi líklega ekki duga fyrir útlögðum kostnaði við strenginn. Rökin eru að „raforkuverð erlendis sé mjög lágt, og aðrir orkugjafar séu að ryðja sér þar til rúms" og þar átt við það sem stundum er nefnt leirgas (jarðgas sem unnið er úr hörðum leirkenndum jarðlögum; kallað shale gas á ensku).
Um þetta er ýmislegt að segja. T.d. það að raforkuverð í Bretlandi er alls ekki lágt, heldur þvert á móti mun hærra en víðast þekkist. Og ekki verður betur séð en að sérfræðingar hjá breska orkumálaráðuneytinu séu sannfærðir um að þegar litið er nokkur ár fram í tímann muni verðið hækka ennþá meira (sbr. áætlun ráðuneytisins og nýlega lagasetningu í Bretlandi um lágmarksverð fyrir nýja raforku). Vissulega vonast margir til þess að möguleg leirgasvinnsla í Bretlandi og annars staðar í Evrópu geti í framtíðinni snúið þróuninni við og haldið aftur af raforkuverði. Enn sem komið er allt slíkt tal þó eintómar getgátur. Það byggir því ekki á staðreyndum að fullyrða að raforkuverð í Bretlandi sé lágt eða komi til með að verða lágt.
Í dag liggur fyrir sá vilji breskra stjórnvalda að tryggja nýjum raforkuverkefnum fast lágmarksverð, sem ætlað er að stuðla að nauðsynlegri arðsemi verkefnanna og liðka fyrir fjármögnun þeirra. Ef slíkur samningur yrði gerður vegna raforku sem færi frá Íslandi til Bretlands, yrði lágmarksarðsemi verkefnisins örugg (slíkur samningur yrði sennilega alger forsenda af hálfu Íslands). Ennþá er óvíst hvort slíkur samningur næðist, en umrædd stefna og löggjöf Breta gefur miklu fremur væntingar um mjög hátt raforkuverð fremur en lágt.
Rökrétt svar við spurningunni hvort raforkuverðið erlendis (í Bretlandi og/ eða Evrópu) sé lágt gæti verið eftirfarandi: Það skiptir að sjálfsögðu miklu máli fyrir sæstrengsverkefnið hvaða verðs má vænta fyrir raforkuna. Um þetta á algerlega eftir að semja og verkefnið er einfaldlega ekki ennþá komið á það stig. Menn geta haft mismunandi skoðanir á því hvort ástæða sé til bjartsýni eða svartsýni um það verð sem kann að bjóðast í slíkum samningsviðræðum. En það er staðreynd að raforkuverð í vestanverðri Evrópu er og hefur í all mörg ár verið með því hæsta í heiminum og því nokkuð sérkennilegt að tala um að verðið þarna sé mjög lágt.
Stendur Ísland frammi fyrir raforkuskorti?
Í viðtalinu hefur blaðamaðurinn það eftir Baldri að aðalástæðan fyrir því að hugmyndir um rafstreng milli Bretlands og Íslands gangi ekki upp sé einfaldlega sú að orkan sé ekki fyrir hendi. Í viðtalinu segir að Ísland hafi ekki upp á þessa orku að bjóða. Það sjónarmið stenst alls ekki.
Baldur segist áætla að hér séu nú þegar um 20 terawattsstundir notaðar (og að það það sé um helmingurinn af þeirri vatnsorku sem virkjanleg sé á Íslandi séu allir skynsamlegir virkjunarkostir nýttir). Þarna er reyndar rangt farið með. Á Íslandi eru nú framleiddar/ notaðar um 18 TWst af raforku á ári en ekki 20 TWst. Sæstrengurinn myndi sennilega þurfa nálægt 5 TWst (jafnvel nokkuð minna) og þess vegna skiptir ónákvæmni upp á 2 TWst þarna talsverðu máli. Og það er algerlega augljóst að unnt yrði að útvega 5 TWst fyrir sæstreng ef vilji er til þess.
Þessi ónákvæmni Baldurs kemur á óvart, því það liggur fyrir svart á hvítu hver raforkuframleiðslan er á Íslandi. En það kemur jafnvel ennþá meira á óvart að skv. fréttinni segir Baldur að vegna fjölgunar Íslendinga muni íbúafjöldi Íslands væntanlega tvö- eða þrefaldast á næstu 60-70 árum og að „Ísland eigi varla orku til þess að sjá íbúum sínum fyrir þörfum þeirra, ef horft er fram í tímann."
Þetta sjónarmið Baldurs er erfitt að skilja. Ísland framleiðir langmestu raforku í heiminum miðað við íbúafjölda. Jafnvel þó svo Íslendingar væru þrefalt fleiri og framleiddu einungis sama magn af raforku og nú, þá væri Ísland samt í 2.-3. sæti yfir mestu raforkuframleiðendur veraldar miðað við fólksfjölda. Ísland væri þá á pari með Kanada og einungis Noregur væri ofar á þeim lista.
Það er nokkur ráðgáta hvernig unnt er að komast að þeirri niðurstöðu að þjóð í þessari stöðu, sem Íslendingar eru, sjái fram á raforkuskort innan 60-70 ára. Ef það væri rétt að Ísland sæi þannig fram á raforkuskort myndi með sömu rökum mega segja að allar þjóðir heims nema kannski Norðmenn (og Ísland) séu nú þegar lentar í öngstræti raforkuskorts. Það er auðvitað fjarstæða.
Rökrétt svar við spurningunni hvort Ísland kunni að standa frammi fyrir raforkuskorti gæti verið eftirfarandi: Engin þjóð á hlutfallslega jafn mikinn og góðan aðgang að raforku eins og Íslendingar. Það myndi lítt breytast jafnvel þó svo þjóðin væri þrefalt fjölmennari og jafnvel þó svo stór rafstrengur lægi til Bretlands með tilheyrandi útflutningi á raforku. Það er því nokkuð sérkennilegt að sjá því haldið fram að Ísland kunni að sjá fram á raforkuskort (aftur á móti kann að vera tilefni til að huga betur að íslenska raforkuflutningskerfinu - veikir punktar þar geta valdið staðbundnum orkuskorti - en það er annað mál og felur ekki í sér það sem Baldur talar þarna um).
Lokaorð
Orkubloggarinn þekkir nokkuð vel til starfa og skrifa Baldurs Elíassonar. Og hefur gegnum tíðina t.a.m. lesið eftir hann ýmsar áhugaverðar greinar sem tengjast metanólframleiðslu o.fl. Í þeim skrifum er margt fróðlegt að finna. En umrætt viðtal / frétt í Morgunblaðinu í gær er því miður alls ekki gott innlegg í umræðuna og gefur ákaflega undarlega og skekkta mynd af mögulegum rafstreng milli Bretlands og Íslands.
Það er ennþá of snemmt að fullyrða hvort raunhæft sé að leggja umræddan rafmagnskapal. Til að átta sig á hagkvæmni þess þarf málið að skoðast betur og ýmsar rannsóknir að fara fram. En að hafna hugmyndinni og segja hana glapræði styðst ekki við staðreyndir. Þvert á móti benda þær staðreyndir sem nú liggja fyrir til þess að verkefnið sé mjög áhugavert - einkum og sér í lagi fyrir Íslendinga en einnig fyrir Breta. Mikilvægt er að skoða málið betur og vonandi er vinna við það í fullum gangi hjá bæði stjórnvöldum og raforkufyrirtækjunum.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:25 | Facebook
Athugasemdir
Veistu...eftir að hafa lesið fréttina með viðtalinu við Baldur og skrif þín hérna þá er einungis eitt sem sem stendur upp úr hjá mér.
Áhætta. Áhætta...áhætta, áhætta. Ég segi það aftur...áhætta.
Það virðist ekki vera eitt heldur allt sem er háð óvissu og áhættu í þessu verkefni. Tæknin, kostnaðurinn, verðið á orkunni, aðstæður (lengd og dýpt), framboðið á orkunni, pólitískar aðstæðu í UK (niðurgreiðslur á grænni orku), pólitískar aðstæður á Íslandi (vilja stjórnvöld virkja?)nýir orkugjafar sem gætu kollvarpað öllu(shale gas), aukin eftirspurn í upprunalandi (keyrum við ekki öll á rafmagnsbílum eftir 10 ár?)...osfrv...osfrv.
Og ef maður veltir fyrir sér hvert vaxtastigið yrði að vera til að bera þessa áhættu þá sér maður að tekjurnar verða að vera...tja...heill helv... hellingur til að bera þessa áhættu með jákvæðu FV.
Og þá held ég að það hljóti að vera til áhættuminni leiðir til að ná í tekjur af raforkusölu með minni skrefum sem henta þjóðfélagi betur sem telur ekki nema 320þ sálir.
...just my two cents...
Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 25.6.2014 kl. 11:46
Takk fyrir góða samantekt Ketill. Hann Dr. Baldur virðist vera mjög klár og fær maður sem hafi einfaldlega ekkert kynnt sér málin heldur ákveðið að tjá sig út frá hæpnum ályktunum. Mikilvægt að svara þessu svo umræðan fara ekki á villigötur.
Varðandi raforkumagnið þá er það auðvitað ekki aðalmálið fyrir Breta, snýst miklu frekar um eiginleika vatnsaflsins fyrir þá eins og þú hefur tekið fyrir: http://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/audlind/1401496/
Keep up the good work!
Nafnlaus (IP-tala skráð) 25.6.2014 kl. 12:07
Til að geta metið áhættuna þarf að kanna málið til hlítar. T.d. fara í viðræður við Breta, sjá hvaða lágmarksverð býðst og til hversu langs tíma það verð býðst, skoða mismunandi viðskiptamódel strengs, kanna áhuga fjárfesta gagnvert áhugaverðasta/áhugaverðustu viðskiptamódelunum, meta orkuþörfina og ákveða hvaða virkjunarkostum þyrfti að bæta við, meta flutningskerfið að og frá streng, kanna hafsbotninn sem strengurinn færi um o.sfrv. Þetta er vissulega umfagsmikið verkefni; þó það nú væri. Að hrista bara höfuðið og segja að þetta sé glapræði skilar engu.
Ketill Sigurjónsson, 25.6.2014 kl. 12:11
Ég er með undarlega röksemd sem ekki er svar verð! Draga kapal til útlanda, setja mælir á hann í báða enda, slökkva á öllu í landinu og flytja til Noregs.
Eyjólfur Jónsson, 25.6.2014 kl. 12:16
Þessi kapall er bull ef horft er til hagkvæmni framkvæmdarinnir fyrir Íslensku þjóðina,(sem er ekki það sama og fjárhagslega hagkvæmt. það þarf ekki mikla yfirsýn á málið til að átta sig á því.Umræðan er samt af hinu góða, svo lengi sem lykilaðilar í málinu hér heima ,(stjórnendur landsvirkjunar og stjórnvöld) átti sig á að þetta má ekki verða meira en bara umræða. Mér hefur heyrst að málið sé í ágætis farvegi með tillitit til þessa.
Hættan er hinsvegar sú að menn sem ekki sjá stóru myndina í þessu eða hafa aðra hagsmuni í málinu en almenningur á íslandi nái að koma þessu af umræðustiginu.
Guðmundur Jónsson, 25.6.2014 kl. 15:00
Mér þykir jákvætt að sjá í Morgunblaðinu í dag ummæli Gústafs Adolf Skúlasonar framkvæmdastjóra Samorku:
"Það er alls ekki tímabært að fullyrða um arðsemi sæstrengsins að svo stöddu".
og Harðar Arnarsonar forstjóra Landsvirkjunar:
"Við fögnum allri umræðu um verkefnið, það er áhugavert en mörgum spurningum er enn ósvarað um tæknilega útfærslu og áhættu".
Arðsemi og tæknileg vandamál eru þó aðeins lítill hluti þess sem fjalla þarf um áður en heildarmyndin verður skýr.
(Nánar hér).
Ágúst H Bjarnason, 25.6.2014 kl. 17:42
Þessi baldur kall, hefur enga haldbær gögn fyrir sinu. Heldur er þetta politiskt dæmi sem maðurinn er að fara með, sem er andstætt islenskum hagsmunum. Það er að segja hagsmunum almennings.
Eg veit ekki betur en að kapallinn verði laggður af erlendum aðilum, sem þa standa fyrir kostnaðinum a honum. Og taka aftur gjaldið i gegnum gjald sem lagt er a flutning rafmagns. En her i sviþjoð er rafmagns kostnaðurinn annarsvegar rafmagnið, og hims vegar linan sem það er hleypt i gegnum.
Þetta fer maðurinn ekki i gegnum, og dylur þessar staðrey,ndir með þvi að tala um kostnað sem islendingar muni standa að. Það ætti að vera hverjum halfvita ljost að aldrei væri raðist i þetta dæmi ef ekki fyndist markaðurinn. Og til að fa dæmið að ganga upp yrði að hafa samstarf við breta i þessum malum sem þa myndu sjalfir ganga ur skugga um virkni og hæfni i malinu.
Og þessi baldur er eins og flestir sviar, maður sem fekk bref sitt a þeim tima sem það var veitt an þess að menn þyrftu að syna getu sina. Og i sviþjoð tiðkast það að krakkarnir fai gefnar einkanir, enda þurfa þeir ekki stunda namið, heldur eru i sport turum um allan bæ, fra morgni til kvölds. Og þetta byrjar i barnaskolanum.
Hvaða politik sem baldur er meðlimur að, þa er su politik ekkert til að taka mark a. Og maðurinn sjalfur ekki marktækur, þar sem hann telur að alver se betri fjarfesting, en al er natturu skaðvaldur sem getur smitast i vatn og matvæli.
Sæstrengur er minni ahætta en slikt, og er þvi goð vogarskal fyrir islendinga sem þa hafa fleiri en einn markað fyrir rafmagnið.
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 25.6.2014 kl. 21:57
Það er fráleitt að tala eingöngu um notkun til heimilisnota og finna þannig út tölur um "margar milljónir manna" sem núverandi raforkuframleiðsla okkar nægt fyrir. Miðað við það sem við notum nú sjálf er í mesta lagi hægt að nefna tvær milljónir. En talan sem miða þarf við er heildarorkunotkunin og þá er framlag okkar "hlægilega lítið".
Jafnvel þótt við virkjuðum alla virkjanlega orku landsins og fórnuðum öllum náttúrverðmætum þess, eins og stefnt er ötullega að, myndum við aðeins útvega innan við 1% af heildarorkuþörf Evrópu.
Í umræðum um sæstrenginn er miðað við meðalverð á orkunni.
En hér á landi háttar þannig til að á þeim tíma sem mest eftirspurn er eftir orku í Evrópu og orkuverðið því hæst, þ. e. á veturna, erum við verst settir til að láta orku frá okkur vegna misjafnra vatnsára og óvissu, sem er á þessum sama tíma árs, samanber skerðingar á orkusölu nú á útmánuðum.
Besti sölutíminn fyrir okkur er frá miðjum maí fram í miðjan september þegar innrennsli í miðlunarlónin er meira en útrennslið, en þá er minnst eftirspurn eftir orkunni í Evrópu og verðið því lægst.
Forstjóri Landsvirkjunar hefur tekið fisksölu okkar sem dæmi um það að enda þótt hærra útflutningsverð á fiski vegna jafnrar ferskfisksölu til útlanda hafi valdið hærra fiskverði innanlands, vegi þjóðhagslegur ávinningur af hærra söluverði til útlanda miklu meira en aukinn kostnaður vegna neyslu innanlands á fiski.
En hér er ólíku saman að jafna. Neysluvenjur hafa breyst og við getum alveg verið án fisks. En allir verða að kaupa raforku, - án hennar getur enginn verið.
Ómar Ragnarsson, 25.6.2014 kl. 23:04
Auðvitað er öll umræða um kostnað og arðsem ein draumsýn, meðan ekki er til tækni og geta til að leggja slíkann streng. Sjálfsagt mun tækninni fleyta fram og þetta vandamál leysast, þangað til er öll umræða ótímabær.
Þegar og ef þetta vandamál leysist er ljóst að arðseminn hlýtur alltaf að aukast eftir því sem meiru magni af raforku er hægt að dæla úr landinu. Nú er það svo að við eigum takmarkaða möguleika á raforkuvinnslu og því hlýtur grundvallar spurningin að vera hvort við viljum virkja fyrir okkur sjálf eða aðra. Menn geta svo pælt í því hvort stórir fjárfestar fari að leggja lag sitt við svona verkefni nema arðsemin verði góð og hvernig okkur gangi síðan að halda aftur af þeim fjárfestum þegar strengur er kominn. Eigendur strengsins munu hafa kverkatak á þjóðinni og við lítið annað gert en það sem þeir óska.
Þær tölur sem nefndar hafa verið og notaðar eru í skýrslu Gamma um verkefnið og talið eru lágmarksmagn til að senda úr landi, samsvara því að virkja þurfi aðra "Kárahnjúkavirkjun". Eru landsmenn tilbúnir til þess, til þess eins að selja orkuna úr landi?
Reyndar sjá menn það sem þeir vilja úr þessari skýrslu. Sumir sjá gull og græna skóga, meðan aðrir lesa skýrsluna og komast að þeirri niðurstöðu að verkefnið sé alls ekki hagkvæmt og má þar finna öll þau rök sem Baldur Elíasson tiltekur. Merkilegast kafli skýrslunnar er þó um umhverfisáhrif verkefnisins og ættu allir að kynna sér þann kafla. Síðast þegar ég vissi var hægt að nálgast þessa skýrslu á vefslóð Landsvirkjunnar.
Þetta verkefni er ein alsherjar draumsýn nokkurra einstaklinga, sem mun verða að martröð þjóðarinnar ef hún nær lengra.
Gunnar Heiðarsson, 26.6.2014 kl. 08:29
Veit einhver hvað það liggja mörg MV. af ónotaðri orku í kerfinu í dag?
Hefur það ekki verið þannig að Landsvirkjun hafi þurft að skammta álverunum rafmagn vegna lágrar stöðu í uppistöðulónum?
Nú á að fara að byggja 4 nýjar kísilverksmiðjur sem munu kalla á 259MV.
Mun einhver orka verða eftir í kerfinu til að selja úr landi?
Jón Þórhallsson, 26.6.2014 kl. 08:56
Miðað við reynslu okkar íslendinga af áætlunum sérstaklega hjá ríki og borg þá er góð þumalputtaregla að tvöfalda áætlunina og þá ertu kominn með verðið á hlutnum.
Annar hlutur er sá að þetta rafmagn yrði liklegast sett í pott sem boðið er í, svo að rafmagnsverðið er ekki fast og mun að öllum líkindum rokka mikið eftir því hvaða tími árs er og hversu kalt er þarna úti.
Síðan er það hluturinn sem ég verð að viðurkenna að ég er hvað hræddastur við af þessu öllu og eru það 2 ástæður sem gæti komið því í verk, það tengist rafmangsverðinu hérna heima, verðið þarna úti er töluvert hærra en hjá okkur og þá tel ég allar líkur á því að þeir sem stjórna rafmagninu hvort sem það er ríki/borg eða einkaaðili þegar að þessu er komið myndi hækka verðið hjá okkur til að mismuna ekki, það eru reglur í ESB (veit ekki hvort við fengum þessa reglu með EES) sem banna mismunum og ég held þær nái til svona sölu (Ég veit að ég er með veit ekki og held í þessum hugleiðingum, en ég er þess fullviss að rafmagn hérna heima myndi hækka mikið ef að þessu yrði, þetta er t.d. reynsla norðmanna og við ættum að reyna að læra af reynslu þeirra).
Halldór Björgvin Jóhannsson, 26.6.2014 kl. 09:12
Ég var að lesa blöðunum að fyrirtæki á Akureyri þyrftu að draga niður framleiðslu vegna skorts á raforku, eða er það bara vitleysa?
Hvernig væri að hafa næga raforku fyrir fyrirtæki og landsmenn áður en farið er út í rafkabalævintýramensku til annara landa.
Kveðja frá Seltjarnarnesinu.
Jóhann Kristinsson, 26.6.2014 kl. 12:39
Nokkur stutt svör:
Jóhann Kristinsson, 26.6.2014 kl. 12:39; meintur raforkuskortur á Akureyri eða Eyjafjarðarsvæðinu hefur ekkert með orkuframleiðsluna hér að gera, heldur kemur þetta til vegna takmarkana í núverandi flutningskerfi. Rétt eins og minnst er á í greininni, þar sem segir orðrétt að tilefni kunni að vera til „að huga betur að íslenska raforkuflutningskerfinu - veikir punktar þar geta valdið staðbundnum orkuskorti - en það er annað mál og felur ekki í sér það sem Baldur talar þarna um“.
Halldór Björgvin Jóhannsson, 26.6.2014 kl. 09:12; raforkuverð hér kann að hækka eitthvað en sú hækkun yrði sáralítil í samanburði við þann hagnað sem yrði til vegna aukinna tekna af raforkusölunni. Svo má reyndar kannski minna á að ef við myndum ekki selja sjávarafurðir úr landi yrði fiskverð í búðum hér vafalítið mun lægra en nú er. Eigum við þá að hætta að flytja út fisk?
Jón Þórhallsson, 26.6.2014 kl. 08:56; ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um hversu mikil orka er ekki nýtt í kerfinu hér núna. Strengurinn myndi kalla á nýjar virkjanir en einnig opna á betri nýtingu núverandi virkjana.
Gunnar Heiðarsson, 26.6.2014 kl. 08:29; skýrsla Hagfræðistofnunar er aðgengileg á vefnum (http://www.atvinnuvegaraduneyti.is/media/saestrengur-til-evropu/Skyrsla-HHI-26-juni-2013.pdf) og einnig skýrsla starfshópsins (http://www.atvinnuvegaraduneyti.is/media/saestrengur-til-evropu/Lokaskyrsla-26-juni-2013.pdf).
Ketill Sigurjónsson, 26.6.2014 kl. 13:41
Halldór Björgvin Jóhannsson, 26.6.2014 kl. 09:12; raforkuverð hér kann að hækka eitthvað en sú hækkun yrði sáralítil í samanburði við þann hagnað sem yrði til vegna aukinna tekna af raforkusölunni. Svo má reyndar kannski minna á að ef við myndum ekki selja sjávarafurðir úr landi yrði fiskverð í búðum hér vafalítið mun lægra en nú er. Eigum við þá að hætta að flytja út fisk?
Ég er ekki svo viss um að hækkunin yrði sáralítil eins og var raunin hjá norðmönnum á sínum tíma, en ef þú hefur einhver gögn sem sýna fram á það þá væri áhugavert að sjá þau.
Ég sé ekki hvernig aukin hagnaður í raforkunni myndi skila sér til okkar neytenda, það gerir það sjaldnast með tekjustofna ríkis og borgar.
Þó að matvara sé eitthvað sem flokkast sem nauðsynjavara þá er fiskurinn ekki eina varan í boði, en það er frekar erfitt að fá annað rafmagn hér á landi svo að ég myndi ekki segja að þessi samanburður eigi við hér.
Halldór Björgvin Jóhannsson, 26.6.2014 kl. 19:27
Heildsöluverð á raforku í Noregi hefur hækkað töluvert frá því um aldamótin eða svo. En þessi hækkun varð að langmestu leiti áður en Noregur tengdist raforkumörkuðum á meginlandi Evrópu með NorNed-kaplinum - svo þeim kapli verður ekki kennt um hækkunina. Þegar samlíking er dregin milli Íslands og Noregs verður og að gæta að því, að þegar Noregur byrjaði að tengjast öðrum raforkumörkuðum (Svíþjóð og Danmörku) var mikilvæg ástæða þess sú að tryggja nóg framboð af raforku í Noregi. Það er sem sagt líklegt að raforkuverð í Noregi myndi oft hafa orðið miklu hærra ef ekki hefðu verið tengingarnar. Tengingarnar hafi stuðlað að minni sveiflum í raforkuverði í Noregi og tryggt þar orkuöryggi sem ella væri ekki fyrir hendi. Svo er vert að hafa í huga að ef kapall væri milli Ísland sog Evrópu gæti kapallinn að sjálfsögðu ekki tekið við nema tilteknu magni af raforku, þ.e. flutningsgetan er takmörkuð. Það er því engin hætta á að kapallinn myndi sjúga til sín of mikið af íslensku rafmagni, ef þannig má að orði komast. En það er vissulega slæmt ef fólk er á móti auknum hagnaði opinberu íslensku orkufyrirtækina vegna vantrausts á stjórnmálamönnum um að koma hagnaðinum til almennings.
Ketill Sigurjónsson, 26.6.2014 kl. 21:31
Hef aldrei á ævinni séð stjórnmálamenn skila hagnaði, af hverju sem
er, til almennings. Alltaf finnst eitthvert pólitískt réttlæti til að
gera það ekki. Besta dæmið er skatturinn á bensínið.
70% af skattinum fer í allt annað en að halda við vegakerfinu, s.n.b
þýddi að við værum búin að malbika tvöfaldan þjóðveg í kringum
Ísland, ef skatturirnn væri notður sem hann er merktur fyrir.
Íslenskir pólitíkusar eru þar efst á blaði með að nota
skattinnheimtuna í eitthvað annað.
Notum orkuna til að byggja upp hér upp heima.
Allt annað tal eru draumórar og tálsýn.
Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 27.6.2014 kl. 19:13
Við þurfum að fá það á hreint hvað það liggja mörg MV. ónotuð í kerfinu í dag og svo hef ég grun um að við eigum fullt í fangi með að skaffa núverandi álverum næga orku; og ég tala svo ekki um þegar að komnar eru upp 4 nýjar kísilverksmiðjur sem munu kalla á 259MV.
Jón Þórhallsson, 28.6.2014 kl. 09:35
Það er forsenda fyrir svo stórum sæstreng til Bretlands að íslenskur almenningur beri enga áhættu af verkefninu. Til þess þurfa erlendir aðilar að leggja strenginn án nokkurar ábyrgðar af hálfu íslenskra stjórnvalda eða Landsvirkjunar. Þá þarf orkuverðið að vera tryggt til langs tíma af hálfu stjórnvalda í móttökuríkinu. Ef þessar forsendur eru uppfylltar, þá er vert að skoða þetta nánar en þá vaknar spurningin um mögulega orkuöflun innanlands og framtíðarþörf Íslendinga vegna breytinga á orkugjöfum í samgöngum o.s.frv.
Mun hóflegra verkefni væri að ráðast í minni sæstreng til Færeyja. 150 MW flutningsgeta væri meira en nægjanleg til þess að mæta allri núverandi raforkuþörf eyjanna og gera þeim kleyft að hætta að brenna olíu til raforkuvinnslu. Færeyingar hafa áhuga á að byggja verulega upp vindorku hjá sér en þeir þurfa þá tenginguna við Ísland til þess að vera öruggir þegar það er logn. Þegar vindur blæs væri svo hægt að flytja orku í hina áttina og safna í lónin á Íslandi. Svipað samband er á milli vatnsorkunnar í Noregi og vindorkunnar í Danmörku.
Bjarki Sigursveinsson (IP-tala skráð) 29.6.2014 kl. 11:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.